19.11.1984
Efri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

155. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 75 frá 14. sept. 1981, þskj. 160, um tekju- og eignarskatt.

Með frv. þessu er lagt til að menn sem láta af störfum fyrir aldurs sakir geti dregið launatekjur sínar síðustu tólf starfsmánuðina að fullu frá skattskyldum tekjum. Eins og þingheimi er kunnugt flutti ég ásamt ellefu öðrum þm. úr flestum flokkum frv. í ársbyrjun 1983 er kvað á um að þeim sem láta af störfum vegna aldurs sé heimilt að draga frá skattskyldum tekjum sínum helming hreinna launatekna sinna síðustu tólf starfsmánuðina. Frv. hlaut mjög góðar viðtökur og náðist samstaða þm. úr öllum flokkum um skjóta afgreiðslu þess. Frv. var samþykkt með hraði og kom til framkvæmda strax við álagningu opinberra gjalda á árinu 1983. Sú reynsla sem fengist hefur af lögunum svo langt sem þau ná er mjög góð. Að mínu mati ganga þau þó ekki nægilega langt þar sem þau heimila aðeins frádrátt á helmingi launatekna þeirra sem undir heimildina falla.

Það er kunnugra en frá þurfi að segja að greiðslukerfi beinna skatta hérlendis skapar ætíð erfiðleika þegar tekjur manna minnka snögglega. Sá hópur manna sem hvað harðast verður fyrir barðinu á þessu eru þeir sem leggja niður störf fyrir aldurs sakir. Hefur þetta m.a. leitt til þess að fólk vinnur lengur en það hefði að öðrum kosti kosið þar sem það telur sig ekki í stakk búið til að greiða skatta vegna skatta síðasta starfsársins. Lagabreytingin frá 1983, sem ég gat um hér áðan, var skref í þá átt að bæta stöðu þeirra sem hætta störfum fyrir aldurs sakir.

Með frv. þessu er lagt til að skrefið verði stigið til fulls þannig að allar hreinar launatekjur síðustu tólf starfsmánuðina verði frádráttarbærar frá skattskyldum tekjum. Verði frv. þetta að lögum ættu skattgreiðslur framvegis ekki að koma í veg fyrir að fólk láti af störfum fyrir aldurs sakir þegar það kýs sjálft. Eins og fram kemur í grg. með frv. mun tekjutap ríkissjóðs nema um 30 millj. kr. á ári miðað við verðlag 1984 verði það að lögum.

Ég tel ekki rétt að fjölyrða frekar um þetta mál sem ég hygg að meginþorri fólks telji sanngirnis- og réttlætismál. Að endingu vil ég þó láta í ljós þá von mína að sambærileg samstaða þm. úr öllum flokkum náist um afgreiðslu þess og fyrra frv. um sama efni sem ég hef gert hér að umtalsefni.

Að lokum geri ég tillögu um að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.