19.11.1984
Efri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

155. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. 8. þm. Reykv. að það er ansi sárt fyrir þá sem hafa notið viðurkenningar á einhvern hátt að sjá eftir hluta þeirrar viðurkenningar í ríkissjóð. Ég minnist þess að þegar skattalögin voru tekin til endurskoðunar á þeim tíma sem ég sat í fjh.- og viðskn. gerði ég margar tilraunir til að fá þessu breytt. En það tókst ekki. Það er alveg nauðsynlegt að endurskoða þessar reglur. Þetta á ekki bara við um peningaverðlaun, þetta á við um íþróttaverðlaun og viðurkenningar fyrir eiginlega hvað sem er. Það er að sjálfsögðu mjög sárt að sjá á eftir slíku. Það er því full ástæða til að endurskoða þessa grein skattalaganna þó að ég sé ekki með tillögur um það á þessu stigi.

Ég vil svara hv. 5. þm. Vesturl., Davíð Aðalsteinssyni. Hann spyr: Hvernig fer um menn sem hætta störfum á miðju ári? Fá þeir skattfrádrátt fyrir þann tíma sem liðinn er af því ári eða lengri tíma? Með leyfi forseta les ég fyrstu línurnar í athugasemdum með því frv. sem hér er til umr.:

„Með frv. þessu er lagt til að menn sem láta af störfum fyrir aldurs sakir geti dregið að fullu frá skattskyldum tekjum sínum hreinar launatekjur sínar síðustu 12 starfsmánuðina.“

Hér er um 12 starfsmánuði að ræða og ég vil túlka þetta þannig að hér sé ekki nauðsynlega farið eftir almanaksárinu. Ég tek það fram hér í þessum virðulega ræðustól til þess að hv. fjh.- og viðskn. hafi það í huga og það sé skráð í þingtíðindi ef síðar þarf á að halda.

Ég tek undir það með hv. 5. landsk. þm. að það er alveg nauðsynlegt að ganga úr skugga um hvort hægt er að misskilja 66. gr. skattalaganna. Fyrir líklega tveimur árum fluttum við saman, hv. 7. þm. Reykv. og ég, frv. í Nd. Alþingis þar sem þessari heimildargrein var breytt í skyldu. Ég veit þess vegna ekki betur en að þetta sé komið í lög. Ég vona að það fullnægi sem svar við því sem þar kom fram.

Menn telja hér ástæðu til að fagna því sérstaklega að einhvern tíma á starfsferli ríkisstjórnarinnar og þá einkum hlutaðeigandi ráðh. sé eitthvað gott gert í skattamálum. Það gefur óbeint til kynna að hingað til hafi hann verið að gera illt eitt í skattamálum. En ég vil benda hv. þm. á það að þann tíma, ekki langan, sem ég er búinn að vera fjmrh., hafa engir nýir skattar verið lagðir á en þó nokkrir gamlir skattar verið teknir úr umferð.

Ég fagna þeim undirtektum sem þetta frv. hefur fengið og vona að við getum sameinast um að koma því eins fljótt og hægt er í gegnum Alþingi svo að það komi til framkvæmda um næstu áramót.