19.11.1984
Neðri deild: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

136. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna nr. 64/1965. Flm. ásamt mér eru hv. 1. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, og hv. 2. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal. Þetta er 136. mál Nd. á þskj. 141.

Frv. felur í sér í stuttu máli að komið verði á fót sjálfstæðri rannsóknarstofnun sem nefnist Rannsóknarstofa lífefnaiðnaðarins og heyri undir iðnrn. Mál þetta var flutt á síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt og er nú endurflutt því sem næst óbreytt.

Ég ætla þá, herra forseti, að víkja nokkrum orðum að uppbyggingu frv. og innihaldi þess og skýra nokkrar greinar þess. Uppbygging og skipulag þessarar rannsóknarstofu er í öllum aðalatriðum sniðin eftir köflum III–VII í gildandi lögum um þær rannsóknarstofnanir atvinnuveganna sem fyrir eru. Þó er rétt að vekja athygli hv. þd. á nokkrum atriðum varðandi einstakar greinar frv.

Í 55. gr. er kveðið á um það að Rannsóknarstofa lífefnaiðnaðarins skuli staðsett á Akureyri eða í nágrenni. Um það atriði segir í grg. með frv., með leyfi forseta:

„Gerð er tillaga um að Rannsóknarstofu lífefnaiðnaðarins verði valinn staður á Akureyri. Er það m.a. gert vegna þess að hér þarf nánast að byggja frá grunni nýja stofnun og gefst því gott tækifæri til að sýna í verki vilja til dreifingar ríkisstofnana um landið. Einnig má á það benda að á Eyjafjarðarsvæðinu fellur mikið til af hráefnum frá landbúnaði og sjávarútvegi sem ætla má að geti orðið undirstaða öflugs lífefnaiðnaðar. Þá mundi tilkoma slíkrar rannsóknarstofnunar efla skólastarf á æðri stigum á viðkomandi stað og verða lyftistöng í menntunarmálum jafnt sem í atvinnulegu tilliti.“

Í fyrirspurnartíma hér á hv. Alþingi fyrir nokkrum dögum var til umr. álit nefndar sem fjallaði um möguleika á eflingu Akureyrar sem miðstöðvar menningar og vísinda utan höfuðborgarinnar. Sú nefnd fjallaði m.a. um nám á háskólastigi á Akureyri og gerði till. um að það yrði tekið upp þegar næsta ár. Einnig fjallaði sú nefnd um vísindarannsóknir og taldi nauðsynlegt að efla þann þátt á Akureyri. Við þetta mætti svo bæta því að á Eyjafjarðarsvæðinu hefur undanfarin ár horft alvarlega um atvinnumál. Rökstyður það svo sannarlega að þar er þörf fyrir nýsköpun í atvinnulífi. Koma slíkrar rannsóknarstofnunar á það svæði, eins og hér er flutt frv. um, og sú þekking, sem þar með mundi flytjast inn í byggðarlagið og þróast upp, getur haft margháttuð jákvæð áhrif á atvinnulíf á viðkomandi stað. Ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, að norðanlands sé fyrir hendi mikill áhugi á því að nýta möguleika lífefnatækninnar til nýrrar sóknar í atvinnulífi. Þess hef ég orðið var víða í fjórðungnum. Ég tel því, herra forseti, að till. um að þessi rannsóknarstofnun verði byggð upp á Akureyri sé í góðu samræmi við niðurstöður nefndar þeirrar sem ég vitnaði til hér áðan og í góðu samræmi við þá ríku þörf sem talin er vera á rannsóknum sem forsendu allra framfara á þessum sviðum.

Í 58. gr. er ákvæði um það að forstjóri stofnunarinnar skuli skipaður til fjögurra ára í senn. Ég vek athygli á þessu vegna þess að í gildandi lögum um aðrar rannsóknarstofnanir atvinnuveganna eru engin tímamörk sett hvað þetta varðar. Ákvæði þetta er hins vegar hliðstætt lögum um Iðntæknistofnun Íslands.

Í 60. gr. er talið upp hverjir skuli tilnefna fulltrúa í ráðgjafarnefnd þessarar stofnunar. Það eru: Alþýðusamband Íslands, bæjarstjórn Akureyrar, Iðntæknistofnun Íslands, rannsóknarstofnanir atvinnuveganna, einn fulltrúa hver, verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Vinnuveitendasamband Íslands og svo á forstjóri stofnunarinnar sæti í nefndinni eins og venja er. Þessar tilnefningar skýrast að hluta til af staðsetningu rannsóknarstofnunarinnar, þ.e. hvað bæjarstjórn Akureyrar og Verkmenntaskólann á Akureyri og hugsanlega fleiri aðila á viðkomandi svæði varðar. Einnig þótti rétt, m.a. með hliðsjón af staðsetningu og eðli starfseminnar, að aðrar rannsóknarstofnanir atvinnuveganna ættu aðild að ráðgjafarnefndinni svo og Iðntæknistofnun og verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands. Aðild Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambandsins er í þessu tilfelli jafn sjálfsögð og þegar um aðrar hliðstæðar stofnanir er að ræða.

1 61. gr. er verksvið stofnunarinnar skilgreint á eftirfarandi hátt:

„Verkefni Rannsóknarstofu lífefnaiðnaðarins skulu m.a. vera:

1. Rannsóknir til eflingar og hagsbóta fyrir lífefnaiðnaðinn í landinu.

2. Rannsóknir á nýtingu innlendra hráefna til lífefnaiðnaðar.

3. Rannsóknir og þróun framleiðslutækni og aðferða í lífefnaiðnaði og aðstoð við að koma á fót nýjum framleiðslugreinum.

4. Uppbygging og rekstur tilraunaverksmiðju á sviði lífefnaiðnaðar.

5. Nauðsynleg rannsóknarþjónusta við lífefnaiðnaðinn.

6. Kynning á niðurstöðum rannsókna í vísinda- og fræðsluritum.

Í lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna nr. 64/1965 er kafli um almenn ákvæði svo sem um tekjur hinna ýmsu rannsóknarstofnana. Einnig segir í núverandi 63. gr. áðurnefndra laga að nánari ákvæði um starfsemi stofnana þeirra, er lög þessi taka til, megi setja með reglugerð. Þ. á m. er heimilt að ákveða breytingar á verksviði einstakra stofnana, enn fremur að heimila sérfræðingum rannsóknarstofnana að kenna við Háskóla Íslands. Með lögunum er því einungis verið að setja starfseminni lagaramma og skilgreina verkefni eða verksvið einstakra stofnana í grófum dráttum.

Um nauðsyn slíkrar rannsóknarstofnunar á sviði lífefnaiðnaðar mætti hafa langt mál, herra forseti. Í áfangaskýrslu nefndar um lyfja- og lífefnavinnslu, sem skilað var í maí árið 1974, segir að lífefnaiðnaður muni almennt eiga bjarta framtíð fyrir sér og mikið magn sé til af hráefnum fyrir slíkan iðnað. En nefnd þessi tók jafnframt fram að umfangsmiklar og skipulegar rannsóknir væru forsenda þess að kanna grundvöll lífefnaframleiðslu og ráða þyrfti sérstakt starfsfólk til að sinna slíkum rannsóknum.

Lífefnaiðnaður hefur verið talsvert til umr. undanfarið. Ég tel óþarft að telja hér upp allar þær glæstu framtíðarspár, sem menn hafa haft um framtíð þessarar atvinnugreinar. Hv. þm. hafa fengið send gögn um þetta efni á þessum vetri og fyrri vetrum og eflaust kynnt sér þau gaumgæfilega. Þau tala sínu máli um það nánast samhljóða álit allra sem til þekkja, að þessi tegund atvinnurekstrar eigi sér mikla framtíð. Því er þetta mál hér flutt með tilvísan til þess.

Það má eflaust deila um þá tilhögun, herra forseti, sem hér er gerð till. um, þ.e. að komið verði á fót sérstakri rannsóknarstofu sem sérhæfi sig í þessum rannsóknum. Sjálfsagt telja ýmsir eðlilegra og handhægara að fela einhverjum af þeim rannsóknarstofnunum, sem fyrir eru og liggja nálægt þessu verksviði, þetta verkefni. Því er til að svara að séu möguleikar lífefnaiðnaðarins eða líftækninnar sem aðferðar slíkir sem flestir telja, þá muni umfang þeirrar rannsóknar- og tilraunastarfsemi fyrr eða síðar verða slíkt að heppilegast væri að um eina sjálfstæða stofnun væri að ræða. Ég tel einnig ýmsa kosti því samfara að sameina þegar í upphafi kraftana í einni stofnun og á einum stað. Ég vek athygli á því að hér er ekki um að ræða ýkja fjárfreka uppbyggingu. Laun starfsfólks og nauðsynlegasta vinnu- og rannsóknaraðstaða er það sem fyrst þarf til að koma.

Ég lít svo á, herra forseti, að afstaða manna til mála eins og þessa sé ákveðinn prófsteinn á vilja þann sem liggur að baki almennum yfirlýsingum sem nokkuð eru algengar þessa dagana um nauðsyn á nýsköpun í atvinnulífi. Ég vil taka fram að tillöguflutningur þessi er ekki á nokkurn hátt vantraust á þær stofnanir og þá menn sem af miklum áhuga hafa sinnt merkum athugunum á möguleikum líftækninnar hér. Það samstarf, sem ýmsir aðilar á þessu sviði hafa nú tekið upp, er spor í rétta átt, að sameina kraftana og varða veginn fram á við.

Þá er það ekki ólíklegt að einhverjir þykist sjá á því vankanta að byggja slíka starfsemi upp annars staðar en í Reykjavík. Því er til að svara í því tilfelli að ef menn gefast sífellt upp fyrir slíkum raunverulegum eða ímynduðum erfiðleikum verður auðvitað ekkert af því nú og enn síður í framtíðinni að stofnanir af þessum toga byggist upp utan höfuðborgarsvæðisins. Þá má heldur ekki gleyma því að því geta fylgt ýmsir kostir að setja niður starfsemi af þessum toga á stað eins og Akureyri. Í minna samfélagi skapast nánari tengsl milli manna, stofnana og atvinnulífs og skóla. Með öflugan sjávarútveg og landbúnað og ríka iðnaðarhefð, m.a. í matvælaiðnaði, hefur Akureyri upp á fyrsta flokks aðstæður að mínu mati að bjóða til að hýsa slíka stofnun. Og hvað sem öllu öðru líður, herra forseti, hefur mér vitanlega enginn sannað enn þá að mönnum gangi verr að hugsa vestan við Borgarfjörð, norðan við Holtavörðuheiði eða austan við Flóa svo að ekki ætti það að vera til fyrirstöðu í þessu tilfelli.

Að lokinni þessari umr., herra forseti, legg ég svo til að frv. verði vísað til hv. iðnn.