19.11.1984
Neðri deild: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

136. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. Ég er nú ekki nógu vel undirbúin undir þetta mál, en mig langaði til þess að segja nokkur orð.

Ég efast um það að heppilegast væri á þessu stigi málsins að stofna rannsóknarstofu lífefnaiðnaðarins á Akureyri, jafnvel þó að það kynni að verða ákjósanlegt síðar. En ég vil hins vegar leggja áherslu á að það er nauðsynlegt að íhuga mjög vel einmitt núna hver stefna okkar Íslendinga verður í þróun líftækni og lífefnaiðnaðar og ekki síst í þróun þeirrar þekkingarsköpunar sem er grundvöllur og óhjákvæmileg undirstaða undir slíkan iðnað. Og þess vegna álit ég að stuðningur við slíka þekkingarsköpun hljóti að vera forgangsverkefni okkar núna.

Í sambandi við það, sem hv. þm. Guðmundur Einarsson var að segja hér áðan, að það væri e.t.v. ekki ákjósanlegt að setja á fót stofnun núna á þessu stigi málsins með tilliti til þess hversu fjölþættar rætur þessi hugsanlega atvinnugrein eða þverstæða vísindagrein ætti, tel ég að það sé e.t.v. rétt, en jafnframt held ég að það sé lífsnauðsynlegt fyrir bæði þekkingarsköpunina og líka fyrir það samstarf sem nauðsynlegt er, aðila úr hinum ýmsu vísindagreinum, að tryggður sé lágmarks samstarfsgrundvöllur og hann verður að vera staðbundinn. Samstarf þrífst oft ekki á milli bygginga. Það er jafnvel stundum erfitt á milli hæða. En það verður að vera einhvers konar stofnun í formi samstarfs þó að hún sé ekki hús. Ég held að það sé eitt af aðalatriðunum að það verður að fjármagna einhverja lágmarksstarfsemi þar sem hinir ólíku aðilar ná saman til þess að virkja saman þekkingu sína. Og það held ég að sé íhugunarefni núna fyrir okkur í þeirri stefnumótun sem við stöndum frammi fyrir í dag hvernig við stöndum að því.

Mig langar til að geta þess — af því ég kom hér upp — að ég átti þess kost í síðustu viku að vera stödd í breska þinginu. Þar stóð upp hver þingmaðurinn á fætur öðrum og varaði fjmrh. Nigel Lawson alvarlega við þeim niðurskurði í menntamálum sem ætti sér stað á þeim fjárlögum sem lögð voru fram með stefnuræðu forsrh. og var verið að ræða þessa viku í þinginu. Meðal annarra var James Callaghan og hann varaði alvarlega við því hvað slíkt mundi hafa í för með sér fyrir atvinnuþætti á Bretlandi í náinni framtíð og lauk máli sínu með því að segja að Bretar væru hröðum skrefum á leið með að verða minjasafn meðalmennskunnar og yrðu ekki aflögufærir eða gætu séð sér farborða, yrðu einungis þiggjendur á öld hinnar nýju tæknibyltingar ef ekki yrði gripið í taumana. Mér varð nú hugsað til okkar hér uppi á Íslandi þegar ég hlustaði á áhyggjur þessa manns. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir okkur að við mörkum okkur stefnu sem fyrst og reynum síðan að fylgja ötullega eftir þeirri stefnu sem við höfum markað.