15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti vegna þingskapa vil ég gera svohljóðandi athugasemd: Að þessu sinni var þingflokksformönnum ekki tilkynnt fyrir fram að það yrðu hér utandagskrárumræður. Það var skikkur sem var búið að taka upp í fyrra og ég tel að sé vert að halda honum við og vildi mælast til að svo yrði áfram.

Ætli ég noti ekki tækifærið og ræði þá bæði málin sem eru utan dagskrár. Í fyrsta lagi tel ég þetta heldur ankannalega röð á umræðuefnum. Það var beint hér til hæstv. fjmrh. ákveðnum spurningum og hann lét ekki einungis við það sitja að svara þessum spurningum, heldur lagði inn í umr. ýmsa nýja punkta sem allir eru þess virði að á þeim sé tekið. Við verðum líklega að eiga það inni að tala einhvern tíma síðar í vetur um málefni kennara, málefni skóla og hlut þeirra í mótun íslensks þjóðfélags. Tölur hafa verið endurteknar hér margoft á undanförnum dögum um fjölgun kennara, þar sem talað er um að kennurum hafi fjölgað held ég um 90% en nemendum talsvert minna á ákveðnu árabili. Það er nú einu sinni svo, að á undanförnum áratug og reyndar tveimur áratugum hefur um allan heim verið í myndun undirstaða að öðruvísi þjóðfélagi en við bjuggum hérna við fyrir 1950. Við höfum kallað það ýmsum nöfnum, tækniþjóðfélag, þekkingarþjóðfélag, upplýsingaþjóðfélag og ýmislegt fleira. Undirstaðan að öllu þessu er aukin menntun, aukin menning og aukin þekkingarvæðing og það er aldeilis ótrúlegt, en rímar reyndar kannske saman við ýmislegt sem þessi ríkisstj. hefur haft fram að færa í þessum málum, að ráðherra undrast það úr þessum stóli að orðið hafi fjölgun í kennarastétt. Þessi fjölgun hefur einungis orðið vegna þess að hér á Alþingi hafa verið teknar ákvarðanir um nýja kennsluhætti og aukna kennslu. Þetta starf þarf enginn að undrast og ef eitthvað þarf í þessum efnum þá þarf verulega við að bæta, vegna þess að ef okkur á að takast að byggja hér upp öðruvísi atvinnuhætti, svo ekki sé nú talað um þekkingar- eða hátækniiðnað, þá þarf miklu betur að vinna að þessum málum en hefur verið gert hingað til. Hér ætla ég að láta lokið umræðu um kennaramálin. Ég hef úttalað mig um það áður á þessum vettvangi.

Í tilefni af umr. sem síðar hefur orðið um framkvæmd verkfalls langar mig að segja við hæstv. forsrh. um það bréf sem ráðuneytisstjóri fjmrn. hefur látið frá sér fara að þar er orðalag alls ekki á þann hátt að um sé að ræða sakleysisleg áform annálaskrifara á vegum rn. Það er bersýnilegt hver andi þessa bréfs er og ég held að ef þetta hefði verið gert í því skyni að afla vitneskju um framkvæmd verkfalls þá hefði þetta bréf verið sent kannske á öðrum tíma og orðað á allt annan hátt. Ég held að á því geti ekki leikið nokkur vafi fyrir hvern þann sem les þetta bréf. Augljóst er af þessu bréfi að það er liður í herferð, sem ríkisvaldið hefur kosið að fara gegn BSRB í þessu verkfalli, og það er aldeilis stórundarlegt að opinberir starfsmenn og þeirra samtök skuli nú árið 1984 standa næstum því í sömu sporum og menn stóðu fyrir 50 árum og jafnvel lengri tíma, þegar verkalýðshreyfing bæði hérlendis og erlendis var að stíga sín bernskuspor og læra sínar fyrstu lexíur um það hvernig ætti að framkvæma verkfall. Þetta hefur síðan náttúrlega haft þau áhrif að í stað þess að setjast niður og ræða um samninga um laun og kjör hefur verið setið við ögranir og sífelld deiluefni um framkvæmd verkfalls eins og um það gildi engar reglur.

Sannleikurinn er sá að áratuga barátta verkalýðshreyfingarinnar hefur mótað ákveðnar reglur og ákveðnar hefðir um framkvæmd verkfalls sem var algerlega hægt að fara eftir að þessu sinni eins og þær hafa verið notaðar í öðrum vinnudeilum á Íslandi hingað til. Hins vegar hefur ríkisstj. greinilega kosið sér það hlutskipti að fara þarna fram með hörkunni, ekki einungis til þess að gæta hagsmuna þjóðarinnar eða rækja sitt hlutverk sem hagsmunaverðir heldur er þetta liður í pólitískri aðferð, einhvers konar pólitískri herför sem hefur átt að hræða launamenn til hlýðni.

Ég held að það sé full ástæða til þess að þingið skipi rannsóknarnefnd sem fari yfir framvindu þessa verkfalls og menn reyni að læra af því að sjá hvað hefur hér miður farið. Ég held að sú gagnasöfnun ætti ekki að hefjast á sams konar bréfi og annálaskrifari ríkisstj. hefur nú nýverið sent frá sér.

Það má hafa um þetta mörg orð, en ég vildi segja í framhaldi af orðum mínum um nauðsyn þess að rannsaka hvernig að þessu verkfalli hefur verið staðið, samningaumleitunum og öðru, að full ástæða væri til þess að athuga og fá upplýsingar um hlutverk utanrrn. í deilum sem hafa orðið varðandi flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Ég sé að hæstv. utanrrh. er ekki hér núna, svo að ég mun ekki hafa um þetta fleiri orð, en þar hafa gerst undarlegir hlutir. Lögreglan hefur stöðvað verkfallsverði við fullkomlega löglega iðju sína við Keflavíkurflugvöll, lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli hefur afgreitt flugvélar til brottfarar, flugvélar hafa farið í loft án þess að venjubundin vopnaleit færi fram, farþegar hafa verið settir í rútur á Keflavíkurflugvelli og keyrðir til Reykjavíkur og afgreiddir síðan út úr rútum hér við Loftleiðahótelið af starfsmönnum útlendingaeftirlitsins, algerlega án nokkurrar tollskoðunar. Þetta eru dæmi um hluti sem ég held að ætti að kanna þegar tækifæri gefst og ég mun taka upp síðar.