19.11.1984
Neðri deild: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

136. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla að taka fram aftur að það eru tvö atriði í þessu máli sem menn ættu að ræða sitt í hvoru lagi. Annars vegar er það hugmyndin um að setja upp ákveðna rannsóknastofu eða stofnun í líftækni og hins vegar staðarvalið. Ég hélt að það hefði komið fram í máli mínu að ég er jafnmikið efins um að ástæða sé til að setja upp sérstaka stofu eða stofnun einhvers staðar í Reykjavík. Ég hef miklar efasemdir um að það þjóni hagsmunum okkar á þessu stigi málsins að setja upp sérstaka stofu eða stofnun um líftæknina eina saman — og jafnvel þó að hún væri á háskólalóðinni þar sem flestir þeirra, sem við þetta starfa, eru nú.

Fyrirmyndin í þessu frv. er komin frá rannsóknastofnunum ríkisins eins og við þekkjum þær. Þar hefur verið sett á fót ein stofnun á hverju stóru sviði. Ég hef miklar efasemdir um að stofnanaaðferðin sé sú rétta í þessu. Reyndar sjáum við hið gagnstæða í svona greinum víða erlendis. Menn reyna í lengstu lög að komast hjá því að setja upp sérstakar stofnanir, en reyna með þeim aðferðum sem eru orðnar til í upplýsingamiðlun og samskiptum fólks að örva samskipti á milli þeirra stofnana sem fyrir eru frekar en að setja upp nýjar. Ég lýsi því yfir að ég hef mjög miklar efasemdir um að stofu- eða stofnunarhugmyndin sé sú rétta í þessu tilfelli.

Það má hins vegar vel vera að ef bjartsýnustu spár manna rætast um umfang þessarar atvinnugreinar í framtíðinni, menn hafa kallað hana „atvinnugrein 21. aldarinnar“, geti vel komið að því að menn sjái ástæðu til að setja upp svona stofnun. En þá vil ég líka minna á að ef svo fer munu öflug fyrirtæki í líftækniiðnaði reka svona starfsemi sjálf. Sú er reynslan erlendis að rannsóknastarfsemi og þróunarstarfsemi í þessari grein fer mjög mikið fram úti í atvinnulífinu. Menn sóttu í fyrstunni upplýsingar og hugmyndir til stofnana sem voru fyrir hendi, en síðan hafa ýmist verið stofnuð um þetta sérstök fyrirtæki eða menn hafa sett upp rannsóknaaðstöðu hjá öðrum fyrirtækjum sem fyrir voru. Þetta hefur því á sér ýmsar myndir.

Ég ítreka að það eru efasemdir mínar um gagnsemi sérstakrar stofu eða stofnunar sem eru undirrótin að því að ég kem hérna upp í stól. Ég held að til þess að tryggja og koma á fastari fót samstarfinu sem er þegar komið á fót í þessu, svo ég víki að orðum hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur, séu ýmsar leiðir færar. Menn þurfa að eiga ákveðinn samastað. Það eru ýmsar leiðir til þess. Menn geta skipst á um það í misseravís eða áravís að veita þessari rannsóknasamvinnu forstöðu og menn geta komið sér saman um miðsvæði fyrir hana einhvers staðar. En ég held að ekki sé ástæða til að setja að öðru leyti saman um þetta sérstaka stofnun.

Að lokum ætla ég að segja að ég ber fyllsta traust til Akureyrar í þessum efnum, hvort sem verður sett upp þar sérstök rannsóknastofnun lífefnaiðnaðarins eða ekki. Ég þekki það til Akureyringa að þeir eru duglegir menn að bjarga sér og þar er þegar mikil starfsemi á þessum sviðum. Þar eru ýmis stærstu líftæknifyrirtæki landsins sem við þekkjum. Það er líftækniiðnaður í Sana, það er líftækniiðnaður í sútunarverksmiðjum sambandsins og það er líftækniiðnaður í mjólkurstöð KEA. Auðvitað er það ekkert annað en líftækni. — Þar eru duglegir menn og ég trúi því að þeir bjargi sér, eins og þeir hafa gert hingað til, þó að ríkissjóður leggi ekki til sérstakt fé til að setja þarna upp stofu.