20.11.1984
Sameinað þing: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. forseta og forsrh. fyrir að gefa pláss hér og nú, fyrir þessa utandagskrárumr. sem ég bað um vegna þeirrar gengislækkunar sem var tilkynnt í gær. Gengislækkunin er 12% eða 13.64% hækkun á verði erlends gjaldeyris, en að undanförnu hefur verið verulegt gengissig þannig að samtals nemur gengislækkunin 15.9% eða 18.9% hækkun á verði erlendra gjaldmiðla. Frá því að ríkisstj. tók við hefur svokölluð gengisvísitala hækkað um 56.4%. Eins og kunnugt er átti fastgengisstefna að vera einn hornsteinninn í efnahagsstefnu ríkisstj. Það er bersýnilegt að sá hornsteinn hefur þegar verið molaður niður af ríkisstj. sjálfri. Vegna þessarar gengislækkunar vil ég benda á eftirfarandi atriði:

Í fyrsta lagi hefur gengislækkunin það í för með sér að öll kauphækkunin, sem samið var um í kjarasamningum í okt. og nóv. 1984, hefur verið tekin aftur og meira til.

Hæstv. forsrh. lýsti því yfir hér í þinginu aftur og aftur í utandagskrárumr. meðan kjaradeilurnar stóðu yfir að ríkisstj. mundi miða við að kaupmáttur launa yrði ekki lægri en á 4. ársfjórðungi 1983. Hann kallaði það glæsta mynd sem þá blasti við íslenskum launamönnum. Við bentum þá á að frá því að samningarnir voru gerðir í febr. s.l. hefði komið í ljós að þjóðarframleiðsla varð nokkru meiri og þess vegna teldum við að þetta væri óeðlileg viðmiðun með öllu. Þessi ákvörðun, sem ríkisstj. hefur nú tekið um gengislækkun, gerir það að verkum að kaupmáttur launa á árinu 1985 verður að meðaltali lakari en 4. ársfjórðungur 1983. Þannig hefur ríkisstj. komið aftan að fólki miðað við þær yfirlýsingar sem frá henni höfðu komið og miðað við það að hún stóð sjálf að kjarasamningum við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og bar þannig auðvitað fulla ábyrgð á kjarasamningunum og innihaldi þeirra.

Í öðru lagi liggur það fyrir að með þessari ákvörðun ríkisstj. eykst verðbólguhraðinn mjög verulega og fer upp í 25–30% á tólf mánaða grundvelli, eins og nú virðist blasa við.

Í þriðja lagi er þessi gengislækkun einstaklega fráleit vegna þess að þær kostnaðarhækkanir í þjóðfélaginu, sem gert er ráð fyrir að gengislækkunin mæti, eru ekki komnar fram, hvorki hjá útflutningsgreinum né öðrum aðilum, fyrir utan þær launahækkanir sem gerðar hafa verið samningar um.

Í fjórða lagi er það sérstaklega gagnrýnisvert að þessi gengislækkun er tilkynnt án þess að ríkisstj. hafi kynnt neinar hliðarráðstafanir af einu eða neinu tagi. Það hafa að vísu borist fréttir um að einstakir ráðh. og ráðherrahópar hafi setið á fundum undanfarna sólarhringa, en ríkisstj. ekki komist að neinni niðurstöðu og það eru engar upplýsingar um það enn þá opinberlega að ríkisstj. hafi gengið frá neinum hliðarráðstöfunum, nema þá helst þeim, sem voru tilkynntar fyrir nokkrum dögum, að afurðalánin, þ.e. viðbótarlánin sem hafa komið í gegnum viðskiptabankana, hafa nú verið flutt yfir á gengisgrundvöll með einhliða ákvörðun ríkisstj. og þar með er útflutningsframleiðslan svipt möguleikum á gengismun.

Ég tel að í þessum ráðstöfunum ríkisstj. og þessari ákvörðun sé hið alvarlegasta það að þessi ákvörðun leysir engan vanda og í yfirlýsingum, sem fram hafa komið, hefur forsrh. viðurkennt að stefna ríkisstj. hafi beðið skipbrot. Það tilkynnti hann þjóðinni í gærkvöldi um leið og hann tilkynnti gengislækkunina. Hæstv. forsrh. ætlar r hins vegar að halda áfram, að því er best verður skilið, með sína ríkisstj. Á þessu brotna fari ætlar hann að leggja út á ólgusjó komandi mánaða, á því braki sem stjórnarstefnan er nú orðin samkv. hans eigin yfirlýsingu.

Ég tel að það sé nauðsynlegt, herra forseti, í þessu sambandi að benda á að í þessum ráðstöfunum felst líka sérstök hefndarráðstöfun gegn verkalýðshreyfingunni. Það á að sýna launafólki í tvo heimana. Það á að segja við launafólk með þessum ráðstöfunum: Það þýðir ekkert fyrir ykkur að gera verkföll. Það þýðir ekki að hækka kaupið vegna þess að ríkisstj. mun taka það allt af ykkur aftur. Hér er um að ræða tilraun til þess að brjóta verkalýðshreyfinguna niður sem er í beinu framhaldi af framkomu ríkisstj. í upphafi verkfalls BSRB.

Ég tel að einnig sé nauðsynlegt, herra forseti, að minna á í þessu sambandi að á undanförnum árum hefur það iðulega gerst að ríkisstjórnir hafa komist í verulegan vanda í efnahagsmálum sem mætt hefur verið með svipuðum ráðstöfunum og þessum að öðru leyti en því að verðbætur voru greiddar á laun hér um margra ára skeið þannig að menn fengju í kaupi sínu endurgreiddar þær verðhækkanir sem urðu vegna gengisbreytinganna. Engu að síður liggur það fyrir að þær ákvarðanir höfðu þann svip að þær leystu ekki vandann til langs tíma. Sú reynsla sem nú liggur fyrir er að við höfðum haft undanfarna áratugi alltaf ýmist báða núverandi stjórnarflokka eða annan hvorn þeirra í ríkisstjórn landsins. Það er kominn tími til þess að þjóðin átti sig á því að það er útilokað að leysa neinn vanda til frambúðar öðruvísi en að það takist að skapa nýtt landsstjórnarafl í landinu þannig að það verði unnt að mynda ríkisstj. án fésýsluflokkanna. Reynsla okkar, bæði Alþb. og Alþfl., af samstarfi við þessa flokka á undanförnum áratugum sýnir að það er hugsanlega hægt að halda í horfinu um skeið, það er hugsanlega hægt að halda uppi nokkrum kaupmætti um skeið eins og tókst í síðustu ríkisstj., en það tekst ekki að ráðast á grundvallarmeinsemdir hagkerfisins vegna þess að þessir tveir flokkar standa eins og varðhundar um það kerfi óbreytt. Það er það grundvallaratriði sem íslenskir launamenn og alþýða þessa lands þurfa að læra af þeirri reynslu sem nú liggur fyrir.

Í framhaldi af þessu vil ég leyfa mér að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. forsrh.:

1. Hver verður kaupmáttur launa að hans mati að meðaltali 1985 miðað við 4. ársfjórðung 1983?

2. Hyggst ríkisstj. á einhvern hátt takmarka áhrif gengislækkunarinnar með því að takmarka verslunarálagningu, t.d. samkv. svokallaðri 30% -reglu sem var iðulega beitt hér á fyrri árum, m.a. af viðreisnarstjórninni, síðustu ríkisstj. og ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar?

3. Hyggst ríkisstj. takmarka tekjuauka ríkissjóðs við gengislækkunina, t.d. með því að taka upp krónutöluálagningu á óbeinum sköttum eins og fjmrh. hefur margoft rætt um?

4. Hvenær mun ríkisstj. kynna hliðarráðstafanir í einstökum atriðum? Hvenær verður gefin út reglugerð um hækkun elli- og örorkulífeyris sem ríkisstj. lýsti yfir að yrði gefin út strax, en hefur ekki séð dagsins ljós enn þá þó að kjarasamningarnir séu í raun og veru búnir að vera í gildi frá 6. nóv. s.l.?

5. Hyggst ríkisstj. biðjast lausnar í framhaldi af yfirlýsingu forsrh. um að stjórnarstefnan hafi beðið skipbrot?