20.11.1984
Sameinað þing: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. forsrh. er hraðlæs á kansellístíl þeirra seðlabankamanna. Það er ekki eins ánægjulegt að heyra hversu trúgjarn hann er á þann boðskap.

Fyrsta spurningin um gengislækkunartilefni er þessi: Er gengislækkunin óhjákvæmileg og rökrétt niðurstaða og afleiðing af kjarasamningum ríkisins við opinbera starfsmenn? Nýkjörin framkvæmdastjórn Alþfl. hefur í dag gert um þetta sérstaka ályktun, svarað þessari spurningu og mig langar til að koma þeim boðskap á framfæri við hið háa Alþingi, með leyfi forseta. Þar segir svo:

„Nýkjörin framkvæmdastjórn Alþfl. fordæmir þau ummæli forsætisráðherra, er hann viðhafði í sjónvarpsviðtali í gær og endurtók reyndar í máli sínu Vér í dag, þess efnis að kjarasamningar ríkisins við opinbera starfsmenn væru pappírslaunahækkanir, þ.e. ekki virði þess pappírs sem þeir voru skrifaðir á. Þetta er köld kveðja til þeirra þúsunda opinberra starfsmanna sem lögðu á sig dýrkeyptar fórnir í fjögurra vikna verkfalli í trausti þess að þeir væru að semja við ábyrgan aðila, sjálfa ríkisstjórn Íslands.

Framkvæmdastjórn Alþfl. telur það skyldu ríkisstjórnarinnar að standa við gerða samninga. Ríkisstjórninni ber skylda til að tryggja með viðeigandi ráðstöfunum varðandi rekstrargrundvöll útflutningsgreina, efnahagsstjórn, atvinnustefnu og ekki síst róttækar umbætur í skatta- og peningamálum, að samningar, sem fjmrh. hefur undirritað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, séu haldnir en ekki eyðilagðir að óþörfu í nýrri verðbólguskriðu.

Framkvæmdastjórn Alþfl. vekur athygli landsmanna á að Alþfl. hefur markað raunsæja og framkvæmanlega stefnu um það hvernig tryggja megi kaupmátt launa án verðbólgu.

Framkvæmdastjórnin hvetur alla hugsandi Íslendinga til að kynna sér stefnu og úrræði Alþfl. í þessum málum á næstu dögum og vikum.“

Herra forseti. Fyrsta mál á dagskrá þegar við ræðum þessa gengislækkun er að ganga úr skugga um það hverjar eru staðreyndirnar. Vegna þess að þeim ber alls ekkert saman. Ég leitaði mér upplýsinga í Seðlabanka Íslands í gær um hver gengisþróunin hefði verið frá síðustu áramótum. Nú er sú mynd dregin upp af fjölmiðlum að hæstv. ríkisstjórn hafi að undanförnu fylgt einhverju sem kalla megi fastgengisstefnu og þessi stefna hafi allt í einu beðið skipbrot núna. Það hafi orðið snögg umskipti. Þetta er alrangt. Þetta stenst ekki dóm staðreyndanna. Staðreyndirnar eru allt aðrar. Staðreyndirnar eru þær að frá ársbyrjun til 31. okt. s.l. var meðalgengisbreyting hér 11.3%. Ég vek sérstaka athygli á því að þann 31. ágúst s.l. var framkvæmd dulbúin gengislækkun. Hún var að vísu kölluð skrautlegum nöfnum eins og tíðkast hefur í tíð ríkisstjórna að undanförnu. Af því tilefni að ég sé hér fyrir framan mig hv. fyrrverandi fjmrh., þá munum við hugtök eins og gengissig, hratt gengissig og hvað var það? (Gripið fram í: Landavog.) — Jú, landavogin er náttúrlega nýrra hugtak.

Þegar upp var tekin landavogin, þ.e. breytt um hlutföll í innkaupakörfu þjóðarinnar, var framkvæmd á einum degi gengislækkun sem var að meðaltali 3%. En ég endurtek: Kjarni málsins er sá, að meðaltalsgengisbreyting frá áramótum til 31. okt., burtséð frá öllu sem lýtur að kjarasamningum, kemur þeim ekki nokkurn skapaðan hlut við, var að meðaltali 11.3%. Og ef litið er á dollarann einan er hækkunin hvorki meira né minna en 17.6%. Þetta er samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands. Þess vegna erum við raunverulega ekki að tala um 12% gengisfellingu. Við erum að tala um meðaltalsgengisbreytingu það sem af er árinu upp á 23.3%. Og ef við miðum við verðhækkun dollars gagnvart íslensku krónunni á sama tíma erum við að tala um breytingu sem nemur 29.62%, hvorki meira né minna.

Þeir sem þekkja samhengi milli gengisbreytingar af þessari stærðargráðu og verðbólgu, og það gera allir Íslendingar, vita að stefna ríkisstj. var hrunin löngu áður en reyndi á kjarasamningana. Vegna þess að afleiðingar þessara breytinga í aukinni verðbólgu eru gamalkunnar, fyrirsjáanlegar og auðútreiknanlegar. En ég vil leggja á það áherslu, hvað svo sem líður fullyrðingum þeirra kansellímanna í Seðlabanka um eitthvað sem þeir kalla gengisbreytingarþörf — það er nú ekki hagfræðilegt hugtak, ég veit ekki hvar þeir hafa lært það, hvort það var í félagsfræðideild London School of Economies, að gengisbreytingarþörf er, ef hún er eitthvert pólitískt hugtak, pólitískt ákvörðunarefni. Mér dettur ekki í hug að trúa því að ábyrg ríkisstjórn í landinu geri ekkert annað en að fallast á svona pólitískan áróðurspappír frá Seðlabankanum. Hún á ekkert að skjóta sér undan því. Þetta eru pólitískar ákvarðanir.

Þetta eru staðreyndir um gengisþróunina áður en kom til kjarasamninga. Nú, hvaða gagn er að gengisfellingu við þessar kringumstæður?

Í fyrsta lagi er það að segja að gengisfelling er auðvitað það sem kallast á fínu máli „fait accompli“. Hún er bara orðinn hlutur. Hún er staðfesting á þróun sem hefur átt sér stað. Hún er viðurkenning stjórnvalda á því að efnahagsstefnan hefur brugðist, þeim hefur ekki tekist að viðhalda jafnvægi í efnalagsstarfseminni, halda eðlilegu jafnvægi milli kostnaðarhækkana innanlands og erlendis. Gengisbreytingarnar fyrir kjarasamninga sýndu að þetta hafði ríkisstj. ekki tekist, þrátt fyrir alla kjarasamninga. Hún er þess vegna örþrifaráð. Og hún er staðfesting og játning á því að ríkisstj. hefur mistekist.

Því næst má segja: Hvaða vanda leysir gengisfelling? Jú, jú, kenningin segir: Gengisfelling á auðvitað að leysa vanda útflutningsgreina, þ.e. auka tekjur útflutningsgreinanna í innlendri mynt. Í annan stað á gengisfelling að gera innflutning dýrari og verka þannig í þá átt að draga úr viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Víst er það rétt að svo gjörsamlega hefur hæstv. ríkisstj. mistekist öll stjórn efnahagsmála. Mælikvarðinn á það birtist hér á forsíðu þessa blaðs í dag:

„Viðskiptahalli stefnir nú í 4.6 milljarða — eða 1.2 milljörðum meira en spáð var í þjóðhagsáætlun.“

Eini ljósi punkturinn í þessari þróun er auðvitað fyrir hæstv. fjmrh. vegna þess að eina bjargráðið í ríkisfjármálunum er þessi aukni viðskiptahalli metinn á 1200 millj. í viðbót. Hvað þýðir hann? Hann þýðir eins og hér segir að ríkissjóður fær „langleiðina bætt þau auknu útgjöld sem leiða af kjarasamningunum.“ Ég endurtek: ríkissjóður fær langleiðina bætt þau auknu útgjöld sem leiða af kjarasamningunum. M.ö.o., hæstv. ríkisstj. er komin í alveg sömu súpuna og allar þessar vitlausu og ónýtu ríkisstjórnir á vitlausa áratugnum, sem hagfræðingar Vinnuveitendasambandsins kalla virðulegra nafni, „áratug hinna glötuðu tækifæra.“ Það lýsir sér í því að ríkisbúskapnum er haldið uppi á innflutningsæði, viðskiptahalla og þeim tekjum sem ríkissjóður fær af lúxusinnflutningnum, af öllum drossíunum, bílunum, lúxusnum, eyðslunni, bruðlinu, sólundinu, vitleysunni. Það er það sem heldur hæstv. fjmrh. nú á floti. Og það er mikið flot í þeim manni.

Hér segir enn fremur, með leyfi forseta: „Samkvæmt heimildum DV er ólíklegt að ríkisstjórnarflokkarnir nái samstöðu um frekari aðgerðir en áður voru áformaðar til þess að draga úr viðskiptahallanum, þrátt fyrir ný viðhorf.“ Alveg er þetta dæmigert.

Herra forseti. Það er dapurlegt að hafa tilefni til þess nærri því annan hvern dag að samhryggjast stjórnarflokkunum og hæstv. ráðherrum yfir öllum þeim auma hrakfallabálki sem einkennir orðið þeirra stjórnartíð. Það er nærri því ekkert í lagi, það er enginn ljós blettur á þessu. Það eru helst álsamningarnir hjá hæstv. iðnrh.

Það er ein ástæða fyrir því að gengislækkun af þessu tagi er gagnslaus ráðstöfun við ríkjandi skilyrði í íslensku efnahagslífi. Hún er þessi: A.m.k. fjórðungur fyrirtækja í sjávarútvegi er fyrir löngu síðan sokkinn í skuldir, þetta gerðist í sjútvrh.-tíð hæstv. forsrh. Þetta gerðist þrátt fyrir það að árið 1982 var metaflaár. (Gripið fram í: 1981.) —1981–1982. Hvaða áhrif hefur þessi gengislækkun á þennan hluta sjávarútvegsins? Ja, ég veit ekki hvað er hægt að vera sokknari en sokkinn. Hafi hann marað í hálfu kafi þá er hann greinilega sokkinn til botns með þessari aðgerð. Hvað þýðir þetta? Gengislækkun af þessari stærðargráðu þýðir að vextir og afborganir þeirra fyrirtækja sem verst eru sett í sjávarútvegi munu hækka um meira en samsvarar meðalaflaverðmæti togara, og hana nú. Þetta er nákvæmlega hið sama og gerðist við gengislækkunina í upphafi ferils hæstv. ríkisstj. Og þá spyr maður: Hvaða vanda er verið að leysa?

Grunnvandinn í þjóðfélaginu er vandamál sjávarútvegsins. Gengislækkun leysir ekki þann vanda. Hún gerir þann vanda erfiðari úrlausnar. Hún skapar ný vandamál, fleiri og erfiðari en hún leysir. Gengislækkun við þessi skilyrði er ekki almenn efnahagsráðstöfun þar sem við getum notið þeirra kosta, sem hún á almennt að hafa, að draga úr innflutningi og færa fé til sjávarútvegsins.

Ríkisstjórnin hefur allt of lengi slegið á frest að ráðast að grunnvanda atvinnuveganna, að endurskipuleggja fjárhag þess hluta sjávarútvegsins sem kominn var í gjörgæslu áður en hæstv. ríkisstj. tók við, í sjútvrh.-tíð hæstv. núverandi forsrh. Meðan hún frestar þeim vanda er gengislækkun út í hött ein sér. Hægt væri að hugsa sér hana sem lið í samræmdum aðgerðum öðrum, sem miðuðu að því að lækka framleiðslukostnað og tilkostnað sjávarútvegsins og bæta samkeppnisstöðu, en ein sér er hún bara hreint og klárt hagfræðileg heimska og ekkert annað.

Hvað hefði hæstv. ríkisstj. getað gert til þess að þurfa ekki að standa frammi fyrir orðnum hlut? Hvað hefði hún getað gert í tæka tíð til þess að minnka þetta vandamál, afstýra þessum vanda áður en allt hefði snarast um á dróginni? Það er ófátt sem hún auðvitað hefði getað gert. Og það þýðir ekkert að vera að tala um pólitík í þáskildagatíð úr þessu. Ríkisstjórnin er búin að vera og það verður að hafa sinn gang. Þjóðin situr uppi með hana einhvern tíma enn.

En auðvitað er þetta ekkert náttúrulögmál. Auðvitað er sú kenning að ekkert sé til nema gömlu íhaldsúrræðin, sem einhvern tíma voru lögð í munn hv. þm. nú bónda í Selárdal, auðvitað er það ekki kórrétt hagfræði. Það er bara vonleysi, pólitískt vonleysi. Auðvitað eru til, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson veit manna best, önnur og betri úrræði. En það eru engin úrræði til ef ekki er til þeirra gripið í tæka tíð. Þetta er staðfesting á því að ríkisstj. hefur ekki lengur neitt vald á atburðarásinni. Hún bara hrekst undan atburðarásinni, hún er bara á reki. Hana bara rekur fyrir veðri og vindum og bráðum rekur hana í strand. Og þar mun hún brjóta sitt skip og verða fáum harmdauði. Við skulum hins vegar reyna að gera út björgunarleiðangur svo að það verði ekki mannskaði.

Hver var efnahagsvandinn sem hæstv. ríkisstj. átti við að glíma? Hann var þessi: Við höfðum orðið fyrir skakkaföllum. Það er alveg rétt. Við höfðum orðið fyrir tekjumissi í þjóðarframleiðslu frá miðju ári 1982 sem má meta upp á 5.5 milljarða kr. Þetta var efnahagsvandinn sem hæstv. ríkisstj. tók við, fyrir utan auðvitað skuldasúpuna sem hæstv. forsrh. tók í arf frá sjálfum sér og fjandvini sínum og fósturbróður, hv. 3. þm. Reykv. En sem kunnugt er er það orðið umkvörtunarefni með þjóðinni að þessir tveir menn mega hvergi hittast orðið hvorki í sjónvarpssal eða í fjölmiðlum, án þess að það sé orðinn plagsiður þeirra að hjónaerjum þeirra frá fyrra hjónabandi sé öllum dengt yfir þjóðina. Það er ekki lengur hægt að ræða pólitík í landinu fyrir þessum reimleikum.

Þetta var efnahagsvandinn. Hvað gerði hæstv. ríkisstj. til að leysa þann vanda? Hver var hennar leið? Það er fljótsagt. Ríkisstjórnin gerði tvennt:

Í fyrsta lagi: Hún valdi auðveldustu leiðina. Það er hinn beini og breiði vegur sem liggur lóðbeint til ..., þið vitið. Það fyrsta sem hún gerði var að minnka hlut launþega í þjóðartekjum og sem hlutfall af framleiðslukostnaði fyrirtækja. Þegar hv. 3. þm. Reykv. ræðir um raungengi, eins og fram kom líka í kansellíbréfi Seðlabanka, þá er það rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. að kostnaður, raunkostnaður launa almennt í framleiðslu útflutningsatvinnuveganna sem hlutfall af heildarframleiðslukostnaði hefur minnkað, ekki hækkað, þrátt fyrir kjarasamninga.

Í öðru lagi: Hvað gerði ríkisstjórnin í viðbót við þetta? Hún beitti sér fyrir nýrri viðbótarskuldasöfnun erlendis. Í fyrsta lagi með því að leysa fjárlagagat hæstv. fjmrh. með sláttumennsku erlendis, með því að láta það líðast að bankakerfið hrannaði upp 3–5 milljörðum kr. í erlendum viðskiptaskuldum og með því að láta það liðast að viðskiptahallinn seig stöðugt á ógæfuhlið.

Í þriðja lagi beitti svo ríkisstjórnin sér fyrir samdrætti félagslegra útgjalda í fjárlögum, aukinni skattbyrði launþega, aukinni kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Slík úrræði leysa engin efnahagsleg vandamál en eru þung byrði fyrir þá sem þetta eiga að bera. Því næst sneri hæstv. ríkisstj. sér að lækkun á skattbyrði fyrirtækja og fjármagnseigenda og stórfelldum fjármagnsflutningi frá þeim sem síst skyldi og minnst efnin höfðu til hinna sem betur eru settir. Vandinn var upp á 5.5 milljarða. Tilfærslan frá launþegum til fyrirtækja og fjármagnseigenda var upp á 7 til 8 milljarða. Og skattbyrðinni var síðan víxlað yfir á herðar þeirra sem minnsta höfðu greiðslugetuna. Þetta var svar ríkisstj. við vandanum. Og þetta var eins vitlaust svar og hægt var að gefa.

Hvað gat ríkisstjórnin gert í staðinn? Hún gat byrjað á byrjuninni. Hún hefur nefnilega ekki hróflað við þeim grunnvandamálum í sjávarútvegi sem hún tók við. Kvótakerfið er tilraun til eins árs. Ég veit ekki til þess að niðurstöður liggi fyrir um það að þetta kvótakerfi hafi skilað þeim árangri að að taki af tvímæli um að við eigum að halda því áfram.Ég efa ekki að það er hægt að færa fyrir því nokkur rök og nokkur dæmi um að það hafi dregið úr kostnaði. En engan veginn, held ég, eins og menn gerðu sér vonir um.

Í annan stað: Við skuldastöðu mesta hlutans, þess hluta sjávarútvegsins sem verst var staddur, hefur ekkert verið hróflað. Skuldbreyting, lenging skulda í þessu dæmi er, eins og ég hef orðað það áður, að lengja í hengingaról hins dauðadæmda. Og það er ekki beinlínis það sem miskunnsami Samverjinn átti að gera. Að lokum erum við allir dauðir og það breytir litlu hvort við frestum útförinni um nokkra daga eða vikur.

Ég spyr: Hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert á undanförnum mánuðum til þess að draga úr framleiðslukostnaði í sjávarútvegi? Hvað hefur hún gert til þess að lækka kostnaðarhlut að því er varðar olíu? Það er staðreynd að olíukostnaður íslenskra fiskiskipa er u.þ.b. 30–40% hærri en keppinauta okkar annars staðar. Öll þjóðin horfir upp á það að þetta þríeina olíueinokunarfyrirtæki kerfisflokkanna, helmingaskiptaflokkanna, blóðmjólkar sjávarútveginn á sama tíma og það kemur undan og felur hagnað sinn og tekjur í gjörsamlega óréttlætanlegri fjárfestingu í nýjum og nýjum steinsteypubáknum sem eiga að versla hér með bensíngutl. Hvers vegna var þetta ekki stöðvað? Hvers vegna er ekki tekið á olíueinokunarhringunum? Hvers vegna er ekkert gert í því að lækka fraktkostnað útflutningsgreinanna þegar nefnd eru um það sannanleg dæmi að fraktkostnaðurinn er allt að þrefaldur á við það sem gerist á heimsmarkaði? Hvers vegna gerir ríkisstjórnin ekkert í því að lækka fjármagnskostnað útflutningsatvinnuveganna?

Má ég spyrja hæstv. forsrh., sem oftar en einu sinni á undanförnum árum hefur veist að okkur jafnaðarmönnum með getsakir og brigsl um svokallaða hávaxtastefnu kratanna, hvert var tilefni þess? Tilefni þess var það að við börðumst fyrir og komum loksins í gegn þeirri einu hagstjórnarumbót sem framkvæmd var á áratug „hinna glötuðu tækifæra“, að sparifé almennings í landinu væri vel tryggt, með a.m.k. 0% raunvöxtum. Staðreyndin var sú að þetta sparifé bar oft neikvæða ávöxtun allt að 17–20%. Meðan það ástand varaði átti sér stað stórkostleg eigna- og tekjutilfærsla frá almenningi í landinu til nýríkra stétta fjármagnseigenda og fyrirtækja. Það er hroðalegt til þess að hugsa, hv. 3. þm. Reykv., að þetta skuli hafa gerst undir þinni stjórn og undir fjármálastjórn Alþb. Ég tala nú ekki um svokallaðan félagshyggjuflokk Framsfl., sem eins og allir vita er reyndar ekkert annað en erkikerfisflokkur gerður út af einum auðhring á ríkissjóð og skattgreiðendur.

Hvar er stefna þessa hæstv. ráðh.? Hvernig stendur á því að hæstv. ráðh., sem nú er forsrh. Íslands, segist hafa barist gegn hávaxtastefnu kratanna, sem var nú ekki meira en verðtrygging og 0% raunvextir, segist hafa verið plataður, eins og hann sagði svo þjóðfrægt varð, til þess að styðja þessa stefnu. Hvernig stendur á því að hann býður íslensku atvinnulífi og íslenskum útflutningsgreinum núna upp á ránvexti a la Reagan, og reyndar hærri en Reagan sjálfur? Hvernig stendur á því þegar allt er að sligast hér í sjávarútvegi að einstakir ráðh. tala ævinlega tungum tveim? Hæstv. félmrh. segir að þetta nái ekki nokkurri átt. Hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að hann hafi enga trú á því að þessi vaxtastefna fái staðist. En hvers vegna er ekkert gert? Hvers vegna er horft á vandamálið vikum og mánuðum og misserum saman og svo þegar allt er komið í óefni þá er gripið til gengislækkunar, sem er gagnslaus ráðstöfun einmitt til þess að leysa þennan grunnvanda sjávarútvegsins? Hvers vegna, hæstv. forsrh., er allt látið reka á reiðanum? Er ekki skipper í brúnni? (Gripið fram í.) Ja, það er nú það. Hvað þýðir gengislækkunin í hækkun á erlendum aðföngum í sjávarútvegi? Hafa menn áttað sig á því, fyrir utan áhrifin á skuldabyrðina?

Ég hef áður gert grein fyrir því að tilraun hæstv. ríkisstjórnar til þess að skella skuldinni á kjarasamningana við opinbera starfsmenn að þeir séu verðbólguvaldur, þau rök fá ekki staðist. Kauphækkun opinberra starfsmanna skilar sér svo til öll, a.m.k. 70% beint aftur í ríkissjóð. Það er ekki vandamálið. Þar að auki er það heldur ósannfærandi þegar sagt er: Það eru kjarasamningarnir sem valda þessu. Í fyrsta lagi er það staðreynd að gengið seig og seig löngu áður en kjarasamningar voru gerðir. Í öðru lagi er það staðreynd að hlutur launa í framleiðslukostnaði fyrirtækja, hlutur launþega í þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum er minni núna en hann var fyrir ári síðan. Það eru þá önnur kostnaðarhækkanatilefni sem eru lögð til grundvallar skilgreiningu þeirra kansellímanna í Seðlabankanum á svokallaðri gengislækkunarþörf. Gengislækkunarþörf er væntanlega það fall eða sú kúrva sem lýsir árangursleysi hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum.

Á bak við þessa aðgerð hæstv. ríkisstj. býr einfalt pólitískt mat. Ríkisstj. er að segja það sem atvinnurekendur á Íslandi hafa sagt alla tíð, það sem fulltrúar vinnuveitenda hafa sagt uppi í Garðastræti frá því að sú stofnun var stofnuð, en allir vita út af fyrir sig að ber ekki að taka bókstaflega: Það eru engir peningar til. Það er ekki hægt að borga mannsæmandi laun á Íslandi. Það eru ekki peningar til. Það er þetta sem liggur til grundvallar hinu pólitíska hugtaki seðlabankamanna um gengislækkunarþörf. Það eru auðvitað engir peningar til.

Síðan koma ráðherrarnir og seðlabankakansellímennirnir, sem eru að byggja höllina, minnismerkið yfir peningamálaóstjórn s.l. áratugar, þeir dirfast að koma fram fyrir almenning í landinu og segja án þess að blána eða blikna: Það eru engir peningar til. Þið hafið lifað um efni fram. — Heyr á endemi. Það er von að almenningur segi: Látum nú vera með umræður um ýmsar leiðir í efnahagsmálum. En ástæðan fyrir því að ríkisstjórn hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar og þeirra sjálfstæðismanna, ástæðan fyrir því að hún og hennar stefna er nú hrunin er fyrst og fremst ein. Hún er sú, að þessi ríkisstj. hefur ofboðið og misboðið réttlætiskennd allra sómakærra Íslendinga vegna þess að hún gegnir ekki skyldum sínum. Hún horfir aðgerðarlaust á að misrétti, misskipting tekna og eigna er svo hraðvaxandi að á sama tíma og hluti þjóðfélagsþegnanna ber allar byrðarnar, borgaði fyrir allan hinn ytri vanda, þessa 5.5 milljarða, og 40% að auki upp úr launaumslögunum sínum fyrir fjárglæfra fyrrv. ríkisstj., á sama tíma kemur hæstv. ríkisstj. fram, sem ekkert gerir í efnahagsmálum annað en þetta, og segir: Það eru engir peningar til, hvergi. Engir peningar til.

Hvar eru þessir peningar, hæstv. forsrh.? Það er kannske rétt að rifja það upp hvar þessir peningar eru. Hvers vegna er ekki hægt að greiða vinnandi fólki laun sem duga til framfærslu fjölskyldu fyrir heiðarlegt vinnuframlag? Á það að vera eitthvert náttúrulögmál? Á seðlabankastjórn að vera einhver úrskurðaraðili um það hvort það eru til peningar eða ekki peningar? Ef það væri staðreynd að það væru ekki til peningar í grundvallaratvinnuvegunum til þess að greiða vinnandi fólki heiðarleg laun, þá á að breyta því. Því að pólitík er að vilja og pólitík er að breyta og pólitík er að framkvæma. Til þess höfum við ríkisstj. að hún á að leysa vandamál en ekki hrekjast undan þeim. Og það er hægt að breyta þessu, hæstv. forsrh.

Leyfist mér að vitna, herra forseti, í hagfræðing, einn snjallasta hagfræðing okkar af yngri kynslóð, sem starfar fyrir Vinnuveitendasamband Íslands. Ég vona að hæstv. ráðh. rengi ekki þann góða mann. Hann heitir Vilhjálmur Egilsson og hefur nýlega birt frábæra úttekt á fórnarkostnaði verðbólgunnar á áratug hinna glötuðu tækifæra. Og sérfræðingar meðal hagfræðinga eru almennt sammála honum. Reikningurinn, sem þessi maður segir að kerfisflokkarnir þrír, sem hafa farið með stjórn ríkisins á s.l. hálfum öðrum áratug, hin þríeina pólitíska forusta þessara flokka, skuldi þjóðinni, er upp á 25 milljarða kr. Það er fórnarkostnaður vitlausa áratugarins. Það er meira en veltan í ríkisbúskapnum á einu ári, mun meira.

Það væri ekki við mikinn vanda að fást í íslensku þjóðfélagi ef þessi verðmæti væru til staðar. Það væri ekki við mikinn vanda að fást ef öll þessi hrikalegu fjárfestingarmistök hins pólitíska ríkisforsjár- og skömmtunarkerfis þessara flokka, sem kenna sig m.a.s. við frjálshyggju, einkaframtak og ég veit ekki hvað og hvað, hefðu aldrei yfir þessa þjóð gengið.

Peningarnir eru auðvitað horfnir, þessir sem áttu að skila arðinum til að standa undir sómasamlegum lífskjörum. Það mundi ekki vanta peninga, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, til að standa rækilega við skyldur okkar að því er varðar greiðslur til aldraðra og öryrkja, annarra bótaþega almannatrygginga, til þess að halda uppi almennilegum skólastofnunum, til þess að greiða kennurum og öðrum slíkum góð laun, ef ekki hefði verið fyrir það að í stjórnartíð Alþb. og Framsfl. s.l. átta ár höfum við orðið fyrir þessu áfalli, sem er meira en Vestmannaeyjagosið, sem hlaust af stjórnartíð þessara flokka. Kenna sig síðan við vinstrimennsku, félagshyggju og guð má vita hvað.

Herra forsefi. Ef við tækjum nú þá fullyrðingu stjórnarflokkanna alvarlega að það hafi verið kjarasamningarnir, sem hæstv. fjmrh. ber ábyrgð á og undirritaði við opinbera starfsmenn, og síðan kjarasamningarnir sem Verkamannasambandið gerði í kjölfar þeirra, ef við tækjum þá fullyrðingu alvarlega og segðum: Já, gengislækkunin er bein afleiðing af þessu. Gengislækkunarþörf Seðlabankans stafar af þessum kjarasamningum. Þá spyr maður: Var til önnur leið í kjarasamningum? Jú, þið munið eftir skattalækkunarleiðinni. Hverjir vildu fara hana? Ekki er undan því að kvarta að forustumenn Verkamannasambandsins lögðu sig fram um það að fara þessa leið. Ekki er undan því að kvarta að forstöðumenn Vinnuveitendasambandsins vildu fara þessa leið. Í hverju fólst þessi leið? Hún fólst í því að semja upp á nýtt, rífa þetta vitlausa fjárlagafrv. sem hér liggur og semja annað fjárlagafrv., sem fólst m.a. í því að skera niður fituna af fjárlögum, skera niður svolítið af fjárlögunum til velferðarkerfis fyrirtækjanna, skera svolítið niður af ríkisforsjárdekrinu til þess að mæta tekjumissi ríkissjóðs við myndarlega lækkun tekjuskatta. Þetta var skattalækkunarleið.

Nú hefur framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins lýst því yfir í erindi sem hann flutti nýlega, staðfest það sem við héldum hér fram við umr. á þingi fyrir nokkru síðan, að það var ríkisstj. sjálf með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar sem brást í því að þessi leið gæti verið farin. Hver er ástæðan? Ég get ekki fullyrt það en mig grunar að ástæðan sé þessi: Hæstv. forsrh. og þeir aðrir ráðh. Framsfl. vissu mætavel að ef þessar tillögur hefðu verið lagðar á borð þeirra hv. þm. Framsfl. í þingflokksherbergi þeirra þá hefðu þeir aldrei samþykkt þetta. Þeir hefðu kallað þetta, eins og þeir gerðu 1979, grálúsugar kratatillögur — af því að þær voru skynsamlegar, ábyrgar og nauðsynlegar. Það er alveg vitað mál pólitískt séð að Framsfl. hefði aldrei samþykkt þetta nýja fjárlagafrv. Framsóknarmennirnir í Alþb. kannske ekki heldur og ekki framsóknarmennirnir í Sjálfstfl. Það var enginn meiri hluti innan stjórnarflokkanna fyrir þessari leið. Það er staðfest af Magnúsi Gunnarssyni, sem gjörla mátti vita, að það var ekki fyrir viljaleysi verkalýðshreyfingarinnar, verkalýðsforustunnar, það var vegna frumkvæðisleysis og vinnuleysis ríkisstj. að þessi leið var ekki farin. Það var talað og talað í síbylju um að þessi leið væri í boði, stundum var hún ekki í boði. Nú, þegar það var harmað þá var hún í boði, en það var bara aldrei lögð fram vinna í að skilgreina það um hvað var verið að tala.

Það er hlutverk stjórnarandstöðunnar að svara því skilmerkilega um leið og hún gagnrýnir stjórnarflokka og valdhafa: Hvað viljið þið láta gera í staðinn? Ég leyfi mér að halda því fram hér úr þessum ræðustól að við í þingflokki Alþfl. höfum reynt það eftir bestu getu og kannske lagt okkur meira fram um það en ýmsir aðrir þingflokkar að svara þessum spurningum. Það eru fyrst og fremst tvær spurningar sem þarf að svara nú í íslenskum stjórnmálum. Þær eru þessar: Í fyrsta lagi: Hvernig getur íslenska þjóðin unnið sig út úr ríkjandi kreppuástandi, tryggt til frambúðar efnahagslegt sjálfstæði sitt og haldið til jafns við grannþjóðir í lífskjörum þegar fram í tímann er litið?

Okkar svar við því er svo ég vísi aðeins á stikkorð:

1. Brjótum á bak aftur þetta pólitíska ríkisforsjár- og skömmtunarkerfi kerfisflokka, hagsmunaaðila í sjóðakerfi og lánastofnunum.

2. Afnemum eða öllu heldur léttum byrðunum, sem skattgreiðendur bera af velferðarkerfi fyrirtækjanna í fjárlögum, sem eru upp á 2.5–3 milljarða, af þeim.

3. Mótum markvissa nýja atvinnustefnu allt til aldamóta.

4. Tryggjum nýjum framtíðargreinum í íslensku atvinnulífi ekki lakari vaxtarskilyrði að því er varðar aðgang að lánsfé, rekstrarfé og lánskjörum heldur en hinar hefðbundnu greinar njóta sem fyrir eru.

Um þetta mundu auðvitað allir skynsamir hv. þm. taka undir sem markmið. En við höfum lagt það á okkur í þeirri stefnuyfirlýsingu sem birt verður nú í vikunni að lýsa því lið fyrir lið hvernig við viljum að þessi leið verði farin, hvernig hún verði fjármögnuð, hvernig fjár verði aflað. Og ég hvet hv. þm. til að kynna sér þær tillögur fordómalaust. Hitt er svo annað mál að við ríkjandi aðstæður er spurningin þessi: Hvað getum við gert, jafnvel einmitt núna þegar minna er til skiptanna en áður var, til þess að jafna eigna- og tekjuskiptinguna með réttlátari hætti en nú er gert. Það er dauðasynd þessarar ríkisstj. að hún hefur hvorki haft siðgæðisvitund, réttlætisvitund né manndóm til þess að hafa áhrif á það að jafna eigna- og tekjuskiptinguna í landinu. Þess vegna hefur hún safnað glóðum elds að höfði sér. Þess vegna er það að almenningur hefur kveðið upp yfir henni dauðadóm vegna þess að stefna ríkisstj. er ekki aðeins hagfræðilega eða tæknilega vitlaus, hún er siðferðilega fordæmanleg og það gengur ekki í lýðræðisþjóðfélagi.

Herra forseti. Við höfum lagt fram tillögur að því er þennan vanda varðar og beint því sérstaklega til hæstv. fjmrh. Ég hef bent honum á að með því að afnema að verulegu leyti undanþágufargan söluskatts er hægt að tryggja í ríkissjóð nettó 8 milljarða auknar tekjur. Með bættri innheimtu á söluskatti 2 milljarða til viðbótar. Það er hægt að verja þessari upphæð að verulegu leyti til þess að lækka söluskatt og verðlag. Ég lýsi því hér yfir að ég er reiðubúinn til samvinnu við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson sem hefur sett fram skilmerkilegar tillögur um hvaða aðgerðum eigi að beita í ríkisfjármálum og tollamálum og aðflutningsgjaldamálum til þess að neyða verslunina til að lækka vöruverð. Þjóðin á kröfu á því, heimtingu á því að ríkisvaldið svari því, stjórnmálamenn svari því, stjórnmálaflokkar svari því: hvaða aðferðir kunnið þið og viljið fara til þess að lækka vöruverð í landinu? Þetta viljum við gera.

Við viljum líka í annan stað ganga lengra en hér hefur verið boðað í að lækka tekjuskatt á launþega. Við teljum að það eigi að gera afdráttarlaust á mánaðartekjur allt að 35 þús. kr. Og við höfum lagt til hvernig á að endurskipuleggja ríkisfjármálin til þess að nýjar tekjur mæti þeim tekjumissi. M.ö.o., við erum ekki að boða nýja skatta nema einn. Við boðum það að það sé bæði hagfræðilega skynsamlegt og siðferðilega réttlætanlegt og nauðsynlegt að leggja núna um tveggja ára skeið stóreignaskatt á verðbólgugróða hinna nýríku til þess síðan að bæta fyrir misgjörðir þessa þjóðfélags við ungu kynslóðina í landinu sem nú kemur að lokuðum dyrum og er úthýst á húsnæðismarkaðnum. Þetta eru raunsæjar og framkvæmanlegar tillögur til skamms tíma, fyrst sú kerfisbreyting sem ég var að lýsa áðan, það er sú leið sem við þurfum að fara til lengri tíma.

Herra forseti. Það hefur aldrei fyrr í íslensku þjóðfélagi síðan á kreppuárum verið brýnni nauðsyn en nú að gera allt sem gera má til þess að brúa það bil, brúa þá gjá sem myndast hefur milli hinna tveggja þjóða, forréttindastéttanna og hins vinnandi fjölda. Það hefur aldrei m.ö.o. verið brýnni nauðsyn fyrir úrræði jafnaðarstefnu, sem sameinar það tvennt að vera hagfræðilega skynsamleg, gleyma því ekki að hagvöxturinn er undirstaða velferðarkerfisins, en um leið að hún er fram borin af þeim aflvaka sem er réttlætiskennd, eðlileg, heiðarleg samkennd með fólki sem á í erfiðleikum, án þess endilega alla daga að vera að fara með flærð og smjaður, því að Íslendingar eru aldir upp við hörku og nenna ekki að hlusta á smjaður og bull.

Herra forseti. Leyfist mér að lokum að árétta og draga saman þessa stefnu Alþfl. eins og hún hefur verið birt í útdrætti af mörgum stefnuyfirlýsingum seinasta flokksþings, með leyfi forseta:

„Mikilvægustu verkefni íslenskra stjórnmála eru að móta skýr svör við tveimur spurningum:

1. Hvernig getur þjóðin unnið sig út úr ríkjandi kreppuástandi, haldið til jafns við grannþjóðir í lífskjörum í framtíðinni og tryggt efnahagsöryggi sitt?

2. Hvernig er unnt að tryggja jafnari eigna- og tekjuskiptingu en nú er einmitt vegna þess að minna er til skiptanna um sinn?

Ríkisstj. Steingríms Hermannssonar og sjálfstæðismanna hefur unnið það sér til óhelgi að láta launþega eina standa undir öllum kostnaði vegna skakkafalla þjóðarbúsins og vegna fjárglæfra fyrirrennara hennar á stjórnarstólum að auki. Ríkisstj. hefur í engu hróflað við grunnvandamálum atvinnuvega og efnahagsstjórnar. Hún valdi þá leið að flytja fjármagn í stórum stíl frá launafólki til fyrirtækja og fjármagnseigenda. Þessi stefna stjórnarflokkanna er nú hrunin og ríkisstj. búin að vera.

Brennimark ranglætisins var ekki sviðið í ásýnd íslensks samfélags fyrst í tíð núv. ríkisstj. Aðgerðir hennar hafa hins vegar afhjúpað óaðlaðandi ásýnd þess brenglaða verðbólguþjóðfélags sem festist í sessi á s.l. hálfum öðrum „áratug hinna glötuðu tækifæra“. Á þessu tímabili hafa þrír stjórnmálaflokkar farið með völd lengst af, Framsfl., Alþb. og Sjálfstfl. Þjóðmálaforusta þessara flokka hefur brugðist. Sérfræðingum ber saman um að við hefðum nú 25 milljörðum króna meira fé til skiptanna en nú er, ef fjármunir þjóðarinnar hefðu nýst jafnvel og þeir gerðu áður en verðbólgunni var sleppt lausri. Þjóðmálaforusta þríflokkanna skuldar þjóðinni þessa upphæð og reyndar 21/2 milljarð í viðbót frá Alþb. fyrir óselda orku á fimm ára tímabili. Það eru 271/2 milljarður.

Fórnarkostnaður verðbólguáratugarins birtist okkur nú í hruni hluta af sjávarútveginum, bágbornum lífskjörum vinnandi fólks, sárum vonbrigðum kjósenda og dökkum framtíðarhorfum. Landið byggja nú þegar tvær þjóðir. Önnur hefur fært þungbærar fórnir án árangurs, hin þjóðin hefur brugðist skyldum sínum og er orðin að forréttindahópi í þjóðfélaginu. Unga kynslóðin kemur að lokuðum dyrum, henni hefur verið úthýst.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur því beðið skipbrot vegna þess að hún hefur misboðið réttlætiskennd þjóðarinnar. Launþegar og unga kynslóðin eru í uppreisnarhug gegn ranglátu þjóðfélagi. Það kallar á róttækar þjóðfélagsumbætur í anda jafnaðarstefnu og mannúðar.

Alþfl. lítur á það sem meginviðfangsefni sitt á næstu vikum, mánuðum og misserum að brúa bilið milli hinna tveggja þjóða. Til þess eru úrræði jafnaðarstefnunnar best fallin. Svar Alþfl. við fullyrðingum ráðh. og sumra atvinnurekenda um að þjóðfélagið hafi ekki efni á að greiða mannsæmandi laun er einfalt: Þá ber að breyta því.

Flokksþingið samþykkti róttæka stefnuyfirlýsingu um leiðir til að jafna eigna- og tekjuskiptingu og tryggja þjóðfélagslegt réttlæti. Stefnu Alþfl. má draga saman í þessar niðurstöður:

Að lækka framleiðslu-, fjármagns- og vaxtakostnað atvinnulífsins.

Að létta skattbyrði launþega, sérstaklega fjölskyldna með eina fyrirvinnu.

Að uppræta skattsvik forréttindahópa.

Að lækka verðlag með lækkun söluskatts og aðflutningsgjalda.

Að lækka skuldabyrði húsbyggjenda, sérstaklega yngri kynslóðarinnar.

Að tryggja aukinn jöfnuð og þjóðfélagslegt réttlæti. Alþfl. minnir á tillögur sínar á Alþingi um hvernig þetta megi gerast:

Að atnema tekjuskatt á laun allt að 35 þús. kr. á mánuði.

Að lækka söluskatt og þar með vöruverð með afnámi á undanþágum.

Að leggja stóreignaskatt á verðbólgugróða hinna ríku og verja tekjunum til að bæta fyrir misgjörðir þjóðfélagsins við hina ungu og hina snauðu.

Að stöðva óráðsíu Seðlabankans og útþenslu bankakerfisins.

Þetta eru fá dæmi af mörgum um róttækar umbótatillögur Alþfl. sem eiga það sameiginlegt að flytja fjármagn frá forréttindahópum, sem hafa makað krókinn, til vinnandi fólks sem hefur fært fórnir. Þetta eru kjarabætur í ósvikinni mynt án verðbólgu. Þetta eru þjóðfélagsumbætur sem stefna að réttlæti. Svar Alþfl. við spurningunni um hvernig tryggja megi efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og sambærileg lífskjör við grannþjóðir — (Forseti: Má ég spyrja hv. ræðumann hvort hann ætli að nota fundartímann allan?) Herra forseti. Ég á eftir tvær mínútur, eina og hálfa til tvær mínútur af minni ræðu. (Forseti: Þá er það í lagi.) Þakka, herra forseti.

Svar Alþfl. við spurningunni um hvernig tryggja megi efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og sambærileg lífskjör á við grannþjóðir byggir á þessum undirstöðuatriðum:

Að brjóta niður hið spillta pólitíska ríkisforsjár- og skömmtunarkerfi kerfisflokka og hagsmunasamtaka í sjóðakerfi og lánastofnunum.

Að létta „velferðarkerfi fyrirtækjanna“ af herðum skattgreiðenda.

Að skapa hagvaxtargreinum framtíðaratvinnulífs bætt vaxtarskilyrði.

Að marka nýja atvinnustefnu allt til aldamóta.

Þess vegna tekur flokksþingið af öll tvímæli um að Alþfl. er ekki — eins og oft er á hann borið — gamaldags kerfis- og ríkisforsjárflokkur, heldur róttækur umbótaflokkur sem vill breyta þjóðfélaginu í átt til valddreifingar og virkara lýðræðis.

Alþfl. býður nú vonsviknum kjósendum nýjan valkost um þrennt:

1. Róttæka umbótastefnu í efnahags- og félagsmálum.

2. Íhaldssemi á farsæla stefnu í öryggis- og varnarmálum.

3. Frumkvæði um myndun sameiningarafls jafnaðarmanna og frjálslyndra afla vinstra megin við miðju íslenskra stjórnmála.

Alþfl. lýsir sig reiðubúinn til samstarfs um stjórn landsins með þeim öflum sem vilja leggja þessari stefnu lið. Samstaða þjóðarinnar, stétta og aldurshópa, atvinnugreina og landshluta um framtíðarverkefni þjóðfélagsins er undir því komin að þessi stefna fái aukið brautargengi.