20.11.1984
Sameinað þing: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

Umræður utan dagskrár

Kristín Ástgeirsdóttir:

Herra forseti. Ég lofaði þingheimi því að vera stuttorðari en þessi Castró íslenska þingsins, hv. 5. þm. Reykv.

Þegar það nú liggur fyrir að hæstv. ríkisstj. Steingríms Hermannssonar hefur valið þann kost að fella gengið og kosið að grípa til gamalla ráða, sem um árabil hafa kallað fram endalausa hringavitleysu, sækir sú hugsun á að sér grefur gröf sem grefur. Með þessu nýjasta tiltæki stjórnarinnar hafa herlúðrarnir verið teknir upp að nýju og blásið hraustlega og það er ríkisstj. sem blæs enn einu sinni.

Gengisfelling um 12% eða hvað hún nú endanlega verður, auk þess gengissigs sem á undan var komið, þýðir ekki annað en það að næsta haust verður launafólk að hefja nýja sókn á hendur ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sitji hún enn. Hart var sótt í haust, en harðari verður atlagan næsta haust ef árangur samninganna 1984 verður fokinn út í veður og vind.

Það er undarlegt og umhugsunarvert að íslenskar ríkisstjórnir skuli alltaf grípa til sömu ráðanna þegar við efnahagsvanda er að glíma þrátt fyrir þá slæmu reynslu sem af þeim er. Hvað veldur? Jú, einfaldlega það að þeir sem sitja í stjórnarstólunum hverju sinni ráðast alltaf á garðinn þar sem hann er lægstur, en láta stóru steinana í þjóðarhleðslunni vera óhreyfða. Það er auðveldasta lausnin að ráðast á launin og skerða þau og reyndar orðin viðtekin regla hjá gömlu flokkunum að það sé leyfilegt að skerða kjörin ef þjóðartekjur minnka. Þeir deila bara um það hvort skerða beri meira, jafnmikið eða minna en fallinu nemur. Aldrei virðist um neinar aðrar lausnir að ræða. Aldrei er um það rætt að breyta skiptingu þjóðartekna, færa fjármagn frá þeim öflum sem endalaust skara eld að sinni köku. Engin ríkisstjórn í manna minnum hefur tekist á við þann vanda sem ég tel vera eitthvert mesta misrétti og efnahagsmein sem viðgengst í þessu landi, skattsvikin. Fólk sem nær varla endum saman og selur vinnuafl sitt t.d. fiskvinnslunni eða ríkisvaldinu má horfa upp á það ár eftir ár hvernig verslunareigendur, sjálfstæðir iðnaðarmenn og sjálfsagt fleiri hópar lifa kóngalífi en segja skattayfirvöldum að þeir lepji dauðann úr skel. Engin tilraun er gerð til að takast á við milliliðina, t.d. olíufélögin sem hafa kverkatak á útgerðinni. Það er ekki einu sinni hægt að fá upplýsingar um það hverjir eiga þessi olíufélög, hvað þá meira. Meðan sjúklingar þurfa að greiða tvisvar og þrisvar sinnum meira fyrir lyf og læknisskoðun en áður en ríkisstj. tók við völdum fær verslunin að leika sér með álagningu og bankarnir með vextina. Það sýnir hvað best hið undarlega ástand sem hér ríkir að þrátt fyrir mikla kjaraskerðingu dregur lítið úr veltu og innflutningi. Það segir okkur einfaldlega að hér í landi er stór hópur fólks sem hefur sand af seðlum, enda hafa laun hækkað verulega á hinum almenna vinnumarkaði utan við samninga. Kjaraskerðingin hefur ekki komið við þann hóp.

Það er þetta endalausa misrétti og dekur við gróðaöflin sem smám saman er að sporðreisa efnahagskerfið. Rangar fjárfestingar áratugum saman og atvinnustefna stóriðjunnar eru orðnar nógu dýrkeyptar og mál að linni. En það mun ekkert gerast meðan stjórn Steingríms Hermannssonar situr við völd.

Það er mikið talað um uppbyggingu nýrra atvinnugreina sem læknislyf, en forsenda allrar uppbyggingar í þeirri tækniþróun sem nú á sér stað byggist á menntun.

Mér er það óskiljanlegt hvernig á að byggja upp atvinnulífið ef skólakerfið er svelt og barið. Í þeim fjárlögum sem lögð hafa verið fram kemur í ljós að í öllu talinu um atvinnuuppbyggingu eru fjárveitingar til Háskóla Íslands skornar niður. Tækniskólinn er einn þeirra skóla sem hangir á horriminni. Og svo ætla menn sér stóran hlut í nýjum atvinnugreinum!

Þegar sameining þýsku ríkjanna hófst fyrir u.þ.b. 130 árum voru menn svo framsýnir í Þýskalandi að sjá að framtíðin lá í menntun þjóðarinnar. Peningum var dælt í skólakerfið og greinar eins og efnafræði, eðlisfræði og stærðfræði fengu mikið vægi. Eftir svo sem 20 ár var þýskur stál- og efnaiðnaður kominn í fremstu röð og þýskir vísindamenn lögðu heiminum til nýja þekkingu og kenningar. Þýska kerfið ól af sér Einstein. En ef menn halda að Coca cola, SÍS eða IBM, svo dæmi séu nefnd, eigi eftir að leggja hornsteina nýrra atvinnugreina er ég hrædd um að þeir hinir sömu verði fyrir vonbrigðum. „Undirstaðan sé réttlig fundin“, segir í gömlu kvæði, og það gerist einungis í öflugu og frjóu skólakerfi. Því er byrjun nýrrar uppbyggingar og uppskurðar á efnahagslífinu að efla menntunina í landinu í stað þess að skera niður, og þá mun gamla Ísland smám saman rétta úr kútnum.

En fleira verður að koma til. Við þurfum á hugarfarsbyltingu að halda. Ekki á þann hátt eingöngu að verðbólgualgleyminu linni. Það fær nú reyndar byr undir báða vængi við nýjustu aðgerðir ríkisstj. Nei, þá hugsun að láta misréttið ekki lengur viðgangast, hafna þeim öflum sem fylla kornhlöður hinna ríku meðan aðrir mega hirða það sem hrynur úr sekkjunum.

Það er ljóst að efnahagsstefna ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar hefur strandað á þeim hafnargarði sem hún sjálf byggði. Stefnan byggðist og byggir á því einu að halda launum niðri til þess að halda verðbólgunni í skefjum. En bólga verður ekki læknuð með skurðhníf eða kreistingum, hún þarf meðul og smyrsl. Lækningin hefur mistekist. Gamlar mixtúrur duga ekki heldur og sjúkdómurinn breiðist út. Við þær aðstæður er um það eitt að ræða að skottulæknarnir drífi sig heim og hleypi öðrum að. Að áliti Samtaka um kvennalista á ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar að segja af sér. Henni hefur mistekist ætlunarverk sitt. Peningaöflin leika lausum hala, en ríkisstj. kann það eina ráð að seilast ofan í vasa launafólks og láta það borga brúsann. Sú aðgerð sem nú hefur verið gripið til kallar á mótleik frá launafólki og þannig mun leikurinn halda áfram nema að gripið verði í taumana og skynsemin fái að komist.