20.11.1984
Efri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 1. minni hl. (Magnús H. Magnússon):

Virðulegi forseti. Það er óviðunandi að Alþingi skuli þá fyrst fá að fjalla um þann samning sem hér er á dagskrá þegar hann er fullfrágenginn og undirritaður. Alþingi gefst enginn kostur á breytingum. Það er sett upp við vegg. Annaðhvort á að samþykkja samninginn óbreyttan eða fella hann sem væntanlega þýðir óbreytt raforkuverð í svo og svo langan tíma. Þetta eru að mínu mati óeðlileg vinnubrögð og óviðeigandi þrýstingur á Alþingi.

Samningurinn gerir ráð fyrir því að öll eldri deilumál við Alusuisse verði lögð niður gegn 3 millj. dollara greiðslu fyrirtækisins í eitt skipti fyrir öll. Það er nokkurs konar syndaaflausn. Alþfl. telur að staða okkar í málinu hafi verið sterk og sjálfsagt hefði verið að láta gerðardóma fella sína úrskurði, enda málflutningi svo til lokið og skammt að bíða uppkvaðningar úrskurða. Á síðasta stigi var málið stöðvað gegn ákveðinni greiðslu mótaðila.

Um sjálfa upphæðina er það að segja að ýmsir, sem nálægt málum hafa komið, telja hana viðunandi ef eingöngu er litið til krafna vegna ársins 1980. Málatilbúnaður okkar náði þó einnig til áranna 1976–1979, en menn greinir á um stöðu okkar varðandi þau ár vegna formgalla, vegna þess að ekki var krafist endurskoðunar á réttum tíma ár hvert. Um þetta atriði eru skoðanir nokkuð skiptar. Sumir telja stöðu okkar gagnvart þessum málum sterka, aðrir ekki.

Í hinum nýja samningi eru ákvæði til að forðast sams konar ágreining í framtíðinni. Það út af fyrir sig er gott. En í öllum tilvikum túlkar samningurinn þau sjónarmið sem Alusuisse hefur haldið fram í málflutningi sínum. T.d. eru ákvæði í grein 2.03 c í aðstoðarsamningi milli Alusuisse og ÍSALs um að ÍSAL geti fengið þau aðföng „með bestu skilmálum og skilyrðum sem fyrir hendi eru“ felld niður þegar um viðskipti Alusuisse við ÍSAL er að ræða, en það ákvæði var mjög sterkt frá sjónarmiði Íslendinga. Þess í stað eiga ákvæði í gr. 27.03 í aðalsamningi að gilda í þessum tilvikum, þ.e. „um hlutlægan mælikvarða á viðskiptaháttum milli ólíkra aðila“, svokallaða arm’s length-reglu, en þau ákvæði eru miklu teygjanlegri en ákvæði um „bestu kjör“ og Alusuisse hefur túlkað þau mjög sér í vil. Þessi grundvallarbreyting nær til um það bil 98% af aðföngum ÍSALs. Það verða þá samkv. samningum aðeins um það bil 2% aðfanga sem áfram njóta bestu kjara.

Sama má segja um ágreining vegna afskrifta. Sjónarmið Alusuisse í þeim efnum eru staðfest í samningnum.

Sú spurning hlýtur að vakna hvort við séum að gera svipaðan samning og gerður var 1975. Þá var samið um nokkra hækkun raforkuverðsins og sú hækkun gaf okkur í aðra hönd 26.2 millj. kr. á tímabilinu frá 1975–1982. Það hefur mikið verið talað um þennan samning og menn hafa haldið að þarna væri um miklar hagsbætur að ræða fyrir Ísland. En skattabreytingar, sem jafnframt var samið um árið 1975, hafa lækkað skattatekjur okkar um 26.7 millj. kr. á sama tímabili. Þegar upp er staðið var það því Alusuisse sem þénaði á samningnum 1975, ekki Íslendingar. Mér sýnist af ýmsu í þessum nýja samningi að við séum að feta í þau fótspor. Þetta má ekki endurtaka sig.

Í samningnum nú er ÍSAL tryggður forgangsréttur að orku frá nýjum virkjunum, en engar skuldbindingar koma þar á móti, aðeins einhliða réttur Alusuisse.

Versti galli samningsins eru þó endurskoðunarákvæði hans. Að sumra áliti eru þau verri en engin því að nú verður aðeins unnt að óska endurskoðunar á 5 ára fresti hvað svo sem skeður í millitíðinni. Ef engin ákvæði væru, segja þessir sömu menn, væri unnt að óska endurskoðunar ef og þegar eitthvað ófyrirséð kæmi upp. Ekki treysti ég mér til að leggja dóm á þetta atriði hér og nú.

Í endurskoðunarákvæðunum er það sett sem skilyrði fyrir endurskoðun raforkuverðs „að orðið hafi teljandi og ófyrirsjáanleg breyting til hins verra á aðstæðum, að frátöldum breytingum á valdi Landsvirkjunar eða ÍSALs er hafi haft í för með sér alvarleg áhrif á efnahagsstöðu Landsvirkjunar eða ÍSALs, hvors sem í hlut á, þannig að hún raski bæði jafnvæginu í samningi þessum og valdi óeðlilegu harðrétti fyrri þann aðila sem í hlut á.“

Ef við gefum okkur að verðbólga í Bandaríkjunum verði 5% á ári að jafnaði, eins og hún er um þessar mundir, að raungildi dollarans minnki um 5% á ári, þá getur það hvorki talist „ófyrirsjáanleg breyting“ né að það valdi Landsvirkjun „óeðlilegu harðrétti“ — en hvort tveggja þarf til að koma til þess að unnt sé að óska endurskoðunar á raforkusamningnum og þá aðeins á 5 ára fresti. Nokkur alþjóðleg verðbólga er staðreynd. Hún er orðin hluti af efnahagslífi heimsins segja ýmsir hagfræðingar.

Ef áætlanir um þróun álverðs á næstu árum standast og ef 5% verðbólga verður í Bandaríkjunum að jafnaði á samningstímanum verður raforkuverðið í upphafi 12.6 mill (þúsundustu partar úr dollar) pr. kwst., hækkar í 18.5 mill eftir 4–5 ár, en raunverðið verður þá komið niður í 15.2 mill. Þá verður hámarkinu náð og verðið síðan óbreytt í dollurum næstu 16 árin. Eftir 10 ár verður núvirði komið niður í 11.5 mill og eftir 20 ár niður í 7 mill pr. kwst. Það er því ekki, miðað við þessar forsendur, verið að tala um 15 mill pr. kwst. sem meðalverð á samningstímanum, heldur 10–11 miðað við núverandi verðmæti. Verði verðbólga í Bandaríkjunum t.d. 7–8% verður hrap raforkuverðsins mun örara, en þó vafasamt að unnt verði að heimfæra það undir „ófyrirsjáanlegar breytingar“.

Samningurinn frá 1966 var um flest mjög góður miðað við aðstæður. Þá var dollarinn talinn gulls ígildi, enda hafði gullverð í dollurum ekki breyst svo árum skipti. Besta verðtrygging þá var talin viðmiðun við dollara. Þetta brást eins og allir vita. Nú stendur til að gera 20 ára samning sem byggist á viðmiðun við dollara án verðtryggingar nema allra fyrstu árin, og án haldbærra endurskoðunarákvæða. Samningamennirnir frá 1966 hafa gilda afsökun, en það komum við ekki til með að hafa þegar við göngum frá þessum samningi. Við vitum að verðbólga verður nokkur í Bandaríkjunum eins og annars staðar í heiminum. Okkar afsökun verður engin.

Alþfl. átti aðild að og ber að sínum hluta ábyrgð á því að álverið var reist við Straumsvík. Það var skoðun Alþfl. og er enn að nýta beri þá auðlind í vaxandi mæli sem í fallvötnum og jarðhita felst til að skjóta fleiri styrkum stoðum undir efnahagslíf þjóðarinnar með margbreytilegum iðnaði og stóriðju þar sem það á við. Stóriðja verður þó að greiða kostnaðarverð raforkunnar og rúmlega það ef hún á að verða sú lyftistöng sem að er stefnt. Sá samningur um raforkusölu sem nú er lagður fyrir Alþingi til staðfestingar gerir það ekki, a.m.k. ekki ef litið er yfir samningstímabilið allt. Í upphafi samningstímans má segja að umsamið verð nái nokkurn veginn framleiðslukostnaði eldri virkjana, en fer ört minnkandi að raungildi þegar kemur fram á samningstímann ef að líkum lætur.

Virðulegi forseti. Fyrrv. ríkisstj. var búin að koma samskiptum okkar við Alusuisse í illeysanlegan hnút og voru samningar því nauðsynlegir. Þó að samningur sá sem hér er til umfjöllunar geri ráð fyrir talsverðri hækkun raforkuverðs allra fyrstu árin getur hann engan veginn talist nægjanlega hagkvæmur fyrir okkur þegar lengra er litið fram á veginn. Ég legg því til, hæstv. forseti, að frv. verði fellt, en mun þó ekkert gera til að tefja afgreiðslu málsins hér á hinu háa Alþingi.