20.11.1984
Efri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Eftir ítarlega ræðu og það vandaða nál. sem 3. minni hl. iðnn., hv. þm. Skúli Alexandersson, hefur gefið út hér og flutt í máli sínu að nokkru leyti hér áðan er ekki ástæða til að bæta miklu við. En það vill svo til að ég hef samið um það við hæstv. forseta Sþ., Þorv. Garðar Kristjánsson, að ég taki ekki þátt í atkvgr. hér og mér þótti því viðkunnanlegra að segja örfá orð svo að enginn velkist í vafa um afstöðu mína í þessu máli og ef vera mætti e.t.v. til frekari áherðingar á þeirri afstöðu. Ég skal því ekki lengja þessar umr., en koma inn á nokkur atriði lítillega sem þó hefur verið komið inn á áður í þessum umr.

Vinnubrögðin hafa t.d. verið rakin varðandi þennan álsamning og að vonum. Leyndin og pukrið hafa einkennt þau öll, svipað og önnur myrkraverk. Er það ólíkt því sem kröfur voru gerðar um til fyrrv. iðnrh. En fjölmiðlana þarf til, alveg sérstaklega ríkisfjölmiðlana. Fjölmiðlarnir hafa ekki verið yfirgangssamir eða eftirgangssamir við núv. hæstv. iðnrh. og samningasveit hans, þá fríðu riddara er hann valdi sér til fylgdar í þennan leiðangur. Ég vil aðeins minna hér á, af því að það er full ástæða til þess, hversu hart var gengið að Hjörleifi Guttormssyni á sínum tíma sem iðnrh., svo oft lá við í yfirheyrslum í ríkisfjölmiðlum, að hann væri sem sökudólgur í þessum leik, enda brást það tæpast að hverju sinni var leitað álits þeirra ÍSALs-manna þar sem núverandi formaður Verslunarráðsins var ævinlega fenginn til að sjá um varnarræðuna fyrir álhringinn á eftir til þess að mönnum væri nú ljóst að ekki mætti blettur falla á álhringinn. Hvítþveginn skyldi hann vera. Þessir fjölmiðlar hafa verið þöglir mjög alla valdatíð núv. hæstv. iðnrh. Og athygli vekur að þá sjaldan hann hefur verið spurður hefur ekki þótt ástæða til að kalla til andsvara einhvern frá álhringnum eða umboðsaðilum hans og segir það kannske sögu sem er athyglisverðari en annað í ljósi allra niðurstaðna.

Talandi um hvítþveginn álhring er samningurinn nú með því megineinkenni að svo er að sjá sem samninganefndarmennirnir íslensku hafi lagt allt kapp á syndakvittunina álhringnum til handa. Pappírskvittunin fyrir okkur upp á 100 millj. er hins vegar mikils virði fyrir auðhringinn, sem vill halda virðingu sinni, sem enn mun vera einhver í álheiminum, sönnun þess að vísu að sekur er hann í raun fundinn, sönnun þeirrar sektar var í sjónmáli, en okkur er þessi yfirfærsla á skattareikningi einskis verð nema þá, og ég skal viðurkenna það, að vegna þeirrar sektar sem augljóslega var nær sönnuð féllst auðhringurinn þó á raforkuverðshækkunina, sem nú er þó orðin, og hefur trúlega gripið feginn tækifærið til að fá þennan þvott. Og þó að nú væri að hún fengist út á það hve vel og vandlega þessi samningur hefur þvegið álhringinn af öllu fyrri syndum — öllum fyrri sönnuðum syndum. Það telst nú varla þakkarvert, enn síður aðdáunarvert eða afrekakennt. Ótti minn er sannarlega bundinn því gagnstæða, að þegar öll kurl koma til grafar muni það einróma dómur manna að afrekið fræga sé Alusuisse megin.

Sporin frá 1975, sigursporin sem víðfræg voru á þeim tíma, hræða því í engu var sú vaska víkingasveit lakari en nú og vígdjörf að eigin sögn og ærin afrek höfðu þeir fræknu kappar unnið, en ávinningurinn reyndist í algeru frostmarki þegar upp var staðið og skylt er nú skeggið hökunni þar. Hér skal ekki sú saga rakin, en ekki verður frá upphafinu vikið, hversu sú saga hófst er leitt hefur okkur að þessum áfanga nú, hversu svo sem hann reynist nú þegar allt kemur til alls. Menn muna það nefnilega enn þá sem betur fer, þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hóf sína baráttu, hver viðbrögðin voru. Fékk hann ekki fullan stuðning t.d. sjálfstæðismanna? Voru þeir kappar ekki á fullu í kröfugerð á hendur álhringnum? Það mætti kannske spyrja hæstv. iðnrh. um þann stuðning. Það mætti spyrja enn nánar um hvenær kröfugerð þeirra vösku orðháka í Sjálfstfl. á hendur álhringnum um hærra orkuverð hófst. Hvenær var sú krafa sett fram af sjálfstæðismönnum í ljósi reikningsins sem hæstv. ráðh. hefur haft hátt um að hann hygðist senda Alþb.? Sú reikningsfærsla hlýtur að miðast við það þegar Sjálfstfl. setti fram kröfuna um hærra orkuverð, þegar stuðningur þeirra við þáv. iðnrh. varð staðreynd, hinn öflugi bakstuðningur með íslenskum hagsmunum gegn álhringsherrunum. Og hvenær í ósköpunum skyldi það nú hafa verið sem Sjálfstfl. datt í hug að fara að setja fram einhverjar kröfur um hærra orkuverð? Jú, þegar kosningar voru í nánd. Þá fór örlítið að æmta í því liði, en ekki fyrr. Það væri gaman að heyra þá glæstu sögu um kröfugerð sjálfstæðismanna á hendur álhringnum um hærra orkuverð, um áfellisdóma þeirra varðandi sviksamlegt athæfi álhringsins og varðandi bakstuðninginn við Hjörleif Guttormsson á sínum tíma þegar honum reið allra mest á — eða man nokkur eftir orðum eins og „órökstuddar ásakanir á hendur góðum viðskiptaaðila“ eða „skemmdarverk gagnvart heiðarlegum vinum okkar“? Slíkar orðræður heyrðust. Og úr hvaða herbúðum? Það var reyndar undir lokin að það varð býsna margradda kór úr því og þar tóku þeir framsóknarmenn liðlega undir og var ágætis undanfari að þeim söng sem þeir syngja með íhaldinu í dag. Kannske hefur það einmitt orðið til þess að tengja þessa þokkapilta saman.

En hver trúir því í einlægni í dag að árangur hefði náðst án þessarar viðspyrnu í upphafi gegn álhringnum, án þessarar kröfugerðar svo rækilega undirbyggðrar, án þess að svo væri á málum haldið að auðhringurinn átti í vök að verjast alla tíð, ef — og ég segi enn hið stóra ef — ef baklandið hér heima hefði verið slíkt sem vera ætti. Skyldi annars, og það skyldu menn hugleiða, skyldi annars kröfugerð um hærra orkuverð yfir höfuð hafa verið á dagskrá nú ef Alþb. hefði ekki um tíma unnið að þessu máli svo vel sem raun bar vitni um vinna sem hefur þó skilað okkur því sem hér er skilað á borð til okkar þó betur hefði átt að róa, ef menn hefðu ekki gengið hoknir til leiks.

Sagan mun dæma þennan samning. Endurskoðunarákvæðin munu eiga eftir að minna á sig óþyrmilega. Samtengingin við álverið mun líka eiga eftir að sýna sínar neikvæðu hliðar. Raunveruleikinn í raforkuverðinu í dag er 5 millum lægra en það sem ráðherrar höfðu talið lágmark frammi fyrir alþjóð á þessu ári æ ofan í æ. Það segir sitt. Og stækkun álversins er sérkapítuli.

Það er óþarft að lengja þetta mál eftir svo ítarlegar umr. hér og það nál. og þá ræðu sem hv. þm. Skúli Alexandersson flutti hér áðan og alhjúpar þessi mál, þennan heimagerning. Það segir sína sögu að álflokkarnir í ríkisstj. standa nú þó einangraðri en fyrr. Og ég segi enn: Það hryggir mig hlutskipti framsóknar í ljósi liðinna ára, í ljósi þess hvernig þar var tekið á í upphafi. En þar hafa riddarar undanhaldsins og afsláttarins ráðið ferðinni. Ástæðurnar læt ég liggja á milli hluta.

Sagan mun dæma þessar gerðir. En fyrst og síðast mun hún segja sitt um gerðir fyrrv. iðnrh., þá reisn í kröfugerð og vandaðan málatilbúnað sem einkenndu þær gerðir, sem þó hafa skilað þessu, sem hér liggur til umfjöllunar í dag, þrátt fyrir deigan hug og litla djörfung svo að ekki sé meira sagt. Þeim dómi verður ekki áfrýjað. Þeim dómi kvíði ég ekki.