20.11.1984
Efri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki nota nema á að giska 10% af ræðutíma síðasta ræðumanns. Ég vil fyrst og fremst lýsa ánægju minni með að þetta mál er nú að komast í höfn þrátt fyrir hálfs mánaðar töf í hæstv. nefnd. Það var ekki aðeins peningahliðin og hin bætta samningsaðstaða sem ég vildi lýsa ánægju minni með, heldur endurunninn trúnaður, að við séum hugsanlega viðræðuhæfir menn á erlendum vettvangi, að við stöndum við samninga okkar en stöndum þó fast á okkar rétti og séum lausir við skugga af illvilja og óhróðri sem einkenndi allan málflutning síðasta hæstv. iðnrh.

Nei, ég ætla ekki að tefja málið mikið. Þó verð ég að gefa ákveðna skýringu, einkum og sér í lagi af því að hv. þm. lýstu undrun sinni á að ég notaði orðið „töf“ í hæstv. nefnd. Það var þannig að á fyrsta fundi nefndarinnar um málið lögðu fulltrúar Alþb. fram óskalista um vitni sem þeir óskuðu að kveðja til. Þar var Ingi R. Helgason fyrrv. Ástralíufari. Þar var Finnbogi Jónsson aðstoðarmaður fyrrv. iðnrh. Þar var Ragnar Aðalsteinsson fyrrv. lögfræðingur Gervasoni. Þar var Ólafur Ragnar Grímsson fyrrv. alþm. Ég leyfði mér þá að spyrja hvort þetta gæti ekki tekið ansi langan tíma. Ég var snarlega afgreiddur af hv. 4. þm. Vesturl. með því að það væri auðséð að ég væri ekki þingvanur maður og kynni ekki á vönduð vinnubrögð þingnefnda.

Síðan hófust fimm daga vitnaleiðslur. Sjálfsagt höfum við haft gott af því allir saman að heyra ferðasögu Inga R. Helgasonar til Ástralíu einu sinni enn í klukkutíma ræðu. Örugglega höfum við líka haft gott af því að heyra raunasögu Ólafs Ragnars Grímssonar úr Landsvirkjunarstjórn. En mér kom það á óvart þegar vitnin voru að spyrja aðra menn, sem kvaddir höfðu verið til, kalla fram í, biðja um orðið og það upphófst svona kýt og jag á milli þeirra sem voru kvaddir til hv. nefnda. Ég veit ekkert hvort þetta eru vönduð vinnubrögð en ég vildi gjarnan fá að vita það. Fyrir utan það að þessar ræður þóttist ég þekkja við fljótlegt yfirlit í grg. 3. minni hl. n.

Það var annað einkennilegt í þessum nefndarstörfum. Þar er áheyrnarfulltrúi, sem að vísu sat ekki á þingi þá, og hann spurði vitnin stöðugt og óskaði sérstaklega eftir að mega kveðja til vitni, óhlutdræga lögfræðinga iðnrh. — og ég man nú ekki eftir fleirum. Nú veit ég ekki heldur hvort það er venja að áheyrnarfulltrúar hafi sama rétt og aðrir nm. Það getur vel verið. Ég veit ekki heldur hvort hv. þm. sem ekki sitja á þingi eiga að taka þátt í nefndarstörfum, hvorki sem áheyrnarfulltrúar né annað. Og ég hefði gaman af að vita hvort þetta einkennir allt vönduð vinnubrögð þingnefnda. Ég vil ekki vera að ósekju í framtíðinni að ásaka hv. Alþb.menn eða fylgdarkonur þeirra um töf, viljandi töf. Þess vegna vildi ég gjarnan fá að vita, það þarf ekki að svara mér nú, ég get fengið þær upplýsingar einslega líka, hvort þetta eru einkenni á vönduðum vinnubrögðum.