20.11.1984
Efri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég hef kvatt mér hljóðs er að fram hefur komið í þessum umr. nokkur gagnrýni á Framsfl. og hans vinnu og afstöðu í þessum málum. Það er eingöngu af því gefna tilefni að ég kveð mér hljóðs og ég skal reyna að vera mjög stuttorður.

Ég held að það sé nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því þegar rætt er um þessi mál að við Íslendingar gerðum samning 1966 til 25 ára og vorum að sjálfsögðu bundnir við þann samning. Framsfl. var á móti þeim samningi, við greiddum atkv. gegn honum eins og kunnugt er. Ég hef alltaf talið að helsti gallinn á þeim samningi hafi verið sá að hann var gerður til mjög langs tíma án þess að í honum væru endurskoðunarákvæði um orkuverðið. Ég skal viðurkenna að auðvitað urðu gífurleg straumhvörf í orkumálum, orkusprengingin í kjölfar olíuverðshækkananna 1973 og 1978 varð miklu meiri en nokkurn óraði fyrir fram til þess tíma. Ég held að það hafi í raun og veru verið þá sem að alþjóðalögum voru brostnar forsendur fyrir orkuverðssamningnum — ekki fyrir samningnum sem slíkum í heild, heldur fyrir orkuverðsákvæðum hans. En menn verða að hafa í huga í sambandi við umr. um þetta mál, að við erum bundnir samningi. Það má svo deila endalaust um það hvort samningurinn hafi verið viðunandi þegar hann var gerður. Framsfl. greiddi atkv. á móti honum en það verður að viðurkenna að þetta var fyrsti samningur þessarar gerðar sem gerður hefur verið hér á Íslandi.

Sá samningur sem nú er til umr. hér í hv. Ed. felur að sjálfsögðu í sér verulegt hagræði. Um það þarf ekki að ræða. Orkuverðið hækkar verulega eða úr 6.5 millum tæpum á kwst. upp í 12.5–18.5 mill. Það er auðvitað gífurlega mikil hækkun. Það kemur fram í aths. við frv. að Landsvirkjun muni hagnast á þessum samningi á næstu fimm árum um 2100 millj. kr. Það þarf því ekkert að deila um það að auðvitað felur þessi samningur í sér stórkostlegt fjárhagslegt hagræði.

Þá er gert ráð fyrir að deilunni um skattana ljúki á þann veg að Alusuisse greiði 3 millj. dollara. Hér er einnig um stórkostlegt hagræði að ræða. Um það þarf ekki að deila. Hvort þetta er nógu mikið, hvort þetta er nógu hagstæð breyting á grundvallarsamningnum, um það geta menn áreiðanlega deilt endalaust. Skal ég ekki gerast neinn dómari í því efni.

En tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs, auk þess að lýsa fylgi við málið, var það að Alþb. og Framsfl. skildu að skiptum í sambandi við þetta mál í seinustu ríkisstj. Ástæðan fyrir því var fyrst og fremst sú, að enda þótt ég telji og ýmsir fleiri að forsendur orkuverðsins hafi verið brostnar eftir olíuverðssprengingarnar þá nýttist ekki sú staða til fulls í samningum vegna þess að lagt var til stórorrustu við álhringinn opinberlega, í sjónvarpi, útvarpi og á Alþingi (Gripið fram í: Að ástæðulausu?) — í stað þess að snúa sér að því að nýta samningastöðuna sem var til staðar ásamt hagstæðum ytri skilyrðum á árunum um 1980 og reyna að ná samningum. Það liðu þarna 4–5 ár án þess að nokkur einasti árangur næðist fjárhagslega. (EG: Það stóð aldrei til.) Það vil ég nú ekki segja en þetta er staðreynd. Árangurinn var enginn, hann var núll um árabil. Ég veit að þeir Alusuisse-menn eru harðdrægir í samningum, það er mín skoðun, og ég skal ekki vera með neinar fullyrðingar til eða frá í þessu efni, en staðreyndin er sú að niðurstaðan varð engin, árangurinn varð enginn. Það kann að vera rétt að það hafi að vissu leyti verið lagður grunnur að framhaldinu en árangurinn varð enginn.

Ég er þeirrar skoðunar og vil láta það koma fram –ég vil ekki taka fyrrv. hæstv. iðnrh. sérstaklega inn í það — að Alþb. í heild hafi metið það meira á þessum árum að reyna að styrkja flokksstöðu sína í þessu máli heldur en þá þjóðarhagsmuni að ná samningum um hærra orkuverð. Þess vegna skildi á milli Framsfl. og Alþb. í þessu máli.