20.11.1984
Efri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að æskilegt er að reyna að ljúka þessari umr. fyrir kvöldmat þannig að atkvgr. geti farið fram. En miðað við þá ræðu sem hæstv. iðnrh. hélt áðan og miðað við að nú lifa aðeins 10 mínútur tímans til kl. 7 sýnist mér á öllu að við verðum að gera ráð fyrir að fundi ljúki ekki fyrr en nokkuð er farið að halla í áttunda tímann.

Ég hafði spurt hæstv. iðnrh. nokkurra spurninga og ég verð að segja alveg eins og er að ég fékk ekki mikil svör við þeim. Ég spurði hvort heita mætti tryggt að húshitunarkostnaður almennings yrði lækkaður úr því að Landsvirkjun fengi auknar tekjur. Það varð ekki miklu meira en eitthvert uml í þá átt að athugað yrði nánar um þá hlið málsins, en ekki vildi hæstv. ráðh. gefa neinar yfirlýsingar í þá áttina.

Ég spurði um það í ræðu minni við 1. umr. og ítrekaði þá fsp. hérna áðan hvað hefði eiginlega komið yfir ráðh. eftir að hann gaf yfirlýsingu sína hér á Alþingi um að ekki kæmi til greina að gefa eftir gerðardómsmálin eða fara að semja um þau, þau væru það langt komin. Hvað kom þá yfir ráðh. að hann skyldi breyta þessari afstöðu sinni og snarsnúast í málinu með þeim hætti sem raun varð á? Ekki fékk ég neitt svar frá hæstv. ráðh. um þetta. Hann er hins vegar enn að tönnlast á því bréfi frá forstöðumanni Coopers & Lybrand sem hann mun hafa minnst á hér við 1. umr. Ég var því miður ekki á fundinum þá stund þegar hann nefndi þetta bréf, en það er helst að skilja á hæstv. ráðh. og á fjölmiðlum að málið sé allt komið á hreint með þessu bréfi frá forstöðumanni Coopers & Lybrand vegna þess að forstöðumaður fyrirtækisins mun hafa tekið þannig til orða að skynsamlegt gæti verið að þoka sér út úr þessum málaferlum.

Ég tek undir það, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að fyrirtækið Coopers & Lybrand er mjög traust og virðulegt endurskoðunarfyrirtæki, en ég leyfi mér að benda hæstv. ráðh. á að þetta er ekki ráðgjafarfyrirtæki um lögfræðileg málefni. Satt að segja blöskrar mér ekki lítið að í umræðum um þessi mál skuli vera veifað svo sem raun ber vitni þessu bréfi frá forstöðumanni Coopers & Lybrand þar sem hann er að gefa góð ráð um þá hlið málsins sem er alls ekki í hans verkahring. Í hans verkahring var að segja okkur hver krafa okkar á hendur álhringnum ætti að vera. Og það gerðu þessir ágætu menn hjá Coopers & Lybrand. Ekki hefur staðið á því að þeir gæfu okkur upplýsingar um þá hliðina. Þessir menn starfa ekki við að gefa mönnum lögfræðilegar leiðbeiningar um hvort það eigi að reka mál fyrir þessum dómstólnum eða hinum eða draga kröfur til baka. Ég tel að forstöðumaður Coopers & Lybrand hafi satt best að segja skrifað ákaflega dularfullt bréf þegar hann tók sér fyrir hendur að gefa þessa ráðleggingu, að því er sagt er og að því er komið hefur fram að eigin frumkvæði, þó maður dragi það vissulega mjög í efa að svo hafi verið og um málefni sem hann er ekki á nokkurn hátt sérfróður um. Auðvitað eru það hinir lögfræðilegu aðilar málsins sem gefa okkur ráðleggingar um hvort hyggilegt sé að standa í málaferlum á grundvelli þeirrar kröfu sem endurskoðunarfyrirtækið Coopers & Lybrand hefur reiknað út.

Ég spurði líka hæstv. ráðh. að því hvort haft yrði samráð við stjórnarandstöðuna þegar mótuð yrði krafa um nýtt orkuverð. Ég fékk ekkert svar við því. Hann sagði að ekki væri komið að því að ákvörðun yrði tekin um hvert yrði nýtt orkuverð í viðskiptum við álhringinn þegar að því kæmi að stækka. En hann vildi ekki svara því áður hvort eðlilegt samráð yrði haft við stjórnarandstöðuflokkana. Og ég vek athygli á því að enn virðist hann ætla að stunda allt önnur og lakari vinnubrögð í þessum efnum en fyrirrennari hans gerði.

Það hefur komið fram í þessum umr., og kom m.a. skýrt fram hjá hv. þm. Birni Dagbjartssyni, að meginástæðan fyrir því — frá þeirra sjónarmiði séð — að taka málið úr gerðardómi hafi verið sú að það væri ekki skynsamlegt að standa í þrætum við svissneska álhringinn. Þarna sjáum við nú hvers eðlis þessi viðskiptavinur er. Það er ekki talið skynsamlegt að standa í lögmætum þrætum við hann af ótta við einhverjar hefndaraðgerðir. Það væri þokkalegt ef íslenska ríkið treysti sér ekki til að standa í þrætum við skattsvikara innanlands af einhverjum ókenndum ótta. Ég held að fátt sýni betur að ekki er sérlega hyggilegt fyrir okkur Íslendinga að eiga viðskipti við auðhring af þessu tagi ef menn þurfa að óttast það að eiga í þrætum við hann. Auðvitað er ein helsta ástæðan fyrir því að gerðardómsmálið var fellt niður að menn vildu forðast að sú niðurstaða fengist að fyrrv. iðnrh. hefði haft rétt fyrir sér að stofna til þessara málaferla sem menn nú telja svo hættuleg.

Hæstv. ráðh. vék hérna að frv. okkar Alþb.-manna um leiðréttingu orkuverðs til Íslenska álfélagsins. Við fluttum þetta frv. fyrir einu og hálfu ári á Alþingi. Hann var að gera tilraun til að gera lítið úr frv. eða telja mönnum trú um að í því fælist eitthvert boomerang fyrir okkur Alþb.-menn. Auðvitað er það fjarstæða að við höfum lagt það til að raforkuverðið yrði til frambúðar 12.5 mill. Hann ætlaði greinilega að reyna að telja mönnum trú um það með því að lesa ekki lengra. Þar var um að ræða að Alþingi ákvæði það sem lágmarksverð, 12.5 mill, til fimm mánaða og að þessum fimm mánuðum liðnum átti að hækka verðið upp í 15–20 mill. Svo er hæstv. ráðh. að reyna að gera eitthvert mál úr því að ekki sé verðtryggingarákvæði í frv., eins og hann geri sér ekki fulla grein fyrir því að auðvitað er hægt, ef aðferðin að hækka verðið einhliða er valin, að flytja nýtt frv. og ákveða nýtt verð á Alþingi ef menn telja að þess gerist þörf og ef þess hefði gerst þörf í framhaldi málsins. Ég vænti þess að allir hv. þm. geri sér fulla grein fyrir hversu innantóm þessi gagnrýni ráðh. á okkar frv. er. Hér er ekki um það að ræða að við höfum lagt til að gerður væri samningur til 20 ára sem miðaðist við orkuverð 15–20 mill, heldur einhliða ákvörðun. Ef talið hefði verið nauðsynlegt að hækka það verð að fimm árum liðnum hefði auðvitað verið hægt að taka þá ákvörðun með einhliða hætti þegar nauðsyn krafðist.

Það er hins vegar rétt hjá ráðh. að í þessu frv. er minnst á að til greina komi að miða við heimsmarkaðsverð á áli. Ég vil taka það fram að í málflutningi okkar Alþb.-manna hefur þetta atriði ekki verið eitt af aðalatriðum í gagnrýni okkar á þessum samningi, enda segir það sig sjálft að vissulega getur það komið til álita, en þó eru tvær hliðar á því, bæði neikvæð og jákvæð. Auðvitað skiptir þá öllu máli, ef miðað er við álverð, við hvaða lágmarksvísitölu er miðað. Megingallinn á því álverði, sem hér er miðað við, er að orkuverðið er tengt álverðinu þegar álverðið er algjörlega í botni og orkuverðið sem á að greiða samkvæmt núgildandi samningi er rétt um 12.5 mill. Við erum algerlega í lágmarkinu þar sem orkuverðið er tengt álverðinu. Og miðað við að síðan geta orðið enn frekari sveiflur á álverði er mjög tvíeggjað að gera þetta með þessum hætti.

Ég þarf ekki að víkja mörgum orðum að máli hv. talsmanns Alþfl. Eiðs Guðnasonar hér áðan. Hann sagði það, sem satt er í málinu, að Alþfl. var fylgjandi byggingu álverksmiðjunnar á sínum tíma. Ég hygg að ég hafi ekki heldur sagt neitt annað um afstöðu Alþfl. en það sem rétt er.

Ég verð hins vegar að víkja örfáum orðum að málflutningi talsmanns Framsfl. Tómasar Árnasonar áðan og bið hann að vera nærstaddan ef hann vildi gera svo vel. Ég vil segja að það er alveg óþarfi fyrir hv. þm. að hafa uppi hér langan afsökunarformála þegar hann stígur í stól og tekur til máls um þetta mál hér eins og hann gerði áðan. Hann þarf ekkert að afsaka sig. Það er mjög eðlilegt að hann vilji koma sjónarmiði sínu á framfæri. Framsfl. stóð á sínum tíma með Alþb. þegar álsamningurinn var hér til meðferðar fyrir 18 árum þó að núverandi formaður Framsfl. væri annarrar skoðunar og fylgdi ekki flokknum í þessu máli. En staðreyndin er sú að Framsfl. hefur snarsnúist í þessu máli og nú ætlar hann sér að ganga undir það jarðarmen að fallast á stækkun álbræðslunnar um 50%, þessarar sömu álbræðslu sem hann var andvígur að yrði hér byggð á sínum tíma vegna ýmissa ákvæða samningsins. Framsfl. gerði sér fulla grein fyrir því á sínum tíma, og þar á meðal formaður flokksins, að það fylgdu því býsna margar hættur að hleypa svo miklu risafyrirtæki inn í landið. Flokkurinn ætti þá að gera sér grein fyrir því að ekki væri sérlega skynsamlegt að efla völd og áhrif þessa sama fyrirtækis hér í landinu.

Hv. þm. talaði um að megingallinn á málsmeðferð fyrrverandi iðnrh. hefði verið sú að hann hefði hafið stórorrustu á hendur álhringnum í stað þess að snúa sér að samningi. (Gripið fram í: Í fjölmiðlum.) Í fjölmiðlum. Telur hv. þm. virkilega að fyrrverandi iðnrh. hefði verið stætt á því að halda þessu máli leyndu? Telur hæstv. iðnrh. að álhringurinn hafi á nokkurn hátt gefið það í skyn á þessum tíma að hann væri reiðubúinn að semja um stórhækkað orkuverð? Hvar eru heimildir um það að álhringurinn hafi á nokkurn hátt gefið það í skyn að hann vildi nú fallast á hærra orkuverð en áður var? Því miður komu ekki fram sjónarmið af því tagi frá álhringnum fyrr en við vorum búnir að hefja málsóknina á hendur honum af fullum krafti. Þá fyrst fór hann að gefa sig og taka það í mál að ræða við okkur um hækkun orkuverðs. Það gerðum við og þarf ekkert að ásaka fyrrverandi iðnrh., hv. þm. Hjörleif Guttormsson, um að hafa ekki reynt samningaleiðina við Alusuisse vegna þess að hann reyndi hana svo sannarlega á mjög mörgum samningafundum. Hann var hins vegar ekki á því að gera neina smánarsamninga við álhringinn.

Virðulegi forseti. Ég skal fara að stytta mál mitt því að ég skal fúslega fallast á að lengja ekki þennan fund um of, en ég taldi alveg óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum um efnislegan málflutning þeirra þriggja þm. sem ég hef nú nefnt. Ég hef hins vegar ekki sagt mikið um ræðu hv. þm. Björns Dagbjartssonar því hún var vægast sagt mjög sérkennileg og óvenjuleg að ekki sé meira sagt. Ekki tókst mér að finna ein einustu efnisleg rök í máli hv. þm. Björns Dagbjartssonar fyrir því að við ættum að samþykkja þennan samning. Ekki er gerð minnsta tilraun til að andmæla þeim efnislegum rökum sem ég hafði fært fram í þessu máli og sem felast meðal annars í nál. minnihlutamanna.

Hann fór hins vegar að gera að aðalmáli að nefndarstörfin hefðu verið of ítarleg og að þm. hefðu haft of frjálsar hendur. Ég get fullvissað hv. þm. um að það er mjög óvenjulegt að þm. kvarti yfir því hér úr ræðustól Alþingis að þingstörf hafi verið of ítarleg eða þm. hafi haft of frjálsar hendur. Staðreyndin er sú að fundir þingnefnda eru yfirleitt mjög frjálslegir og það vil ég segja bæði formanni nefndarinnar og varaformanni nefndarinnar, hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni og Davíð Aðalsteinssyni, til hróss að þeir héldu prýðilega á málsmeðferð í nefnd og héldu uppi heiðri nefndarinnar með því að leyfa þar frjálsleg vinnubrögð eins og eðlilegt er. Tel ég að við, sem erum í minni hluta í þessu máli, höfum ekkert yfir vinnubrögðum að kvarta í nefndunum.

Staðreyndin er sú að gestir geta spurt á nefndarfundum ef þeir óska eftir og það er ekkert nýmæli. Þeir geta einnig kvatt sér hljóðs og beðið um að fá að segja nokkur orð þar ef þeir óska eftir því o.s.frv. Allt er þetta mjög eðlilegt og sjálfsagt og það er m.a.s. ekki óalgengt að þingflokkar sendi annan mann á nefndarfund en þann sem er formlega kjörinn í þingnefnd ef þannig stendur á og talin er nauðsyn á því. Liggur það í hlutarins eðli að einn þingflokkur hlýtur að geta sent aðalmann sinn kjörinn í nefndina á nefndarfund í stað varamanns, sem situr fyrir hann á þingi, ef þingflokkurinn telur það sérstaklega nauðsynlegt vegna eðlis máls. Ég vil hins vegar segja að það er einsdæmi í þessari deild og í þinginu yfirleitt að það orðbragð sé viðhaft af þm. á þingfundum sem hv. þm. leyfði sér í ræðu sinni áðan.

Sama gildir raunar um hæstv. ráðh. hér áðan. Ef þm. leyfa sér að nefna einn af þingflokkum hér á þinginu fylgikonur einhvers annars flokks (Gripið fram í.) eða fylgdarkonur einhvers annars flokks eða, eins og hæstv. ráðh. nefndi hérna áðan, aftaníossa, þá á forseti deildarinnar að hringja bjöllunni og segja: Þetta er vítavert.