21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

164. mál, kerfisbundin skráning á upplýsingum

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um kerfisbundna skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni sem flutt er á þskj. 171. Lagafrv. það, sem hér er lagt fyrir hv. Ed., er þannig til komið að í gildandi lögum um kerfisbundna skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni, nr. 63/1981, er mælt fyrir um að dómsmrh. skuli láta endurskoða lögin og leggja fram frv. þar að lútandi fyrir Alþingi í þingbyrjun haustið 1984. Það varð að ráði, sem eðlilegt má telja, að fela tölvunefnd að vinna að þeirri endurskoðun. Hún hefur nú starfað skv. lögum í nærri þrjú ár frá því að lögin tóku gildi. Sá kostur var tekinn að bera frv. þetta fram með þeim breytingum frá gildandi lögum sem nm. voru sammála um að mæla með að gerðar yrðu á lögunum.

Þær aðrar hugmyndir um breytingar, sem ræddar voru í nefndinni en ekki var einhugur um, koma fram í bréfi tölvunefndar sem rakið er í aths. við frv. Þær breytingar, sem í frv. þessu eru gerðar till. um að verði gerðar á lögunum, eru yfirleitt ekki veigamiklar enda telur tölvunefnd að lögin hafi reynst vel í framkvæmd og að ekki hafi komið fram verulegir gallar á þeim. Dómsmrn. er sammála nefndinni í þessu mati hennar á reynslu af framkvæmd laganna. Má þá jafnframt hafa í huga að tölvunefnd hefur haft með höndum mjög veigamikil frumherjastörf þar sem hvort tveggja er að sú tækni, sem mest var fjallað um, er í hugum flestra nýstárleg og viðbrögð við hagsmunagæslu í því samhengi mjög ný af nálinni og raunar sífellt í mótun svo ör sem tækniþróun er á þessu sviði.

Eins og áður var sagt eru brtt. sem í frv. felast yfirleitt ekki veigamiklar. En ein sker sig þó úr og er þess að vænta að hún muni þykja tímabær. Er það ákvæði í nýrri mgr. sem bætist við 13. gr. laganna og fjallar um neytenda- og skoðanakannanir. Er þar að finna fyrirmæli um vinnubrögð þeirra sem framkvæma neytenda- og skoðanakannanir sem falla undir ákvæði laganna. Er rétt að skoða þau ákvæði í samhengi við 1. gr. laganna. Er þess vænst að hv. alþm. muni skoða þessi ákvæði náið og má vonast til þess að mönnum þyki hófsamlega á þessu mikilsverða málefni tekið.

Ég vil óska þess að frv. þessu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.