21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

166. mál, lausn deilu verkalýðsfélaga og sláturleyfishafa

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um lausn deilu verkalýðsfélaga og sláturleyfishafa á Suðurlandi sem er flutt til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út hinn 26. sept. s.l. Aðdragandi þessa máls er sá að í upphafi sláturtíðar um miðjan sept. s.l. boðuðu verkalýðsfélög á Suðurlandi til verkfalls í sláturhúsum þar við sauðfjárslátrun eingöngu. Hafði það verið boðað með viku fyrirvara. Viðræður höfðu byrjað nokkrum dögum áður milli þessara aðila og sáttasemjari hafði fengið málið til meðferðar. Þeim viðræðum var haldið áfram eftir að verkfall var boðað.

Þegar vika var liðin og ekki hafði neitt gengið í málinu átti ég viðræður við báða aðila. Það var mjög knýjandi að úrlausn fengist sem allra fyrst því að ekki er gott að slátrun sauðfjár dragist lengi því að í sumum sláturhúsunum tekur hún tiltölulega langan tíma. Í þeim viðræðum lagði ég áherslu á að aðilar reyndu að koma sér saman. Báðir aðilar sögðust miða við að greidd yrðu sömu laun og í öðrum sláturhúsum eða við sambærilega vinnu. Þegar hins vegar sest var niður hjá sáttasemjara og átti að reikna þessi sambærilegu laun út virtist bera svo mikið á milli að ekki væri unnt að ná saman. Ég óskaði eftir því við sáttasemjara að hann héldi áfram fundum með deiluaðilum og reyndi til þrautar að ná samkomulagi. En að lokum fór svo að allir þessir aðilar, sáttasemjari og báðir deiluaðilar, töldu að þarna bæri svo mikið í milli um það hvernig þessi sambærilegu laun skyldu út reiknast að frekari fundahöld virtust árangurslaus.

Þess vegna samþykkti ríkisstj. að gefa út brbl. þessi sem fela það í sér að með verkfalli sé óheimili að knýja fram þessar breytingar en gerðardómi falið að skera úr um það hver þessi sambærilegu laun eru. Sá gerðardómur tók til starfa svo fljótt sem hægt var eftir að lögin höfðu verið gefin út og hefur kveðið upp sinn úrskurð fyrir nokkru.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.