21.11.1984
Neðri deild: 14. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er komið til Nd. frá hv. Ed. frv. til l. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík. Hér er á ferðinni stærsta mál sem komið hefur fyrir þingið um langan tíma og þess væri því að vænta að vandaður undirbúningur lægi að baki þessu máli af hálfu hæstv. ríkisstj. og að leitað hefði verið samstöðu og samráðs við stjórnarandstöðuna við mál þetta á undirbúningsstigi af hálfu ríkisstj.

Eins og fram hefur komið við umr. hér um þetta mál fyrir nokkrum vikum í hv. deild þá er því ekki svo háttað, því miður, heldur liggur fyrir að ríkisstj. valdi þann kost við málsmeðferð alla frá því að hún tók við völdum vorið 1983 að halda stjórnarandstöðunni með öllu frá upplýsingum og samráði um þetta stóra mál. Aðstaðan var meira að segja þannig að þessu leyti að þegar hæstv. iðnrh. svaraði hér fsp. þann 25. okt. s.l. hafði hann tunguhaft sem á hann hafði verið sett af gagnaðila og treystist ekki til að svara hér á Alþingi Íslendinga framlögðum fsp. nema að hluta til vegna þess að gagnaðilinn hafði sett honum stólinn fyrir dyrnar og hann varð að taka meira tillit til hans í þessu tilviki en til Alþingis Íslendinga.

Þetta mál er margþætt eins og oft hefur komið fram. Sumir vilja líta á það að verulegu leyti sem tæknilegs eðlis og vissulega hefur það slíka þætti að geyma, ekki fáa. En það er þó öðru fremur pólitískt mál sem er háð mati þeirra sem um fjalla og þeim aðstæðum sem skapast í samskiptum við það fyrirtæki, sem hér á í hlut sem samningsaðili íslenskra stjórnvalda.

Það verður að segja að niðurstaða hæstv. ríkisstj. og hæstv. iðnrh. í þessu máli er með þeim hætti að með ólíkindum verður að teljast hvernig núv. ríkisstj. hefur tekist að fara með þetta mál miðað við þá stöðu sem hún hafði til að fylgja því fram til viðunandi árangurs fyrir Íslands hönd. Leyndin, sem valin var í málsmeðferðinni, á eflaust þátt í þeirri niðurstöðu sem kynnt er með þessu frv. Það var ekki reynt að skapa þjóðarsamstöðu um málið. Raunar höfðu komið fram mjög skýrar brotalamir á slíku í tíð fyrrv. ríkisstj. en nú var slíkum tilraunum hafnað með öllu og það þrátt fyrir það að t.d. þingflokkur sjálfstæðismanna gagnrýndi það sérstaklega með bréfi 5. maí 1982 að ekki hefðu verið höfð fullnægjandi samráð að hans mati við þáv. stjórnarandstöðu, en slík full samráð væru skilyrði árangurs í máli sem þessu að mati þingflokks Sjálfstfl. Ég rifjaði upp nokkra efnisþætti úr þessu bréfi hér við umr. fyrir nokkrum vikum utan dagskrár og ætla ekki að endurtaka það hér. En það er kaldhæðnislegt fyrir núv. stjórnarflokka og ekki síst fyrir þingflokk Sjálfstfl. að hafa þá stefnu sína skjalfesta í sérstöku bréfi til fyrrv. ríkisstj. að þörf væri slíkrar samstöðu og samráðs allra flokka til að árangri mætti ná. Þó átti Sjálfstfl., sem í stjórnarandstöðu var í tíð síðustu ríkisstj., fulltrúa í þeirri nefnd sem iðnrh. skipaði, álviðræðunefnd, sem hélt 54 bókaða fundi á meðan hún starfaði og fékk hér allar upplýsingar sem málið varðaði hverju sinni til meðferðar og mats.

Það mun hafa gerst einu sinni í tíð núv. ríkisstj.hæstv. iðnrh. sá ástæðu til að kveðja fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna á sinn fund til þess að greina þeim frá stöðu málsins. Það var í sept. s.l. en þá með því fororði að með þær upplýsingar væri farið sem algert trúnaðarmál og málið komið algerlega á lókastig af hans hálfu. Þetta er nauðsynlegt að rifja hér upp í upphafi.

Ég vil einnig minna á það að síðast þegar þessi mál voru til umr. af svipuðu tilefni hér á Alþingi Íslendinga, endurskoðun á samningum við Alusuisse veturinn 1975–1976, þá hafði þó að vissu marki verið skár að verki staðið hvað snerti samráð við þáv. þingflokka á undirbúningsstigi þótt ófullkomið væri vissulega. Þá var lögð fyrir Alþingi niðurstaða samninganefndar sem tók á endurskoðun álsamninganna við Alusuisse. Þar var um heildaruppgjör að ræða í álsamningaumleitunum milli aðila. Nú er máli ekki þannig háttað. Hér er ekki verið að leggja á borð alþm. eitthvert heildaruppgjör af endurskoðun álsamninganna, eins og sumpart hefur verið reynt að halda fram, heldur er hér aðeins á ferðinni hluti af þeirri heild sem ríkisstj. markaði með bráðabirgðasamningi 23. sept. 1983 og ætlaði sér að ljúka samningum fyrir 1. apríl 1984.

1. apríl er löngu liðinn og þrátt fyrir það er hér engin heildarniðurstaða á ferð heldur eru skildir eftir mjög veigamiklir þættir þessa máls, þ.e. endurskoðun á skattkerfi, sem ákveðið var að taka til endurskoðunar skv. bráðabirgðasamkomulagi, endurskoðun á skattareglum varðandi ÍSAL. Þær er hér ekki að finna að öðru leyti en þeirri meðgjöf sem fylgir í þessum hluta pakkans af hálfu ríkisstjórnar Íslands inn á Alþingi Íslendinga.

Annar þáttur þessa máls, sem skilinn er útundan af því sem til var tekið í bráðabirgðasamkomulaginu 1983, er stækkun álversins sem hér er ekki lögð fyrir samningslega séð en þó með bókun sem veitir Alusuisse forgangsrétt að raforku íslenskra orkuvera til 50% stækkunar álversins svo fremi um orkuverð semjist. Þessi forgangsréttur er ekki takmarkaður hvað tíma snertir.

Ég vil vekja alveg sérstaka athygli hv. þdm. á þessari stöðu málsins vegna þess að hvað sem segja má um innihaldið í þessu frv. hér, þá er það alveg ljóst að með því að kljúfa samningspakkann, sem ætlunin var að ganga frá skv. bráðabirgðasamkomulagi ríkisstj., hefur Alusuisse tekist að skapa sér stöðu í þessu máli sem ekki er séð fyrir endann á hvernig niðurstaða verður af. Alþekkt er viðleitni fjölþjóðafyrirtækja að leitast við að ná fram sínum hlut í áföngum gagnvart aðilum sem þau telja sig hafa tök á að hlunnfara eða þar sem þeir telja sig sterkari aðila. Því miður hefur ríkisstjórn Íslands af fljótræði leyft auðhringnum að láta þetta dæmi sitt ganga upp og því er ekki hægt að leggja neitt endanlegt mat á það sem fyrir liggur í þessu frv. með tilliti til heildarniðurstöðu endurskoðunar samninganna vegna álversins í Straumsvík.

Ég vil að sjálfsögðu á þessu stigi ekki vera með neinar fullyrðingar um það hvernig fara muni varðandi þann hluta pakkans sem ósamið er um. En ef marka má innihaldið í þessu frv. hér er síst ástæða til bjartsýni að þessu leyti. Þegar þjóð, og það smáþjóð eins og Íslendingar, á í viðskiptum við erlenda aðila skiptir það afar miklu að hægt sé að halda sem best friðinn og samstöðu hér innanlands til þess að fá viðspyrnu varðandi íslenska hagsmuni. Þetta ætti að vera öllum dagljóst. Af þessu höfum við reynslu, tiltölulega góða reynslu úr landhelgisbaráttu okkar á liðnum áratugum, en því sama er því miður ekki að heilsa þegar um er að ræða það stórfyrirtæki, sem hér er gagnaðili íslenska ríkisins, Alusuisse. Þar hefur tekist til með allt öðrum og verri hætti. Þar hefur þessu fjölþjóðafyrirtæki tekist að sundra þjóðinni, sundra íslenskum stjórnmálaflokkum og hagsmunaaðilum hér innanlands með þeim afleiðingum að það hefur allt aðra stöðu til að ná fram sínum hagsmunum en ella væri.

Þetta mál var tekið upp í framhaldi af endurskoðuninni 1975 á árinu 1980 með samþykkt ríkisstj. um kröfu á hendur Alusuisse um endurskoðun álsamninganna. Um þá kröfugerð ríkti í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens framan af allgóð samstaða og samvinna og flokkar í stjórnarandstöðu slógust í hópinn mismunandi viljugir þó til þess að eiga samstarf og samvinnu um þetta stóra mál. Alþfl. t.d. tók á þessum tíma mjög einarðlega undir kröfugerð ríkisstj. að þessu leyti og Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu skipaði sinn fulltrúa í álviðræðunefnd. Það horfði því framan af í meðferð þessa máls í tíð fyrrv. ríkisstj. ekki óvænlega um að hægt væri að brjóta upp álsamningana og fá fram á þeim mjög verulegar breytingar Íslandi til hagsbóta. Ástæðan fyrir því að staðan var sterk í málinu og hefur verið það efnislega allt fram undir þetta er sú að íslensk stjórnvöld höfðu dregið það fram í dagsljósið að þessi viðsemjandi og samstarfsaðili íslenska ríkisins um álverið í Straumsvík hafði brotið gróflega samninga á Íslendingum og hlunnfarið íslensk stjórnvöld og orkuyfirvöld með svo grófum hætti að ekki er aðeins óþekkt hérlendis heldur leitun á því að slíkt hafi verið dregið fram með svo skýrum hætti á alþjóðavettvangi. Þessi staða málsins veitti okkur möguleika á því að ná fram mjög verulegum ávinningi fyrir Íslands hönd.

Það gerðist hins vegar fljótlega að talsmenn auðhringsins tóku að leita hófanna hjá þeim sem þeir töldu vini sína og tryggðamenn, bandamenn hér innanlands og fóru að bera sig upp yfir þeim óskaplegu ásökunum sem fram væru bornar af þáv. iðnrh. landsins, sem væri að svelta fyrirtækið og stórskaða á alþjóðavettvangi. Nú yrðu þeir að koma til hjálpar og koma í veg fyrir að hið góða samstarf liðinna ára yrði að engu gert. Það er rétt að nefna það hér, án þess að ég ætli að fara út í þá sálma ítarlega, að auðhringurinn hafði ótrúlega mikla uppskeru af sinni viðleitni. Það sem var sérstaklega afdrifaríkt í þessu máli var það í tíð fyrrv. ríkisstj. að stærsti stjórnarflokkurinn í þeirri ríkisstj., Framsfl., tók að kikna í þessu máli. Hann tók að taka undir málflutning auðfélagsins og vinna að því leynt og ljóst að brjóta niður þá samstöðu sem tekist hafði innan þáv. ríkisstj. og reyndar með stjórnarandstöðu líka. Þetta gerðist þegar á fyrstu mánuðum ársins 1982 þótt ekki yrði alþjóð kunnugt á þeim tíma vegna þess að auðvitað var reynt að berja í brestina. En síðan gerðist það, sem allir hv. þm. muna eftir, að fulltrúi Framsfl., Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur, sá ástæðu til þess viku af des. 1982 að setja fram úrslitakosti í álviðræðunefnd um það sem hann taldi að ætti að verða samningstilboð til Alusuisse. Þegar ekki var undir það tekið sagði hann sig úr nefndinni frammi fyrir upptökuvélum íslenska sjónvarpsins og rauf þannig formlega þá samstöðu sem leitast hafði verið við að varðveita fram að þeim tíma.

Það þarf ekki að hafa um það mörg orð með hvaða hætti sterkur aðili eins og gagnaðili Íslands í þessu máli hagnýtir sér slíkar aðstæður. Það var dagljóst og mér fullkomlega ljóst þegar leið á árið 1982 að líkurnar á því að hægt væri að ná viðunandi samkomulagi miðað við þáverandi aðstæður í þessu máli voru hverfandi og fóru síminnkandi vegna innbyrðis deilna hérlendis. Þessar deilur kristölluðust síðan með þeim sérstaka hætti að þegar kom fram í febrúarmánuð 1983 tóku sig saman fulltrúar þriggja þingflokka hér á Alþingi Íslendinga og afgreiddu út úr atvmn. Sþ. till. um ályktun um viðræður við Alusuisse sem fólu í sér undirtektir við mikilsverðar kröfur auðhringsins, m.a. um stækkun álversins. Á þessari till. voru með öðrum ekki óþekktari menn en núv. hæstv. iðnrh. og núv. hæstv. sjútvrh. Flutningur þessarar till. var afar skýr. Í honum fólust afar skýr boð til gagnaðilans. síðan kom kosningabarátta og kosningar með sínum úrslitum. Í framhaldi af þeim settust á stóla þeir flokkar sem stóðu að endurskoðuninni 1975 og hæstv. núv. iðnrh. tók við ábyrgð á þessum málum. Ég hef þegar getið um leyndina sem hann kaus að hjúpa þetta mál gagnvart stjórnarandstöðunni og hann gaf Alþingi skýringu á þeirri leynd hér fyrir fáum vikum. Ástæðan var sú að hans sögn og sú ein tiltekin að ekki hafi verið fært að sýna Alþb. á spilin. Það hafi verið með öllu útilokað að leyfa stærsta stjórnarandstöðuflokknum aðgang að þessu máli og leita við hann samstarfs og samvinnu við meðferð þess.

Hæstv. ráðh. kaus að setja á fót sérstaka samninganefnd einvörðungu skipaða trúnaðarmönnum núv. ríkisstj. og hann kaus að skipa sem oddvita í þá nefnd þann mann, sem hér var nefndur með sérstöku þakklæti í framsögu hæstv. ráðh., Jóhannes Nordal doktor og seðlabankastjóra og stjórnarformann Landsvirkjunar. Ég gagnrýndi þessa nefndarskipun alveg sérstaklega þegar bráðabirgðasamningurinn var til umr. hér í nóv. s.l. Mér er ómögulegt að skilja það hvaða nauður rekur til þess að vera að setja jafnágætan mann og dr. Jóhannes Nordal í þann vanda að fara að taka enn einu sinni á þessu máli, sem hann er búinn að kljást við frá því upp úr 1960 og fylgja eftir sem samningamaður íslenska ríkisins, því miður ekki með þeim árangri sem æskilegt hefði verið og ljósast liggur fyrir á síðustu endurskoðun þessara samninga á árinu 1975 þegar niðurstaðan varð núll varðandi íslenska heildarhagsmuni og reyndar lakari en það. Það var upplýst á Alþingi fyrir einum tveimur árum síðan hvernig sú útkoma lá fyrir að mati ríkisendurskoðunar. Þeim tölum hefur í engu verið hnekkt og þeim dómi, að fram að þeim tíma, 1982, hafi íslenska ríkið orðið af jafn miklum skatttekjum vegna breytinga á skattareglum 1975 og raforkuverðið til Landsvirkjunar hafði hækkað á þessu tímabili. Ýmis fleiri atriði komu inn í þá samningamynd sem renna stoðum undir þá fullyrðingu að heildarniðurstaða þessarar endurskoðunar var neikvæð fyrir Ísland.

Það er ekki heldur við hæfi að mínu mati að einn helsti bankastjóri landsins sé settur í þá aðstöðu, það tvöfalda gervi, að sinna ráðgjöf og stýringu á fjármálum þjóðarinnar, undirstöðuþáttum í efnahagsmálum landsins og peningamálum og bankamálum, og gera hann jafnframt að formanni í samningum af þessu tagi. Það er ekki við hann að sakast heldur þá sem setja hann til verka. Auðvitað er það ekki við hæfi að sami bankastjóri sé settur í það hlutverk, eins og gert hefur verið síðan 1965, að gegna stjórnarformennsku í stærsta orkufyrirtæki landsins. Alþb. eitt flokka, sem á fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar, greiddi atkv. gegn þeirri ráðstöfun þegar það átti kost á því síðast þegar á þessi mál reyndi.

Ég tel enga ástæðu til að draga fjöður yfir það að ég tel að hér hafi mjög ólánlega til tekist að þessu leyti, ekki síst vegna þess að í ljós hefur komið í málsmeðferðinni að hæstv. iðnrh. hefur nánast í blindni, að því er mér virðist, treyst á þessa samninganefnd sína varðandi málafylgju alla.

Fulltrúi Framsfl. var þarna einn að verkum tilkvaddur. Og hver var það nú? Það var maðurinn sem rauf samstöðuna, samvinnuna innan álviðræðunefndar á árinu 1982. Honum var að mati Framsfl. alveg sérstaklega til þess treystandi að taka nú á þessu máli. Það er væntanlega vegna þess að hann á trúnað öðrum fremur núv. hæstv. forsrh., sem fyrstur áhrifamanna í Framsfl. gerðist talsmaður álsamninganna þegar þeir voru í mótun 1965 og 1966 og var þá í miklum minni hl. í sínum flokki.

Framsfl. hélt áttum í þessu álmáli þangað til hann lenti í samstjórninni með íhaldinu 1974 og truflaðist þá verulega þó að enn mætti sjá glætu hjá stöku þm., eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 2. þm. Norðurl. v. sem fluttu, að ég man, þáltill. hér á Alþingi á þessum stjórnarárum um það að reynt yrði að tryggja að a.m.k. næðist framleiðslukostnaðarverð vegna orkusölu til stóriðju. Ég vænti þess þó að svo illa sem fyrir Framsfl. er komið í þessu máli nú miðað við framlagningu þessa frv. sem stjfrv., séu þar enn á bæ menn sem hafi augun opin og hafi ekki tekið þátt í því heljarstökki sem forusta Framsfl. hefur tekið undir stjórn hæstv. núv. forsrh. í álmálinu.

Ég nefndi það að hæstv. iðnrh. hefði greinilega treyst mjög á þá samninganefnd sem hann skipaði í júní 1984. Og því skyldi hann ekki gera það úr því að hann valdi hana til verka? Ekki er kannske ástæða til að gagnrýna það sérstaklega. En í stóru og vandasömu máli sem þessu, þar sem pólitísk álitamál hljóta að vera við hvert fótmál, skiptir miklu að viðkomandi ráðh. og fulltrúi framkvæmdavaldsins setji sig inn í málin, fylgist með málunum stig af stigi og helst að hann upplýsi almenning í landinu um stöðu þess, a.m.k. Alþingi. En við höfum beðið hér á Alþingi eftir upplýsingum frá hæstv. ráðh. Við höfum fengið glefsur í fjölmiðlum. Þegar málið hefur verið tekið upp af stjórnarandstöðunni á Alþingi hefur hæstv. ráðh. reynt að veita einhverja úrlausn. En það verður að segja það eins og er að mínu mati, að mikið af því, sem hann hefur fram boðið, hefur afhjúpað vanþekkingu hans á stöðu málsins og í vissum tilvikum hafa verið gefnar upplýsingar sem ástæða er til að ætla að séu vísvitandi rangar, og það hér á Alþingi Íslendinga. Ég spyr: Hverju eigum við að treysta í svo stóru og vandasömu máli, ef ekki er hægt að gera ráð fyrir því að aðalábyrgðarmaður þess beri fram hér á Alþingi Íslendinga rétt mál flutt eftir bestu vitund en fari ekki með staðlausa stafi?

Ég sé ástæðu til að finna þessum orðum mínum stað því að þau eru stór. Ég stóð hér í þessum stóli 25. okt. s.l. og þá spurði ég hæstv. ráðh. svohljóðandi spurningar sem hann hafði fengið í hendur skriflega daginn áður. Með leyfi forseta vitna ég í þingtíðindi:

„Hefur í núgildandi samningsdrögum við Alusuisse, sem samninganefndarmenn hennar gengu frá í London 9. okt. s.l., verið gefinn einhver ádráttur um breytta túlkun á ákvæðum núgildandi samninga að því er skattareglur snertir, t.d. á ákvæðum aðstoðarsamnings um að Alusuisse sjái ÍSAL fyrir aðföngum á bestu fáanlegum kjörum? Samningamenn iðnrh. hafa greint frá því að alveg sé eftir að semja um endurskoðun á skattaákvæðum við Alusuisse. Þá skiptir að sjálfsögðu öllu máli að við höldum öllum okkar rétti til haga. Til að taka af allan vafa um það efni er ofangreind spurning borin fram.“

Og hverju svarar hæstv. ráðh. þessari spurningu sólarhring eftir að hann fékk hana skriflega í hendur ásamt fleiri fsp.?

Hann segir, með leyfi forseta: „Síðan kemur fjórða spurning:

Hefur í núverandi samningsdrögum við Alusuisse verið gefinn einhver ádráttur um breytta túlkun á ákvæðum núgildandi samninga að því er skattareglur snertir, t.d. ákvæði aðstoðarsamnings um að Alusuisse sjái ÍSAL fyrir aðföngum á bestu fáanlegum kjörum? Svarið er nei.“

Ég sá ástæðu til að fagna þessum upplýsingum hæstv. ráðh. í annarri ræðu minni við þessa umr. utan dagskrár með svofelldum orðum, með leyfi forseta.

„Það vakti athygli mína afdráttarlaust svar hæstv. ráðh. við 4. lið fyrirspurnarinnar. Ég fagna því að það skuli ekki hafa verið gefinn neinn ádráttur um túlkun á aðstoðarsamningi - rekstri um bestukjaraákvæði. Ég tók eftir því að hv. 2. þm. Reykn. hlýddi á mál mitt, samningamaðurinn Gunnar G. Schram, og ég túlka hans þögn hér í þessu máli þannig að þessar upplýsingar séu tryggar og efa það ekki að eftir gangi þegar öll mál sem þessu tengjast niður í smáatriði verða upplýst hér á hv. Alþingi innan fárra vikna.“

Síðan líða 10 dagar. Þá kemur hér fram á Alþingi frv. sem hæstv. ráðh. hafði fyrirliggjandi í drögum undirritað af samninganefnd sinni þegar hann svaraði fsp. mínum hér á Alþingi. Og hvað kemur á daginn þegar það frv. er opnað? Reyndist neitandi svar ráðh. vera á rökum reist? Við skulum fletta upp á bls. 43 í þessu frv., þar sem er að finna fylgiskjal B með þriðja viðauka við aðstoðarsamning — rekstur. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Málsgrein 2.03 í aðstoðarsamningi — rekstri er hér með breytt með því að fella niður orðin „með bestu skilmálum og skilyrðum, sem fyrir hendi eru“ í lok síðasta málsliðar í staflið (c), setja punkt á eftir orðinu „hráefni“ næst á undan þeim orðum og bæta þar á eftir inn nýjum málslið, svo hljóðandi,“ sem þar stendur:

„Hvenær sem hráefni þessi eða önnur aðföng eru, eftir ákvörðun Alusuisse og ÍSALs, útveguð eða keypt frá aðilum öðrum en Alusuisse eða dótturfélögum Alusuisse eða öðrum hluthöfum í ISAL, mun Alusuisse leitast við að tryggja að sú útvegun og innkaup eigi sér stað fyrir ÍSAL með bestu skilmálum og skilyrðum, sem fyrir hendi eru.“

Breytingin á aðstoðarsamningi — rekstri er fólgin í því að nú eru Alusuisse og öll dótturfélög þess fríuð við að sjá ÍSAL fyrir aðföngum með bestu fáanlegum skilyrðum. Það er aðeins ef um þriðja utanaðkomandi aðila er að ræða sem í reynd skiptir litlu sem engu máli eins og rekstri álversins í Straumsvík hefur verið háttað á undanförnum árum frá því að fyrirtækið hóf starfsemi.

Hér er svo alvarlegt mál á ferðinni að ég hlýt að óska eftir því að hæstv. ráðh. geri grein fyrir því hér við þessa umr. hvernig í ósköpunum það má gerast að hann við tiltekinni og hnitmiðaðri spurningu hér á Alþingi Íslendinga svarar neitandi atriðum sem hann er búinn að láta sína samninganefndarmenn skrifa upp á. Og samninganefndarmaðurinn dr. Gunnar G. Schram, hv. 2. þm. Reykn., situr hljóður og hnípinn og sér ekki ástæðu til að koma samflokksmanni sínum til hjálpar hafi hann talið hann fara með fleipur, og ég verð þó að ætla að a.m.k. þessi hv. þm. hafi vitað hvað hér var á ferðinni. Er það svo um fleiri atriði í þessu máli? Er það svo að hæstv. iðnrh., sem í nóv. 1983 hét því á Alþingi Íslendinga að upplýsa þingið í öllum smáatriðum um gang þessara mála, endurtók það 10. maí s.l., standi síðan uppi sem ósannindamaður í sambandi við einn gildasta þátt þeirrar endurskoðunar sem snýr að skattamálum sem hér er um að ræða? Hvar er komið okkar hag? Hvar er komið stöðu okkar gagnvart öflugum viðsemjanda ef pólitískir áhrifamenn og íslenskir ábyrgðarmenn sjá ekki fótum sínum forráð með öðrum hætti en hér hefur verið rakið? Það er sannarlega dökkt fyrir stafni þegar horft er til framhalds þeirra mála sem óuppgerð eru.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara að rekja fleiri dæmi um brigður í sambandi við yfirlýsingar hæstv. núverandi iðnrh. um þetta mál þó að þau megi finna með tilvitnunum í þingtíðindi — brigður á því að upplýsa Alþingi um stöðu mála og jafnframt að koma fram í rauninni með málflutning sem með öllu er óeðlilegt að hagsmunagæslumaður Íslands í máli sem þessu hafi uppi, málflutning sem væri gagnaðilans að setja fram og upplýsa. Ég skal nefna eitt dæmi um það:

Hæstv. ráðh. hélt því fram lengi vel í þessu máli að hann ætlaði að láta deilumálin um skattsvik Alusuisse á liðnum árum ganga til dóms, þar skyldi ekkert undan skorið. Og í bráðabirgðasamkomulaginu, sem hann stóð að í sept. 1983, var ekki að finna nokkur minnstu tengsl á milli skattadeilnanna, sem áttu að afgreiða með skjótvirkum og vinsamlegum hætti, annars vegar og hins vegar frambúðarsamninga um stöðu ÍSALs áframhaldandi. Engin tengsl. En hver er það sem kemur síðan með þau mál samtvinnuð fram fyrir alþjóð? Var það Alusuisse sem var látið hafa fyrir því að tvinna þráðinn, tvinna þessi mál saman í samningaviðræðum og tefla þeim fram fyrir alþjóð? Nei. Þess gerðist ekki þörf. Það var hæstv. iðnrh. landsins sem tók af þeim ómakið og sagði fjölmiðlum, m.a. dagblaðinu Tímanum, í marsmánuði 1984 að sennilega væri alls ekki hægt að ganga frá þessum samningamálum við Alusuisse um framtíðarmálefni og endurskoðun raforkuverðs fyrr en búið væri að ganga frá gömlu deilumálunum. Í maí taldi hann hins vegar að þau ættu að leiða til lykta með dómi eða dómsígildi. En í júlímánuði upplýsir hann nú við umr. hér áðan að honum hafi snúist hugur, það hafi verið þau boð í frammi höfð að hann hafi endurskoðað þessa afstöðu sína og ákveðið að fallast á kröfu Alusuisse um að skipta upp pakkanum, taka út úr skattadeilumálin og raforkuverðið og skilja skattareglu framtíðarinnar eftir og samninga um stækkun álversins.

Við fréttum hins vegar ekki af því með nákvæmum hætti á þeim tíma. Ég varð ekki var við það í fjölmiðlum. Og nú er komið sem komið er að Alþingi Íslendinga stendur frammi fyrir frv. til laga um breytingu á hluta af álsamningunum með annan hlutann ófrágenginn og það með þeim hætti að þinginu er ekki kleift að hagga þar nokkrum hlut, annaðhvort skal það samþykkja eða synja. Ríkisstj. hefur skuldbundið sig. Málið er þannig frá gengið samningslega að það er ekkert val fyrir Alþingi.

Hér er með öllu ósæmilega að verki staðið. Og þegar svo er farið að líta í innihald þessa frumvarps, í þennan hluta pakkans sem fram hefur verið reiddur, tekur því miður ekki betra við. Það ætti að vera auðvelt fyrir Alþingi að gera upp hug sinn í þessu máli, forða því að hér hendi enn eitt slys, fjórði ósigurinn í samskiptum okkar við Alusuisse, svo notað sé orðalag leiðaraliöfundar DV, fyrir tveim til þrem mánuðum þar sem hann orðaði það svo m.a. að orkuverð sem fæli í sér eitthvað minna en 17 mill á kwst. væri gjöf.

Ég ætla nú, virðulegi forseti, að líta á einstaka þætti þessa samkomulags, fara um þá nokkrum orðum, skattamálefni og raforkuverð og hina bókuðu heimild sem þar er að finna til stækkunar álversins.

Á sama tíma og hlaupist er frá því verkefni að ganga frá frambúðarreglum um greiðslur skatta af ÍSAL, sem samkvæmt bráðabirgðasamkomulaginu frá 23. sept. átti skýlaust að ljúka ásamt öðrum atriðum varðandi framtíðarstarfsemi ÍSALs og raunar fyrir 1. apríl s.l. eins og ég gat um, er nú fallist á allar kröfur, sem Alusuisse hafði sett fram á fyrri stigum, um túlkun og breytingar á skattaákvæðum. Af Íslands hálfu er þar engu til haga haldið, en auðhringnum í leiðinni veitt fortakslaus syndakvittun vegna skattsvika á liðnum árum.

Alusuisse var, eins og þegar hefur raunar komið fram í fjölmiðlum, með gjörtapaða stöðu fyrir dómnefndunum og það má segja að hæstv. iðnrh. hafi staðfest það, þótt með óbeinum hætti væri, í framsögu sinni áðan, gjörtapaða stöðu fyrir þeim nefndum sem komið var á fót í fyrra að kröfu auðhringsins í staðinn fyrir gerðardóm sem málið var komið til í tíð fyrri ríkisstjórnar í samræmi við ákvæði aðalsamningsins um álverið frá 1966. Út úr þessari klemmu, sem auðhringurinn var staddur í á liðnu sumri, hleypir ríkisstj. honum gegn 100 millj. kr. eða 3 millj. Bandaríkjadala greiðslu sem svarar tæplega þriðjungi af upphaflegri kröfugerð um viðbótarskattgreiðslur og verðlaunar Alusuisse í leiðinni með margvíslegum hætti. Tölulega séð, eins og ég hef getið, sér enginn fyrir endann á því nú hvern beinan hag þetta fjölþjóðafyrirtæki hefur af þeirri undanlátssemi, en engum, jafnvel ekki hæstv. núverandi iðnrh., mun koma í hug að staðhæfa að þar hafi verið skipt á sléttu í skattamálum.

Auðvitað felst í þeirri staðreynd, að Alusuisse greiðir íslenska ríkinu að nafninu til 100 millj. kr. til að forða sér frá úrskurði dómnefndanna, viðurkenning auðhringsins á „hækkun í hafi“ eða „transfer pricing“, eins og það er kallað á ensku máli, og öðrum bókhaldsfölsunum gagnvart dótturfyrirtækinu í Straumsvík. Enginn sem kærður er fyrir skattsvik innir slíkar greiðslur af hendi að ástæðulausu, síst af öllu hinir harðdrægu samningamenn frá Zürich. Sakaruppgjöfin, sem svo vandlega er pakkað inn í orðalag sáttargerðarsamningsins eins og hann er kallaður á fylgiskjali V með þessu frv., er þannig að jafnvel hæstv. iðnrh. ætti að verða flökurt þegar hún er lesin yfir, en skiptir Alusuisse hins vegar miklu meira máli en 3 millj. eða 10 millj. Bandaríkjadala, hvort sem um væri að ræða. Upphafleg kröfugerð íslenska ríkisins um viðbótarskatta hljóðaði upp á 10 millj. dala.

Fjölþjóðafyrirtæki, sem fær á sig dóm og er þannig sannað að sök, fellur í áliti um allan heim. Það blikkar rauðu í öllum bankastofnunum og kauphöllum frá Zürich til Wall Street, frá Sidney til Lundúna. Hlutabréfin falla í verði og stólarnir verða fljótt valtir undir forstjórunum í Zürich. Syndakvittunina kölluðu þeir dr. Müller og dr. Weibel, sem ég átti tal við hér á árum fyrr, gjarnan hvíta skyrtu. Og þeir lágu á hnjánum frammi fyrir gömlum vinum sínum hérlendis og báðu þá ásjár til að þvo af sér aurinn og blettina sem þeir töldu að fallið hefðu á ásýnd fyrirtækisins vegna þessa skattsvikamáls. Í þessum ótta og gífurlegu hagsmunum, sem í húfi voru fyrir auðhringinn, fólst styrkur Íslands. En áhrifamiklir stjórnmálamenn hérlendis, innan og utan ríkisstjórnar, neituðu að taka mark á þeirri staðreynd, sumir kannske vegna fákunnáttu um málavexti, og sökuðu mig og minn flokk, Albb., um sérstaka kveistni og ósanngirni gagnvart auðhringnum sem ylli því að hann fengist ekki til að margfalda raforkuverðið, nánast á stundinni mátti skilja. Það var talað um „ásakanir“ mínar í garð auðhringsins og „þjark um sviksamlegt athæfi“, svo að notað sé orðalag hæstv. núverandi forsrh. frá aprílmánuði 1983, en hann „hefði tafið“, eins og hann orðaði það í viðtali við Tímann þá, „satt að segja allar viðræður í hálft annað ár.“

Nú hefur iðnrh. hæstv. og ríkisstj. undir forsæti sama manns afhent Alusuisse hvítu skyrtuna margumbeðnu eftir 17 mánaða þjark og gefið þeim dr. sorato og dr. Ernst kjólföt í kaupbæti. Hvíta skyrtan er afhent með svofelldum orðum í sáttargerðarsamningi. - Ég má til með að lesa smákafla, herra forseti, upp fyrir hv. þdm. Hann er ekki langur, en er að finna á bls. 49 í frv. Þar segir:

„Ríkisstjórnin samþykkir að leysa Alusuisse og ÍSAL, og leysir þau hér með, frá öllum kröfum hverju nafni sem nefnast, að lögum, eðli máls eða í öðru tilliti, þar á meðal öllum kröfum þegar gerðum fyrir dómnefndunum... sem ríkisstjórnin hefur nokkru sinn átt, á nú eða getur hér eftir átt eða mundi eiga gegn Alusuisse eða ÍSAL af hvaða atvikum eða orsökum sem er, sem nú eru fyrir hendi eða hafa gerst fram á þann dag, sem greinir hér í upphafi, að undanskildum sérhverjum kröfum sem ríkisstjórnin kann að eiga í tengslum við framleiðslugjaldsskyldu ÍSALs fyrir árið 1984.“

Það var mikið að aflausnin skyldi ekki líka látin gilda fyrir yfirstandandi ár. En raunar gildir hún um mörg atriði varðandi skattgreiðslur fram í tímann og kem ég þá að kjólfötunum sem fylgja hvítu skyrtunni frá hæstv. iðnrh. Sverri Hermannssyni og hæstv. fjmrh. sem falla nú frá öllum kröfum sem ríkisstj. hefur nokkru sinni átt, á nú eða getur hér eftir átt eða mundi eiga gegn Alusuisse eða ÍSAL af hvaða atvikum eða orsökum sem það er.

Ég vil rekja hér í aðalatriðum þær breytingar sem gerðar eru í aðalsamningi og aðstoðarsamningi um rekstur og snerta skattaákvæði og allar eru Alusuisse í vil.

Aðstoðarsamningi um rekstur er breytt á afgerandi hátt, eins og ég hef þegar minnst á í sambandi við alrangar upplýsingar hæstv. ráðh. til Alþingis 25. okt. s.l. Með breytingunni er Alusuisse leyst undan þeirri kvöð samkvæmt núgildandi samningum að færa sér í nyt viðskiptasambönd sín til að aðstoða ÍSAL og tryggja ÍSAL áframhaldandi og jafnt framboð af hráefnum með bestu skilmálum og skilyrðum sem fyrir hendi eru, svo vitnað sé í orðalag núgildandi samnings. Sem kunnugt er selur Alusuisse sjálft ÍSAL mestöll aðföng til álbræðslunnar í Straumsvík, m.a. súrál frá eigin verksmiðju í Ástralíu, og rafskaut frá eigin rafskautaverksmiðju í Hollandi, og kaupir af ÍSAL framleitt ál. Fyrir þessa þjónustu, sem svo er kölluð samkvæmt aðstoðarsamningi um rekstur, greiðir ÍSAL Alusuisse hvorki meira né minna en 2.2% af brúttótekjum ÍSALs af sölu á áli og auk þess 1.5% samkvæmt aðstoðarsamningi fyrir að sjá um sölu afurða álbræðslunnar í Straumsvík. Þessi þjónustugjöld svokölluð eða þóknanir upp á 3.7% af brúttótekjum ÍSALs fær fyrirtækið að draga frá hagnaði fyrir skatta og hér eru engar smáupphæðir á ferðinni. Þjónustu þessa annaðist Alusuisse hins vegar með þeim ágætum, að mati endurskoðunarfyrirtækisins Coopers & Lybrand á árunum 1975–1983, að draga undan skatti 60 millj. Bandaríkjadala. Ætli það svari ekki til eitthvað á þriðja milljarð ísl. kr. samkvæmt núverandi gengisskráningu, ég hef ekki litið eftir henni nákvæmlega, hver hún er í dag, eftir gengisfellinguna í gær. Jafnframt var ÍSAL látið safna — og það skiptir ekki minna máli — bókhaldslegum skuldum í svo ríkum mæli að leitun er á slíku hjá álbræðslum þannig að bræðslan má teljast bókhaldslega gjaldþrota, allt til þess að komast hjá skattgreiðslum í framtíðinni þegar afskriftir lækka stórlega og erfiðara hefði að óbreyttu orðið að beita svikamyllunni sem þekkt er undir heitinu „hækkun í hafi“. Það er raunar rangt, sem fram kom hjá hæstv. iðnrh. hér á Alþingi 23. okt. s.l. er hann svaraði fyrirspurn minni um endurskoðun ársreikninga ÍSALs vegna 1983, að leiðrétting Coopers & Lybrand um nær 10 millj. dollara fyrir það ár hafi ekki áhrif á skattgreiðslur vegna bókhaldslegs taps ÍSALs þetta ár sem talið var 11.5 millj. dollara. Með því að brúa þetta bókhaldslega tap áfram með lántökum er Alusuisse að draga úr hagnaði og um leið skattgreiðslum á komandi árum. En af slíkum smámunum þarf auðhringurinn raunar ekki að hafa áhyggjur framar, ef Alþingi skrifar upp á þann samning sem hér er leitað staðfestingar á, því að syndakvittunin nær einnig til ársins 1983. Efnisbreytingin á aðstoðarsamningi um rekstur er í því fólgin, eins og ég gat um áðan, að nú eru undanskilin aðföng keypt frá Alusuisse eða dótturfélögum Alusuisse, þ.e. nær öll aðföng til álbræðslunnar, en eftir stendur óbreytt skattfrjáls þóknun til Alusuisse sem nemur 2.2% af brúttótekjum.

Hér er raunverulega verið að leggja til að Alþingi lögheimili svikamylluna „hækkun í hafi“ eða „transfer pricing“ og eigi þau sérstæðu fríðindi einnig að gilda sem tálbeita fyrir hugsanlegan þriðja aðila sem yrði hluthafi að fyrirtækinu við stækkun bræðslunnar, eins og hæstv. ráðh. gat um hér í framsöguræðu sinni áðan.

Við umræður um upphaflegu álsamningana 1966 vísaði þáverandi iðnrh. Jóhann Hafstein sérstaklega til ákvæða eins og hann orðaði það „um skyldur Alusuisse til að útvega hráefni til bræðslunnar og selja framleiðslu hennar með hagstæðum kjörum“, sem tryggingu fyrir réttlátum skattgreiðslum. Nú er þeim ákvæðum kastað út í vindinn og hæstv. iðnrh. gerist í leiðinni ósannindamaður gagnvart Alþingi. Ætli megi ekki segja að hér hæfi skel kjafti?

Annað atriði, um fyrningar.

Með samkomulaginu frá Zürich er fallist á þá kröfu Alusuisse að afskrifa megi mengunarvarnabúnaðinn sem komið hefur verið upp í álverinu eftir mikla eftirgangsmuni og það á 8 árum í stað 15 ára. Gengur þetta þvert á sjónarmið og tæknilega úttekt ráðgjafa iðnrn. og með þessu ákvæði einu eru færðar nokkrar millj. dollara til tekna fyrir Alusuisse á ári hverju. Rök samninganefndar ríkisstj. fyrir þessari meðgjöf eru þau ein að þessi breyting á afskriftatíma styðjist við, eins og hún telur, „eðlileg sjónarmið“. Alls skipta eftirstöðvar afskriftastofna vegna mengunarvarnabúnaðar háum upphæðum, eins og rakið er í frv.

Í þriðja lagi varðandi varasjóð og viðurlög.

Í upphaflegu álsamningunum voru engin ákvæði sett um varasjóð sem leggja mætti í fjármuni til frádráttar skattskyldum tekjum. Við endurskoðun 1975 var að hluta fallist á kröfu Alusuisse um slíkan varasjóð, en nú er gengið lengra með því að veita fullkomið frelsi varðandi slíkan varasjóð upp að 20% markinu, svipað og hjá íslenskum hlutafélögum, með heimild sem er að finna á bls. 3 í frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

„ÍSAL á hvenær sem er rétt til að inna framlag í varasjóðinn á hverju tilteknu ári, og að hækka eða lækka hvert það framlag til að halda samræmi við þá takmörkun um 20%, sem sett er hér að ofan, þar til nettóhagnaður ÍSALs fyrir það ár hefur verið endanlega staðfestur með samkomulagi milli ríkisstjórnarinnar og Alusuisse eða endanlega ákvarðaður með öðrum hætti samkvæmt samningi þessum.“

Þannig fær ÍSAL að njóta fríðinda íslenskra skattalaga til viðbótar því að vera undanþegið íslenskum skattareglum um viðurlög vegna óframtalins og ógreidds framleiðslugjalds, en sú undanþága er einstæð gagnvart fyrirtækjum hérlendis. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann eigi miklu ólokið af ræðu sinni?) Virðulegi forseti. Það eru nokkrar blaðsíður samkvæmt texta. Ég gæti giskað á um 15 mín. í töluðu máli eða sem því nemur. (Forseti: Nú er liðinn fundartími deildarinnar, þannig að ég hygg að við munum fresta fundi ef því er ekki mótmælt. Fundi er nú frestað til kl. hálfsex.) — (Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég er reiðubúinn fyrir mitt leyti að halda áfram máli mínu, en kynni þá betur við að hv. iðnrh. væri í salnum áður en ég tek til þess sem frá var horfið. (Forseti: Iðnrh. var kominn í salinn en hann hefur gengið út. Það verða gerðar ráðstafanir til þess að láta hann vita.) Ég var þar kominn í máli mínu að fjalla um einstaka þætti skatta, mála og ívilnana til Alusuisse. Ég tek næst fyrir það sem snýr að breytingum á aðalsamningi varðandi endurskoðun ársreikninga ÍSALs.

Með ákvæðum í gr. 2.04 í frv. er enn látið undan kröfum Alusuisse, eins og í þeim þáttum sem ég gat um áður, og hér reynt að fyrirbyggja að íslensk skattyfirvöld geti leiðrétt ársreikninga 1SALs hvað skattbyrði snertir aftur í tímann þótt í ljós komi að fyrirtækinu hafi ekki verið gert að greiða skatta af öllum tekjum sínum á reikningsárinu. Um þetta segir svo varðandi breytingu á gr. 29.07 í aðalsamningi á bls. 4 í frv., með leyfi forseta:

„Endurskoðun endurreiknings skýrslunnar, sem ríkisstj. lætur fram fara, skal lokið og niðurstöður hennar tilkynntar ÍSAL eigi síðar en 1. sept. á endurreikningsárinu. Hafi endurskoðuninni ekki verið þannig lokið og niðurstöður hennar þannig tilkynntar ÍSAL er ekki unnt að vefengja framleiðslugjaldsskyldu ÍSALs fyrir umrætt ár eftir 1. sept. á endurreikningsárinu.“

Með þessu ákvæði er Ísland sem fullvalda ríki að afsala sér þeim mikilvæga rétti sem felst í skattmati. Á sama tíma er ekki gerð nein tilraun til að lögskylda Alusuisse til að gefa upplýsingar og afhenda gögn sem máli skipta vegna skattamála ÍSALs þrátt fyrir þá óskemmtilegu reynslu sem fyrir liggur um þau efni frá liðnum árum. En fyrirtækið hefur ítrekað neitað alþjóðlegum endurskoðendum um aðgang að upplýsingum í sambandi við mat á verði aðfanga. Hér er enn eitt dæmið um einhliða fríðindi og eftirgjöf gagnvart Alusuisse og það þrátt fyrir að ólokið er sem sérstöku viðfangsefni að fjalla um skattareglur fyrir ÍSAL. Hér hefur Alusuisse sem víðar fengið að ná forskoti á sæluna gagnvart íslenskum stjórnvöldum og Alþingi er ætlað að innsigla hér óhæfuna.

Í fimmta lagi nefndi ég skuldajöfnun við skattinneign svokallaða. Þar er um að ræða atriði sem myndar dreggjarnar í þeim bikar sem hér er réttur að Alþingi. Það snýr að hinni svonefndu skattinneign ÍSALs sem var til fyrir endurskoðun álsamninganna 1975. Við þá endurskoðun samdi þáv. samninganefnd um það þvert ofan í ráðgjöf bandarískra lögfræðinga, sem leitað var álits hjá, að þessi upphæð, sem nam þá rúmum 4 millj. Bandaríkjadala, skyldi færð ÍSAL til eignar. Með endurákvörðun á skattgreiðslum ÍSALs í tíð fyrri ríkisstj. og ákvörðunum Ragnars Arnalds sem fjmrh. var þessi inneign öll tekin upp í vangreitt framleiðslugjald álversins og krafa gerð um nær 6 millj. dollara greiðslu til viðbótar eða samtals um 10 millj. dollara. Nú er sú stjórnvaldsathöfn að engu gerð með sáttargerðarsamningnum svonefnda. Skattinneignin er færð til baka til ÍSALs og sett á hæstu dollaravexti þannig að hún reiknast nú vera um 7 millj. dollarar. Síðan er kveðið á um það með breytingum skv. lið 2.07 í frv. að aflausnargjaldið upp á 3 millj. dollara vegna skattsvika fyrri ára skuli fært til frádráttar á þessari sérstæðu skattinneign. Kemur þá í ljós að hún svarar til vaxta sem safnast hafa upp á þetta gjafafé til ÍSALs frá árinu 1975 að telja. Syndakvittunin verður fyrirtækinu því ekki sérlega þungbær. Hér er nánast um millifærslu að ræða gagnvart þeim vöxtum sem skattinneignin hefur á sig hlaðið.

Það er ekki óeðlilegt að spurt sé hvort það hafi verið ofætlan gagnvart íslensku samninganefndinni að hnekkja ákvæðum samningsins frá 1975 varðandi skattinneign ÍSALs og slétta a.m.k. reikningana hvað þetta varðar þannig að hún hyrfi úr sögunni í eitt skipti fyrir öll. Slíkt hefði alltént dregið úr þeim ófarnaði og hrapalegu niðurstöðu sem eftir stendur varðandi skattaþáttinn það sem af er í þessari samningsgerð að því er skatta áhrærir. Það eru hins vegar enn ekki öll kurl komin til grafar. Samninganefndir aðila ætla sér tíma fram til 1. júní 1985 til að fjalla um önnur atriði skattamála. Ekki er þó líklegt að neitt verði aftur tekið af því sem Alusuisse er veitt í forgjöf skv. samningnum frá 5. nóv. s.l.

Herra forseti. Ég vík þá að öðrum gildum efnisþætti þessa máls, þ.e. breytingu á rafmagnssamningnum milli Landsvirkjunar og ÍSALs sem er að finna í fskj. með frv. Ég vil geta þess strax að fulltrúi Alþb. í stjórn Landsvirkjunar, Ólafur Ragnar Grímsson fyrrv. alþm., greiddi atkv. gegn samningnum og fylgdi atkv. hans bókun sem ég tel rétt að koma hér á framfæri. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þegar Alþb. undir forustu fyrrv. iðnrh. hóf baráttu fyrir hærra orkuverði til Alusuisse og sýndi fram á svik fyrirtækisins í viðskiptum við Íslendinga voru margir aðstandendur ÍSALs-samningsins andvígir þessari stefnu. Þeir töldu gildandi samning góðan og vöruðu við ásökunum í garð Alusuisse. Niðurstaða viðræðnanna við Alusuisse nú felur í sér fulla viðurkenningu á kröfunni um endurskoðunarrétt. Alusuisse hefur nú samþykkt að tvöfalda orkuverðið og játa sekt sína með því að fallast á 100 millj. kr. sektargreiðslu. Þessum áfanga í baráttunni ber því að fagna. Hann er ávöxtur þess mikla undirbúningsstarfs sem fyrrv. iðnrh. hafði forustu um. Engu að síður er fyrirliggjandi niðurstaða í uppkasti að nýjum samningi engan veginn viðunandi. Helstu ástæðurnar eru þessar:

1. Orkuverðið til Alusuisse yrði skv. hinum nýja samningi töluvert undir kostnaðarverði á framleiddu rafmagni í núverandi virkjanakerfi Landsvirkjunar. Orkuverðið samrýmist því ekki þeim arðgjafarkröfum sem gera verður ef eðlileg uppbygging Landsvirkjunar á heilbrigðum fjárhagsgrundvelli á að verða að veruleika.

2. Með þessum samningi er Landsvirkjun að halda inn á þá hættulegu braut að tengja orkuverð afkomu stóriðjufyrirtækjanna og heimsmarkaðsverði á málmum. Engin alvarleg umræða hefur farið fram í stjórn Landsvirkjunar um slíka stefnu í sölumálum þótt undirritaður hafi á s.l. tólf mánuðum ítrekað óskað eftir að hún fari fram.

3. Nýlega hafa verið gerðir samningar og felldur gerðardómsúrskurður um orkuverð til álvera í Grikklandi og Ghana sem gefa mun hærra verð en þessi samningur.

4. Orkuverð til ÍSALs yrði áfram verulega minna en orkuverðið sem Alusuisse þarf að greiða í öðrum löndum.

5. Endurskoðunarákvæðin í samningnum eru mjög óljós og Íslendingum óhagstæð. Þau veita ekki vonir um að hægt verði að hækka orkuverðið eftir fimm ár.

6. Áhrif verðbólgu og gengisbreytinga eru mjög vanmetin í samningnum og munu, ef ekki fæst veruleg bót við endurskoðun eftir fimm ár, gera samninginn í framtíðinni verulega óhagstæðari en hann er nú.

Auk þessara sex ástæðna er óhjákvæmilegt að geta þess að Alusuisse er sleppt við að hlíta úrskurði gerðardóms í deilumálum fyrri ára. Fyrirtækið fær að sleppa með 100 millj. kr. sekt þegar krafa Íslendinga um endurskoðun var þrisvar sinnum hærri. Enda sýna nýjar upplýsingar um árið 1983 að Alusuisse heldur áfram fyrri svikum. Einnig á eftir að semja um ný skattaákvæði og bendir ýmislegt til að þar geti Alusuisse fengið til baka hluta af þeirri orkuverðshækkun sem felst í hinum nýja samningi. Til viðbótar kemur svo hagnaðurinn sem launastefna ríkisstjórnarinnar hefur fært fyrirtækinu í gegnum fjórðungsskerðingu á launagreiðslum til starfsmanna ÍSALs. Því er ljóst að reikningsuppgjör Íslendinga og Alusuisse er enn í ósamræmi við hagsmuni og eðlilegar kröfur Íslendinga. Með vísun til fyrrgreindra atriða greiði ég atkv. gegn hinum nýja samningi og legg til að stjórn Landsvirkjunar hefji umræður um ný vinnubrögð og aðrar leiðir í samningum við stóriðjufyrirtæki.“

Þetta er bókun fulltrúa Alþb. í stjórn Landsvirkjunar, Ólafs Ragnars Grímssonar, á fundi stjórnarinnar hinn 1. nóvember 1984, þegar greidd voru atkv. um rafmagnssamninginn sem þá lá fyrir í Landsvirkjun til afgreiðslu.

Í þessari bókun koma fram meginatriði í þeirri gagnrýni sem Alþb. hefur fram sett í sambandi við þennan endurskoðaða raforkusamning. Við teljum það að sjálfsögðu til bóta að á honum fáist leiðrétting og vissulega er þarna um breytingu að ræða sem stefnir í rétta átt. Hins vegar eru einnig slíkir agnúar á þessum rafmagnssamningi að Alþb. telur fjarri lagi að hægt sé að greiða atkv. með honum jafnvel þótt hann einn út af fyrir sig lægi hér fyrir. staðan, eins og hún hefur verið í þessu máli, átti að gefa kost á allt annarri og hagstæðari niðurstöðu varðandi raforkuverðið. Ég vil geta þess líka að varamaður Alþb. í stjórn Landsvirkjunar, Finnbogi Jónsson hagfræðingur og verkfræðingur, varaði við þeim samningsdrögum, sem kynnt voru á fundi stjórnar Landsvirkjunar 4. okt., og taldi það ótímabært að taka afstöðu til þeirra eins og þau lágu þá fyrir fundi eins og til hafði verið ætlast.

Þess ber að geta þegar litið er á það verð, sem gert er ráð fyrir í þessum rafmagnssamningi, að meðalframleiðslukostnaður raforku úr kerfi Landsvirkjunar nú er skv. bókhaldi og ársreikningum fyrirtækisins um 20 mill á kwst. Skv. áætlunum Landsvirkjunar um framleiðslukostnað út úr kerfinu fer þetta verð hækkandi á þessu ári og hinu næsta. Þess má jafnframt geta að þegar þessar tölur eru athugaðar er engan veginn öllu til haga haldið sem snertir raunverulegan framleiðslukostnað raforku ójá Landsvirkjun. Farið hefur verið yfir það og sýnt fram á það tölulega að varleg áætlun um raunverulegan framleiðslukostnað úr kerfi Landsvirkjunar á næstu árum sé að minnsta kosti nálægt 23 millum á kwst. og jafnvel nokkuð þar til viðbótar. Þetta þýðir að jafnvel þó að við gerum ráð fyrir að orkusalan til stórnotenda sé lægri en nemur meðalframleiðslukostnaði, eins og ýmis rök hafa verið leidd að, þá þurfi raforkan til stóriðjunotenda nú, til þess að standa undir sem nemur 2/3 af kostnaðarverði sem almenningsveitum er ætlað að greiða, að vera mjög nálægt 20 millum á kwst., ekki öllu lægra en það, ef öllum kostnaðarþáttum, þar með fjármagnskostnaði, er til haga haldið. Þetta eru staðreyndir sem menn verða að hafa fyrir augum þegar litið er á þennan samning sem stjórn Landsvirkjunar að meiri hluta til hefur þegar samþykkt.

Hver eru þau mörk sem sett eru í þessum raforkusamningi? Þau hafa verið kynnt og ekki ástæða til að fara yfir þau í smáatriðum af minni hálfu. En samningurinn á að gefa verð, eins og kunnugt er, á bilinu 12.5 mill til 18.5 mill á kwst. Þessi rammi á að gilda til 20 ára með tengingu við álverð. En vel að merkja — og það skiptir mestu í þessu sambandi — bæði hámarks- og lágmarksákvæðið í rafmagnssamningnum er óverðtryggt.

Ef litið er til viðmiðunar á álverð, eins og það er nú, er ljóst að á yfirstandandi ársfjórðungi gæfi þessi samningur aðeins raforkuverð sem væri á bilinu 12.513 mill. Sýnilegt er að lágmarksverðið, botninn, 12.5 mill, yrði það raforkuverð sem Landsvirkjun fengi greitt á kwst. á fyrsta ársfjórðungi komandi árs 1985 vegna þeirrar verðþróunar sem verið hefur á áli og þeirra viðmiðana sem samningurinn gerir ráð fyrir.

Það skýtur mjög skökku við þegar hæstv. ráðh. og reiknimeistarar þeir, sem að baki standa hans orðum og ég hygg að séu starfsmenn Landsvirkjunar, eru að reyna að halda því fram hér að eitthvert grunnverð í þessum samningi sé 15 mill. Það hafa ekki sést öllu ómerkilegri blekkingar að mínu mati en þessi talnaleikur, einhvers konar meðaltalstala á milli 12.5 og 18.5. Það er svo langt frá því að þar sé um eitthvert grunnverð að ræða. Það verður þeim mun ljósara þegar litið er á bjartsýnar áætlanir Landsvirkjunar og þeirra sérfræðinga, sem hún styðst við, varðandi verðþróun á áli á næstu fimm árum. Þá kemur í ljós, eins og hæstv. iðnrh. raunar upplýsti hér sjálfur aðspurður 25. okt. s.l., að það meðalverð, sem gert er ráð fyrir að samningurinn skili Landsvirkjun á verðlagi ársins 1984, er ekki 15 mill, ekki 18.5 mill, því að það hámark kemur þarna hvergi við sögu, heldur 13.7 mill. Ég ítreka að þessi tala er skv. spám um þróun á álverði sem að margra mati teljast vera bjartsýnar.

Menn vilja benda á að í þessum rammasamningi séu endurskoðunarákvæði. Ég mundi sannarlega fagna því, ef svo illa tekst til að þessi samningur verði hér samþykktur á hv. Alþingi, að slík endurskoðunarákvæði gætu gefið Íslandi viðspyrnu til endurskoðunar á samningnum, rafmagnssamningnum sem öðrum þáttum, að fimm árum liðnum. En varðandi raforkuverðið eru sýnilega miklir agnúar á að slíkt verði. Það er jafnframt sýnilegt miðað við tiltölulega hógværa spá um verðbólguþróun og þá staðreynd að hámarks- og lágmarksákvæðin eru óverðtryggð, að raforkuverðið á samningstímanum, 20 árum, miðað við að ekki fáist endurskoðun á því, yrði vegna verðrýrnunar að raungildi aðeins um 10.3 mill miðað við núverandi verðlag og heldur hærra á fyrstu 5 árunum en á seinni 15 árunum. Miðað við áætlun um 5% eða 5.7% verðbólgu, sem sérfræðingar Landsvirkjunar byggja sinn útreikning á, yrði verðið aðeins um 9 mill á tímabilinu 1990–2004. Þegar menn líta á þessar tölur, þessar áætlanir sem byggja á gildum forsendum, sjá menn hvað þessi rafmagnssamningur felur í raun í sér. Til þess að raforkuverðið gæti talist viðunandi miðað við núverandi stöðu mála vantar 80–100% ofan á það sem þessi samningur gerir ráð fyrir og þá með tekið að ákvæðin væru raunverulega verðtryggð.

Þess má geta að skv. útreikningum miðað við verðbólguþróun á komandi árum lækkar þetta hámark 18.5 mill á samningstímabilinu. Það væri komið niður í um 6 mill við lok samningstímans og lágmarksákvæðið upp á 12.5 mill væri komið niður í 4 mill á kwst. að raungildi þegar að 20 árum liðnum. Það er því stórkostlega afdrifaríkt atriði og alveg sérstaklega ámælisvert í sambandi við þennan raforkusamning að inn í hann vantar algerlega verðtryggingu á þeim ramma sem raforkuverðinu er markaður og ætlað að hreyfast inni í miðað við þróun á áli. Einnig sú viðmiðun innan þess ramma er aðeins að hluta til verðtryggð, eða sem nemur nálægt 70% miðað við breytingar á þeim vísitölum á álverði sem þar er við miðað.

Á endurskoðun ákvæða samningsins er vísað sem einhvers konar haldreipi. En það er sannarlega veikur þráður, svo ekki sé meira sagt, því að krafan um endurskoðun er bundin því að orðið hafi ófyrirséð breyting til hins verra sem hafi í för með sér alvarleg áhrif á efnahagsstöðu Landsvirkjunar eða ÍSALs. Verðbólguþróun á dollara, sem nemur 5% t.d., er engin ófyrirséð breyting sem hægt sé að vísa til í sambandi við endurskoðun á þessum rafmagnssamningi. Ég held að það séu vandfundnir þeir sérfræðingar í efnahagsmálum sem ekki gera ráð fyrir slíkri verðbólgu. Og ákvæðið um alvarleg áhrif á efnahagsstöðu aðila, Landsvirkjunar eða ÍSALs, veldur því að skírskotun til breytinga á orkuverði almennt í heiminum er ekki til sem rök í sambandi við endurskoðunarkröfur skv. þeim ákvæðum sem er að finna í þessum samningi. Vonandi væri hægt að finna rök fyrir því að öðru leyti. En hér etum við þó búin að skrifa upp á formúlu sem alveg er ljóst að gagnaðilinn mun halda í í rauðan dauðann til að verja sína hagsmuni. Því er það eðlilegt mat, sem heyrist frá mönnum sem á þessi mál líta, að þetta endurskoðunarákvæði geti í reynd gert aðstöðu Íslendinga erfiðari en er skv. gildandi samningi til þess að ná fram endurskoðun og leiðréttingum á þessum rafmagnssamningi.

Við skulum líka veita því athygli að ákvæðið er gagnkvæmt. Einnig ÍSAL og eigandi þess, Alusuisse, geta gert kröfu til breytinga á raforkuverðinu og þá væntanlega til lækkunar sér í hag. Það er ekki að efa að slíkar gagnkröfur munu koma fram þegar á á að herða. Endurskoðunarleiðin og það ferli sem markað er skv. samningnum er einnig afar flókin og torsótt leið eins og öllum má ljóst vera sem fara yfir það mál. Frá hvaða tíma á t.d. endurskoðað raforkuverð að gilda? Ég hef kannske ekki lesið nógu grannt í málið til að sjá hvort það er inni í þessum samningi og inni hæstv. ráðh. eftir því. Ætti endurskoðað verð að gilda nákvæmlega 5 árum frá gildistöku samningsins og þá afturvirkt eftir að búið er að fara í gegnum þær veltur sem gert er ráð fyrir að fylgi slíkri endurskoðun með tvenns konar gerðardómsmeðferð, sem skv. upplýsingum hæstv. ráðh. getur tekið fleiri ár, kannske 2, kannske 4 ár, eða ætti slíkt endurskoðað verð að gilda frá því að slíkur dómur félli? Þetta skiptir einnig máli þegar litið er á þetta ákvæði. Og ekki þarf að fjölyrða um að sú tenging sem gerð er við álverð í þessum samningi eykur á áhættu Íslendinga af rekstri álversins. Það er auðvitað matsatriði hvort menn byggja slíka tengingu inn og taka þannig á sig aukna áhættu á þessum rekstri, en eins og um hnútana er búið að öðru leyti í þessum samningi verður það að teljast meira en lítið vafasamt að taka upp slíka viðmiðun. Hér er um að ræða ferns konar vísitölur, verðviðmiðun á áli, og ein af þeim er í hendi Alusuisse sjálfs, sérstök vísitala, sem gert er ráð fyrir að þeir leggi inn í þetta púkk, og það gæti nú verið ástæða til að átta sig á því hvernig að slíkum útreikningi er staðið.

Með þessu frv. er að finna sem fskj. álitsgerð frá forstjórum Landsvirkjunar. Ég ætla ekki að fara að hafa stór orð um fjarstadda embættismenn, en ég vil þó segja að ég tel það vera satt að segja mjög furðulegt að menn í þeirri stöðu, sem rita undir þá umsögn, og einnig stjórnarmenn Landsvirkjunar, sem hafa sumir hverjir komið við sögu þessarar samningsgerðar, þar sem er formaður stjórnarinnar, skuli telja sér henta að gylla þennan rafmagnssamning með þeim hætti sem fram kemur í fskj. og sem einnig má lesa í Morgunblaðinu nú nýverið í viðtali við Halldór Jónatansson, forstjóra Landsvirkjunar, þann 17. nóv. s.l.

Það má segja, þegar litið er yfir þessar greinar og umsagnir, að þessir starfsmenn Landsvirkjunar telji þennan rafmagnssamning svo góðan, svo frábæran, að þar hefði nánast alls ekki verið hægt að gera hótinu betur, hann færi Landsvirkjun slíkan ávinning og sé svo góður, nánast hvernig sem á málið er litið, að betur hefði vart verið á kosið. Það er auðvitað spurning hversu lítilþægir menn eru í þessum efnum eða hvaða mælistiku menn leggja á samning af þessu tagi. Ég get vel skilið að menn sem hafa unað því hljóðalaust um árabil að búa við það raforkuverð sem Landsvirkjun hefur fengið í sinn hlut frá álverinu í Straumsvík séu ósköp fegnir að sjá það tvöfaldast. Mig undrar það ekki út af fyrir sig og það er vissulega breyting til bóta. En dagur er eftir þennan dag og við vorum að ræða hér endurskoðunarákvæði. Er það nú vænlegt til þess að undirbyggja stöðu Íslands varðandi endurskoðun á þessum samningi að íslenskir aðilar, sem ætlast er til að séu marktækir, reiði fram rök og sjónarmið varðandi þennan rafmagnssamning sem þeir fá síðan beint í andlitið frá gagnaðilanum þegar þeim verður ætlað að gera kröfur um endurbætur og endurskoðun á þessum samningi? Og hvernig ætla þeir hinir sömu menn, sem væntanlega er gert ráð fyrir að komi eitthvað nálægt þeim samningi um raforkusölu til stækkunar álversins sem hér er bókað um í fskj., — hvernig ætla þeir að leggja hæstv. núverandi iðnrh. eða öðrum sem í hans sæti væru rök upp í hendurnar, og stjórn Landsvirkjunar þar með talin, um að fá viðunandi verð inn í slíkan rekstur, inn í slíka stækkun ef svo færi að um hana yrði samið? Ég er ansi smeykur um að Alusuisse eigi eftir að vísa í gyllinguna, fagurgalann frá þessum sömu mönnum um þann samning sem hér er verið að gera sem ég veit að hæstv. iðnrh. telur og hefur reyndar sagt að væri óhæfur að hans mati ef um stækkun álversins væri að ræða.

Það er mikil blinda ef menn halda að þessi rafmagnssamningur, sem hér er lagt til að samþykktur verði og staðfestur af Alþingi, verði ekki notaður sem rök í umræðum og samningaviðræðum annarra aðila og einnig Alusuisse sem hér vildu ná í viðbótarorku út úr íslensku orkukerfi, og í ljósi þess ber einnig að líta á þennan samning. Hvaða ástæða er til að ætla að ný fyrirtæki í orkuiðnaði standi undir einhverju verulega hærra raforkuverði en gullmyllan í Straumsvík sem er að verða afskrifuð? Framleiðslukostnaður á tonn af áli er nú metinn vera nálægt 1500–1700 dollara á tonn, þar af breytilegur kostnaður 900–1000 tonn. Ætli hann sé ekki eitthvað nálægt 1000 tonnum í Straumsvík? En hver skyldi fjármagnskostnaðurinn vera annars vegar í nýju álveri og hins vegar í nær afskrifuðu fyrirtæki í Straumsvík? Ég hygg að hann teljist í nýju álveri fyrstu 5–6 rekstrarárin vera svona 500–600 dollarar á tonn. En ætli hann sé mikið meira en 150–200 dollarar á tonn í álbræðslunni í Straumsvík núna? Það er því mikill misskilningur ef menn eru að gefa sér það að ný fyrirtæki í orkufrekum iðnaði séu eitthvað til muna aflögufærari eða færari um að greiða hærra orkuverð en fyrirtæki eins og 15 ára gömul álbræðsla í Straumsvík. Ég vil því með þessum orðum m.a. vara hæstv. iðnrh. við því að taka undir þær gyllingar sem hann hefur fengið í hendur á þessum rafmagnssamningi og ég tel það mikla blindu hjá mönnum að ganga fram með þeim hætti, eins og gert hefur verið af aðstandendum þessa samnings, að telja hann í rauninni fullkominn miðað við allar aðstæður þegar nánari skoðun sýnir okkur eitthvað allt allt annað, eins og ég hef hér rakið.

Herra forseti. Ég fer að stytta mál mitt þó að margt sé ósagt um þennan samning. Hér er t.d. að finna í sérstakri bókun ríkisstj. ótímasett fyrirheit til Alusuisse um forgang að raforku til 50% stækkunar álversins í Straumsvík. Ég ræddi stækkun álversins utan dagskrár hér 25. okt. s.l. og ég spurði hæstv. iðnrh. m.a. nokkurra spurninga þar að lútandi. Ég innti hann eftir því hvort fyrir lægi sérstök úttekt á því hvort stækkun álversins í Straumsvík væri þjóðhagslega skynsamur kostur í atvinnuuppbyggingu á Íslandi, þ. á m. í orkuiðnaði, og alveg sérstaklega í orkuiðnaði þó að aðrir þættir og annað atvinnulíf eigi einnig að koma inn í slíkan samanburð. Hverju haldið þið að hæstv. ráðh. hafi svarað? (Gripið fram í: Ég veit það ekki, ég er farinn.) Ég ætla ekki að fara að vitna orðrétt til þess, en efnislega sagði hann á þá leið að Landsvirkjun hefði verið að líta á það með hvaða kjörum hægt væri að selja orku til slíkrar stækkunar, en hitt, að þetta væri allra besti kosturinn í atvinnuuppbyggingu á Íslandi, það þyrfti nánast ekki að rökstyðja, það lægi í augum uppi nema hjá kredduföstum mönnum af tagi þeirra sem hér talar nú úr þessum stól.

Það er því viðurkennt af hæstv. iðnrh., sem er hér að leggja til að veita bréf upp á forgang Alusuisse að íslenskri orku frá þeirri virkjun sem nú er byrjað að byggja hér, að engin marktæk hagfræðileg úttekt liggi fyrir á því hvort slík fjárfesting í virkjun og orkusala sé þjóðhagslega skynsamleg fyrir Íslendinga miðað við ýmsa aðra kosti sem við ættum völ á í okkar atvinnulífi. Hvað segja menn um vinnubrögð af þessu tagi, að ana þannig blindandi áfram þegar um er að ræða fjárfestingu, þegar litið er á hugmyndir um 100% stækkun álversins sem er á dagskrá og er bréfað um í bráðabirgðasamningi frá í fyrra, kostnað, fjárfestingu sem nemur 450 millj. dala eða um 15 milljörðum ísl. kr., og þetta á sama tíma og heildarskuldir Íslendinga um síðustu áramót voru tæpar 1300 millj. Bandaríkjadala?

Við skulum líka hafa í huga, af því að við erum að tala um þörfina á að fjölga störfum í iðnaði í landinu, að þessi mikla fjárfesting, jafnvel tvöföldun, í álverinu í Straumsvík kallar nú ekki á fleira fólk en 220 manns í störfum. Það er því jafngott að þá sé tryggt og menn hafi sannfæringu fyrir því að slík fjárfesting gefi raunverulega eitthvað inn í íslenskt þjóðarbú og eitthvað meira en annað sem við ættum völ á.

Ég ætla ekki að tína til önnur og veigamikil rök sem ég tel að liggi fyrir því að það sé ekki aðeins vafasamt, heldur ólíklegt að nokkurt vit sé í því að heimila Alusuisse að ráðast í þessa stækkun álversins í Straumsvík, jafnvel þó að þar kæmu aðrir aðilar með í samfloti, eins og verið er að gera ráð fyrir með þessum samningi og þessu bréfi um samkomulag varðandi þennan þátt mála. En ég vildi nefna eitt hér sem snertir þetta mál, og það er heimild, sem smeygt er inn í frv. og gert var ráð fyrir í bráðabirgðasamkomulaginu í fyrra að flutt yrði um sérstakt frv. í októbermánuði 1983, um það efni að heimila Alusuisse að framselja þriðja aðila ekki 49% heldur 50% í álverinu í Straumsvík, að framselja þriðja aðila, þar með talið nýtt dótturfyrirtæki. Þetta flýtur með í þessum pakka núna eins og einn lítill moli. En við skulum átta okkur á því að þetta atriði, sem hér er verið að leita heimilda fyrir, að leyfa Alusuisse að taka helminginn af hlutafé ÍSALs út úr samsteypunni, skiptir fyrirtækið gífurlega miklu máli fjárhagslega, ekki síst miðað við slaka og lélega stöðu þess á undanförnum árum. Þannig er þetta ekkert sjálfsagt mál, sem þarna er á ferðinni, þetta er ekki léttvægt mál, heldur geysilega mikið hagsmunamál fyrir Alusuisse, sem skýrist m.a. af því að með þessu getur auðhringurinn tekið allar skuldir, allar þær stóru háu skuldir sem hann hefur safnað á þetta dótturfyrirtæki í Straumsvík vitandi vits og skipulega, út fyrir sviga Alusuissessamsteypunnar strax og 50% markinu er náð og létt þannig stöðu sína gagnvart bankastofnunum. Ætli menn hafi haft mikið auga á þessu þegar undir þetta var tekið og þessu var smeygt hér inn? Málið lá þannig í fyrra að hæstv. iðnrh. kinokaði sér við að standa við ákvæði bráðabirgðasamningsins frá sept. 1983 um þetta atriði. Hann hafði skrifað undir að hann mundi leggja svona frv. fram í okt. Hann sagði í nóv.: Það kemur eftir viku. En hann áttaði sig á því að það væri ekkert glæsilegt að fá umr. hér á Alþingi Íslendinga um þetta atriði eitt saman. En nú ætlar hann að smeygja því hér í gegn nánast orðalaust. Ég man ekki eftir að hann minntist á þetta áðan í ræðu sinni og kann það þó að hafa flotið með.

Hæstv. ráðh. kom að orkuverði annars staðar í ræðu sinni og margt mætti um þau rök og það mál segja. Með svipuðum hætti og talsmenn þessa samnings, samninganefndarmenn og fleiri, eru að gylla raforkusamninginn sem slíkan, þá má segja að það taki steininn úr þegar menn fara að bera á borð vitandi vits rangar upplýsingar um þróun orkuverðs til áliðnaðar annars staðar í heiminum. Það gerði hæstv. ráðh. hér áðan og kinokaði sér ekki við að séð væri. Hann endurtók þær tölur sem samninganefndarmennirnir íslensku létu sig hafa að taka inn sem samkomulagsatriði með Alusuisse varðandi raforkuverð til álvera í Evrópu og sem tönnlast er á hér af talsmönnum þessa samnings að sé núna á bilinu 14–15 mill, raforkuverð sem í fyrsta lagi er rangt útreiknað og rangt fengið og í öðru lagi ósambærilegt og skiptir ekki máli í þeim viðskiptum sem um er að ræða við Alusuisse vegna álversins í Straumsvík.

Það er líka sagt hér, og var endurtekið í dag, að raforkuverð til álvera í Bandaríkjum Norður-Ameríku væri um 20 mill. Hæstv. ráðh. bætti því við að svo hefðu þeir verið að semja um tímabundna lækkun núna að undanförnu. Hvað skyldi vera til í þessu? Hvaða bakhjarl vill ráðh. nefna hér um þessi atriði, um þessi 20 mill til álvera í Bandaríkjunum? Sannleikurinn er sá að sú orkuveita sem selur mesta raforku til áliðnaðar í Bandaríkjum Norður-Ameríku, BPA orkuveitan, sem selur 18 terawattstundir til áliðnaðar eins — við framleiðum alls fjórar á Íslandi, — hefur samning fyrir álverin, sem hún selur til, upp á 27.7 mill. (Iðnrh.: Og hvað er nú verð til álvera þar?) 27.7 mill. Og hún samdi 1. sept. s.l. um tímabundna lækkun á þessu verði um sex mánaða skeið, niður í 22.3 mill, gegn því að álverin héldu uppi fullri framleiðslu þessa sex mánuði, en eftir stendur grundvallarsamningur um 27.7 mill og TVA orkuveitan, Tennessee Valley Authority, er með orkuverð til álvera á sínum vegum upp á 30 mill og þar yfir. (Iðnrh.: Það er verið að loka á þá.) Síðan fáum við rökin af þessu tagi og síðar étur hæstv. iðnrh. hér upp eftir Alusuisse upplýsingar um að verið sé að loka álverum. Og svo kom samningurinn frá Ghana, sem er að semja við Kaiser-auðhringinn með nær vatnslausa virkjun, ætli það sé nú staða sem þeir eru í, og hvað fáum við að heyra um þann samning? Að hann er rakkaður niður af þeim mönnum sem ættu að nota þennan samning sem vopn í sinni hendi til að sækja rétt Íslendinga til eðlilegs raforkuverðs til álversins í Straumsvík. Morgunblaðið hefur það eftir í umsögn um þennan samning, og styðst þar við einn samninganefndarmanninn, Gunnar G. Schram hv. 2. þm. Reykn., að miðað við núverandi álverð mundi hann gefa 5.6 mill þegar sannleikurinn er sá að botninn í þessum samningi er 10 mill ef orkuseljandinn getur ekki afgreitt nema 2/5 til viðkomandi álvers, Valco í Ghana. Það eru vinnubrögð af þessu tagi sem hrópa í himininn. Það er eðlilegt að Alusuisse reyni að koma slíku inn í hausinn á Íslendingum, reyni að framreiða slíkar tölur. Að íslenskir samninganefndarmenn skuli vera að berjast um hugi Íslendinga með röngum upplýsingum er fyrir neðan allt velsæmi. En þannig er það því miður með fleiri þætti sem snúa að þessum samningi.

Ég hef, herra forseti, vikið hér efnislega að þeim þáttum sem eru inni í þessum hluta pakkans, þeim atriðum sem ég taldi nauðsynlegt að vekja athygli á. Við sjáum hvað snertir skattamálin, skattaþættina, að þar er samið um alla þætti Alusuisse í hag, áður en farið er að takast á um framtíðina, að sagt er. Og síðan kemur raforkusamningur sem er þannig sniðinn að í hann vantar verðtryggingarákvæði og það meðalverð, sem Landsvirkjun telur með bjartsýnum áætlunum að fáist á næstu 5 árum, skilar langt undir framleiðslukostnaði, jafnvel þó menn vilji slá ríflega af til orkusölu til stórnotenda.

Já hluti pakkans sem kominn er inn á borð Alþingis er því þannig vaxinn að hv. Alþingi ætti ekki að þurfa að hugsa sig lengi um hver afstaðan ætti að vera. Það eru blindir menn eða menn sem ekki hafa haft fyrir því að gæta þeirrar ábyrgðar, sem þeir taka á sig með því að sitja hér á þessari samkomu, sem ætla að rétta upp hendurnar með þessum samningi. Ég vænti því að í þessari deild takist að opna augu manna fyrir því að hér er hæstv. iðnrh. með ríkisstj. að baki að etja Alþingi út í ófæru. Hér eru menn að ganga út í fjórða ósigurinn í glímu við það fyrirtæki sem efnt var til samstarfs við 1966. Ég legg áherslu á að hér er um viðskiptalega hagsmuni að ræða. Við eigum ekki af neinni haturskennd að ganga fram gagnvart Alusuisse í samskiptum. Við eigum að sýna þeim sanngirni. En við eigum að krefjast þess einnig á móti að okkar hagsmunir séu virtir. Það er ekki von til þess að það sé gert nema við kunnum að halda saman um þá hagsmuni. Þá fyrst er árangurs að vænta. Og það er nöturlegt að það skulu vera flokkar, og þar í forustu flokkur sem kennir sig við viðskiptaleg sjónarmið, frjálst framtak, Sjálfstfl., sem virðast hafa bundið fyrir bæði augu þegar um er að ræða viðskiptalega hagsmuni Íslendinga í samskiptum við þetta stóra fyrirtæki.