22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þegar núv. ríkisstj. var mynduð steðjuðu miklir efnahagserfiðleikar að íslensku þjóðinni. Annars vegar fór verðbólga mjög vaxandi, en hins vegar þjóðartekjur fallandi. Ríkisstj. tók þessi mál föstum tökum. Í stefnuyfirlýsingu er fyrstu aðgerðum ríkisstj. lýst og einnig stjórn efnahagsmála eftir að verðbólgan hafði verið færð niður. Eftir því samkomulagi hefur verið unnið.

Í byrjun september birtu stjórnarflokkarnir samkomulag um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum og um breytingar á stjórnkerfi. Það samkomulag er eðlilegt framhald á stefnuyfirlýsingunni og reyndar á henni byggt. Samkomulag þetta er birt í Þjóðhagsáætlun, sem dreift hefur verið á Alþingi. Það mun ég ekki endurtaka í þessari ræðu, en fjalla fyrst og fremst efnislega um efnahagsmálin og nýsköpun í atvinnulífi.

Þjóðhagsáætlun var, eins og venja er, dreift í upphafi þings. Með samningum um kaup og kjör verða óhjákvæmilega miklar breytingar á þeirri áætlun, sem ég mun að hluta rekja. Sömuleiðis var stefnuræðu dreift fljótlega eftir að þing var sett. Einnig hefur reynst nauðsynlegt að gera miklar breytingar á stefnuræðu. Hefur kafli um efnahagsmál verið aukinn og stefnuræða að nýju send þingmönnum. Í því sem þm. hefur verið sent er gerð nokkuð ítarleg grein fyrir áformum einstakra ráðuneyta, en sökum þess hve kafli um efnahagsmál hefur lengst get ég ekki flutt þann kafla, en læt nægja að vísa til þess sem segir í því sem þm. hafa fengið.

Við stjórnarmyndun fyrir einu og hálfu ári var hraði verðbólgunnar orðinn yfir 130% og stefndi hærra. Við þjóðinni blasti stöðvun atvinnuvega og atvinnuleysi. Fyrsti áfangi í efnahagsaðgerðum ríkisstj. einkenndist því af markvissum lögbundnum aðgerðum, sem óhjákvæmilegar voru til þess að bjarga þjóðinni frá því hruni sem óðaverðbólgunni hefði fylgt. Þetta tókst án þess að til atvinnuleysis kæmi og var verðbólga nálægt 20% þegar í byrjun þessa árs.

Í öðrum áfanga voru mikilvæg skref stigin í þá átt að koma á heildarjafnvægi í efnahagslífinu með því að ákveða því fyrirfram fasta umgjörð. Þetta var gert með því að tilkynna hvað gengissig yrði mest á árinu, að erlendar skuldir sem hundraðshluti af þjóðarframleiðslu yrðu ekki auknar og aðhaldi yrði beitt í peninga- og ríkisfjármálum. Þetta hefur einnig að mestu tekist.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands höfðu erlendir gjaldmiðlar hækkað á grundvelli vegins meðaltals um aðeins 6% frá 27. maí 1983 þar til gengi tók að síga samfara kjarasamningum í lok október s.l., þ.e. í 17 mánuði hreyfðist gengið ekki meira en 6%. Erlendar skuldir hafa jafnframt haldist í rúmlega 60% þjóðarframleiðslu. Eftir margra ára verðbólgu og hraða hjöðnun hennar á s.l. ári hefur öldurót þó verið mikið og er nokkuð í land að gott jafnvægi hafi náðst, einkum í peningamálum. Mikið hefur þó áunnist, mjög hefur dregið úr hækkun verðlags og verðbólga því enn farið hjaðnandi. Hún var fyrir gerð kjarasamninga nú í október 13% á grundvelli framfærsluvísitölu síðustu þrjá mánuðina á undan, en um 10% miðað við byggingarvísitölu. Síðustu tólf mánuði mælist verðbólga 15% miðað við framfærsluvísitölu, en 10% samkvæmt byggingarvísitölu. Er það minnsta slík breyting vísitölu sem mælst hefur frá því í upphafi síðasta áratugar. Niðurstöður kjarasamninganna og nauðsynlegar ráðstafanir í kjölfar þeirra til að tryggja landsmönnum næga atvinnu hafa nú gjörbreytt horfum í verðlagsmálum, eins og komið verður að hér á eftir.

Í öðrum áfanga efnahagsaðgerðanna var ákveðið að láta lög um Verðlagsráð og verðlagseftirlit koma til framkvæmda, en því hefur verið frestað í allmörg ár vegna mikillar verðbólgu. Verðlagsráð hefur í samræmi við það gefið verðlagningu frjálsa í ýmsum greinum þar sem samkeppni er talin næg. Lögð hefur verið aukin áhersla á verðlagseftirlit og verðlagsupplýsingar.

Samkvæmt nýlegum upplýsingum hefur verðlag á matvælum og öðrum nauðsynjum hækkað fyrstu níu mánuði ársins á grundvelli framfærsluvísitölu um 11%. Mestar hafa verðhækkanir orðið á landbúnaðarafurðum, ekki síst vegna minni niðurgreiðslu, en hins vegar engar á t.d. raforku og þjónustu Pósts og síma. Athyglisvert er að vörur með frjálsa álagningu hafa hækkað um 9%, en þær sem falla undir verðlagsákvæði um 12%. Þessar tölur tala skýru máli um þá gjörbreytingu sem orðið hefur í verðlagsmálum í tíð þessarar ríkisstj.

Þegar á heildina er litið hefur atvinna verið næg. Spádómar um mikið atvinnuleysi samfara aðgerðum ríkisstj. hafa ekki ræst. Atvinna hefur þó verið minni en fyrr á Norður- og Norðausturlandi og er ástæðan fyrst og fremst minni þorskafli. Hins vegar hefur eftirspurn eftir vinnuafli verið of mikil á höfuðborgarsvæðinu og á það sinn þátt í þenslu og viðskiptahalla.

Afar brýnt er að lækka erlendar skuldir þjóðarinnar. Það er óhjákvæmilegt á næstu árum. Svigrúm til þess er þó lítið á næsta ári, ekki síst vegna þess að ríkisstj. telur nauðsynlegt að nota þann litla bata sem fram undan er talinn til þess að örva fjárfestingu til nýsköpunar í atvinnulífinu sem stuðli að auknum hagvexti í framtíðinni.

Mestum erfiðleikum veldur tvímælalaust erfið rekstrarstaða í sjávarútvegi á meðan ýmsar aðrar atvinnugreinar, eins og t.d. stór hluti iðnaðar, verslunar og þjónustu, hafa haft allgóða eða góða afkomu. Má segja að gengi hafi verið hagstætt fyrir þessar greinar, en hins vegar óhagstætt fyrir sjávarútveginn. Erfiðleikar sjávarútvegsins stafa bæði af miklum samdrætti í afla og erfiðleikum á mörkuðum.

Fremur en að bæta stöðu sjávarútvegsins aðeins með breytingu á gengi hefur verið leitast við að lagfæra afkomuna með öðrum aðgerðum, eins og t.d. með fjárhagslegri endurskipulagningu, með víðtækum skuldbreytingum og lengingu lána og með því að hvetja til endurskipulagningar á rekstri fyrirtækjanna.

Í upphafi ársins var gert ráð fyrir því að viðskiptahalli yrði 1–2% af þjóðarframleiðslu. Nú er talið að hann verði um 5%. Útgjöld þjóðarinnar hafa orðið meiri en að var stefnt. Vaxandi viðskiptahalli er því nú eitt helsta efnahagsvandamálið. Til þessarar hallamyndunar liggja ýmsar ástæður.

Þensla hefur, eins og fyrr segir, verið of mikil á höfuðborgarsvæðinu. Launaskrið virðist hafa orðið allverulegt í iðnaði, byggingariðnaði, þjónustu og verslun. Í ljós hefur komið að einkaneysla hefur orðið meiri á árinu en búist var við á grundvelli áætlana um breytingar á ráðstöfunartekjum almennings.

Því miður hefur fjárhagslegur sparnaður ekki aukist þrátt fyrir háa raunvexti og eftirspurn eftir lánum hefur haldist mikil. Svo virðist sem verðbólguhugsunarhátturinn ráði enn miklu. Að sjálfsögðu er einnig ljóst að erfitt er að auka sparnað umtalsvert á tímum þegar glímt er við alvarlegan samdrátt í þjóðartekjum. Lítill sparnaður og eyðsla umfram efni veldur viðskiptahalla. Það mein verður að lækna.

Í þeirri viðleitni að auka sparnað og draga úr viðskiptahalla féllst ríkisstj. á s.l. sumri á nokkra hækkun vaxta, en jafnframt var komið á verulegu frjálsræði innlánsstofnana um vaxtaákvarðanir. Enn er ekki fengin nægileg reynsla af þeim breytingum á vaxtakerfinu, sem í þessu fólust, en þær vaxtahækkanir, sem í kjölfarið fylgdu, hafa þó orðið meiri en búist hafði verið við, enda var lausafjárstaða bankanna orðin mjög erfið og verðbólguótti vaxandi vegna kjaradeilna. Eftir allmikla hækkun vaxta af verðtryggðum útlánum bankanna hefur Seðlabankinn að tilmælum ríkisstj. beitt sér fyrir lækkun þeirra. Æskilegt væri að síðar verði hægt að lækka þessa vexti enn frekar.

Svo virðist sem eftirspurn eftir fjármagni sé nú svo mikil að lántakendur séu reiðubúnir til þess að greiða mjög háa raunvexti, eins og m.a. kemur fram í frjálsri sölu skuldabréfa. Einnig verður ekki hjá því komist að vextir í heiminum, sem eru alls staðar ákaflega háir, hafi áhrif á vaxtastig hérlendis. Hinir háu raunvextir, sem af þessu stafa, eru þó engu að síður áhyggjuefni og þeir geta, ef þeir standa til langframa, orðið þrándur í götu framfara. Enginn vafi er á því að meginskilyrði lækkandi raunvaxta er að jafnvægi náist á peningamarkaðinum samfara hjaðnandi verðbólgu og á það verður því að leggja megináherslu. Jafnframt er mikilvægt að reynt verði að hamla gegn hækkun raunvaxta nú á næstunni á meðan sú verðbólgualda, sem rís í kjölfar launasamninganna, er að ganga yfir. Hefur Seðlabanki Íslands verið beðinn um tillögur um eftirlit á vegum bankans sem að því stuðli. Lækkandi verðbólga síðar á næsta ári mundi svo skapa skilyrði til þess að vextir færu aftur lækkandi.

Þriðji áfanginn í efnahagsaðgerðum ríkisstj. kemur fram í samkomulagi stjórnarflokkanna, sem birt var í byrjun september s.l. Eins og þar kemur fram gerði ríkisstj. ráð fyrir því að fylgja á árinu 1985 í meginatriðum sömu stefnu í efnahagsmálum og fylgt hafði verið á þessu ári. Að því var stefnt að hámarksbreyting á gengi yrði innan við 5% og erlendar skuldir ekki yfir 61% af þjóðarframleiðslu í lok ársins 1985. Í þessu fólst almenn umgjörð fyrir efnahagslífið. Með því móti hefði verðbólga hjaðnað og verið komin niður í eða niður fyrir 10% í lok ársins 1985. Innan þessa ramma var talið að meðallaunahækkun á milli ára gæti orðið 10%, næg atvinna yrði tryggð og lífskjör almennings versnuðu ekki á næsta ári.

Þegar ljóst varð að kjarasamningar mundu ekki takast innan ofangreindra marka ákvað ríkisstj. að bjóða víðtæka lækkun tekjuskatts og beita sér fyrir lækkun útsvars, enda yrðu peningalaunahækkanir minni og alls ekki meiri en svo að hjöðnun verðbólgu og jafnvægi í efnahagsmálum yrði tryggt á árinu 1985. Um þetta varð því miður ekki samkomulag, heldur var farin hefðbundin leið peningalaunahækkana. Þeir heildarsamningar sem gerðir hafa verið fela í sér a.m.k. 24% hækkun launa á næstu 14 mánuðum í stað 10–11% hækkun launa, eins og gert var ráð fyrir í forsendum þjóðhagsáætlunar. Jafnframt eru launahækkanir þessar fyrst og fremst á fyrri hluta samningstímans.

Ljóst var að mikil alda verðhækkana mundi rísa í kjölfar þessara samninga. Öll innlend framleiðsla hækkar í verði, sérstaklega þar sem vinnulaun vega þungt. Útseld vinna í byggingariðnaði hækkar svipað og launin og byggingarkostnaður, sem breyst hefur tiltölulega lítið á þessu ári, hækkar mikið. Öll sanngirni mælir með því að sjómenn fái án tafar leiðréttingu á sínum kjörum. Því hefur sjútvrh. lagt fram frv. til laga þar sem gert er ráð fyrir því að fiskverð verði tekið til nýrrar ákvörðunar og gildir sú ákvörðun frá 21. nóvember s.l., þ.e. í gær. Bændur munu að sjálfsögðu fá svipaða hækkun tekna sem mun leiða til mikillar hækkunar á landbúnaðarafurðum 1. des. n.k. Slík hækkun á innlendri framleiðslu, sem enginn fær við ráðið, mun þegar á næstu vikum draga mjög úr þeim kaupmætti sem um hefur verið samið og leiða til mikillar kostnaðarhækkunar fyrir útflutningsatvinnuvegina sem þeir hafa ekkert bolmagn til að mæta eins og nú er ástatt.

Við afleiðingum þessarar þróunar er óhjákvæmilegt að snúast án tafar. Það mun ríkisstj. gera og þá hafa eftirgreind meginmarkmið að leiðarljósi:

1. Að rekstrargrundvöllur atvinnuveganna verði tryggður og að atvinnuöryggi haldist.

2. Að lífskjör verði ekki lakari á árinu 1985 en í ár og hagur þeirra, sem lægstar tekjur hafa, verði sérstaklega tryggður.

3. Að gætt verði ýtrasta aðhalds í erlendum lántökum.

4. Að úr verðbólgu dragi að nýju á seinni hluta ársins 1985.

Á þessu ári hefur komið í ljós umtalsvert misgengi í íslensku atvinnulífi sem hefur valdið verulegum mismun á afkomu fyrirtækja og einstaklinga. Þessi munur á stöðu greina hefur valdið spennu á vinnumarkaði og launaskriði. Ef ná á viðunandi jafnvægi í íslensku efnahagslífi er óhjákvæmilegt að draga úr misgengi þessu með markvissum efnahagsaðgerðum sem ríkisstj. mun ákveða á næstunni.

Eftir umrædda kjarasamninga var öllum ljóst að gengi íslensku krónunnar hlaut að falla. Ríkisstj. taldi þó rétt að fara eins hægt í sakirnar og frekast væri unnt. Því var ákveðið að láta gengið síga til að byrja með. Þannig lækkaði gengi íslensku krónunnar um 4.4% á síðustu vikum.

Fimmtudag og föstudag í síðustu viku jókst hins vegar gjaldeyrisútstreymið gífurlega. Varð þá ljóst að ekki yrði unnt að halda gjaldeyrissölu áfram að óbreyttu gengi. S.l. mánudag gerði Seðlabanki Íslands tillögu til ríkisstj. um lækkun á gengi íslensku krónunnar um 12%. Var sú tillaga samþykkt. Gengi krónunnar hefur þannig lækkað um 15.9% frá því í október. Með þessari gengislækkun er við það miðað að staða útflutningsatvinnuveganna versni ekki þrátt fyrir þær kostnaðarhækkanir sem fram eru komnar og koma fram á næstu dögum og vikum.

Eftir þessa gengislækkun er það stefna ríkisstj. að aftur verði horfið til festu í gengismálum og fylgt verði í meginatriðum sömu gengisstefnu og fylgt var 17 mánuði á undan.

Í kjölfar þeirrar gengisbreytingar, sem nú er orðin, mun ríkisstj. leggja fram tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum sem draga úr áhrifum verðhækkana á afkomu heimilanna, einkum þeirra sem við lakari kjör búa. Það mun verða gert, eins og þegar hefur reyndar verið tilkynnt, með greiðslum almannatrygginga, sem hækka umfram það sem hin almenna launahækkun krefst, með lækkun tolla á nokkrum nauðsynjum og lækkun tekjuskatts. Verður það ákveðið nánar í tengslum við afgreiðslu fjárlaga.

Vegna hættu á miklum viðskiptahalla og vaxandi erlendum skuldum þjóðarinnar er þó nauðsynlegt að stefna að því að ríkisbúskapur verði sem næst hallalaus á næsta ári.

Til þess að bæta nokkuð stöðu sjávarútvegsins verða þó opinber gjöld af olíu, bæði til ríkis og sveitarfélaga, að mestu felld niður.

Uppsafnaður söluskattur í sjávarútvegi mun, eins og kunnugt er, verða endurgreiddur frá og með næstu áramótum. Verður því fjármagni varið til þess að lagfæra stöðu Aflatryggingasjóðs þannig að á árinu 1985 megi áfram greiða úr sjóðnum óbreytta uppbót á fiskverð.

Útlánareglur Húsnæðisstofnunar verða teknar til endurskoðunar, þannig að auka megi fyrirgreiðslu við þá sem byggja íbúðir af hæfilegri stærð og byggja eða kaupa í fyrsta sinn, og til athugunar eru leiðir til að útvega aukið fjármagn til að standa við þau loforð sem hafa verið gefin og ekki hafa fengist greidd úr lífeyrissjóðum og hjálp við þá sem í mestum erfiðleikum eiga í húsnæðismálum.

Margir spyrja að sjálfsögðu: Var gengisfelling eina leiðin? Lítum aðeins nánar á það. Hvað hafði gerst? Launakostnaður atvinnuveganna hafði verið hækkaður með einu pennastriki um fimmtung fram að næstu áramótum og reyndar um fjórðung á næstu sex mánuðum. Í kjölfar þessa hlaut að fylgja veruleg hækkun fiskverðs til sjómanna og útvegsmanna. Þetta tvennt hlaut að setja fiskvinnsluna í vonlausa stöðu og var hún þó erfið fyrir. Þetta er önnur hlið vandans sem við blasti. Ef ekkert hefði verið að gert hlaut að verða rekstrarstöðvun í fjölmörgum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Sum hefðu e.t.v. getað fleytt sér eitthvað áfram skamma hríð á lánum og með því að brenna upp eigið fé sitt, önnur ekki. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hverjar afleiðingar hefðu orðið; afkomubrestur og atvinnuleysi. Þetta eru því miður blákaldar staðreyndir. Ég veit að fólk í sjávarplássum, sem á allt sitt undir fiski, skilur þetta mætavel. Þetta verða allir að skilja.

Með gengisfellingu hefur tekist að afstýra þessu um sinn. En gengisfelling er ekkert töframeðal. Hún leysir engan vanda varanlega. En hún getur skapað svigrúm til annarra og varanlegri aðgerða ef rétt er á haldið. Þegar að er gáð féll gengið þegar skrifað var undir kjarasamningana. Framhaldið var formsatriði.

Önnur úrræði eru: aukin hagkvæmni í rekstri, betri nýting fjármuna, arðbærari fjárfesting. Allt eru þetta atriði sem þarf að stuðla að, en þau koma einfaldlega ekki að gagni í stöðunni í dag. Þetta eru allt atriði sem beinast að varanlegri lausn rekstrarvandans í sjávarútvegi, en ekki þeim bráða vanda sem við blasti í kjölfar samninganna.

Það kann að vera að einhverjir hefðu viljað leggja meiri áherslu á þessa leið og fella gengið minna, taka afleiðingum launahækkana, leyfa fyrirtækjum að stöðvast og treysta á seinvirka endurskipulagningu í fjárhag og rekstri. Ríkisstj. valdi annan kost. Hún ákvað að horfast í augu við raunveruleikann, sem við blasti, og freista þess að skapa — án atvinnuleysis — svigrúm til þess að leysa vandann. En það svigrúm þarf að nýta, ella stöndum við von bráðar frammi fyrir sömu vandamálum.

Hin hlið vandans, sem við blasti, er viðskiptahallinn gagnvart útlöndum. Með samningunum var ljóst að stefndi í umtalsverðar verðhækkanir innanlands, eins og ég hef þegar rakið. Innlendar vörur hefðu orðið dýrari en innfluttar vörur. Þetta hefði þýtt meiri innflutning, minni kaup á innlendum vörum, útstreymi gjaldeyris og þannig valdið enn vaxandi viðskiptahalla. Gengisfellingunni er einnig ætlað að bregðast við þessum vanda, þannig að samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu sé ekki stefnt í hættu og þannig jafnframt að draga úr viðskiptahalla.

Að vísu, eins og ég hef áður sagt, verður viðskiptahalli enn mikill eða nálægt 5% í hlutfalli við þjóðarframleiðslu. Ríkisstj. telur þó ekki unnt við núverandi aðstæður að takmarka útgjöld þjóðarinnar meira en felst í þessum viðskiptahalla, enda kæmi það óhjákvæmilega niður á atvinnu og lífskjörum fólksins.

Með þeim aðgerðum, sem ég hef lýst og nánar verða ákveðnar við afgreiðslu fjárlaga, telur ríkisstj. að verja megi kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna milli áranna 1984 og 1985 með nokkurri kjarabót fyrir þá sem við lökust kjör búa.

Tilgangur þeirra efnahagsaðgerða, sem ríkisstj. hefur nú lagt drög að, er að tryggja að sá bati framleiðslu og tekna, sem að var stefnt með þjóðhagsáætlun, náist á árinu 1985. Síðasta endurmat á þjóðhagsspá í ljósi efnahagsaðgerða þeirra, sem hér hafa verið ræddar, gefur þá niðurstöðu að þjóðarframleiðslan aukist nálægt 1/2 til 1% eða minna en áður var spáð. Landsframleiðsla og þar með umsvif innanlands ætti samkvæmt þessu að aukast um 1 til 11/2%, þannig að atvinnuöryggi á að haldast. Óheft framvinda hefði án vafa leitt til atvinnuleysis.

Áætlað er að meðalhækkun verðlags á milli áranna 1984 og 1985 verði um 26 – 28%, en verðhækkun frá upphafi til loka ársins 1985 rúmlega 20% í staðinn fyrir 9–10%, eins og gert er ráð fyrir í þjóðhagsspá. Í lok ársins 1985 standa þó vonir til að hraði verðbólgunnar verði á ný kominn í það horf sem var fyrir kjarasamningana. Ríður því á miklu að betur takist til við næstu kjarasamninga en í þeim síðustu. Þá verður að leggja áherslu á að gera skynsamlega samninga sem stuðli að hjöðnun verðbólgu og batnandi lífskjörum á traustum grunni 1986 og árin næst á eftir. Ríkisstj. mun bjóða aðilum vinnumarkaðarins til viðræðna um undirbúning slíkra samninga.

Þriðji áfanginn í stefnu og starfi ríkisstj. mun einkennast fyrst og fremst af öflugu átaki til þess að hefja þjóðarbúið upp úr þeirri alvarlegu kreppu sem það hefur verið í. Í ár hefur þjóðarframleiðslan enn dregist saman. Þetta þriggja ára samdráttarskeið er orðið það lengsta sem við Íslendingar höfum orðið að þola í 30 ár. Ætlað er að þar með sé botni lægðarinnar náð og hagvöxtur geti hafist að nýju á næsta ári, þótt lítill verði.

Á þessu þriggja ára samdráttarskeiði hefur komið skýrt í ljós veikileiki hins íslenska efnahagslífs. Frá stríðsárum hefur þjóðarframleiðsla hér á landi aukist að meðaltali um 3.5%. Það er mikill vöxtur. Fyrst og fremst hefur hann byggst á vaxandi sjávarafla og fiskvinnslu. Fiskvinnslan krefst mikils vinnuafls og er verðmætasköpunin því tiltölulega lítil á hverja vinnustund miðað við ýmsar háþróaðar atvinnugreinar. Þessi mikla aukning þjóðarframleiðslunnar og góð lífskjör hafa því einnig og ekki síður byggst á mjög mikilli atvinnu, löngum vinnutíma og mikilli atvinnuþátttöku kvenna.

Nú bendir flest til þess að sjávarafli verði ekki lengur aukinn ár frá ári og þótt með betri nýtingu megi eflaust auka verðmæti úr sjónum er vafalaust að renna verður fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf, ekki síst með háþróuðum atvinnugreinum, ef hagvöxtur hér á landi á að verða svipaður og hann hefur verið og spáð er í nágrannalöndum okkar. Í vanrækslu á þessu sviði felst veikleiki hins íslenska efnahagslífs.

Þótt svigrúm sé lítið á næsta ári vegna mikilla erlendra skulda og lítils hagvaxtar telur ríkisstj. þó nauðsynlegt að stíga ákveðið byrjunarskref til nýsköpunar í atvinnulífinu. Þeim aðgerðum mun ég nú lýsa í fáum orðum:

Að sjálfsögðu verður sjávarútvegurinn enn um langa hríð meginstoð í íslensku efnahagslífi. Eins og fyrr segir tel ég þó ólíklegt að auka megi afla að ráði frá því sem nú er. Hins vegar ber að leggja mikla áherslu á aukna tæknivæðingu, einkum í vinnslunni, þannig að verðmætasköpun fyrir hverja vinnustund geti aukist verulega. Aðeins þannig verður unnt að greiða viðunandi laun í fiskvinnslu án óhóflegs vinnutíma. Aðeins á þennan máta getur fiskvinnslan keppt um vinnuafl við þær atvinnugreinar þar sem verðmætasköpun er mikil og launin hærri. Þetta er að mínu mati eitt mikilvægasta verkefnið í nýsköpun atvinnulífs.

Um langan aldur hefur landbúnaður verið mikilvæg grein íslensks atvinnulífs. Útflutningur landbúnaðarafurða, einkum kjöts, var áratugum saman arðbær. Á þessu hefur orðið mikil breyting á undanförnum árum. M.a. vegna vaxandi styrkja og verndaraðgerða í viðskiptalöndum okkar er útflutningur landbúnaðarafurða nú nálægt útilokaður. Í nokkur ár hefur því verið ljóst að takmarka yrði framleiðslu á kjöti og mjólkurafurðum sem mest við innanlandsþarfir.

Náðst hefur samkomulag við samtök bænda um að draga úr kjöt- og mjólkurframleiðslu skipulega á næstu fimm árum þannig að útflutningsbótaþörf verði ekki að þeim tíma liðnum. Aftur á móti mun ríkisvaldið stuðla öfluglega að því að nýjar búgreinar og atvinnutækifæri skapist í dreifbýli landsins. Mun verulegum hluta af því fjármagni, sem sparast með minni útflutningsbótum og öðrum aðgerðum á næstu árum, verða varið í því skyni.

Í þessu sambandi eru vel skipulögð loðdýrarækt og fiskeldi sérstaklega álitlegar greinar. Ef rétt er á málum haldið tel ég vafalaust að þannig megi koma í veg fyrir óæskilega byggðaröskun og skapa mikil verðmæti til útflutnings. Það er sannfæring mín að sá landbúnaður, sem upp úr þessari nýsköpun rís, muni reynast enn öflugri og mikilvægari fyrir íslenskt þjóðarbú en landbúnaður hefur verið undanfarin ár.

Nú er einnig óhjákvæmilegt að endurskoða verðlagningarkerfi landbúnaðarins. Sexmannanefndin svokallaða starfar í reynd ekki lengur, eins og ætlunin var í upphafi. Semja verður um leið sem bæði bændur og neytendur geta unað við. Bændur eiga að sjálfsögðu rétt á svipuðum tekjum og aðrir þjóðfélagsþegnar. Þeir eiga einnig ótvíræðan rétt á því að skipuleggja framleiðslu sína og hafa eigin samtök eins og þeir kjósa. Hins vegar verður að tryggja að innan landbúnaðarins sé stöðugt keppt að aukinni framleiðni og lægra vöruverði. Það er eðlileg krafa og réttur neytenda.

Einna mikilvægast er jafnframt að skapa jarðveg fyrir nýjar og háþróaðar atvinnugreinar. Staðreyndin er að við Íslendingar höfum dregist verulega aftur úr öðrum þjóðum í allri þróun nýsköpunar í atvinnulífinu. Ég hef þegar nefnt fiskeldi og loðdýrarækt, þar sem aðstaða er mjög góð. Ég nefni rafeindaiðnað, sem að litlu leyti hefur hér haslað sér völl. Líftækniiðnaður, sem vaxið hefur gífurlega í nágrannalöndum okkar, er talin álitleg iðngrein hér á landi. Unnið er að rannsóknum á því sviði sem geta fljótlega leitt til byrjunarframkvæmda. Þannig gæti ég ýmislegt fleira talið.

Ríkisstj. er ákveðin í því að efla rannsókna- og þróunarstörf til nýsköpunar í atvinnulífinu. Jafnframt mun verða tryggt fjármagn og aðstoð við einstaklinga og fyrirtæki sem vilja halda út á slíkar brautir. Með minni verðbólgu og vaxandi stöðugleika í efnahagsmálum er slíkt nú unnt.

Ríkisstj. hefur því ákveðið að setja á fót sérstakt þróunarfélag með þátttöku ríkis og þeirra aðila í þjóðfélaginu sem þess óska. Því félagi verður ætlað verulegt fjármagn sem það mun ráðstafa til rannsókna á þróunarstarfsemi, til þátttöku í fyrirtækjum á byrjunarskeiði og til útlána og styrkja til nýrra atvinnugreina og fyrirtækja. Þróunarfélag þetta eða stofnun verður arftaki Framkvæmdastofnunar ríkisins. Verður um það sérstakt frv. flutt á Alþingi fljótlega.

Ríkisstj. hefur einnig ákveðið að endurskoða starfsemi þriggja fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna með það fyrir augum að útlán þeirra verði markvissari og beinist sem mest að arðbærum framkvæmdum, nýsköpun og framleiðniaukningu innan núverandi atvinnuvega.

Byggðasjóður mun verða gerður að sérstakri öflugri byggðastofnun sem geti á eigin spýtur sinnt mikilvægum byggðaverkefnum og komið í veg fyrir alvarlega byggðaröskun.

Vegna stöðu þjóðarbúsins út á við og þeirrar undiröldu sem enn gætir í efnahagslífinu er slík nýsköpun enn að ýmsu leyti erfiðleikum háð. Ríkisstj. telur slíkt skref þó svo mikilvægt að ekki sé ráð að bíða lengur með markvisst og skipulegt átak á þessu sviði. Það er sannfæring mín að með þessu sé brotið í blað og það er von mín að með því hefjist nýtt öflugt framfaraskeið í íslensku þjóðfélagi.

Góðir Íslendingar. Því verður ekki neitað að með þeirri öldu verðhækkana sem fram undan er næstu mánuði hefur orrusta í viðureigninni við verðbólguna tapast. Það mun þýða um það bil ársfrestun á þeirri hjöðnun verðbólgu og því jafnvægi í efnahagsmálum sem var að nást. Það er alvarlegt mál, ekki síst fyrir þjóð sem er skuldum hlaðin og leggur kapp á að standa í skilum.

Þetta þýðir þó ekki að stríðið sé tapað, langt frá því. Með þeim efnahagsaðgerðum, sem ég hef lýst og nánar munu koma fram á næstu vikum, mun takast að slökkva þennan verðbólgueld og taka stefnuna að nýju með hjaðnandi verðbólgu, nýsköpun í atvinnulífi og raunverulegar kjarabætur að markmiði.