22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Kristófer Már Kristinsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í ræðu sinni lagði hæstv. forsrh. áherslu á að helsta vandamál þjóðarinnar væri efnahagsmálin. Þetta er ekki rétt. Helsta vandamál þjóðarinnar er hæstv. ríkisstjórn. Það er heldur ekki rétt að meginvandi hæstv. ríkisstjórnar sé viðskiptahallinn. Nei, meginvandi hæstv. ríkisstjórnar er þjóðin, fólkið í þessu landi, fólk sem vill vinna fyrir sér, sjá sér og sínum farborða, eignast þak yfir höfuðið og fá sanngjörn laun fyrir vinnuframlag sitt.

Hæstv. ríkisstj. er í stríði við þetta fólk. Hún fer með hernað á hendur heimilum í landinu með því miðalda hugarfari að ná í ránsfeng til þess að standa undir herkostnaði sínum. Margir eru sælir í þeirri trú að í pólitík á Íslandi séu tvö sérleyfi, annað á vinstri kanti en hitt á hægri kanti í gagnstæða átt. Þetta er misskilningur. Í íslenskri pólitík er ekkert sérleyfi. Þar ferðast allir í sama vagni, sporvagni eymdarinnar. Í sporvagni eymdarinnar eru tvö farrými. Á fyrsta farrými ferðast ríkisstjórnin á hverjum tíma, en á öðru farrými stjórnarandstaðan, hrópandi vígorð gegn því sem hún heldur að sé stefna ríkisstjórnarinnar og með það markmið helst í farangrinum að koma vagninum út af sporinu. Síðan skipta menn endrum og eins um farrými og slagorð og telja sér trú um að þeir séu að fara í hina áttina.

Alvarlegasti og versti misskilningurinn liggur í því að íslenskir stjórnmálamenn lögðu ekki sporið undir þennan vagn. Það gerðu hálfdanskir embættismenn fyrr á öldinni. Vörslumenn þess eru síðan pólitískir varðhundar sem sitja eftir í atgervi rúnum og náttúrulausum stjórnarstofnunum af sömu ástæðum og þeir lentu þar í upphafi. Þeir fá ekki annars staðar vinnu. Þjóðin var notuð í púkk undir teinana. En nú er bjartara fram undan. Hæstv. forsrh. hefur í stefnu sinni gefið þjóðinni nýja von og háleit markmið að vinna að í sátt og samlyndi, nægjusemi og hógværð, af stillingu og festu, og síðast en ekki síst samkvæmt forskrift Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans.

Sagt er: Allt sem þarf í pólitík er vilji. Það stenst ekki vegna þess að ljóst er að ekki skortir hæstv. ríkisstj. vilja til góðra verka. Það verður a.m.k. að trúa því. Hana skortir áræði og vit til þess að hafa frumkvæði. Hæstv. ríkisstj. er eins og frístundamálari sem af smásálarlegri nákvæmni málar eftir númeraforskrift án þess að vita hvert viðfangsefnið er. Og þar liggur hundurinn grafinn. Númeramálarinn ræður aldrei myndinni, hvorki gerð hennar né tjáningu. Hann kemst aldrei með tærnar þar sem hinn skapandi listamaður hefur hælana. Dundarinn er ekkert verri fyrir bragðið, en myndir hans verða tilfinningalega sljóar, þær flytja engan boðskap og höfða ógjarnan til umhverfis síns, vegna þess að þær eru andlaus útfærsla á forskriftarverkefnum annarra. Þannig er hæstv. ríkisstj. farið. Hennar forskriftir koma frá opinberum stofnunum.

Hæstv. forsrh. gat þess í upplestri sínum úr þeirri ritröð sem komið hefur út í pésum undanfarið og kallast Stefnuræða ríkisstjórnarinnar, að hæstv. ríkisstj. hefði fallist á nokkra hækkun vaxta. Hver skyldi hafa lagt það til? Jafnframt sagði hæstv. forsrh. að Seðlabankinn hefði verið beðinn um tillögur um eftirlit á vegum bankans með Seðlabankanum og öðrum bönkum.

Lán fóru fram úr því sem reiknað var með í forsendum Þjóðhagsstofnunar. Það olli því að endurskoða varð það sem kallað er stefna ríkisstj. en er í rauninni númeraforskrift búin til af Þjóðhagsstofnun. Ríkisstjórnin féllst á tillögu Seðlabankans um gengisfellingu. Einnig kemur fram að gengið hafi í rauninni verið fellt þegar skrifað var undir kjarasamningana. Hitt allt, sem á eftir kom, var formsatriði. Hvar er frumkvæði þessarar ríkisstjórnar?

Herra forseti. Er nokkur furða þó að fólk velti fyrir sér í alvöru hvort ekki megi spara umtalsverðar fjárhæðir í ríkisrekstrinum með því að senda ríkisstjórnina heim og nota í staðinn pósthólf og sjálfvirkan símsvara til að taka við tillögum utan úr bæ. Stjórnmálamenn á Íslandi hafa á sér yfirbragð kontórista. Skoðanir sínar tjá þeir í óskiljanlegum runum hundraðshlutatalna og meðaltalsbulli úr testamentum Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans. Einungis sá sem hugsar eins og kontóristi tekur meira mark á Þjóðhagsstofnun en þjóðinni sjálfri. Einungis sá sem hugsar eins og kontóristi trúir því að hægt sé að mæla velferð þegnanna með tommustokk og lesa niðurstöðurnar úr meðaltölum. Einungis andlausum kontóristum hefði tekist það sem íslenskum stjórnmálamönnum hefur tekist. Þeir hafa komið duglegustu þjóð í heimi á vonarvöl. Þeir hafa gert hana ósjálfbjarga í peningamálum, þeir hafa spillt möguleikum hennar á að sjá sér farborða og eru á góðri leið með að koma henni á uppboð í útlöndum.

Herra forseti. Í stefnuræðu sinni vék hæstv. forsrh. að skólamálum og sagði, með leyfi forseta: „Sérstaklega verður hugað að gæðum menntunar. Í landi fárra auðlinda gegnir menntakerfið lykilhlutverki í nýsköpun atvinnulífs.“

Ég tek heils hugar undir þessa skoðun en harma jafnframt þá tilraunastarfsemi sem stjórnvöld með fjmrn. í broddi fylkingar hafa stundað í skólakerfinu með athugunum sínum á því hversu langt væri hægt að fara með kennara niður í launum. Það er ljóst að þessi tilraun hefur mistekist með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Í upptalningu á svokölluðum grunnatvinnuvegum þjóðarinnar vill skólakerfið oft gleymast, og sú staðreynd að þekkingarverksmiðjan er sú stóriðja sem framtíðarmöguleikar allra atvinnugreina hljóta að byggjast á. Þess vegna er stefna hæstv. ríkisstj. í menntun hættuleg þeirri framtíð sem þessi þjóð ætlar sér. Sagt er að verðbólgualdan rísi nú í kjölfar kjarasamninga og orsaka hennar sé ekki síst að leita í óbilgjörnum og óraunsæjum kröfum opinberra starfsmanna. Um þessa skoðun virðist gott samkomulag í ríkisstj. En kjaramál opinberra starfsmanna eru engin einkamál þeirra og ríkisvaldsins. Kjör ríkisstarfsmanna skipta sköpum í möguleikum þegnanna til þess að njóta þeirrar opinberu þjónustu sem þeir hafa gott samkomulag um að reka.

Láglaunastefna ríkisstjórna allra tíma hefur spillt þessu kerfi, hrekur þaðan hæft vinnuafl og veldur sorglegri vannýtingu á dýrri fjárfestingu. Það ætti að vera metnaðarmál hverrar ríkisstjórnar að skapa starfsmönnum ríkisins þannig kjör að í hverju starfi sé sem hæfast og best fólk. Þegnarnir eiga kröfu á að fjárfesting í opinberum stofnunum nýtist betur en tómstundaverkefni hv. alþingismanna á borð við Kröflu og Sjóefnavinnslu. Það er þess vegna sanngjörn krafa að stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til Alþingis hafi stefnu í launamálum opinberra starfsmanna og birti hana. Ekki vegna afkomu starfsmannanna, heldur vegna þess að stefna í launamálum ríkisstarfsmanna er fyrst og fremst stefna í þjónustu ríkisins við þegnana, gæðum hennar og nytsemi.

Herra forseti. Að vanda boðar hæstv. ríkisstj. svokallaðar hliðarráðstafanir og mildandi aðgerðir. Um þessi áform er lítt fjallað í stefnuræðu hæstv. forsrh. Þó er upplýst að auka á greiðslur almannatrygginga og lækka tolla á nokkrum nauðsynjum. Þetta þýðir samkvæmt reynslunni að lækkaðir verða tollar t.d. á gráfíkjum og súputeningum og Þjóðhagsstofnun mun síðan reikna litla manninum grjónagraut í hvert mál og franskbrauð í hverja skúffu á grundvelli þeirra aðgerða.

Þá verður elli- og örorkulífeyrisþegum haldin meðaltalsveisla með því að hækka lífeyri kannske um 4–500 kr. og úthluta nokkrum fríum afnotagjöldum af síma í viðbót. Ríkisstj. virðist ekki átta sig á því að litli maðurinn í meðaltalsafkomudæmi Þjóðhagsstofnunar er löngu dauður.

Herra forseti. Bandalag jafnaðarmanna hafnar útfærslu ríkisstj. á þeirri stefnu sem hún boðar. Bandalag jafnaðarmanna hafnar þeirri pólitísku eymdarheimspeki sem liggur að baki aðgerðum ríkisstj. Ríkisstj. ráfar nú að því er virðist stefnulaus um hallærisplan framsóknaráratugarins og enginn veit hvar hún endar. Bandalag jafnaðarmanna trúir því að þjóðin eigi betra skilið.