22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Gott fólk. Vinnudeilurnar nú síðsumars og fram eftir hausti voru harðar, einhver hörðustu átök í íslensku samfélagi um langt skeið. Pólitísk átök auðvitað öðrum þræði en hreint ekki flokkspólitísk. Þetta voru kjaradeilur sem því miður hafa ekki leitt til batnandi kjara. Um það ættu allir að geta verið sammála.

Nú eftir á mættum við líka að því hyggja að þrátt fyrir allt urðu engin þau slys sem ekki verður bætt fyrir, engir þeir árekstrar eða sár sem lengi standa ógróin ef menn gleyma ofsögðum orðum. Ég er ekki viss um að auðfundið sé það þjóðríki sem státað gæti af þessari gæfu eftir það sem á undan er gengið eða lært af mistökunum sem við vonandi gerum.

Menn deila vart um það lengur að stefna sú, sem mörkuð var við myndun ríkisstj. í fyrra, hafi verið rétt og árangurinn í glímunni við verðbólguna ótrúlega skjótur og mikill. Fyrstu tilraunir til myndunar samstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. fóru út um þúfur því að tölvumeistarar og spekingar margir utan þings höfðu reiknað það út að ekkert minna mætti gagn gera en svipta fólk öllum bótum fyrir þriggja mánaða kjararýrnun í 130% ársverðbólgu. Síðari tilraunin tókst. Laun voru hækkuð um 8% og síðan 4% 1. okt. Þetta gat fólk þolað. Menn glöddust yfir árangrinum og langt fram eftir þessu ári undu menn kjaraskerðingunni í von um að árangur yrði varanlegur svo að athafnalífið gæti eflst og kjörin farið batnandi. En boginn var ofþaninn og því fór sem fór.

Eitt mikilvægasta ákvæði stjórnarsáttmálans var að finna í III. kafla hans þar sem segir að ríkisstj. hafi ákveðið að bæta hag þeirra sem verst eru settir með eftirgreindum kjarabótum, eins og orðrétt segir: 1. Skattar og tollar, sem nú leggjast með miklum þunga á ýmsar nauðsynjavörur, verði lækkaðir. Síðan eru í fimm liðum taldar aðrar aðgerðir.

Í fyrravetur var mikil vinna í það lögð, m.a. í þingnefnd, að undirbúa efndir þessa mikilvæga ákvæðis, því að oft tekur ríkið með tollum og sköttum 200% ofan á verð vörunnar á hafnarbakkanum þannig að vara sem kostar 100 kr. komin hér á land er seld út úr búð á 400 kr. Hér er um að ræða margar brýnustu nauðsynjar hvers einasta heimilis. En þá komu reiknimeistararnir og hagspekingarnir til skjalanna, fundu gífurlegt gat á fjárlögum og töldu með öllu ábyrgðarlaust að stjórnin lækkaði tolla og vörugjöld undir þessum kringumstæðum. Þó hefði hvert mannsbarn átt að skilja að mikil lækkun vöruverðs væri öflugasta ráðið til að kveða niður verðbólgu, enda yrði ekki gengið nær launum fólks.

Þess er svo einnig að gæta að ríkisútgjöldin eru nánast ekkert annað en launagreiðslur, beinar og óbeinar, og gjaldeyrisnotkun þegar upp er staðið. Því var ljóst að ríkisútgjöldum mátti halda niðri nokkurn veginn til jafns við hugsanlegt tekjutap ríkisins ef fólk gat sætt sig við minni kauphækkanir og genginu var hægt að halda sæmilega stöðugu.

Við stöndum nú frammi fyrir því að gengið er fallið, kjarabætur hafa orðið minni en efni stóðu til og vandi útgerðarinnar óleystur. Þetta er vandinn sem ríkisstj. og stjórnarflokkar glíma við. Á lausn hans veltur það auðvitað hvort ríkisstj. tekst það ætlunarverk sitt að kveða verðbólguna í kútinn og treysta grundvöll atvinnuveganna. Þarf engan að undra þótt tíðir fundir séu haldnir og menn hafi nokkuð ólík sjónarmið í stjórnarflokkunum né þá hitt að umr. þessi hefur dregist og er kannske varla tímabær í kvöld þar sem viðbrögðin við nýjum aðstæðum eru enn ekki fullmótuð.

Íslendingar hafa af því bitra reynslu nokkuð á annan áratug að verðbólga hefur verið keyrð áfram með því annars vegar að hækka sífellt skatta í kjölfar gengisbreytinga, einkum þau gjöld sem leggjast á vöruverð, og hins vegar með skömmtunarstjórn í peningamálum, svokallaðri peningamagnsstefnu. En þessi stefna hefur ekki einungis verið eldiviður verðbólgunnar gagnstætt því sem tilgangurinn var, heldur er peningakerfið í bókstaflegri merkingu fyrir löngu hrunið samhliða útþenslu banka og hinna margháttuðu peningastofnana. Hér vinnst ekki tími til að fara lengra út í þá sálma. En aðeins skal á það bent að það þjóðfélag er siðlaust, þar sem menn geta ekki fengið minni háttar lán þótt lífsnauðsyn sé og eignir og tryggingar séu nægilegar. Peningar eiga ekki að vera neitt annað en ávísanir á verðmæti og verðmæti eru mikil til á Íslandi. Bankana á því að opna strax og breyta þeim eins fljótt og unnt er í almenningshlutafélög, enda þekkist það hvergi í lýðfrjálsu landi að ríkið einoki peningakerfið og mismuni mönnum og fyrirtækjum að geðþótta skömmtunarstjóranna.

Eins og margsinnis hefur komið fram — og nú síðast í stefnuræðu forsrh. og máli formanns Sjálfstfl. — keppir ríkisstj. að því að efla bæði gróna atvinnuvegi og stuðla að því að nýgræðingur festi þróttmiklar rætur. Það og einmitt það er að vinna sig út úr vandanum. Að þessu hlýtur ríkisstj. að beina sjónum sínum strax og menn fá hvílt augun frá því að rýna í marklitlar tölvuspár og fjárlagatölur sem eiga vafasama stoð í veruleikanum, enda hefur þeim um langt skeið verið hagrætt með lánsfjáráætlunum, sérlögum og flutningi fjármagns þjóðarinnar frá hinu svokallaða fjárveitingavaldi til margvíslegra stofnana sem ganga meira og minna sjálfala út og suður um þjóðlífið án gæslu sem orð er á gerandi af hálfu Alþingis.

Ég vil hér aðeins geta um eitt þessara verkefna, sem nærtækust eru og ég hef nokkurn kunnugleika á, en það er fiskiræktin. Með henni einni gætum við á örskömmum tíma unnið okkur út úr vandanum með fjárfestingu sem væri mun minni en við vörðum á einu ári til kaupa Japanstogara en út í það get ég víst ekki lengra farið.

En ég get ekki lokið máli mínu svo að víkja ekki að hafréttarmálunum. Þar hefur vel verið að verki staðið undir forustu utanrrh. Á það við um undirbúning þess að við tryggjum yfirráð okkar á Reykjaneshrygg allt að 350 mílum og réttindin á Rockallhásléttu og einnig réttargæslu á Jan Mayen-svæðinu. Öll þessi mál og samskiptin við Færeyinga, Grænlendinga og Norðmenn, jafnvel líka Kanadamenn, um verndun og nýtingu nyrstu hafsvæða Atlantshafsins eru nú að komast í brennidepil. Þá er ómetanlegur sá mikli og vandaði undirbúningur sem utanríkisþjónustan hefur lagt okkur í hendur. Verkefnaskortur er enginn hjá ríkisstj. eða Alþingi öllu því að um það get ég borið að í hafréttarmálunum hefur öll stjórnarandstaðan unnið vel og alger samstaða verið um aðgerðir Íslendinga. Hygg ég að einnig gæti náðst góð samvinna um átak í atvinnumálunum því að fleira er það áreiðanlega sem sameinar okkur en sundrar. Þess vegna getum við jafnvel í erfiðleikum verið hóflega bjartsýn og þess vegna ber framtíðin líka áreiðanlega hagsæld í skauti sínu. — Góða nótt.