22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þegar við stóðum hér á s.l. hausti og ræddum stefnuræðu hæstv. forsrh. hafði ríkisstj. hans meðbyr og stuðning þess fólks sem vildi leggja hönd á plóginn og færa einhverjar fórnir, einkum til að ná niður verðbólgunni. Þá hóf ég mál mitt með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Siðmenning þjóðar er ekki síst metin eftir þeirri mannúð sem hún sýnir lítilmögnum sínum, jafnt á velgengnistímum og eins þegar á móti blæs.“

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Og í dag, rúmlega ári síðar, stöndum við aftur og ræðum stefnuræðu hæstv. forsrh. En nú er annar andblær í þjóðlífinu og vindáttin hefur snúist frá meðbyr í mótbyr. Í kvöld standa meðlimir stéttarfélaga hér utan Alþingishússins til að mótmæla því siðleysi sem þessi ríkisstj. hefur sýnt. Í huga margra er reiði, gremja og biturleiki.

Eftir fjögurra vikna verkfallslotu, þar sem fólk lagði hart að sér og sýndi mikla samstöðu í von um raunverulega kjarabót, hefur næstum öllum ávinningum verið kippt aftur, jafnvel áður en fólk fékk hana í hendurnar. Ég tel að ríkisstj. hafi að verulegu leyti borið ábyrgð á þeim verkföllum sem nú er nýlokið vegna þeirrar stefnu sem hún hefur rekið. Sömuleiðis tel ég að hún hafi ráðið því að samningarnir urðu verðbólgusamningar. Þær skattalækkunarleiðir, sem hún bauð upp á, voru ekki færar vegna þess að allar upplýsingar skorti um viðbrögð ríkissjóðs við því tekjutapi sem slíkt mundi kosta hann. Menn óttuðust að neysluskattar mundu verða notaðir til að mæta því. Skattalækkunarleiðin var því aldrei fær því að hún var ekki nógu skýrt mörkuð, hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson, sem lætur sig hafa það að fylgja fordæmi flokksfélaga sinna og ítreka árásir á Kvennalistann, e.t.v. til að vernda atkvæði sín. En launafólkið situr eftir með sárt ennið og skilur ekki hvers vegna var samið svo illa.

Hæstv. forsrh. fór ekki í felur með yfirvofandi gengisfellingu og gjaldeyrir streymdi úr bönkunum. Ekki var það þó launafólk sem fór í banka að kaupa gjaldeyri því að það beið enn eftir launauppbót sinni. En gengisfellingin var réttlætt með hækkunum sem höfðu ekki einu sinni haft tíma til að komast út í verðlagið. Og brosandi réttir seðlabankastjóri hæstv. forsrh. í gær niðurstöður nýrrar könnunar um gildismat og mannleg viðhorf Íslendinga og segir, með leyfi forseta:

„Við höfum hér mynd af hamingjusamri þjóð sem lent hefur í tímabundnum efnahagslegum erfiðleikum.“ Í umr. í fyrra gagnrýndi ég Seðlabankann og þá áráttu að vilja byggja glæsihallir yfir peninga. Þá var Seðlabankinn nánast húsgrunnur, varla nema ein hæð. Nú er hann allt í einu risinn og gnæfir yfir Kolbeinshaus, svört fráhrindandi sorgarhöll, enda byggð yfir ónýtan gjaldmiðil. En varla verður steini kastað úr því húsi því að það er allt úr gleri.

„Ekki er að spauga með íslenskt sjómannsblóð,“ kvað Ólína Andrésdóttir, með leyfi forseta. Hæstv. forsrh. og seðlabankastjóri. Ég mundi vara mig á því að spauga með Íslendinga. Það eru engir peningar til. Hljómar þetta ekki kunnuglega í eyrum? „Ég er orðin 70 ára gömul og það þýðir ekkert að segja mér að engir peningar séu til. Ég veit að það eru til peningar í þessu landi. Þeir rata bara ekki á réttu staðina.“ Þannig mæltist konu í sundlaugunum um daginn, með leyfi forseta.

Það er talað um þjóðarsátt. Hvað þýðir það? Í mínum huga þýðir það þjóð sem er sátt við sjálfa sig, sátt innbyrðis. Það er líka talað um að í landinu búi tvær þjóðir, sú sem getur áfallalaust haldið uppi eyðslu sinni þrátt fyrir efnahagsvanda og samdrátt í þjóðarbúskapnum og hin sem berst í bökkum og getur tæplega séð sér farborða. Meðan önnur þjóðin hagnast á ástandinu kemur það hinni á vonarvöl. Þessar tvær þjóðir verða að sættast og það gera þær ekki meðan hér situr ríkisstj. sem stíar þeim sífellt lengra í sundur þar til þær komast úr kallfæri, stjórnar gegn fólkinu en ekki fyrir það, sundrar í stað þess að sameina.

Það er sagt að enginn sé búmaður nema hann kunni að berja sér. Það hef ég aldrei skilið hvers vegna búmenn þurfa að vera með barlóm. En hitt veit ég fyrir víst að ekki verður búandi í þessu landi á mannsæmandi hátt ef okkur lærist ekki að skipta jafnara á milli okkar.

Á upplýsingaöld komumst við ekki hjá því að sjá og vita að Afríka sveltur. Og meðan flugurnar leita á máttvana og deyjandi fólkið er okkur sagt að hershöfðingjarnir hafi keypt áfengi fyrir eina millj. sterlingspunda til að gera sér dagamun. Við erum agndofa og hneyksluð á þvílíku misrétti. En samtímis gáum við ekki að okkur og misréttið læðist inn fyrir okkar eigin dyr og hreiðrar um sig mitt á meðal okkar. En það er lítilvægt og viðráðanlegt miðað við misréttið sem ríkir á milli okkar og Afríku. Við þurfum að rækta garðinn okkar, uppræta það illgresi sem misréttið er og viðurkenna að við erum heppin þjóð í góðu landi, aflögufær með dugnað og bjartsýni eins og skjalfest er í könnuninni góðu sem hæstv. forsrh. var fengin í hendur í gær. Þar kemur einnig fram, með leyfi forseta, að engin þjóð í könnuninni velur jafnrétti ofar frelsi jafnoft og Íslendingar, þ.e. að enginn þurfi að búa við misrétti og að stéttaskipting sé ekki mikil.

Við skulum heldur ekki gleyma því sem Stephan G. Stephansson sagði í Íslendingadagsræðu, með leyfi forseta:

„Það er óskaland íslenskt sem að yfir þú býr,“ og það er í höndum okkar sjálfra, þessarar fámennu en dugmiklu þjóðar, að byggja þetta land með réttlæti. Þá varðar okkur miklu að velja þá menn til forustu sem ekki steypa okkur í glötun.

Til umr. er stefnuræða hæstv. forsrh. Það er leiðinlegt hlutverk að þurfa stöðugt að gagnrýna. Þess vegna var það léttir að sjá og heyra að stefna stjórnarinnar er víða jákvæð og ekki mikill vandi að styðja hana og hvetja til dáða á ýmsum sviðum. En þá rámar mig allt í einu í vinnuplöggin fyrir þessar góðu hugmyndir. Það eru jú fjárlögin sem við eigum að ræða á þriðjudaginn. Það er hrópandi ósamræmi milli þessarar fyrirheitaríku en loftkenndu stefnuræðu og niðurskorinna og samansaumaðra fjárlaganna. Hvernig í ósköpunum ætla mennirnir að framkvæma þessar hugmyndir sínar innan þess svigrúms sem fjárlögin gefa?

Nú er lítið vonaraugum til nýsköpunar í atvinnuháttum eins og hv. 1. þm. Suðurl. minntist á. Til að auka á fjölbreytni og um leið stöðugleika í atvinnulífi okkar, til að vega upp á móti sveiflukenndum meginatvinnuvegum, þá er helst talað um að skapa jarðveg fyrir nýja tækni og háþróaðan iðnað. En það er eins og fjárlagasmiðirnir skilji ekki að einn af hornsteinum framtíðarkosta okkar er það hugvit og sú þekking sem þjóðin ræður yfir. Ræktun og beiting þess hugvits, sem getur mætt framtíð breyttra atvinnuhátta, byggir á menntun. Til þess að nýjar hugmyndir geti blómstrað þarf ákveðna lágmarksþekkingarþéttni og það er m.a. sá jarðvegur sem þarf að skapa.

En hvað blasir við? Kennarar eru láglaunastétt, skólar vanbúnir, óviðunandi misrétti ríkir milli þéttbýlis og dreifbýlis í menntunarmálum. Lánasjóður námsmanna sveltur, fjárframlög til Háskólans skorin illilega niður. Í þessu felst kórvilla. Börn okkar munu seint fyrirgefa okkur slíkan sparnað.

Skortur á markvissri peningastjórn hefur valdið þeirri þenslu sem hefur umfram annað komið óreiðu á efnahagsdæmi ríkisstj. og hávaxtastefna hefur ekki dregið úr viðskiptahalla. Áfram eru tekin erlend lán í óarðbærar fjárfestingar og þó að afar brýnt þyki að lækka erlendar skuldir þjóðarinnar en ekki að auka þær, þá segir ríkisstj. eins og sá sem ætlar að venja sig af ávana: Ekki í dag, á morgun, á morgun. Ríkisstj. verður að skilja það að það er ekki launafólk á Íslandi sem eru erkióvinir efnahagsdæmisins. Þar tel ég að rangar fjárfestingar, sóun verðmæta og sjónarmið stundargróða séu mun veigameiri ástæður. Ríkisstj. verður líka að skilja að efnahagsvandinn verður ekki leystur með niðurskurði félagslegrar þjónustu sem íslenskt launafólk hefur lagt áherslu á í samningum undanfarin ár, jafnvel á kostnað launahækkana.

Á bls. 18 í stefnuræðu hæstv. forsrh. er mjög mikilvægur kafli þar sem greint er frá mildandi aðgerðum til þeirra sem við lakari kjör búa. Þar eru mjög óljós fyrirheit t.d. um tollalækkanir á nokkrum nauðsynjavörum, lækkun tekjuskatts og greiðslur almannatrygginga. Það getur hreinlega haft úrslitaþýðingu fyrir mörg heimili hvernig staðið verður að þessum þáttum. Á bls. 23 segir, með leyfi forseta:

„Þessi mikla aukning þjóðarframleiðslu og þau góðu lífskjör, sem okkur Íslendingum hefur tekist að skapa, hafa því einnig og ekki síður byggst á mjög mikilli vinnu, löngum vinnutíma og mikilli atvinnuþátttöku kvenna. Samt hefur þessi mikla atvinnuþátttaka kvenna verið gróflega vanmetin og konur eru hálfdrættingar í meðallaunum miðað við karla. Enda una konur því ekki lengur að störf þeirra séu vanmetin eða að laun þeirra dugi ekki til framfæris. Konur una því heldur ekki að störf þeirra séu ekki metin sem ábyrgðarstörf, hvort sem þau lúta að fólki, menntun barna, hjúkrun sjúkra og umönnun aldraðra eða vinnslu hráefnis og öðrum framleiðslustörfum, grundvallarstörfum sem eru forsenda þess að þjóð sjái sér farborða og haldi mennsku sinni. En konur vinna víðar en í launuðum störfum á vinnumarkaðinum. Ólaunað en ómetanlegt og ómælt vinnuframlag kvenna á heimilum sínum stuðlar að daglegri velferð þjóðfélagsins. Það er samt lítið metið til starfsreynslu á hinum almenna vinnumarkaði þó að örli á breytingum til batnaðar í þeim efnum nýlega. Sömuleiðis er réttindaleysi heimavinnandi húsmæðra algerlega óviðunandi og þarfnast bráðra úrbóta.“

Það var einu sinni kóngssonur í Danmörku sem lét það vefjast fyrir sér hvort hann ætti að vera eða vera ekki. Þessi ríkisstj. virðist spyrja sjálfa sig sömu spurningarinnar. Og mér heyrist hún líka segja: Það góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en það illa, sem ég vil ekki, gjöri ég.

Sumir segja að fólk fái þá stjórn sem það á skilið. Ég ansa því ekki. Íslendingar eiga skilið miklu betri stjórn. Eftir móðuharðindin var íslenska þjóðarfjölskyldan ekki nema tæplega 40 þús. manns, enda hart að henni sorfið, eldgos, sjúkdómar, veðurharðindi og fátækt. Þá dugði henni best til að halda á sér hita og lífi að standa þétt saman og líta vel eftir sínum og skipta jafnt því sem til skiptanna var. Í dag er íslenska fjölskyldan næstum því sex sinnum stærri og neyð hennar sem betur fer þess eðlis að hún getur ráðið við hana ef hún vill. En jafnt og áður dugir henni best að standa þétt saman til að leita réttar síns og tryggja afkomu sína og skipta jafnt því sem til skiptanna er. Og henni er jafn nauðsynlegt og áður að forðast þá forustusauði sem slegnir eru blindu og gætu leitt hana í glötun. — Ég þakka áheyrnina.