22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Um síðustu kosningar lá það fyrir að mikill vandi var á ferðinni í íslensku þjóðfélagi. Framsfl. viðurkenndi þennan vanda og gekk til þeirra kosninga undir því kjörorði að það þyrfti að skapa festu í þessu þjóðfélagi til þess að við gætum sótt fram til betri framtíðar. Sá vandi, sem þá blasti við, kom einkum fram í verðbólgu, skuldasöfnun erlendis, aflasamdrætti og skipulagsvanda sjávarútvegsins sem m.a. hafði leitt til ofveiði stofnanna. Þetta skapaði mikla rekstrarörðugleika í okkar atvinnustarfsemi sem í reynd ógnaði öllu okkar skipulagi og skipulegri starfsemi í þjóðfélaginu.

Upphafsaðgerðir ríkisstj. voru að ráðast gegn þeirri miklu verðbólgu sem hv. þm. Ragnar Arnalds var að reyna að endurreikna áðan. Það var staðfest af Þjóðhagsstofnun þá að verðbólgan væri 130%. Það er í reynd furðulegt að margir hv. þm. skuli ráðast hér að þeirri stofnun sem hefur almennt traust í þjóðfélaginu og ekki bara ríkisstj. heldur Alþingi og hagsmunaaðilar byggja á í þjóðfélaginu. Það er nánast furðulegt. Og ég vildi upplýsa hv. þm. Ragnar Arnalds um að verðbólgan í Ísrael var líka fyrir nokkru rúmlega 100% og það tók aðeins örfáa mánuði þar til hún var orðin 1000%.

Hv. þm. Ragnar Arnalds sagði að Framsfl. hefði fórnað íslenskum hagsmunum í álmálinu. Hið rétta er að Alþb. fórnaði þeim til þess að þjóna áróðurshagsmunum sínum. Þetta vildi Framsfl. ekki búa við. Alþb. hefur aldrei viljað semja um okkar ágreiningsmál við erlenda aðila, hvorki í landhelgismálinu né þessu máli. Nú hefur því verið komið í höfn. Það má gagnrýna alla samninga, en samningsleiðin er sú eina sem til er í slíku máli.

Já, ég hvet ykkur einnig, góðir hlustendur, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds sagði hér áðan, að kynna ykkur tillögur Alþb. Þær hafa ekkert breyst. Þær eru löngu kunnar og eru því miður ónothæfar.

Annað það vandamál sem var mjög ríkjandi í þjóðfélaginu, eins og ég kom að hér áðan, var fiskveiðistefnan, fiskveiðistjórnunin, sem hafði orðið til þess að stofnarnir voru ofveiddir. Þetta kom sérstaklega fram á s.l. hausti þegar það kom í ljós að þorskstofninn var mjög illa kominn. Þá var einnig gripið til mjög ákveðinna aðgerða af núv. ríkisstj. með því að skipta afla upp á hvert skip í landinu og reyna með því að dreifa aflanum réttlátlega um landið og reyna einnig að dreifa honum réttlátlega milli skipa og þar með þess fólks sem lifir á þessari starfsemi. Á s.l. hausti var því spáð að þetta mundi leiða til þess að mikið atvinnuleysi yrði ríkjandi í landinu á haustmánuðum. Annað hefur komið í ljós. Gæði fisks hafa aukist mjög verulega, sóknarkostnaður hefur minnkað, t.d. hafa togararnir aflað álíka mikils og á s.l. ári nú. Hins vegar hefur sókn þeirra dregist saman um 10–15% a.m.k. Skipum hefur verið lagt og verulegur sparnaður hefur átt sér stað. Rækjuafli hefur tvöfaldast og loðnuafli hefur komið á ný sem sýnir að það er rétt að vernda stofnana.

Það hefur í sjálfu sér verið sárt að takmarka afla, en það er enn þá sárara að eyðileggja þessa auðlind. Það er einnig sárt að rýra kaupmátt. En það er enn þá sárara að safna upp óreiðuskuldum erlendis og láta komandi kynslóðir um það.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði áðan að það væri rétt fyrir aðila í þjóðfélaginu, ríkisstj. og atvinnugreinar að líta í eigin barm. Ég tek undir það. Ég vil halda því fram að engin önnur atvinnugrein hafi litið jafnríkulega í eigin barm og íslenskur sjávarútvegur á því ári sem er að líða. Það hefur tekist þrátt fyrir mikla erfiðleika að endurskipuleggja margt í íslenskum sjávarútvegi sem mun skila miklu í framtíðinni, þannig að það er ekki rétt hjá honum að enginn hafi litið í eigin barm, en ég held að það eigi ekki síður við hv. stjórnarandstöðu sem hér hefur talað í kvöld.

Til marks um hvað íslenskur sjávarútvegur hefur lagt af mörkum í þjóðfélaginu á undanförnum áratugum stendur nú til og er ákveðið að endurgreiða honum uppsafnaðan söluskatt á næsta ári sem nemur 500 millj. kr. Þá fjárhæð hefur þessi atvinnugrein lagt til uppbyggingar ýmissa þátta í þjóðfélaginu á undanförnum árum og jafnvel áratugum. Það er eðlilegt að slík atvinnugrein sé ekki vel stödd þegar hún hefur aldrei fengið að safna upp sjóðum. Þeir hafa jafnóðum verið teknir til annarrar uppbyggingar í þjóðfélaginu.

Þrátt fyrir að mikill árangur hafi náðst hefur okkur skilað af leið. Sjávarútvegurinn gat ekki staðið undir þeim kostnaðarhækkunum sem nú hafa dunið yfir okkur. Það var engin leið. Áföllin hafa verið mikil á undanförnum árum. Útflutningsverðlag lækkaði um 2% 1981, 9.5% 1982, 1.5% 1983 og um 4% í ár. Það er ekki hægt að reikna með því að þegar slíkt ástand er og aflasamdráttur á sér stað gangi okkur vel að sækja hratt fram á veg. Á undanförnum árum höfum við byggt upp mikið í þessu þjóðfélagi, m.a. þjónustukerfi. Það er eðlilegt að þegar undirstöðuatvinnugreinin gengur jafnilla og raun ber vitni þurfi að draga úr útgjöldum ríkisins. Þetta hefur þurft að gera, draga úr framkvæmdum, draga úr ýmiss konar þjónustu, en það hefur verið nauðsynlegt.

Stjórnarandstaðan hefur sagt hér í kvöld aðallega frá þeim erfiðleikum sem einstaklingar eiga í í þjóðfélaginu. Það er allt saman rétt. Þeir eiga í miklum erfiðleikum. En vandamálið er fyrst og fremst hvernig á að brjótast út úr þessum erfiðleikum og hvernig á að komast frá þeim. Framsfl. hefur alltaf haldið því fram að verðmætasköpunin í þjóðfélaginu væri undirstaða alls. Fyrst þegar hún er komin og við höfum staðið okkur á því sviði getum við farið að miðla því og skipta því sem við höfum aflað.

Það er einnig nauðsynlegt að hafa ávallt í huga jöfnunaraðgerðir, þannig að jafnað verði sem best meðal þegnanna í þjóðfélaginu. Íslenska skattkerfið er á margan hátt gallað og þarf stöðugt að vera í endurskoðun. Það er einnig nauðsynlegt í dag að halda áfram þeirri endurskoðun til að jafna tekju- og eignaskiptinguna í þjóðfélaginu. Með sama hætti er nauðsynlegt að halda áfram því mikla átaki, sem hefur verið gert í húsnæðismálum, sem er mikill þáttur í jöfnunaraðgerðum í þjóðfélaginu.

Við höfum, Íslendingar, byggt upp þjóðfélag mikilla framfara. Við viljum stöðugt sækja fram. Engin þjóð kemst hjá því að staldra við og verja það sem áunnist hefur. Boðskapur stjórnarandstöðunnar hér í kvöld er verðbólga, erlend skuldasöfnun og áhugaleysi um aukna verðmætasköpun. Ríkisstj. mun óhikað og ótrauð verja þá undirstöðu sem við höfum byggt upp á undanförnum árum og byggja á henni sókn í atvinnumálum og í bættum lífskjörum.