22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hvers vegna studdi meiri hluti launafólks þær aðgerðir núv. ríkisstj. að skera niður raungildi kaupmáttar kauptaxta um 25% eða fjórum sinnum meira en nam rýrnun þjóðartekna á mann á sama tíma? Vegna þess að launafólk trúði því að með því að taka þátt í að kveða niður verðbólguna yrði rekstrargrunnur framleiðsluatvinnuveganna treystur og þeim ykist svo ásmegin til aukinnar verðmætasköpunar að launaskerðingin yrði aðeins tímabundin. Hvers vegna hefur svo meiri hluti þjóðarinnar snúist gegn stjórnarstefnunni í sumar og haust, bæði í skoðanakönnunum og þó einkum í verki í mjög eindreginni stéttabaráttu á vinnumarkaðinum? Vegna þess að öllum var orðið ljóst að launþegar höfðu ekki verið þátttakendur í því að kveða niður verðbólguna. Þeir höfðu einir fórnað.

Þær fórnir sem komu fjölmörgum fjölskyldum á vonarvöl urðu ekki til þess að efla grundvallarframleiðsluna til lands og sjávar, heldur hafði fjórðungur af lifibrauði almennings einfaldlega verið færður beint í hendur þjónustu og milliliða hvers konar og þeirra aðila sem gera sér gjaldeyrinn að féþúfu. Blekkingarvefurinn, sem vafinn var um fyrirheit stjórnarstefnunnar fyrir einu og hálfu ári, hefur hrunið og nú blasir við hverjum manni að launafólk var vélað til að umbera allan þennan tíma markvissa og yfirvegaða stjórnarstefnu í þágu milliliða og braskara. Almenningur var vélaður til að umbera stjórnarstefnu sem er fyrst og fremst hagsmunavarsla fyrir auðstéttina í landinu í þeirri stéttabaráttu sem látlaust er háð í þjóðfélagi okkar.

Gróðastéttin boðaði þessa stefnu í Morgunblaðinu 9. nóv. 1979, stefnu sem hlaut meðal almennings nafnið „leiftursókn gegn lífskjörunum“. Henni höfum við nú fengið að kynnast í raun. Þar er einkagróðinn settur í öndvegið, en félagshyggja, samhjálp þjóðfélagsins og ábyrgðartilfinning fyrir afkomu hvers og eins er markvisst upprætt. Margs kyns ráðstafanir í skattamálum ásamt auknu athafnafrelsi milliliða, allt eftir uppskrift Verslunarráðs Íslands, hefur stóraukið gróða þessara aðila á sama tíma og launakjör almennings hafa verið skorin niður um fjórðung. Og réttur þeirra sem byggja afkomu sína á bótum almannatrygginga hefur ekki verið rýrari um áratugi, nema e.t.v. í lok stjórnartímabils viðreisnarstjórnarinnar þegar ráðherrar Alþfl. höfðu farið með málefni almannatrygginga í rúman áratug. Það var framlag Alþfl. þegar hann réði afkomu hinna fátækustu í landinu.

Þann mikla árangur sem náðist varðandi lífsafkomu öryrkja og lífeyrisþega þegar Alþb. fór með málefni þessa fólks hefur núv. ríkisstj. að verulegu leyti afmáð á einu og hálfu ári. Í þeim efnum sem öðrum er stéttabaráttan viðvarandi og enginn árangur er endanlega tryggður. heldur hverfur í þeirri andrá sem launafólk gerir skyssur í kosningum. Það sést best þessa dagana þegar ríkisstj. staðfestir með harkalegri gengislækkun að hún ætlar ekki að láta launalægsta fólki í landinu takast að endurheimta nokkurn hlut af þeim fjórðungi launa sinna sem ríkisstj. færði gróðastéttunum á silfurfati í fyrrasumar.

Þegar óheft frelsi einkagróðans hefur nú verið sett í öndvegi í þjóðfélaginu er ekki spurt um arðsemi út frá hagsmunum þjóðarheildarinnar, heldur þann arð sem hver og einn fjármagnseigandi getur skóflað inn með nýfengnum fríðindum og því olnbogarými sem stjórnarflokkarnir hafa verið að keppast við að færa þeim að undanförnu. Kjör þeirra sem stunda hina raunverulegu frumverðmætasköpun, sjómanna, fiskvinnslufólks og bænda, eru rústuð niður og ekkert gert til þess að tryggja rekstur útgerðar og fiskvinnslu. Þvert á móti verða aðgerðirnar í peninga- og vaxtamálum nú í haust rothöggið á mörg fyrirtækin, eins og reynslan er að sýna. Vextir eru gefnir frjálsir og settir á uppboðsmarkað og fjármagnsfrekar atvinnugreinar í framleiðslu, þar sem greiða þarf af mikilli fjárfestingu og af hráefni á löngu framleiðsluferli, hvort sem er í sjávarútvegi eða landbúnaði, eru ofurseldir vaxtaokrinu sem vegur miklu meir til útgjaldaauka en þær launahækkanir sem nú er verið að gera að engu. Slík arðsemi sem vaxtastefnan gerir kröfur til er, eins og málum er háttað og ef ætlunin er að greiða mannsæmandi laun, óhugsandi nema hjá þeim sem búa við ívilnanir ríkisstj. í milliliðastarfsemi og braski. Þessi stefna er að leggja í rúst grundvallaratvinnulífið í landinu, þar sem innt er af hendi það erfiði sem ekki verður hjá komist ef okkur á að takast að lifa hér norður á hjara heims, það erfiði sem er undirstaða allra lífskjara þjóðarinnar og alls þess gróða sem nú hleðst upp þar sem síst skyldi. Þessi grundvallarstörf eru innt af hendi af sjómönnum, fiskvinnslufólki, bændum, útgerðarmönnum og eigendum fiskvinnslustöðva. Og hafi einhver haft áhyggjur af því að útgerðinni hafi einhvern tíma verið gefið eitthvað í sambandi við skipakaup geta hinir sömu létt af sér þeim áhyggjum. Það hefur þá a.m.k. verið tekið til baka nú að undanförnu og kannske ríflega það.

Þegar verið er að fórna atvinnuöryggi launafólks á altari gróðaliðsins á Reykjavíkursvæðinu og brenna eigið fjármagn í sjávarútvegi á báli markaðshyggju ríkisstj., þá er þáttur í þessum ófarnaði að innan Sjálfstfl., sem áður fyrr gætti nokkuð hagsmuna útgerðarinnar, á sjávarútvegurinn nú enga þá málsvara sem flokksforustan telur þörf á að taka nokkurt minnsta tillit til. Eins og að sjávarútveginum er nú sótt af stjórnarstefnu sem hefur hagsmuni milliliða og fjármagnseigenda að leiðarljósi, þá eru það sameiginlegir hagsmunir sjómanna og fiskverkunarfólks og þeirra sem annast rekstur útgerðar og fiskvinnslu að stefnu núv. ríkisstj. verði hnekkt, en grundvallarákvarðanir í stjórnmálum markist fyrst og fremst af hagsmunum þeirra sem framleiða þau verðmæti í þjóðfélaginu sem við öll lifum á.

Tvær fréttir sem birtar voru um næstsíðustu helgi lýsa e.t.v. best hvað er að gerast í kjölfar stjórnarstefnu núv. ríkisstj. Þær sýna í senn hvers konar starfsemi situr í fyrirrúmi í þjóðfélagi frjálshyggjunnar og hvað er á hinn bóginn að gerast varðandi stöðu grundvallarframleiðslunnar í landinu. Í annarri fréttinni var sagt frá því að boðinn hefði verið upp togari á nauðungaruppboði í útgerðarbænum Akranesi, og það er aðeins upphafið í þeim efnum. Í hinni síðari fréttinni var greint frá högum dekurbarna stjórnarstefnunnar. Ný verslun var að hefja starfsemi í Reykjavík og auglýsti með nær heilsíðulitmyndaauglýsingum í dagblöðunum að nú væri það nýjast um ráðstöfun á gjaldeyri þjóðarinnar, sem sjómenn hætta lífi sínu til að afla, að þessi nýja verslun sinnti því einu að selja handunnið konfekt sem flutt væri vikulega með flugi frá Svisslandi. Og svo örugglega uppfyllti þetta fyrirtæki kröfur markaðsstefnunnar um arðsemi umfram útgerð og fiskvinnslu, sem verið er að drepa, að um leið var boðað að innan skamms yrði opnuð önnur sams konar verslun ofar við Laugaveginn.

Þetta er ríkisstjórnarstefnan í hnotskurn. Þegar frumverðmætasköpunin er að stöðvast, verið er að brenna upp eigið fjármagn útgerðarinnar, þegar hallir verslunarinnar fá innlenda lánsféð, en útgerðin dollaralánin með 22% raunvöxtum, þegar fiskvinnslufólk er að missa atvinnuna og allt lægst launaða fólkið í landinu að horfa upp á ríkisstj. hrifsa aftur árangurinn af varnarstríði þess í launamálum, þá segja stjórnarherrarnir, íhald og framsókn, við gjaldþrota útgerðina og þrautpíndan almenning: Má ekki bjóða ykkur handunnið konfekt frá Sviss? Ég segi aftur: Þetta er stjórnarstefnan í hnotskurn.

Er ekki kominn tími til að hver launamaður, hvort sem hann er nú launaflokknum hærri eða lægri en vinnufélaginn, geri sér ljóst að spurningin um lifibrauð heimilisins er spurningin um árangur í stéttabaráttu, spurning um skiptingu verðmætanna milli fjármagnseigenda og þeirra sem í raun eiga ekkert nema vinnuafl sitt, vinnuafl sem er undirstaða allrar verðmætasköpunar í landinu? Það er grundvallaratriði að menn geri sér ljóst að stéttabaráttan, sem ræður úrslitum um afkomu heimilanna, er háð á tvennum vígstöðvum: á vinnumarkaðinum, þar sem þúsundir launamanna þjöppuðu sér fyrir skemmstu saman í órofa heild, og í stjórnmálum, þar sem þessar þúsundir sundruðust og eru þess vegna að tapa því þessa dagana sem vannst með samstöðunni í kjarasamningunum. Það er grátlegt að fólk, sem stóð saman hlið við hlið í kjaradeilunum, varð sér með sundrungunni í síðustu þingkosningum úti um forsrh. sem veitir launamanni með innan við 10 þús. kr. útborguð mánaðarlaun þessi svör: Hefurðu ekki eftirvinnu, næturvinnu eða vaktaálag? Er þetta ekki í lagi? Áttu ekki maka sem vinnur úti?

Það fólk sem stendur saman í kjarabaráttunni verður að gera sér ljóst að ástæðan til þess að ríkisstjórnarflokkarnir gátu myndað ríkisstjórn eftir kosningarnar 1983, þótt þeir töpuðu samanlagt í þeim kosningum, var fyrst og fremst sú að andstæðingar þeirra deildu sér í fleiri flokka en nokkru sinni fyrr. Afleiðingarnar brenna nú á örvilnuðum fyrirvinnum alþýðuheimilanna um allt land. Sú staðreynd að launafólk þjappar sér ekki saman í órofa heild í pólitísku baráttunni á sama hátt og í stéttarfélögum sínum er grundvallarorsök þess að Verslunarráðinu tókst með þeim pólitísku ækjum sem Sjálfstfl. og Framsfl. eru að gera leiftursókn gegn lífskjörunum að stjórnarstefnu í landinu, stjórnarstefnu sem er þvinguð fram í þágu milliliða og fjármagnseigenda og nú er verið að treysta í sessi með hefndaraðgerðum vegna nýgerðra kjarasamninga.

Alþb. er baráttutæki launafólks í stéttabaráttunni á því pólitíska sviði sem verður ekki skilið frá faglegri baráttu verkalýðsfélaganna. Án samstillingar á báðum þessum sviðum næst enginn varanlegur árangur. Hann er hrifsaður burt á Alþingi eins og við höfum séð. Enginn árangur í launabaráttunni verður tryggður fyrr en það fólk sem stóð hlið við hlið í kjarabaráttunni byggir upp jafnöfluga samstöðu um eflingu þess pólitíska baráttutækis launafólks sem Alþb. er. — Góða nótt.