26.11.1984
Efri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Aðdragandi þessa frv. er m.a. bréf er sjútvrn. ritaði Verðlagsráði sjávarútvegsins 13. nóv. 1984, svo hljóðandi:

„Að undanförnu hafa verið gerðir nýir kjarasamningar hjá meginþorra launþega í landinu. Þessir samningar raska í verulegum atriðum forsendum fiskverðsákvörðunar þeirrar er tekin var í júní s.l. og gilda skal til áramóta, sbr. tilkynningu Verðlagsráðs nr. 12/1984“.

„Í ljósi þessa og með tilliti til þess að Verðlagsráðið ákveður sjálft verðtímabil fiskverðs lögum samkvæmt, beinir ráðuneytið því til Verðlagsráðs hvort ekki sé tilefni til þess að ákveða nýtt fiskverð, sem taki gildi fyrr en áður var ákveðið.

Með tilliti til allra aðstæðna telur ráðuneytið ekki óeðlilegt að nýtt verðtímabil hæfist á næstu vikum í stað áramóta og stæði til eigi skemmri tíma en loka vetrarvertíðar og ef til vill lengur m.a. með hliðsjón af gildistíma kjarasamninga. Ráðuneytið telur að Verðlagsráð geti tekið slíka ákvörðun, ef um það er samkomulag í ráðinu.

Telji Verðlagsráð að atbeina ráðuneytisins eða Alþingis þurfi til að ákveða megi nýtt fiskverð fyrr en frá næstu áramótum, er ráðuneytið reiðubúið til að beita sér fyrir nauðsynlegum ráðstöfunum til þess að svo geti orðið. Óskað er álits og tillagna Verðlagsráðs um mál þetta við allra fyrstu hentugleika.“

Í framhaldi af þessu bréfi barst sjútvrn. bréf frá Verðlagsráði sjávarútvegsins dagsett 16. nóv., einnig hér meðfylgjandi frv., svo hljóðandi:

„Á sameiginlegum fundi allra deilda Verðlagsráðs sjávarútvegsins í gær var lagt fram bréf Sjávarútvegsráðuneytisins dags. þann 13. þ.m., þar sem ráðuneytið beinir m.a. því til Verðlagsráðsins, hvort ekki sé tilefni til þess að ákveða nýtt fiskverð, fyrr en áður var ákveðið o.fl.“

Eftirfarandi bókun var samþykkt svo hljóðandi: „Með tilliti til álitsgerðar Sveins Finnssonar, framkvæmdastjóra ráðsins, telur Verðlagsráð sér ekki heimilt, að óbreyttum lögum, að taka upp lágmarksverð á sjávarafla til nýrrar ákvörðunar, sem taki gildi áður en gildandi verðtímabil er útrunnið.“

Meðfylgjandi er ljósrit af tilvitnaðri álitsgerð framkvæmdastjóra ráðsins, sem lögð var fram á fundinum. Enn fremur fylgja með verðtilkynningar ráðsins um sjávarafla, sem lágmarksverð hefur verið ákveðið á til 31. desember 1984.“

Hér fylgir með frv. sú álitsgerð sem Sveinn Finnsson framkvæmdastj. ráðsins gerði fyrir ráðið og er hún hér sem fylgiskjal III. Í framhaldi af þessu bréfi var ákveðið að leggja fram frv. til laga um Verðlagsráð sjávarútvegsins og þar kæmi ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi:

Verðlagsráð sjávarútvegsins skal ákveða nýtt lágmarksverð á öllum sjávarafla er gildi fyrir tímabilið 21. nóv. 1984 til 31. ágúst 1985, með heimild til uppsagnar á verðtímabilinu þó ekki fyrr en frá 1. júní 1985, varðandi almennt fiskverð.

Þetta ákvæði þýðir að með þessu mundi væntanleg fiskverðsákvörðun gilda a.m.k. til 1. júní 1985 að því er varðar almennt fiskverð. En hvað aðrar tegundir varðar, eins og loðnu, rækju, hörpudisk og ýmsar aðrar tegundir þar sem sífellt getur þurft að taka upp verðlagninguna vegna breyttra aðstæðna, þá er frv. óbreytt þannig að hana verði hægt að taka upp hvenær sem er. Hins vegar varðandi almennt fiskverð er það yfirleitt ekki svo að aðstæður t.d. á markaði breytist svo skyndilega að slík heimild þurfi að vera fyrir hendi og er venja að ákveða það verð til lengri tíma. Þess vegna hefur þótt eðlilegt að það gildi til loka vetrarvertíðar eins og almennt er. Úr því á að taka verðið upp nú vegna nýrra aðstæðna og síðan að nýju um áramót, hlýtur að teljast mjög vafasamt, að það gildi eigi skemmri tíma en til loka vetrarvertíðar enda kemur það fram í bréfi rn. til verðlagsráðsins.

Ég tel að allir geti verið sammála um það að full ástæða sé til, vegna þessara nýju viðhorfa með tilliti til kjaramála sjómanna og einnig með tilliti til afkomu útgerðar, að hafa þennan hátt á. Olía hefur t.d. hækkað nýlega og ef ekki kemur á móti hækkað fiskverð þá hefur það mjög neikvæð áhrif á afkomu útgerðar í landinu.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, leggja til að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.