26.11.1984
Neðri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

99. mál, kirkjusóknir

Frsm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Menntmrn. sendi þetta frv. á síðastliðnu vori til umsagnar sóknarnefndum víðs vegar á landinu og hafa umsagnir verið að berast. Jafnframt hefur nefndin rætt þetta mál ítarlega bæði á síðastliðnu vori og núna í haust.

Eins og fram kemur á þskj. 181 mælir nefndin með samþykki frv. með brtt. á þskj. 182. Einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Ég vek athygli á því að ég hygg að þetta sé í fyrsta skipti sem lög eru sett um þá einingu sem sókn er kölluð. Ég vil einnig vekja athygli á því að í sérstakri nefnd er nú fjallað um eignir þjóðkirkjunnar og einstakra kirkna og er þess að vænta að nefnd sem hefur það mál nú til meðhöndlunar muni skila áliti til hæstv. kirkjumálaráðherra jafnvel á þessu ári.

Brtt. á þskj. 182 eru auðskiljanlegar. Við 5. grein er sú brtt. gerð að prófastur skuli víkja sæti í þeirri nefnd sem fjallar um ágreining sem upp kann að rísa um eignir kirkjunnar ef kirkjusókn er skipt eða ný sókn tekin upp.

Þá er hér brtt. við 6. gr. um að sérstakt ákvæði komi inn varðandi bændakirkjur sem hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:

„Sé um bændakirkju að ræða er leggja skal niður og söfnuður hennar sameinast annarri sókn, en bændur eða bóndi á bæði kirkjuhúsið og alla muni kirkjunnar, skal hann þá hafa ráðstöfunarrétt á eign þeirri. Þó skal honum skylt að hafa samráð við prófast um slík mál og getur prófastur, ef ekki næst samkomulag milli hans og kirkjubónda, vísað ágreiningsmálum til biskups sem tekur lokaákvörðun í hverju slíkra mála nema ákvæði annarra laga grípi þar inn í.“ Ég hygg að þessi breyting sé æskileg og hefur nefndin af þeim sökum flutt hana.

Þá er sú brtt. við 22. gr.menntmrn. er sammála um að eðlilegra sé að aðalsafnaðarfundur kjósi safnaðarfulltrúa til setu á héraðsfundi en ekki sóknarnefnd eins og lagt er til í frv. Hér verði haldið þeirri reglu sem verið hefur um það hverjir kjósi fulltrúana en hún ekki þrengd eins og gert er ráð fyrir í frv.

Við 25. gr. er smábreyting þar sem lagt er til að hafa orðalag skýrara en er í frv.

Við 26. gr. er lagt til að fella niður þessi orð: „Skulu sóknarnefndir sjá um að þátttakendur fái greiddan dvalar- og ferðakostnað.“ Nefndin sér ekki hvaða erindi setning af þessu tagi á í lög, svo sjálfsagt sem það er að menn sem rækja opinber störf fái greiddan útlagðan kostnað við þau störf.

Í 28. gr. er svo lagt til að fella niður það ákvæði í lögunum að ágreiningi um störf starfsmanna innan sóknar skuli vísað til héraðsfundar. Okkur finnst eðlilegt að slíkum ágreiningi sé vísað beint til biskups.

Ég vil svo taka það fram, herra forseti, að í nefndinni var viss ágreiningur varðandi 9. gr. Þar er í fyrsta skipti reynt að ákveða það með lögum hversu oft sóknir eigi rétt á almennri guðsþjónustu og er miðað þar við fjölda sóknarbarna. Ég vek athygli á því að í greininni er þetta orðað „að jafnaði“. Það er sagt: „Sóknarmenn eiga rétt á guðsþjónustum í sóknum sínum er skal að jafnaði miðað við eftirfarandi tilhögun“, sem auðvitað dregur úr gildi greinarinnar sem slíkrar. Má færa rök fyrir því að þessi grein sé óþörf og er það skoðun sumra nm., þó svo að þessi hafi orðið niðurstaðan, að flytja ekki brtt. um að greinin falli niður.