26.11.1984
Neðri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

86. mál, áfengislög

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 82/1969. Flm. ásamt mér eru hv. 6. þm. Reykv. Ellert B. Schram, hv. 4. landsk. þm. Guðmundur Einarsson, hv. 10. landsk. þm. Guðrún Helgadóttir og hv. 2. þm. Reykv. Friðrik Sophusson.

Tilgangurinn með flutningi þessa frv. er skilgreindur svo í grg.:

„1. að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja,

2. að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar,

3. að afla ríkissjóði tekna,

4. að efla þann hluta íslensks iðnaðar sem annast framleiðslu á öli og gosdrykkjum,

5. að samræma áfengislöggjöfina.“

Og mætti kannske bæta því við í 6. lagi: að láta af þeirri hræsni og þeim tvískinnungshætti sem einkennt hefur afstöðu stjórnvalda í þessu máli.

Herra forseti. Þetta mál er endurflutt frá síðasta þingi. Þá voru flm. hv. þm. Jón Magnússon, sem þá gegndi starfi varaþingmanns á vegum sjálfstæðismanna, og sá sem hér stendur. Þetta mál fékk þá mjög rækilega umfjöllun við 1. umr. Hv. þm. Jón Magnússon fylgdi málinu úr hlaði með mjög ítarlegri ræðu. Þegar af þeirri ástæðu sé ég ekki ástæðu til að hafa framsöguræðu mína ítarlega að þessu sinni. Ég vil aðeins rifja upp hvernig um þetta mál var fjallað á seinasta þingi.

Á 106. löggjafarþingi voru flutt tvo mál er bæði vörðuðu breytingu á gildandi áfengislögum. Hið fyrra var þál. um almenna atkvgr. um heimild til bruggunar og sölu meðalsterks áfengs öls um leið og gengið yrði til kosninga. Flm. voru Magnús H. Magnússon, Friðrik Sophusson, Guðrún Helgadóttir og Stefán Benediktsson, sbr. fylgiskjal I1 á þessu þskj. Till. kom fyrst til umr. í Sþ. 1. mars s.l. Þær umr. eru reyndar birtar hér á fskj. III. Umr. var síðan frestað og málið dagaði uppi.

Síðara málið var frv. til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 82/1969, en flm. voru eins og fyrr segir Jón Magnússon og sá sem þetta mál flytur. Frv. kom til 1. umr. í Nd. 13. apríl s.l. Jón Magnússon fylgdi því úr hlaði, enda höfundur frv., sbr. fylgiskjal I á þessu þskj. Frekari umr. urðu ekki um málið, en því var vísað til allshn.. þar sem það dagaði uppi.

Hér með er þetta frv. til laga endurflutt með þeirri einu breytingu að gildistaka skv. 4. gr. frestast til 1. október 1985, sbr. aths. við einstakar greinar frv. þar sem segir um 4. gr.:

„Miðað er við að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. október 1985. Þessi tímamörk eru sett til að veita innlendum framleiðendum og þeim, sem hyggja á ölframleiðslu, ákveðið svigrúm. Verði þetta frv. að lögum þurfa stjórnvöld, snemma á aðlögunartímanum, að leita nauðsynlegrar lagaheimildar er kveði á um tilhögun sölu og dreifingar, skatta- og verðstefnu o.s.frv.“

Í grg. með þessu frv. er saga áfengisneyslu á Íslandi að nokkru tíunduð og sérstaklega vakin athygli á því að öldum saman var neysla áfengs öls eða mjaðar þjóðlegur siður á Íslandi, en lagðist því miður af, einkum fyrir tilstuðlan nýlenduherra Dana sem voru langt komnir með að drekkja þjóðinni í brennivíni strax á 17. öld.

Í annan stað er saga þessa máls á Alþingi rakin allt frá því síðla á 19. öld. Það er gerð grein fyrir aðdraganda þess að Íslendingar gerðu tilraun með algjört bann á framleiðslu og innflutningi á áfengum drykkjum til landsins, hver reynslan var af því og hvers vegna Íslendingar tóku að lokum þá ákvörðun að láta af þeirri tilraun.

Loks er hér tíundað að aðstæður allar í íslensku þjóðfélagi eru nú mjög breyttar frá því sem var fyrir nokkrum árum að því er varðar aðgang þjóðarinnar að áfengu öli. Sá kafli er það athyglisverður að ég leyfi mér að árétta hann með því að vitna til hans, með leyfi forseta:

„Bruggun, sala og neysla áfengs öls á sér stað meðal allflestra þjóða heims. Styrkleiki ölsins er mismunandi eða upp að 13.2% að rúmmáli sá sterkasti. Algengasti styrkleiki áfengs öls, sem neytt er, mun vera um eða undir 5% vínandi að rúmmáli. Í Norður-Ameríku, á Englandi og Norðurlöndum mun algengast að styrkleiki áfengs öls sé frá um 3.2% til 5% af vínanda að rúmmáli. Í öllum nágrannalöndum okkar er neysla áfengs öls mikil miðað við annað áfengi.

Nú geta farmenn, flugliðar og ferðamenn, sem koma frá útlöndum, keypt takmarkað magn af áfengu öli og flutt það með sér inn í landið. Fullyrða má að verulegu magni af áfengu öli sé á ári hverju smyglað inn í landið. Því er raunar haldið fram að bjórkassi með 24 flöskum (33 cl) af millisterku áfengu öli hafi hér ákveðið fast markaðsverð og nokkurt framboð sé af slíku öli þó að óleyfilegt sé miðað við núverandi áfengislöggjöf að flytja það inn. Af þessu áfenga öli hefur íslenska ríkið engar tekjur og innlendir framleiðendur eru dæmdir úr leik.

Með auknum ferðalögum til útlanda hafa Íslendingar í síauknum mæli komist í kynni við neyslu áfengs öls og sama gildir um þá námsmenn sem stunda nám erlendis.

Ljóst er að töluvert stór hópur þjóðarinnar kýs að hér sá áfengt öl á boðstólum. Í því sambandi má m.a. benda á að í Reykjavík er nú selt áfengt öllíki á allmörgum stöðum og þeim fer fjölgandi þar sem sterku áfengi er blandað í ölið, þannig að styrkleikur drykkjarins er sagður svipaður eða meiri en gerist um áfengt öl í grannlöndum okkar. Þeir sem neyta þessa öllíkis vita í raun ekki um hvaða áfengisstyrkleika er að ræða eða hvers konar áfengis þeir neyta. Ekkert eftirlit eða prófun á sér stað á þessu áfengi. Skv. því sem næst hefur verið komist er styrkleiki þessa öllíkis almennt um 5% af vínanda að rúmmáli. Einnig má benda á að ölgerðarefni eru seld í matvörubúðum og innflutningur og sala þessara ölgerðarefna er töluverð.

Aðstaðan er því breytt í veigamiklum atriðum frá því sem hún var þegar síðast var lagt fyrir Alþingi frv. til l. um bruggun og sölu áfengs öls. Það er því ekki vansalaust fyrir Alþingi að horfa upp á þessa þróun án þess að móta löggjöf sem er í samræmi við tíðarandann og er til þess fallin að vinna gegn drykkjusýki. Mikilvægast er að horfast í augu við staðreyndir. Nú getur hver, sem eldri er en 20 ára, keypt öllíki sem er um eða yfir 5% af vínanda að rúmmáli. Veikustu áfengistegundir í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins eru um eða undir 9% af vínanda að rúmmáli.

Þessar staðreyndir tala sínu máli og sýna glögglega hversu ófullkomin áfengislöggjöfin er og hversu fráleitt það er að nema bruggun áfengs öls og sölu þess hér á landi. Miðað við þá þróun, sem orðin er í áfengismálum, er það alveg ljóst að spurning er ekki hvort innflutningur, bruggun og sala áfengs öls verður leyfð, heldur hvenær þessi síðasta angi bannlaganna verður afnuminn.“

Herra forseti. Það er ástæðulaust að tíunda hér í löngu máli rök með og móti þessu frv. Það hefur þegar verið gert ítarlega. Auk þess hygg ég að enginn hv. alþm. móti að lokum afstöðu sína eftir þeim rökræðum sem fram fara hér í þingsölum. Það er mjög algengt að menn taki tilfinningalega afstöðu til þessa máls, móti sér afstöðuna fyrst af einhverjum ástæðum og tíni síðan til þau rök sem henta máli sínu til stuðnings eftir á.

Ég vil aðeins segja að því er varðar áhyggjur og kvíða þeirra manna sem halda því fram að framleiðsla eða innflutningur á áfengu öli á Íslandi muni leiða til aukinnar drykkjusýki eða leiða til þess að Íslendingar muni í stórum stíl reynast ófærir til vinnu vegna ölvímu að um þetta geta menn rökrætt fram og aftur. Ég vil láta mér nægja að benda á að Alþingi og stjórnvöld hafa í hendi sér að stýra því að verulegu leyti hvernig fer, sérstaklega með því að beita þeim tækjum sem stjórnvöld hafa í hendi sér og heita verðstýring, en hér er auðvitað ráð fyrir því gert að sala og dreifing verði með óbreyttum hætti, þ.e. hún verði í höndum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, og síðan gera flm. ráð fyrir að snemma á aðlögunartímanum verði sett nánari löggjöf og reglur um sölu, markaðssetningu, dreifingu og verðlagningu og skattlagningu á þessa framleiðslu. „Miðað við þessar forsendur“, segir hér í grg., „er afar ólíklegt að tilkoma áfengs öls leiði til aukinnar drykkju á vinnustöðum, aukinnar drykkju unglinga eða valdi því að unglingar hefji drykkju yngri en nú gerist.“ Þetta er einfaldlega skoðun flm. Um þá skoðun geta menn deilt, en um hana verður ekki fullyrt fyrirfram.

Þá er á það að líta að því fer fjarri að hér sé rekin af hálfu stjórnvalda nein sérstök stefna að því er varðar framleiðslu og neyslu áfengs öls. Í því efni leggjum við flm. mesta áherslu á að gegn misnotkun áfengis og drykkjusýki, sem er væntanlega hér á landi með því mesta sem þekkist, verður að vinna með samræmdum hætti, ekki hvað síst með því að bjóða fram samræmda ítarlega fræðslu og aðrar fyrirbyggjandi ráðstafanir sem hægt er að beita til að draga úr þessu. Tilkoma áfengs öls breytir engu ein út af fyrir sig hvorki til né frá með þetta vandamál. Það er staðreynd. Hægt er að gera ýmislegt til þess að fyrirbyggja útbreiðslu þess, en þær ráðstafanir verða, að mati flm., að byggjast fyrst og fremst á fræðslu og upplýsingum fremur en boði og bönnum.

Herra forseti. Ég vek athygli hv. þm. á því að þessu þskj., 86. máli, fylgja mjög ítarleg fskj. Þar eru raktar umr. sem urðu um þetta mál á seinasta þingi. Það fylgir framsöguræða 1. flm. frá seinasta þingi. Þar fylgja einnig sem fskj. tillögur nefndar um sérstakt átak í áfengismálum, en sú nefnd var skipuð til að marka opinbera stefnu í áfengismálum. Það stefnuplagg gengur nokkuð í aðra átt en hér er. Loks eru birtar hér niðurstöður af skoðanakönnunum sem framkvæmdar voru á vegum DV á s.l. vetri og leiddu í ljós afdráttarlausan meirihlutavilja þjóðarinnar um að láta nú af hræsni og skinhelgi í þessu máli og viðurkenna staðreyndir með því að samþykkja frv. af því tagi sem hér liggur fyrir.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. 1. flm. þessa máls á seinasta þingi fylgdi því úr hlaði með ræðu sem bæði var ítarleg og fróðleg og hafði reyndar að geyma nokkrar bókmenntaperlur. Mönnum til gagns, gamans og gleði vil ég ljúka máli mínu með því að vitna í það.

Hv. 1. flm. skýrir frá því í ræðu sinni að fjöldi fólks hefði haft samband við hann og án undantekninga lýst miklum áhuga á framgangi málsins. Síðan segir hann:

„M.a. sendi einn áhugamaður norðan af landi mér eftirfarandi kvæði eftir Baldur Eiríksson frá Dvergasteini sem heitir Egill og ölið. Er það svohljóðandi, með leyfi forseta:

Á Alþingi forðum fjörugt var,

flokkadrættir og stympingar

og umræður ærið snarpar.

Sátu þeir þar með sorfið stál,

sömdu um grið og vígamál

Egill og aðrir garpar.

Við höfum það fræga Alþing enn,

á því sitja nú spakir menn

og eru í ærnum vanda.

Með atkvæðabrask og orðatog,

útreikninga á máli og vog

hve mjöð okkar megi blanda.

Aldrei hefði hann Egill nennt

orðaskaki um tvö prósent

né daufum drykkjum að sinna.

Vísað hefði hann broti á bug

og bara látið það standa á tug

svo bragð mætti að bjórnum finna.

Niðjar Egils um aldaröð

ómælt supu hinn sterka mjöð

og vóðu í svima og villu.

Okkur með réttu er nú kennt

hve eitt eða jafnvel hálft prósent

má orka miklu og illu.

Brott eru horfin brekin forn,

brottu hin stóru drykkjarhorn,

margt er þar fleira farið.

Ýmislegt mundi Agli nú

allgott þykja um föng og bú

en minna í mjöðinn varið.

Egill var sinnar aldar barn,

ekki til sparðatínings gjarn

og viðskotaillur að vonum.

En handtökin snör við hlíf og stál,

hornadrykkju og skáldamál

voru hundrað prósent hjá honum.

Herra forseti. Ég legg til að þessu merka máli verði vísað til allshn.