26.11.1984
Neðri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Einungis til þess að auðvelda störf hv. menntmn., sem væntanlega fær þetta frv. til umfjöllunar, vil ég taka fram að innan tíðar er væntanlegt stjfrv. um þetta efni. Það mundi kannske auðvelda vinnuna að þessu máli að fjallað yrði um þessi frv. samtímis. E.t.v. hefðu það líka verið heppileg vinnubrögð og sparnaður á tíma þingsins að láta nú þessar hugmyndir einhvern veginn falla saman eða ná samkomulagi um þetta mál. Ég sé ekki að þetta mál sé þess eðlis að ástæða sé til að hafa uppi pólitískt kapphlaup um það, eins og ýmislegt í þessu sambandi og flutningi málsins bendir til. En við sjáum það, ef við athugum þetta frv., að þar hefðu nokkur atriði haft gott af því að fá nánari umhugsun. Hv. flm., sem ég hygg að sé maður glöggur og greindur hlyti að hafa séð gallana á því ef hann hefði hugsað nokkru nánar um málið.

Þá er fyrst til að taka, ef við löggildum starfsheiti kennara, að kennarar starfa vitanlega við margs konar skólastofnanir á vegum hins opinbera. Nú er það svo að lögin um embættisgengi kennara og skólastjóra varða fyrst og fremst grunnskóla og framhaldsskóla. En aftur á móti er ekkert á móti því að fólk með annars konar menntun en tilgreind er í embættisgengislögunum starfi t.d. sem kennarar í lögregluskólanum, í póstskólanum, við kennslu í flugumferðarstjórn eða ljósmæðraskólanum. Fleira má telja. Ég hygg því að við lendum fljótlega í ógöngum ef við höfum þetta ekki betur afmarkað. Ég hef a.m.k. ekki enn þá komið auga á betra ráð — að löggilda beri sérstaklega starfsheiti grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Því veldur eiginlega bæði tilfinningin fyrir hinni víðtæku merkingu orðsins kennari og svo einnig hitt, ef við höldum okkur einungis við þá sem eru kennarar í ýmsum skólum hins opinbera eða sem hið opinbera á einhvern hlut að, þá er oft og tíðum um að ræða fólk sem fullnægir ekki skilyrðum laganna um embættisgengi kennara og skólastjóra, heldur hefur annars konar þekkingu til að bera sem hefur þótt nauðsynleg í þeim störfum sem umræddir skólar miðast við.

Ég er þeirrar skoðunar að einnig sé heppilegra að hafa í nýjum lögum einungis lögverndun starfsheitisins. Starfsréttindi kennara hafa verið lögvernduð í mörg ár í lögunum um embættisgengi kennara og skólastjóra. Ég hygg að engin ástæða sé til þess að flytja ákvæði þeirra laga yfir í ný lög. heldur láta hin nýju lög einungis fjalla um þau atriði sem lög vantar um. Ég held líka að sá samanburður, sem menn oft og einatt hafa í huga við lögverndun starfsheita annarra stétta, sé dálitið misvísandi. Menn tala þá oft og einatt um verndun starfsheitis og starfsréttinda í sama orðinu. Hér voru t.d. nefnd áðan lög, sem samþykkt voru á Alþingi í fyrra, um löggildingu starfsheitis bókasafnsfræðinga. Það stendur einmitt svo á um það mál að þar var starfsheitið lögverndað. Í því felst í rauninni ekki annað en að menn vita að á bak við það tiltekna starfsheiti er tiltekin menntun og tilteknum skilyrðum fullnægt til þess að það starfsheiti sé borið. Síðan er fjallað um það annars staðar hvaða störf séu sérstaklega ætluð þeim sem hið lögverndaða starfsheiti hafa. Um það þykir mér eðlilegra að fjalla í öðrum lögum, ýmist þeim sem um þær stofnanir fjalla sem starfa á við eða þá lögum sem enn frekar kveða á um starfsréttindin sérstaklega, eins t.d. lögin um embættisgengi kennara og skólastjóra. Á þennan veg held ég að framkvæmdin verði skýrust. Annars eru þessi atriði til umfjöllunar í nefnd sem ég gat um fyrr í vetur þegar fsp. hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur var á dagskrá. Sú nefnd hefur nú verið að störfum í nokkurn tíma og ég vona að ekki sé langt í að hún ljúki störfum. Hún hafði ekki lokið störfum í síðustu viku, en ég held að þeim sé u.þ.b. að verða lokið.

Aðalatriðið er að sá tilgangur náist að skýrt verði hvað felst í þeim startsheitum sem við ætlum að og viljum löggilda. Ég hygg að auðveldara verði að gera það skýrt með því að binda lögin við starfsheiti grunnskólakennara og framhaldsskólakennara, þannig að við séum ekki að fara að óþörfu inn á svið kennara á allt öðrum sviðum, danskennara, póstskólakennara, lögreglukennara, flugumferðarkennara o.s.frv. Það er ekki það sem ætlunin var að fjalla um, heldur einmitt grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Ég hygg nú að við nánari umhugsun muni hv. flm. þessa frv., hv. 5. þm. Austurl., leggja því lið sem verði framkvæmanlegt. Það held ég að verði þeim hópum, sem hér hafa hagsmuna að gæta, mest til hjálpar og skólunum til framdráttar að sett verði um þetta efni glögg lög.

Ég vildi gjarnan fara örfáum orðum um önnur atriði, sem tengjast almennt skólastarfi og hv. flm. frv. vék nokkrum orðum að, og þá sérstaklega í sambandi við réttindanámskeið kennara. Það er að vísu ekki hluti af þessu frv., en ósköp eðlilegt að menn ræði um það, hvernig menn afla sér réttinda ef þeir hafa þau ekki. Ég vil geta þess að það hefur verið mikið áhugamál í menntmrn. að koma svo sem verða má á sumarnámskeiðum til réttinda. Sumarnámskeiðin geta einmitt leyst vandann fyrir þá sem starfað hafa um nokkurt skeið án þeirra umræddu réttinda sem í lögum er getið. Sumarnámskeiðin eru í raun og veru oft eina færa leiðin fyrir ýmsa kennara utan af landsbyggðinni. Slíkt námskeið var m.a. haldið s.l. sumar og ætlunin er að reyna að halda slíku áfram. Að sjálfsögðu leysa sumarnámskeiðin ekki allan vanda, en ég tel að nauðsynlegt sé að hafa þau enn um nokkurt skeið til að koma betri skipan á þessa hluti.

Ég tel að ekki sé sérstök ástæða til að fara mörgum orðum um önnur atriði sem hv. þm. fjallaði um. Hann nefndi hér nokkrum orðum hugmyndirnar um uppsagnir kennara og heimildir sem þeir hefðu veitt sínum samtökum til að beita þeim uppsögnum. Mér virðist aftur á móti að heimildir liggi raunverulega ekki fyrir fyrr en ljóst er hvenær má beita þeim. Það verður auðvitað að liggja fyrir hvenær slík plögg má nota til þess að hægt sé að fullyrða að heimildin liggi fyrir. Ég hygg að það sé enn þá ekki orðið alveg ljóst. Ég vil segja sem betur fer því að það sér hver maður. Ég hygg að margir kennarar séu þeirrar skoðunar að þarna sé verið að fjalla um mjög viðkvæmt efni, ekki síst þegar staðið hefur fjögurra vikna verkfall í skólunum og nemendur hafa farið á mis við kennslu þann tíma. Það segir sig sjálft að það hefur ekki áhrif til bóta á skólastarfið ef sífellt er verið að ræða um að skólinn standi e.t.v. ekki nema til 1. mars. A.m.k. er það svo, ef menn taka það bókstaflega að uppsagnir kennara yrðu í stórum stíl frá þeim tíma og þær látnar koma til framkvæmda um leið, að sú yrði auðvitað niðurstaðan. Ég tek fram að ég geri ráð fyrir því að það yrði einhver frestur á þeirri framkvæmd um nokkrar vikur, en oft virðist að því látið liggja að til þess geti komið að skólastarf falli niður, a.m.k. af hendi einhverra kennara, á þessum tíma.

Ég vona nú að hægt sé að vinna að lausn þessara mála án þess að til slíkra óyndisúrræða komi og líka á þann veg að skólastarf geti gengið eðlilega og án slíks þrýstings. Það er vitað mál að það er fullur vilji fyrir því að vinna að framkvæmanlegri lausn þessara mála og ég sé ekki að hótanir um uppsagnir bæti vinnuna að þeim málum eða geri starf skólanna léttara eða greiðara á neinn veg.

Ég vil, herra forseti, sérstaklega beina því til n. sem mál þetta fær til umfjöllunar að athuga þau atriði sem ég hef hér nefnt og að fá upplýsingar frá þeim sem vinna nú að samningu stjfrv. um þetta efni. Vona ég að það geti orðið til þess að samkomulag verði um afgreiðslu þess máls.