26.11.1984
Neðri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að á vegum menntmrn. er einhver skriður á undirbúningi þess frv. sem hæstv. ráðh. boðaði hér fyrir nokkrum vikum að væntanlegt væri inn í þingið, um svipað efni og það mál sem hér er á dagskrá. Ég tel nú alveg óþarft fyrir hæstv. ráðh. að halda því fram að um þetta mál hafi staðið eitthvert pólitískt kapphlaup, hvað þá að betur hefði verið farið með tíma þingsins með því að mál þetta væri ekki fram komið sem hér er til umr. Ég tel að þingið verji í rauninni of litlum tíma til þess að ræða um skóla og fræðslumál og það mætti benda á ýmislegt sem kannske frekar mætti bíða, án þess að ég ætli að fara að tíunda það hér, og sem minna máli skiptir og varðar færri heldur en starfið í skólum landsins og störf og staða þeirra sem þar eru að vinnu, bæði sem kennarar og nemendur. Ég hef ekki minnsta samviskubit yfir því að hér fari svolítill tími í hv. deild, hvað þá að ég sjái eftir þeim tíma sem ég í samvinnu við aðra flm. þessa máls hef lagt að því.

Ég vænti þess vissulega að um þetta efni megi takast víðtæk samvinna og framlagning þessa máls og umr. sem hér hefur farið fram nú þegar um það verði til þess að hraða lagasetningu í þá veru sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Er ég þá að sjálfsögðu reiðubúinn til að hlusta á allar raddir um aðra tilhögun í hv. menntmn. Nd., sem ég legg til að fái málið til meðferðar að lokinni þessari umr.

Hæstv. ráðh. benti á það að álitamál gæti verið hversu víðtæk lögverndun á starfsheiti kennara skyldi vera og benti á að mestu vörðuðu grunnskólakennarar og framhaldsskólakennarar í þessu samhengi. Ég get alveg verið ráðh. sammála um að það eru stærstu hóparnir sem hér eiga í hlut og ýtt hafa á eftir þessu máli sem hér er fram komið, svo sem eðlilegt er. En ég tel þó rétt að þetta mál sé skoðað í enn víðara samhengi en einvörðungu varðandi þessi skólastig, þó með fullum vilja til að sýna eðlilegan sveigjanleika.

Með lögverndun á starfsheitinu kennari hjá opinberum skólastofnunum og þeim skólastigum sem mestu varða er í rauninni verið að gera ráð fyrir því að þeir, sem ekki hafa tilskilin réttindi, noti ekki það starfsheiti. Hæstv. ráðh. vék að nokkrum sérskólum sem eðlilegt væri að aðrar reglur giltu um. Ég skal á þessu stigi ekki leggja mat á það hvað eðlilegt telst í því samhengi. Ég vil aðeins að fram komi að ég tel að menntun og þjálfun í kennslu, skv. þeim kröfum sem settar eru, sé holl öllum þeim sem við kennslustörf fást á hvaða skólastigi og í hvaða skóla sem er. Hins vegar er ekki eðlilegt að opinberir aðilar fari að grípa inn í verksvið einkaskóla að þessu leyti og reyna að hafa takmarkandi áhrif þar að lútandi. Því er í frv. kveðið á um að þessi lögverndun taki til kennslustarfa við skólastofnanir á vegum opinberra aðila.

Ég vil geta þess að þessi skoðun mín, varðandi æskilega þjálfun kennara í kennslustarfinu sem slíku og því sem þar til heyrir, fyrir utan faglega þekkingu sem þarf auðvitað að vera til staðar, hún á einnig að gilda varðandi háskólastig. Full ástæða væri til að taka það til athugunar og setja um það reglur hvaða kröfur séu gerðar til þeirra sem annast kennslu á háskólastigi varðandi kennsluréttindin. Það skiptir miklu að menn hafi í því þjálfun að miðla þekkingu og umgangast þá sem hennar eiga að njóta með eðlilegum hætti. Ég er ansi smeykur um að í ljós komi ef litast er um í háskólum, ég tek ekki Háskóla Íslands hér sérstaklega út úr, og ég þekki það raunar af eigin reynslu, að þá lærðu menn, sem þar standa í pontum til að miðla sinni þekkingu, skorti oft á tíðum lyklana að hugum, eyrum og augum þeirra sem þeirra fræðslu eiga að njóta, sumpart vegna þess að þeir hafa ekki fengið til þess tilskilda þjálfun.

Vissulega eru fyrstu skólastigin að mínu mati allra mikilvægust. Grunnskólastigið og forskólastigið líka skipta sem mótandi ár í uppvexti barnsins meira máli en nokkuð það sem á eftir kemur. Því endurspeglar það rangt mat að launa kennara á grunnskólastigi lakar og ætlast til meiri vinnu af þeirra hálfu fyrir minna kaup en t.d. kennara á framhaldsskólastigi. Í þessu birtist afar forneskjulegur hugsunarháttur og vanþekking á þeim mjúka leir sem barnið og barnshugurinn er. Á þessu þarf að verða breyting. Ég held raunar að nokkur viðhorfsbreyting hafi þegar orðið og viss leiðrétting til jafnaðar í þessum efnum, ekki síst fyrir tilstuðlan samtaka kennara. Ég geri það heldur ekki að neinu máli hvernig þau efni, sem hér er tekið á með flutningi þessa frv., koma inn í lagasafnið og er alveg reiðubúinn til að lita á aðrar hugmyndir í því efni. Meginatriðið eru efnisatriði málsins svipað og þau hafa verið lögð hér fyrir og með þeim breytingum sem hægt er að sannfæra hv. þm. um að séu til bóta og færu betur.

Hæstv. ráðh. vék hér í máli sínu að námskeiðum til að greiða götu kennara til að afla sér kennsluréttinda. Ég fagna því ef fyrir tilstuðlan hæstv. ráðh. verði greidd gata manna sem áhuga hafa á til að bæta við sína þekkingu og afla sér aukinna réttinda að þessu leyti. Ég nefni það líka að auk sumarnámskeiða fyrir starfandi kennara sem vildu auka sín réttindi þurfi einnig að athuga möguleika á því að halda slík námskeið utan höfuðstaðarins ef það mætti verða til að auðvelda þátttakendum að sækja slík námskeið með viðráðanlegum kostnaði.

Varðandi það, sem hæstv. ráðh. sagði hér um heimild sem kennarar hafa veitt samtökum sínum til að segja upp störfum fyrir sína hönd, mætti ýmislegt segja. Svo virtist sem hæstv. ráðh. teldi óljóst hvað í þessum heimildum fælist. Mér sýnist það nokkuð einsýnt að um 50% eða vel það af grunnskólakennurum hafi veitt samtökum sínum sjálfdæmi um það hvenær þau notfæri sér þær heimildir sem þeir sem einstaklingar hafa veitt þessum samtökum. Samtök grunnskólakennara og þar til kvatt ráð hefur ákveðið að doka við og sjá hverju fram vindur, að mér skilst, fram eftir vetri. Fyrirhugað mun vera að kveðja til sérstakt þing, líklega í marsmánuði n.k., til að fjalla um stöðu mála þá. Framhaldsskólakennarar eru með þetta mál enn til athugunar á grundvelli heimilda frá um 70% kennara á því skólastigi, að því er upplýst hefur verið nýlega.

Ég vil aðeins hvetja stjórnvöld, og hæstv. menntmrh. ekki síst, til að nota tímann vel og alveg sérstaklega að taka í þá hönd, sem samtök grunnskólakennara hafa rétt fram nú með því að ákveða að doka við með fjöldauppsagnir, til að tryggja á komandi vikum og allra næstu mánuðum að úrbætur verði tryggðar sem leiði til þess að kennarar geti með góðri samvisku og vilja endurskoðað sinn hug og sína stöðu. Ég held að þetta skipti gífurlega miklu máli. Við verðum að horfast í augu við það hér á hv. Alþingi og ekki síst hæstv. ríkisstj. að kennarar, óháð stjórnmálaskoðunum og slíkum viðhorfum, eru með réttu orðnir svo langþreyttir og óánægðir með kjör sín að þeir eru reiðubúnir til að grípa til ráða, sem stundum hefðu verið talin örþrifaráð, til að knýja á um úrbætur.

Umræður fyrr á þessu þingi um kjör kennara hafa því miður ekki alltaf endurspeglað þann vilja og þann skilning valdamikilla aðila í landinu sem þyrfti að vera á kennarastarfinu og aðbúnaði og kjörum kennara. Við skulum vona að sú umr. sem fram hefur farið það sem af er þings verði til að opna augu sem flestra hv. alþm., ekki síst innan ríkisstj., fyrir nauðsyn þess að bæta hér um og það mjög verulega því ekkert minna dugar að mínu mati.

Herra forseti. Ég vænti þess að mál þetta fái þinglegan framgang og skoðun í hv. menntmn. þessarar deildar og vænti þess að þar liggi einnig sem fyrst fyrir það frv. sem hæstv. menntmrh. hefur boðað að fram komi innan skamms af hálfu ríkisstj.