16.10.1984
Sameinað þing: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

42. mál, aflamark á smábáta

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni vil ég segja að í fáum orðum hefur verið farið í einu og öllu eftir reglum. um botnfiskveiðar minni báta sem settar voru í reglugerð nr. 44 1984, 5. gr. Þá var bátum undir 10 brúttólestum úthlutað sameiginlegu aflamarki sem skipt var niður á fjögur tímabil. Tímabilin eru janúar til apríl, maí til júní, júlí til ágúst og september til desember. Aflamark það sem þessum bátum var úthlutað er í réttu hlutfalli við afla þeirra á viðmiðunarárunum 1. nóv. 1980 til 31. okt. 1983. Er því skipt eftir sömu reglu niður á þessi fjögur tímabil.

Rn. var heimilað í reglugerðinni að stöðva veiðar þessara báta færu þeir fram úr úthlutuðu aflamarki sínu á áðurgreindu tímabili. Á fyrsta tímabilinu, í janúar til apríl, var þeim heimilt að veiða 1770 lestir, en veiðar bátanna námu þá 1483 lestum skv. bráðabirgðatölum Fiskifélags Íslands og færðist mismunurinn, 287 lestir, fram á næsta tímabil. Á öðru tímabili, maí til júní, var þeim heimilt að veiða 3185 lestir að viðbættum þeim 287 lestum er ég nefndi frá fyrra tímabili, eða alls 3472 lestir. Afli bátanna á þessu tímabili nam 3678 lestum og fór því 206 lestum fram úr settu aflamarki og kom það magn til frádráttar á næsta tímabili. Á þriðja tímabili, í júlí til ágúst, var bátunum heimilt að veiða 4598 lestir að frádregnum 206 lestum frá fyrra tímabili, eða alls 4392 lestir. Afli þeirra á þessu tímabili nam 4863 lestum, eða 471 lest meira en heimilt var. Á þriðja tímabili kom því fyrst til stöðvunar bátanna og voru þeir stöðvaðir í tvígang í ágúst, fyrst í fimm daga yfir verslunarmannahelgina og síðar í sjö daga í lok mánaðarins. Nam því stöðvunin alls 12 dögum og er, eins og áður gat, það eina sem gert hefur verið til að stöðva veiðar þessara báta.

Ástæður þess að afli bæði á öðru og þriðja tímabili fór nokkuð fram úr settu marki er sú að tölur um afla úr einstökum verstöðvum berast nokkuð seint. Að jafnaði er ekki hægt að gera upp hvern mánuð fyrr en að liðnum 10 dögum af næsta mánuði á eftir og í reynd aldrei hægt að gera ráð fyrir því að tala þessi sé nákvæm fyrir svo mikinn fjölda báta.

Nú er hafið síðasta tímabilið, frá 4. september til desember. Enn sem komið er er ekki vitað hver aflinn var í september en ljóst er að af þeim 2077 lestum sem heimilt er að veiða verður að draga 471 lest sem veiddar voru umfram sett mark á þriðja tímabili. Því eru til ráðstöfunar á síðasta tímabilinu 1606 lestir.

Erfitt er að gera sér grein fyrir því hvort þær veiðitakmarkanir sem gripið hefur verið til gagnvart bátum undir 10 brúttólestum hafi komið misjafnt niður. Af aflaskýrslu Fiskifélags Íslands fyrir þessa báta má ráða að afli hafi skipst jafnt á landshluta það sem af er árinu að undanskildum ágústmánuði, en þá skera Austfirðir og Vestfirðir sig nokkuð úr með meiri afla en aðrir landshlutar. Þegar á heildina er litið verður ekki annað sagt en að þessir bátar hafi búið við mikið frjálsræði í veiðum sínum það sem af er árinu miðað við marga aðra. Það er á hinn bóginn sýnt að þeir stöðvast að líkindum í nóv. en þá er afli tekinn að tregast hjá þessari bátastærð og veður farin að gerast válynd til sjósóknar á þeim.

Um annan lið fsp. hv. 4. þm. Austurl. er fátt hægt að segja að svo stöddu. Lagaheimildir sem gilda um stjórn fiskveiða gilda aðeins fyrir árið 1984 og nú alveg á næstunni verður flutt frv. um heimild til stjórnar fiskveiða á næsta ári og lengur. Ráðgjafarnefnd um stjórn botnfiskveiða hefur nýverið hafið störf og einnig hafa verið haldnir fundir með sjútvn. Alþingis um mál þessi. Í samvinnu við þessa aðila mun verða fjallað um stjórn veiðanna á næsta ári, þar með taldar veiðar þessara báta sem annarra.

Það hefur að sjálfsögðu komið ýmislegt til tals um breytingar í þessu sambandi, m.a. að skipta aflamarkinu niður á landshluta fyrir þessa bátastærð, eins og hv. þm. kom inn á, þannig að mismikil aflasæld í landi geti ekki leitt til ójafnaðar komi til veiðistöðvana. Ég get hins vegar ekki séð að jafnvel þótt það hafi ekki verið gert á þessu ári hafi það breytt miklu. Þær stöðvanir sem þessir bátar hafa orðið fyrir eru sem sagt 12 dagar en árið áður voru stöðvanir 7 dagar. Það liggur hins vegar nokkuð ljóst fyrir að til stöðvunar þeirra kemur seinni hluta ársins sem ekki var áður. En í flestum tilvikum geta þessir bátar mjög lítið athafnað sig á þeim tíma.

Ég vænti þess að þetta svar gefi þær upplýsingar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var að leita eftir með þessari fsp.