27.11.1984
Sameinað þing: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

1. mál, fjárlög 1985

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Eftir lestur þessa frv. verður það eftirminnilegast að á sama tíma og dregið er stórlega saman í framkvæmdum á vegum hins opinbera hækka framlög til stjórnarstarfsemi ríkisins langt fram úr forsendum frv. Ef framvinda þessara mála verður áfram á þennan veg verður ekki rúm fyrir annað innan fjárlaga íslenska ríkisins en framlög til yfirstjórnar og greiðslu afborgana og vaxta af skuldasúpunni.

Ekki fækkar nú Kröfluævintýrunum. Það kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. að ríkissjóður mun yfirtaka allt að 3500 millj. kr. lán vegna óarðbærrar fjárfestingar sem er tapað fé. Þar af eru 1000 millj. vegna byggðalínu, 500 millj. vegna járnblendiverksmiðjunnar, 1500 millj. vegna Kröflu, 150 millj. vegna loðnuverðsákvörðunar, 200 millj. vegna jarðvarmaveitna og Jarðborana ríkisins. Afborganir og vextir af þessum lánum munu nema 4–500 millj. kr. á næsta ári. Sú upphæð er helmingi hærri en rennur til málefna fatlaðra á því ári.

Málefni fatlaðra fá hækkun umfram forsendur frv. og ber að fagna því sem spori í rétta átt. En þrátt fyrir þessa hækkun er engu fjármagni varið til endurhæfingarstöðva sem ætlað er að annast þessa hópa fólks. Þessu verður vonandi kippt í lag við umfjöllun hv. fjvn. Ég hef ekki trú á því að það sé ætlun hæstv. fjmrh. að endurhæfingarstöðvarnar verði að hætta starfsemi sinni vegna fjármagnsskorts.

Nú þegar rætt er um frv. til fjárlaga fyrir árið 1985. sem er annað frv. hæstv. núv. fjmrh., er ekki úr vegi að rifja upp nokkur ummæli hæstv. ráðh. er hann mælti fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1984. Þá sagði hæstv. ráðh., með leyfi forseta:

„Það er reyndar fátítt að hægt sé að ræða samtímis á Alþingi um fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun þrátt fyrir lagafyrirmæli um það að lánsfjáráætlun skuli fylgja fjárlagafrv. Núverandi ríkisstj. einsetti sér hins vegar að ganga frá báðum þessum skjölum um svipað leyti, þannig að hægt væri að fjalla um þau samtímis á Alþingi, enda brýn nauðsyn að svo sé, jafn náskyld og þessi plögg eru.“

Ég minni sérstaklega á þessi ummæli þar sem lánsfjárlög hafa ekki sést hér enn þrátt fyrir það að sagt sé að það sé von á þeim bráðlega.

Í aths. við fjárlagafrv. þetta kemur fram að með aðhaldi munu fjármál ríkissjóðs áfram vera veigamikill þáttur í efnahagsstefnu ríkisstj. sem miði að því að draga úr erlendri skuldasöfnun og undirbúa nýja lífskjarasókn á grundvelli nýsköpunar í atvinnulífinu. Þetta eru góð og gild stefnumörk. En ég vil leyfa mér að draga það stórlega í efa að þetta markmið náist.

Lántökuþörf A-hluta ríkissjóðs verður mjög mikil á árinu 1985 skv. þessu frv., eða um 1791 millj. kr. Af þeirri upphæð er fyrirhugað að fá 600 millj. kr. innlent lánsfé. Ekki liggur mikið raunsæi að baki þessari tölu ef miðað er við reynslu yfirstandandi árs. Í lánsfjárlögum fyrir 1984 var áætlað að innlend lántaka yrði 945 millj. kr. En reyndin varð önnur. Íslendingar hafa ekki þetta fjármagn til reiðu handa ríkissjóði, þrátt fyrir háa vexti sem í boði eru, því að einungis fékk ríkissjóður tæplega 1/3 af þessari upphæð eða um 300 millj. kr. Það er þó ekki endanleg tala þar sem árið er ekki liðið. Erlend lántaka fyrir A-hluta ríkissjóðs er áætluð 1191 millj. kr. og líklegast er að sú tala hækki ef miða má við reynslu um innlent lánsfé. Erlend skuldasöfnun hefur aukist á yfirstandandi ári og er nú komin í 61.6% af vergri þjóðarframleiðslu. Það er því haldið áfram að lifa um efni fram og skrifa innistæðulausar ávísanir á börn framtíðarinnar.

Að undirbúa nýja lífskjarasókn á grundvelli nýsköpunar í atvinnulífinu er framsækið markmið. En hvar er þessu markmiði ætlaður staður í frv.? Jú, það á að veita 50 millj. til þróunarstofnunar. Henni er ætlað það hlutverk að efla iðnþróun, tækninýjungar og rannsóknir. Á þessum stað í frv. hélt ég að prentvillupúkinn hefði læðst inn en það var nú ekki svo vel. Ég verð að segja að maður getur ekki varist þeirri hugsun hvort hæstv. ríkisstj. sé full alvara með nýsköpun í atvinnumálum. Eða gerir hún sér væntingar um að þessi upphæð, sem mun vera um 1/3 af nýlegum togara, fleyti þjóðinni yfir sker stöðnunar í atvinnuuppbyggingu sem við höfum strandað á?

Ég get ekki látið hjá líða að minnast nokkrum orðum á niðurgreiðslur og útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir. á næsta ári er áætlað að verja 380 millj. kr. til útflutningsuppbóta og jafnframt 81 millj. til að greiða niður lán sem tekið var á árunum 1981–82 vegna útflutningsbóta. Niðurgreiðslur innanlands munu nema 620 millj. kr. Þetta eru því alls 1800 millj. kr. Ef við áætlum að um 5000 bændur séu hér á landi nemur þessi upphæð um 216 þús. á hvern bónda. Auk þess eru um 20 600 kr. á hvern bónda í jarðræktarstyrki. Það er því full þörf á að endurskoða landbúnaðardæmið í heild og kanna hvort það séu í raun og veru bændur sem njóta góðs af þessu fyrirkomulagi eða hvort milliliðir fái þar e.t.v. stærstan skerfinn.

Samtals nema útgjöld ríkissjóðs til greiðslu fjármagnsútgjalda rösklega 3 milljörðum króna. Þetta er svipuð upphæð og fer til menntamála á öllu landinu. Það ætti því öllum að vera ljóst að draga þarf úr erlendum lántökum og eyðslu þar sem arðsemi kemur ekki til skila.

Spara þarf í rekstri ríkisstofnana án þess að það komi niður á velferðarkerfi sjúkra, aldraðra eða öryrkja. Þessi hópar eiga að hafa forgang umfram aðra í samneyslu þjóðarinnar. Á þessu ári var ákveðin sérstök hækkun á þætti sjúklinga í sjúkrakostnaði. Bitnar hún mjög hastarlega á þeim sem leggjast ekki inn á sjúkrahús en þurfa meðferð á göngudeildum eða hjá sérfræðingum eða þurfa að gangast undir smáaðgerðir. Ég veit dæmi þess að smáaðgerð á barni, sem kostaði foreldra þess 500 kr. í upphafi þessa árs, þar sem sjúkrasamlagið tók þátt í greiðslum; kostar nú sömu foreldra 1600–1700 kr. Fjárútlát af þessum sökum verða foreldrum þungur baggi þegar endurtaka þarf slíkar aðgerðir á tveggja mánaða fresti, en það er ekki óalgengt þegar um börn er að ræða. Þegar svo við bætist ferðakostnaður og vinnutap, ef um landsbyggðarfólk er að ræða, verður dæmið mun alvarlegra. Þessi aukni hluti sjúkra í lækniskostnaði er því stórt skref aftur á við í velferðarkerfi þjóðarinnar.

Í tekjuhlið frv. er gert ráð fyrir tekjutapi ríkissjóðs upp á 75 millj. kr. vegna skattbreytingar innlánsstofnana. Þessi skattur hefur verið innheimtur mánaðarlega sem 0.06% bindiskylda af innlánum. Með lögum nr. 51 frá 1984 var ákveðið að frá og með árinu 1985 skyldi gjaldhlutfallið lækka um helming. Ég get ekki látið hjá líða að gagnrýna slíkar skattalækkanir á sama tíma og framlag til byggingar dagvistarstofnana lækkar að raungildi um 12–14 millj. frá fjárlögum yfirstandandi árs og mun aðeins nema 30 millj. kr. Þetta tel ég vera skammsýni þar sem hæstv. ríkisstj. ætti að vera það ljóst að síaukin atvinnuþátttaka kvenna krefst verulegra úrbóta í dagvistarmálum um allt land. Þetta ófremdarástand í dagvistarmálum bitnar ekki aðeins á foreldrum heldur einnig á þeim sem síst skyldi, börnunum.

Ekki verður skilið við fjárlagafrv. án þess að fara nokkrum orðum um skólamál. Framlög til byggingar grunnskóla lækka frá fjárlögum 1984 og er áætlað að þau nemi 100 millj. kr. alls 1985. Það er sama upphæð og fer í flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Enda þótt framlag til flugstöðvarinnar sé lántaka, þá verður það greitt úr ríkissjóði. Ég tel að forgangsröðun verkefna hafi brenglast verulega hjá hæstv. ríkisstj. þegar hún tók þessar ákvarðanir. Að ósekju mátti fresta framkvæmdum við flugstöðina og búa frekar betur að grunnskólum landsins. En nú er talið að þurfi 250 millj. til að bæta þar úr brýnni þörf.

Framlög til menntmrn. eru 15% á fjárlögum. Það er ekki hátt hlutfall þegar litið er á að innan þessa málaflokks eru framlög til allra mennta- og menningarmála. Ef vel ætti að vera þyrfti að auka framlög til þessa málaflokks með það að markmiði að jafna aðstöðu til menntunar og efla þær greinar sem lúta að nýjum atvinnuþáttum, svo sem rafeinda- eða líftæknimenntun, sem mjög hefur verið um talað undanfarið sem góða kosti í nýrri atvinnuuppbyggingu. Auk þess þarf að hlúa betur en gert er að menntun varðandi nýtingu sjávarafla. Þar er nærtækast að efla Fiskvinnsluskólann, en fjárveiting til hans hækkar aðeins um 18.8% á fjárlögum 1984, eða mun minna en forsendur frv., sem voru 23.1% áður en gengisfellingin kom til.

Ekki er hægt að átta sig fyllilega á forsendum nýja fjárlagafrv., sem er fljótlesið, er aðeins þrjár síður og notaði ég fyrst stærðarhlutföllin úr eldra frv., sem er ágætis bók upp á 320 síður, a.m.k. nóg að lesa þó maður sé ekki sammála öllum tölunum sem í því standa.

Kreppuástand og niðurskurður nær sér ekki alls staðar eins vel á strik. Á milli áranna 1982 og 1983 hækkuðu fjárveitingar til skrifstofu ráðuneytanna um 50–65% þegar almennt var gert ráð fyrir 40% hækkun á milli ára. Í fjárlögum fyrir árið 1984 var gífurleg hækkun milli ára á yfirstjórn ráðuneyta réttlætt með því að verið væri að taka raunverulegan kostnað rn. inn í fjárlög. Ekki er því óeðlilegt að ætla að þessi liðir hækkuðu ekki umfram verðlagsforsendur þessa frv. sem hér liggur fyrir. En það er nú öðru nær, a.m.k. hjá sumum þessum hv. rn.

Liðurinn yfirstjórn forsrn. hækkaði um 107.6% á milli áranna 1983 og 1984 en hækkar nú um 53.8% eða 30.7% umfram verðlagsforsendur frv. ef miðað er við heildarútgjaldaaukninguna sem er 23.1%. Þessi munur er enn meiri ef miðað er við launaforsendur frv., en þær eru 13.5% hækkun á milli ára.

Aðalskrifstofa landbrn. fær 48.2% hækkun á milli ára.

Ekki get ég látið hjá líða að nefna fjmrh., en þar skyldi maður ætla að ríkti festa og aðhald. Ég leyfi mér að vitna orðrétt í athugasemd við frv. á bls. 287. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og sjá má hækkar fjárveiting til allra viðfangsefna aðalskrifstofu heldur meira en verðlagsforsendur frv. gefa tilefni til. Einkum eru það laun sem hækka mikið. Ráðningarnefnd ríkisins heimilaði í maí 1984 að grunnheimildum á yfirstjórn skyldi fjölgað um eina og eru þær nú 34,17, en af þeim flytjast tvær á embætti ríkislögmanns. Þá eru í þessu frv. viðurkennd sú aukning á starfsemi sem þar hefur orðið, einkum í launadeild, og lausráðnum starfsmönnum fjölgað um sem svarar til fimm stöðugilda. Vegna þessa hækka laun um 1 millj. 82 þús. kr. Af sömu ástæðu hefur yfirvinna aukist á yfirstjórn. Í ríkisbókhaldi eru 18,5 grunnheimildir og hefur þeim ekki verið fjölgað um langan tíma, þó svo að umfang starfsemi kalli á fleiri starfsmenn. Í fjárlögum 1984 var áætlað að fyrir launum 22 stöðugilda, en nú er horfst í augu við þá aukningu sem hefur orðið á starfseminni og ætlað fyrir launum 26,5 stöðugilda. Vegna þessarar viðbótar hækka laun um 865 þús. kr. frá fjárlögum 1984. Einnig hefur reynst nauðsynlegt að auka yfirvinnugreiðslur um 682 þús. kr. frá fjárlögum 1984.“

Þessir liðir hækka á milli áranna 1983–1984 um 62.3% og hækka nú um 32.3%. Það er víða sem niðurskurðarkutinn bítur alls ekki. Eða á að líta á þessar hækkanir sem vantrú hæstv. ráðh. á hjöðnun verðbólgu? Eða ætla þeir öðrum að draga saman seglin þegar þeir eru gersamlega ófærir um það sjálfir og horfast aðeins í augu við þá aukningu sem hefur orðið á starfsemi sinni?

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög mörg orð um þetta frv. til fjárlaga enda vonast ég til að það eigi eftir að taka miklum breytingum til batnaðar í umfjöllun fjvn. Alla vega fannst mér hv. þm. Guðmundur Bjarnason gefa tilefni til eilítillar bjartsýni í þeim efnum í ræðu sinni hér áðan og vona að það eigi eftir að rætast. En það blæs ekki byrlega fyrir þjóðarskútunni. Er því enn brýnna en áður að marka framfaraspor með gerð fjárlaga. Það þarf að styrkja stoðir nýrra atvinnutækifæra. Það þarf að stuðla að markaðskönnun og markaðssetningu fyrir íslenskar afurðir. Það þarf að efla menntun sem er undirstaða nýsköpunar í atvinnulífi. Það þarf að tryggja afkomu öryrkja, aldraðra og sjúkra. Það þarf að búa vel að skóla- og uppeldismálum barna þessa lands. En það er því miður langt í land að þessum markmiðum verði náð. Þessum markmiðum verður ekki náð nema með breyttri stjórnarstefnu og stjórnarháttum. Það þarf að draga verulega úr miðstýringu þjóðfélagsins. Á meðan allt er óbreytt í stjórnháttum landsins er lítil von til þáttaskila við gerð fjárlaga.