16.10.1984
Sameinað þing: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

42. mál, aflamark á smábáta

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir hans svör við minni fsp. Eins og ég gat um staðfesti hann að hér hefði orðið tvívegis um stöðvun að ræða hjá smábátum vegna þessa sameiginlega aflamarks. Hæstv. ráðh. taldi að ekki hefði breytt miklu þó að gilt hefði kvóti miðað við landshluta. Ég vil ekki leggja neitt endanlegt mat á það, enda hef ég ekki ákveðnar upplýsingar um þetta atriði. Hæstv. ráðh. gaf þær heldur ekki hér sundurliðaðar eftir landshlutum en byggir þó eflaust á einhverri vitneskju um þetta efni. Mér er þó kunnugt um að veruleg óánægja ríkti með þetta fyrirkomulag m.a. á Austurlandi síðastliðið sumar. Þar gerðist það að tregfiski var fyrri hluta sumars, t.d í júlímánuði á Austfjarðamiðum á smábáta að hluta til á meðan allvel veiddist annars staðar. Því töldu menn að sú skerðing sem sett var á í ágústmánuði hefði komið óeðlilega niður.

Ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. ráðh. að hann hugleiði við undirbúning þess frv., sem er í mótun á vegum hans ráðuneytis, að fella smábátaútgerðina undan aflamarki miðað við að gert sé ráð fyrir kvótasetningu áfram eins og gefið hefur verið til kynna. Ég teldi það eðlilegt að smábátar féllu ekki undir slíkar reglur. Hér er um þjóðhagslega mjög hagkvæma útgerð að ræða og heildaraflinn skiptir engu teljandi í því dæmi sem hér er verið að fást við í sambandi við takmörkun veiða. Auk þess eru einstaka staðir sem ekki hafa annað bjargræði í rauninni en smábátaútgerðina. Sameiginlegt aflamark eða stöðvanir á þessum veiðum geta komið mjög illa við þessa staði.

Sem varatillögu af minni hálfu ítreka ég það sjónarmið að ef á annað borð er haldið fast við það að hafa aflamark á smábáta sé réttmætt að tekin sé upp skipting a.m.k. eftir landshlutum og helst eftir byggðarlögum. Þá væri byggt á reynslu varðandi afla og þeim viðmiðunum sem almennt eru notaðar við setningu á aflamarki þannig að mönnum sé ekki mismunað með þeim hætti sem hlýtur að verða í einhverjum mæli þegar um slíkt sameiginlegt aflamark er að ræða fyrir stóran fjölda báta frá mörgum útgerðarstöðum. Ég sé ekki hvað ætti að vera á móti því að slík skipting væri upp tekin ef ekki er fallist á að undanskilja smábátana aflamarki.