28.11.1984
Efri deild: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft til umfjöllunar frv. um breyt. á lögum nr. 59 1983, um heilbrigðisþjónustu. Frv. varðar raunar ákvæði til bráðabirgða sem er í umræddum lögum. Þar til 1983 var ekki tímafrestur í þessu efni, en 1983 var tímafrestur settur í lögin, þ.e. að bráðabirgðaákvæði gilti til ársloka 1984. Eins og fram kemur í grg. með þessu frv. þótti rík ástæða til að framlengja þennan frest um eitt ár eða til ársloka 1985 og eru í fyrri grein þessa frv. nefnd til þau svæði sem koma við sögu í þessu efni.

Þess skal getið að nú þegar hefur verið sett á laggirnar nefnd undir forustu, að því er mér er sagt, Davíðs Á. Gunnarssonar, til að gera tillögur um skipan heilsugæslumála á Reykjavíkursvæðinu. Þess er raunar getið hér í grg. Sagt hefur verið að nefndin muni skila af sér fljótlega eftir áramót. Ég skal viðurkenna að um það má deila hversu langur þessi tímafrestur skal vera, svo sem frv. gerir ráð fyrir, hvort ástæða er til að framlengja frestinn um eitt ár eða skemmri tíma. Hitt sýnist nokkuð ljóst, að þetta mál þarfnast töluverðs undirbúnings. Ég hygg þó að þrátt fyrir þessa nefndarskipan, sem ég gat um áðan, hafi málið að einhverju leyti nú þegar, og e.t.v. að töluverðu leyti, verið undirbúið.

Ég lít svo á að lög um heilbrigðisþjónustu frá 1973 hafi að mörgu leyti markað þáttaskil í okkar heilbrigðiskerfi. Ég vil sérstaklega taka það fram. Hitt ber að mínum dómi að líta á, að ekki er alveg öruggt að sama skipulag sé það heppilegasta alls staðar í öllum tilvikum. Aðstæður eru nokkuð breytilegar. Nú er ég ekki með þessu að spá um niðurstöður þeirrar nefndar sem ég gat um áðan og vinnur að tillögugerð um skipan heilsugæslukerfisins á Reykjavíkursvæðinu. Ég vík að þessu ekki síst með tilliti til þess, sem ég sagði áðan, að þetta þyrfti e.t.v. að skoða rækilega, en ég trúi ekki öðru en að það sé gert með hliðsjón af þeim lögum sem þetta frv., sem nú er til umfjöllunar, á við.

Eins og hv. þdm. er kunnugt og þeir hafa vafalaust veitt athygli hefur verið flutt brtt. við frv. Brtt. kemur frá hv. þm. Ragnari Arnalds þar sem umræddur frestur er styttur verulega, þ e. gert er ráð fyrir að fresturinn gildi til 1. maí 1985. Ég ætla ekki að fjalla frekar um brtt. Það er nokkuð bagalegt að hv. flm. hennar hefur fjarvistarleyfi í dag. Ég hef þó hugmynd um að einhver muni fyrir hans hönd víkja að till. síðar í umr.

Með tilliti til þess sem fram hefur komið í heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar taldi n. ekki ástæðu til að gera breytingar á frv., taldi ekki ástæðu til að breyta þar dagsetningu, taldi ekki ástæðu til að stytta þann frest sem rætt er um í frv., og leggur n. til að frv. verði samþykkt óbreytt. En það er lögð áhersla á að tillögu gerð um skipan heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu verði hraðað. Ég endurtek: Heilbr.- og trn. Ed. leggur áherslu á að því starfi verði hraðað.