28.11.1984
Neðri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 1. minni hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 1. minni hl. iðnn., sem prentað er á þskj. 195, en þetta nál. er til komið af því að iðnn. Nd. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Við undirritaðir, þ.e. við hv. þm. Ingvar Gíslason, leggjum til að frv. verði samþykkt, þ.e. að staðfestur verði samningur á milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., dags. 5. nóv. 1984, um viðauka við aðalsamning milli sömu aðila, dags. 28. mars 1966, með viðaukum um byggingu og rekstur á álbræðslu í Straumsvík. Þessi afstaða okkar er í samræmi við skoðun þingflokks Framsfl.

Herra forseti. Þrátt fyrir þessa afstöðu okkar höfum við hv. þm. Ingvar Gíslason ýmsar athugasemdir að gera varðandi þetta mál í heild. Þótt atvik og ástæður í málinu leiði til þeirrar niðurstöðu að rétt sé að staðfesta fyrirliggjandi samning með lögum fer því fjarri að aðrar eða víðtækari ályktanir sé hægt að draga af því um ágæti samskipta Íslendinga við svissneska auðhringinn Alusuisse í fortíð, nútíð eða framtíð. Aðalsamningurinn frá 1966, sem er grundvöllur allra viðskipta Íslendinga við Alusuisse, er þess eðlis að ekki er að vænta góðrar samningsaðstöðu um breytingar Íslendingum til hagsbóta. Reynt var að lagfæra þennan samning 1975, en það mistókst því miður hrapallega. Þetta á að sjálfsögðu við samninginn í heild, en þó allra helst um þau ákvæði sem fjalla um orkuverð, skatta og meðferð deilumála fyrir dómstólum. Öll þessi ákvæði hafa reynst þung í vöfum, óhagstæð fyrir Íslendinga og seinvirk og kostnaðarsöm.

Miðað við anda og efni aðalsamningsins frá 1966 og breytingarnar frá 1975 var því ekki að vænta skjóts eða mikils árangurs af starfi samninganefndar Íslendinga við Alusuisse um þann ágreining sem uppi hefur verið síðustu 2–3 ár um skattamál og orkuverð og ýmis önnur atriði. í samskiptum aðila. Aðalsamningurinn verndar nefnilega Alusuisse og Íslenska álfélagið í bak og fyrir um flest þau atriði sem mestu máli skipta.

Við höfum átt í harðvítugum deilum við auðhringinn. Við föllumst á að skynsamlegra sé að ganga til samninga og veita viðtöku því sáttafé upp á 3 millj. dollara sem hægt er að snúa út úr álhringnum heldur en að reka þetta mál áfram fyrir dómstólum af því að fjárvon var óvís úr frekari málarekstri. Hringurinn vinnur það sér til friðar að greiða þetta sáttafé og í því felst viðurkenning frá þeirra hendi um að bætur hafi þurft að greiða. Skv. áðurgerðum samningum sitjum við áfram með ÍSAL í landinu og í sjálfu sér er ekki hyggilegt að standa í óþarfa deilum sér til svölunar ef eftir öðrum og friðsamlegri leiðum er hægt að ná sama árangri, þ.e. viðunandi skaðabótum og sektarviðurkenningu.

Það kemur einnig til, sem ekki hefur bætt aðstöðu samninganefndar og hæstv. iðnrh. þegar til kastanna kom, og á það er rétt að leggja nokkra áherslu, að orkuverð til álbræðslna hefur ekki verið hátt að undanförnu og er lækkandi nú í bili. Áliðnaðurinn er í lægð og óálitlegur atvinnuvegur eins og á stendur. Framtíð áliðnaðar er alls ekki björt, þvert á móti.

Gestir iðnn. hafa kynnt nm. svokallaðar „spár“ erlendra ráðgjafarfyrirtækja, sem gera sér það að atvinnu að spá um framtíðarhorfur í áliðnaði, þ.e. hvenær líkur séu á því að hagur áliðnaðar taki að vænkast, en það er það sem þessir spámenn eru spurðir um. Við hv. þm. Ingvar Gíslason teljum varhugavert að gera mikið úr slíkum spám og festa sína von á þær, ekki af því að þessir spámenn kunni ekki vel til verka eins og verða má, heldur vegna þess að hér er um þess háttar útreikninga að ræða að þeir eru háðir mikilli óvissu. Spár af þessu tagi eru því fjarri því að vera óskeikular. Allt eins má hugsa sér að álkreppan eigi eftir að vaxa enn og vara lengur en séð verður. Það þyrfti e.t.v. ekki annað en að hönnun flugvéla breyttist, sem hugsanlega gæti orðið innan ekki mjög langs tíma, með þeim afleiðingum að ál hentaði ekki jafn vel sem smíðaefni í flugvélar. Það er hægt að hugsa sér að ál yrði endurunnið í auknum mæli og þannig dregið úr þörfinni fyrir þennan málm í veröldinni. Við teljum að Íslendingar ættu að fara sér hægt í að einbeita áhuga sínum og framtaki að þessum vonarpeningi sem álbræðslan er í atvinnuuppbyggingu framtíðarinnar.

Með tilliti til þessa sem ég hef hér rakið, þ.e. óhagstæðs aðalsamnings frá 1966 og mislukkaðrar endurskoðunar 1975 og kreppu í áliðnaði, er ljóst að samningsstaða Íslendinga við Alusuisse um hækkað raforkuverð var ekki góð. Við teljum því að ekki sé ástæða til að vanmeta þessa niðurstöðu sem fengin er um raforkuverð. Sé málið virt í heild var naumast við betri kjörum að búast. Íslendingar eru og verða heftir af þeim grundvallarsamningi um álbræðsluna í Straumsvík sem gerður var 1966. Af þeim samningi hljóta Íslendingar að súpa seyðið til loka samningstímabilsins. Það verður þó að viðurkenna og því ber að fagna að miðað hefur í rétta átt um endurbót á þessum samningi og bætt hefur verið inn í hann nýju ákvæði um endurskoðun raforkuverðs á fimm ára fresti. Þess er að vænta að með þessu ákvæði opnist leið til að ákveða raforkuverðið nær því sem eðlilegt getur talist á hverjum tíma.

Endurskoðunarákvæði sem þetta hefði verið sjálfsagður hlutur í samningnum allt frá upphafi, eins og framsóknarmenn bentu á þegar málið var til meðferðar á Alþingi vorið 1966. Hitt er svo annað mál að endurskoðunarákvæðin, eins og þau liggja fyrir í 28. gr. raforkusamningsins eru því miður engan veginn ótvíræð til skilnings og túlkunar. Gildi þessara ákvæða.kemur ekki nógu skýrt í ljós af orðum þeirra einum saman. Um gildi þessara ákvæða verður því að bíða dóms reynslunnar. Það er síst að undra að þar til reynslan hefur skorið úr velkist menn á milli vonar og efasemda.

Við hv. þm. Ingvar Gíslason viljum taka fram að við höfum allan fyrirvara á um fylgi við hugmyndir um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík eins og þær koma fram í svokölluðu bráðabirgðasamkomulagi frá 28. sept. 1983 og svonefndu bréfi um samkomulag frá 5. nóv. 1984, undirrituðu af iðnrh. fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og tveimur forstjórum Alusuisse fyrir hönd þess félags, þá þegar af þeirri ástæðu að ekki kemur til greina að okkar dómi að semja um þessa stækkun nema tryggilega sé gengið frá því að greitt verði framleiðslukostnaðarverð raforkunnar frá nýjum virkjunum.

Það er mikil tíska þegar verið er að skilgreina efnahagsvanda íslensku þjóðarinnar að kenna um offjárfestingu í hinum hefðbundnu atvinnugreinum, sérstaklega í fiskiskipum. Menn hafa tuggið það hver eftir öðrum að fiskifloti okkar væri allt of stór. Þetta er að mestu leyti misskilningur. Efnahagsvandi Íslendinga stafar engan veginn fyrst og fremst af því að við höfum bundið of mikið fjármagn í fiskiskipum. Við höfum bundið of mikið fjármagn í orkumálum og við höfum verið of bráðlát. Við höfum framkvæmt of hratt og hefur því miður stundum verið illa staðið að undirbúningi. Við höfum framkvæmt fyrir lánsfé sem hefur verið of dýrt. Þess vegna stöndum við uppi með orkufyrirtæki sem sum eru vafin í skuldum og verðum að búa við orkuverð sem er miklu hærra en það sem við gætum búið við ef við hefðum sýnt meiri aðgæslu.

Ég vek sérstaka athygli á því að meiri hluti erlendra langtímaskulda Íslendinga er vegna orkuframkvæmda. Ég vil leyfa mér að vitna til nóvember-heftis af Hagtölum mánaðarins sem nýkomið er á borð hv. þm. Þar sést á 2. síðu í töflu um stöðu erlendra lána í árslok 1983, flokkuð eftir atvinnugreinum að orkumál eru með 50.2% af heildar erlendum langtímaskuldum Íslendinga. Sjávarútvegurinn er einungis með 16.1%. Ég bið menn að átta sig á þessum mismun, þ.e. að lántökur orkugeirans eru meira en þrefalt hærri en lántökur sjávarútvegsins. Iðnaðurinn er með 8.2%, samgöngur, þ.e. flugvélar og skip með 10.3% og aðrir atvinnuvegir með 1.8%. Þetta var í árslok 1983. Síðan hefur gengið fallið og enn þá sigið á ógæfuhlið. Mér býður það í grun að orkumálalánin séu enn óhagstæðari en lánin sem hvíla á sjávarútveginum. Svona má þetta ekki ganga. Við verðum að sjá að okkur og vanda okkur betur við orkumálin ef orkuauður landsins á að geta skapað okkur þá velmegun og orðið okkur til þeirra hagsbóta sem hann endilega þarf að verða í framtíðinni og hefur mikil skilyrði til að verða.

Ég vil undirstrika það hér og nú að auðvitað þurfum við að virkja vatnsorku og jarðhita. En þetta þurfum við að gera af aðgát og af mátulegum hraða, þ.e. ekki að rjúka til að virkja og virkja og verða svo að sitja uppi með orku sem við getum ekki komið í lóg á kostnaðarverði. Ég óttast að frekari stækkun álversins í Straumsvík mundi tefja fyrir fjárfestingu í nýjum atvinnugreinum og stofnun eða endurskipulagningu fyrirtækja sem betur henta þörfum Íslendinga fyrir fjölbreytt atvinnulíf og fleiri störf í vaxandi þjóðfélagi.

Stóriðja er fjármagnsfrek og hægt er að fá mörg störf í smærri iðnaði fyrir þann stofnkostnað sem eitt starf í stóriðju þarf. Við hv. þm. Ingvar Gíslason vörum við því að Íslendingar haldi áfram að framkvæma stóriðjustefnu og orkustefnu sem hefur runnið sitt skeið og vinnur gegn þeirri þjóðfélagsgerð og atvinnuuppbyggingu sem betur hentar Íslendingum á komandi árum og áratugum en stóriðjustefnan sem er á fallandi fæti. Um þá framtíðaruppbyggingu atvinnulífs, sem við höfum í huga, viljum við vísa til nýrrar samþykktar miðstjórnar Framsfl. í atvinnumálum. Þar er ályktað um orkufrekan iðnað og segir m.a.:

„Í þessum málum er það stefna Framsfl.:

1. að hafna þeirri stóriðjustefnu sem eingöngu miðast við orkusölu. Við uppbyggingu orkufreks iðnaðar verði lögð áhersla á virk yfirráð Íslendinga, að íslensk eignaraðild vaxi með tímanum og Íslendingar verði sjálfir aðilar að sölufyrirtækjum og taki virkan þátt í tækniþróun.

2. að orkusölusamningar miðist við að tryggja arðsemi nýrra virkjana og veitukerfa.

3. að lögð verði rík áhersla á að nýta jarðhita sem víðast, svo sem til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjum og í nýjum orkufrekum iðngreinum.

4. að gerðar verði strangar kröfur um mengunarvarnir og umhverfissjónarmiða gætt við ákvarðanir um staðarval stóriðjuvera. Áhersla verði einnig lögð á heilsusamlegt starfsumhverfi innan dyra í stóriðjuverum.

5. að íslensk löggjöf gildi í öllum ágreiningsmálum, stefnt verði að því að starfsemi allra stóriðjufyrirtækja á Íslandi verði innan samræmdrar rammalöggjafar.“

Herra forseti. Þetta var tilvitnun í miðstjórnarsamþykkt Framsfl. um stefnumörkun í atvinnumálum. Þrátt fyrir þessar almennu athugasemdir og fyrirvara um einstök atriði, sem tengjast þessu máli, teljum við hv. þm. Ingvar Gíslason þá hækkun orkuverðs, sem um er samið, mikilvæga úrbót miðað við þau óviðunandi kjör sem Íslendingar hafa búið við skv. núgildandi orkusamningi og mælum með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir, enda er þetta til muna betri samningur en sá samningur sem við búum við. Það ber alls ekki að vanmeta þó að sjálfsögðu hefði verið hægt að hugsa sér að hann væri í mörgum greinum öðruvísi en raun ber vitni.