28.11.1984
Neðri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hér hafa menn flutt langar og ítarlegar ræður og margt hefur komið fram, bæði með og móti þessum samningi. Þessi ræðuflutningur virðist þó hafa frekar takmarkað gildi nema sögulega séð fyrir þingtíðindi, því mér virðist að þm. séu almennt búnir að gera upp hug sinn og jafnvel svo að ég er sennilega eini þm. hér í salnum eða í hv. Nd. sem hef óbundnar hendur og ræðumenn geta haft áhrif á. Og segi menn svo að það sé alveg ónýtt að hafa hér óháða menn í salnum!

Ég hef það á tilfinningunni að þingflokkarnir séu búnir að móta afstöðu sína fyrir fram og leiti rakanna eftir á. Það gildir bæði um stjórnarliða og stjórnarandstæðinga. Það gengur jafnvel svo langt að tveir þm. Framsfl, leggja hér fram álit þar sem þeir lýsa því yfir að þeir muni greiða atkv. með samningunum en finna honum samt flest allt til foráttu í þeirri grg. sem fylgir þessari afstöðu þeirra.

Ég las í Innansveitarkróniku Laxness og skrifaði það niður hjá mér þar sem hann segir á einum stað:“ Því hefur verið haldið fram að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít sem ekki kemur málinu við en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna málsins.“

Ég segi svo sem ekki að menn hafi forðast kjarna málsins í þessu mikla ágreiningsmáli, en þeir hafa hins vegar óneitanlega tilhneigingu til að taka lítt mark á kjarnanum. Og ef þingheimur er ekki skelfingu lostinn þá setur hann a.m.k. hljóðan og hverfur úr þingsal þegar kemur að þeim kjarna sem hér er um að ræða í þessu stóra máli.

Herra forseti. Í þessum umr. hafa verið tíunduð rök bæði með og móti frv. og ég þarf þar litlu við að bæta. En ég vil í örstuttu máli gera grein fyrir afstöðu minni til þessarar samningagerðar og nánast þá að gera grein fyrir atkv. mínu. Það er ekki seinna vænna því að enn einu sinni skellur á okkur útvarpsumræða þar sem ræðutími er takmarkaður við sérstaklega útsenda talsmenn þingflokka. Í útvarpsumræðum er nefnilega ekki gert ráð fyrir því að einstakir þm. í þingflokkum geti haft skoðanir öðruvísi heldur en þingflokkarnir.

Í fyrsta lagi vildi ég taka fram að fyrst þegar gengið var til samningsstarfs við Alusuisse og orkusölusamningur gerður árið 1966 var mjög hart deilt um þá pólitísku ákvörðun að bjóða erlendum aðilum aðstöðu til verksmiðjureksturs hér á landi. Allar götur síðan hafa farið fram látlausar deilur um þessa stefnu, hún verið umdeild og stórpólitískt hitamál. Þess vegna er það athyglisvert að í þeim umr. sem nú fara fram er ekki lengur deilt um, a.m.k. ekki sem neinu nemur, réttmæti eða gildi þess að selja orkuna til erlends stóriðjufyrirtækis heldur er hitt orðið aðalatriðið að hafa sem mest út úr þeim viðskiptum. Gagnrýnin gegn þessu frv. beinist m.ö.o. aðallega og nánast eingöngu að því að samningarnir gefi ekki nógu mikið í aðra hönd.

Í öðru lagi. Sú endurskoðun sem hefur farið fram og þær auknu tekjur sem augljóslega koma Íslendingum til góða og til tekna undirstrika að fyrri samningar við Alusuisse hafa verið óviðunandi, a.m.k. er varðar raforkuverðið sjálft. Því verður ekki á móti mæli að síðasta ríkisstjórn og þá einkum fyrrv. iðnrh. hafði forgöngu um þá kröfugerð sem uppi hefur verið höfð. Leiða má líkur að því að samningsgerðin eins og hún liggur fyrir hefði ekki borið jafnmikinn árangur nema fyrir þá sök að hart var sótt og af fullri einurð. Þótt deila megi um vinnubrögð og meintar ákærur sem spilltu fyrir og sköpuðu tortryggni á báða bóga, þá verður að viðurkenna að sú einbeitni, sá ágreiningur og jafnvel sú óbilgirni af hvaða toga sem hún annars kann að hafa verið spunnin, skapaði skilyrði til þeirrar samningsgerðar sem er til umfjöllunar. Ég tel sjálfsagt að færa þessa staðreynd til tekna þeim aðilum sem nú mótmæla afrakstrinum af fyrri athöfnum sínum og annarra.

Í þriðja lagi. Það hefur verið sett fram gagnrýni á að samkomulagið feli ekki í sér heildarlausn er varðar skattafyrirkomulagið og hugsanlega stækkun álversins. Ég tel það frekar kost en galla og Íslendingar hafa þannig alla möguleika á að ná fram sínum kröfum án þess að versla með orkusöluna að öðru leyti. Hvað varðar þá grundvallarákvörðun, þá pólitísku ákvörðun að lýsa því yfir að Alusuisse muni vera gefinn kostur á að stækka álverið, þá er ég meðmæltur þeirri ákvörðun af pólitískum ástæðum. Ég tel það skynsamlega stefnu og rétta, enda er um leið rétt að taka fram að enn er ósamið um allar skuldbindingar og öll kjör ef til þess kemur að álverið verði stækkað einhvern tíma í náinni framtíð.

Í fjórða lagi. Þegar deilt er, og síðan gengið til samninga þar sem miklir hagsmunir eru í húfi, getur auðvitað enginn búist við því að ná fullum sigri. Samningar byggjast á málamiðlun, að tekið sé tillit til sjónarmiða beggja. Aðalatriðið eða kjarni málsins er að ná fram hækkun á orkuverðinu. Það hefur tekist. Verðið hefur tvöfaldast og jafnvel þrefaldast frá upphaflegu verði og mér finnast rökin sem liggja að baki þessu samkomulagi um orkuverðið vera skynsamleg og réttmæt. Enginn segir að þessu verði hefði ekki mátt þoka enn hærra, en ég hef ekki heyrt á málflutningi þeirra sem snúast gegn þessum samningi hvernig það hefði mátt gerast nema þá á kostnað einhvers annars og á kostnað þess að enn hefði dregist að Íslendingar hefðu fengið auknar tekjur strax af hækkuðu orkuverði. Þetta ber að hafa í huga þegar fyrir liggur að hér er verið að kljást við harðsnúna og jafnvel harðsvíraða viðsemjendur.

Í fimmta lagi. Hnökrarnir á þessu samkomulagi eru vissulega nokkrir, og ég hef sérstaklega staðnæmst við þær aths. sem hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson hefur gert er varðar mgr. 203 í aðstoðarsamningi þar sem rætt er um bestu kjör. Nú hafa verið gefnar skýringar bæði af hálfu hæstv. ráðh. og frsm. álits sjálfstæðismanna í iðnn. á því hvernig þessu máli við víkur. Engu að síður finnst mér öll málsmeðferð vera vafasöm ef ekki tortryggileg, ekki af hálfu okkar manna heldur af því hversu fast Alusuisse hefur sótt á um að fá þessu ákvæði breytt þannig að það gildi aðeins um viðskipti við þriðja aðila en ekki milli Alusuisse og dótturfyrirtækja þess. Ég tel engan vafa á eftir því sem upplýst er að breyting á þessu ákvæði var gerð að úrslitaatriði í lokahrinunni. Það hefur aðeins verið gert af þeim Alusuisse-mönnum vegna þess að þeir telja þetta vera mikla hagsmuni fyrir sig. Af þeirri ástæðu er ég undrandi og hef ekki fengið skýringar á því hvers vegna Íslendingar gáfu eftir í þessu máli, svo augljóst hagsmunaatriði sem það er. Öll þessi deila er fyrst og fremst sprottin af því að upp kom deila eða ásökun „um hækkun í hafi“. — Þær ákærur byggjast einmitt á þessum tilgreindu ákvæðum í mgr. 203 í aðstoðarsamningi.

Ég hlýt líka að lýsa yfir vonbrigðum mínum með hvernig þessi samningur er lagður fyrir þingið. Hér er nánast um að ræða að menn þurfi að taka afstöðu til þessa pakka með einni atkvgr., annaðhvort af eða á. Ég hefði kosið að hægt hefði verið að láta álit sitt í ljós í atkvgr. á einstökum liðum og atriðum í samkomulaginu vegna þess að vissulega hafa komið fram aths. sem hafa við rök að styðjast og atriði sem þurfa nánari skoðunar við, jafnvel atriði sem ég mundi greiða atkv. gegn ef til kæmi ef málið hefði verið útbúið þannig að hægt hefði verið að greiða atkv. um hvert einstakt atriði. Það er ekki svo um hnútana búið. Þingheimi er stillt upp með að greiða atkv. með eða móti pakkanum í heild sinni. Þá verða menn að meta hvort vegi þyngra hagsmunir þess að samþykkja strax eða hafna þessu samkomulagi og draga málið enn á langinn. Þyngst á metunum í því sambandi er auðvitað að þá mundi enn verða dráttur á því að hækkun á orkuverðinu gengi í gildi og við mundum tapa ómældu fé af þeim sökum. Hv. 5. þm. Austurl. hefur orðað það svo að þingheimi sé stillt upp andspænis dagsektum en því er ekki að neita að þar er ekki aðeins um að ræða sektir á degi hverjum, þar er um að ræða fjármuni svo milljörðum kr. skiptir ef menn vilja binda sig fasta í að fá einhverjar aðrar lausnir á skattamálið, á ýmis tæknileg atriði og önnur þau gagnrýnisefni sem sett hafa verið hér fram og varða ýmis mál önnur en orkuverðið sjálft. Það er þess vegna ábyrgðarhluti að greiða atkv. gegn þessu samkomulagi vegna þessarar gagnrýni og þessa ágreinings og kalla yfir sig dagsektir sem mundu þá skipta milljörðum kr. fyrir þjóðarbúið.

Ég held að menn þurfi að hafa það í huga að jafnvel þó að óánægja sé um rýra uppskeru af skattadeilunni, þá eru það óverulegir peningar sem fást út úr skattadeilunni og þá í ljósi þess að dráttur yrði á samkomulaginu, miðað við og andspænis því að skrifa strax undir samkomulagið og að tekjur fari að koma inn, og þær tekjur eru margfalt meiri en nokkurn tíma það sem mundi fást út úr hugsanlegri hækkun á því fé sem greitt er til lausnar á skattadeilunni.

Án þess ég fari frekar að tíunda það hef ég ýmsar efasemdir um einstök atriði og ágæti þeirra í þessu samkomulagi. En ég hef þó ekki gengið eins langt og þeir hv. framsóknarmenn, Páll Pétursson og Ingvar Gíslason, sem skila minnihlutaáliti er felur í sér andstöðu við grundvallarforsendur alls þessa máls. Þeir lýsa því yfir og segja það í nefndaráliti sínu að „því fer fjarri að aðrar eða víðtækari ályktanir sé hægt að draga af því“ — þ.e. samningnum — „um ágæti samskipta Íslendinga við svissneska auðhringinn Alusuisse í fortíð, nútíð og framtíð.“ Og „aðalsamningur verndar Alusuisse og Íslenska álfélagið í bak og fyrir um flest þau atriði sem mestu skipta.“ Og þeir lýsa því jafnframt yfir og vara við því „að Íslendingar haldi áfram að fylgja fram stóriðjustefnu og orkustefnu sem þegar hefur runnið sitt skeið og vinnur gegn þeirri þjóðfélagsgerð og atvinnuuppbyggingu sem betur mun henta Íslendingum á komandi árum og áratugum.“ Hérna er verið að lýsa yfir í grundvallaratriðum algerri andstöðu gegn þessu máli og mig undrar að jafnágætir þm. og þingvanir skuli leggjast svo lágt að skila áliti sem hefur að geyma slíkar yfirlýsingar og andstöðu, en samt eru þeir tilbúnir til að greiða þessu samkomulagi atkv. sitt. Ég held að þetta plagg sé dæmigert um þann tvískinnung, jafnvel þá lágkúru sem virðist því miður vera of algeng til að teljast undantekning í íslenskum stjórnmálum. Það væri hreinlegra fyrir þá hv. þm. Pál Pétursson og Ingvar Gíslason að standa fast á sinni grundvallarskoðun í þessu máli og vera sjálfum sér samkvæmir. En það er þeirra mál og er aukaatriði í þessari deilu allri.

En í sjötta og síðasta lagi, herra forseti, vildi ég aðeins segja að með þessu samkomulagi aukast tekjur Íslendinga mjög verulega eins og hér hefur komið fram í þessari umr. og það er þó kannske enn þá veigameira að grundvöllur skapast til nýrrar sóknar á sviði stóriðju. Samstarf við fleiri erlend fyrirtæki á þessum vettvangi er okkur mikið hagsmunamál og þolir ekki bið. Af þeim sökum tel ég farsælast að endir sé bundinn á deiluna við Alusuisse að svo miklu leyti sem hægt er og þetta samkomulag felur í sér og þá til þess að eyða tortryggni og taka til við næstu verkefni. Með vísan til þess sem ég hef hér sagt, þá mun ég greiða atkv. með samþykkt Alþingis á því frv. sem er hér til umfjöllunar.