28.11.1984
Neðri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 2. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það getur vissulega verið álitamál, eins og hér var vikið að af hv. 6. þm. Reykv., hversu gagnlegar umr. af þessu tagi eru hér á hv. Alþingi og víst er um það að æskilegt væri að fjölmennara væri í þingsölum þegar þetta stóra mál er á dagskrá og raunar oft þegar verið er að ræða hér mjög mikilsverð mál. En ég vænti þess nú samt að sú umr., sem hér fer fram, verði einhverjum að gagni, a.m.k. þeim sem hér taka þátt í henni og þeim sem kynna sér mál að henni lokinni í þinggögnum, því að hér hefur vissulega margt býsna athyglisvert komið fram. Ég ætla hér að víkja að nokkrum atriðum sem ástæða er til í ljósi þeirrar umr. sem hér hefur orðið og framsöguræður sem fluttar hafa verið fyrir nál. gefa tilefni til þess, ekki síst mál hv. 2. þm. Reykn. sem mælti hér fyrir áliti hv. 3. minni hl. iðnn.

Áður en ég kem að því tel ég hins vegar ástæðu til þess, af því að þeim sem hér eru er í fersku minni ræða hv. síðasta ræðumanns, hv. 2. þm. Norðurl. v., að mæla við hann nokkur orð.

Hv. þm. vék fyrst að störfum iðnn. Ég hafði ekki uppi neinar ásakanir í hans garð í sambandi við stjórn hans þar á málum. Við skildum alveg sáttir í sambandi við það þó að ekki hefðu verið uppfylltar allar mínar óskir um gögn eða menn til viðræðna í nefndinni, og brá þar til betri vegar frá því sem var á fundum sem haldnir voru áður en hann kom til baka til starfa sem formaður nefndarinnar.

Það var ekki mjög þægilegt að vinna að þessu máli fyrir síðustu helgi í iðnn. með þeim gífurlega þrýstingi sem þar var á að afgreiða mál út úr n. og ásetningi, að því er virtist, af stjórnarliðinu sem þar var til staðar, en það var aðeins hluti þess, að knýja málið út úr nefnd á föstudegi og hafa 2. umr. hér um málið á mánudag. Það varð hins vegar ekki og að því stuðlaði m.a. hæstv. forseti þessarar deildar, hv. 1. þm. Norðurl. e. Ingvar Gíslason, að dokað var við með afgreiðslu málsins.

Þegar ég ræði um þrýsting og dagsektir í sambandi við afgreiðslu þessa máls vísa ég til þess, sem fram hefur komið og hæstv. iðnrh. kannast við, hvernig málið er lagt hér fyrir þingið. Hv. þm. verður auðvitað að meta hvernig hann tekur slíku og hvernig hann hagar sínum störfum í ljósi þess sem þar kom fram og þeirrar staðreyndar að málið er hér lagt fyrir með þeim hætti að í stað þess að ganga frá raforkuverði frá undirskriftardegi af hálfu ríkisstj. og Alusuisse, svo sem eðlilegt hefði verið með áskilnaði um samþykkt Alþingis, sem eitt var eftir í þessu máli, þá hefðu menn ekki þurft undan að kvarta, en þetta var ekki gert. Ég er satt að segja mjög undrandi á því, eins og mörgu öðru í sambandi við þetta, að þannig skyldi haldið á máli sem raun ber vitni.

Um störf iðnn. að öðru leyti vil ég nefna það hér, því að ég sá út af fyrir sig ekki ástæðu til að halda þar öllu til haga í fyrri ræðu minni, vegna þess að vitnað hefur verið til tveggja ráðgjafa og aðila sem starfað hafa fyrir iðnrn. og íslensk stjórnvöld í þessu máli um árabil, að ég óskaði eftir því sérstaklega að fyrir nefndina yrðu kvaddir ef nokkur tök væru á umræddir Don Chilvers, einn af aðalforstjórum Coopers & Lybrand, og Charles Lipton lögfræðingur í New York, en þeirri beiðni minni var hafnað strax á öðrum fundi nefndarinnar um þetta mál og ekki grennslast fyrir um hvort tök væru á að fá þessa aðila hingað til lands til fundar við nefndina til að ræða við þá, vegna þess hvernig þeim hefur verið teflt hér inn í þetta mál á mjög ósmekklegan hátt af núverandi stjórnvöldum, núv. ríkisstj. og hæstv. iðnrh. En við þessu var ekki orðið og það tel ég miður.

Þegar hæstv. ráðh. upplýsir það hér að iðnn. beggja deilda hafi haldið sameiginlega fundi fyrir líklega þremur vikum eða nærfellt það, þá kannast ég við það. Það munu hafa verið tveir sameiginlegir fundir, en vinna fór ekki að öðru leyti fram, að mér var tjáð, í iðnn. Nd. að málinu á þeim tíma sem það var til meðferðar í hv. Ed.

Þetta læt ég nægja varðandi störf hv. iðnn. og formanns hennar sem slíks í því samhengi, en hann vék hér með öðrum hætti að máli.

Hann byrjaði á því að tíunda afstöðu framsóknarmanna, nafngreindra fyrir nál. 1976, í sambandi við athugun á endurskoðun samninganna — eða skildi ég það ekki rétt? Var þetta e.t.v. 10 árum fyrr? (PP: Ég vitnaði í ræðu frá 1976 og nál. frá 1966.) Vitnaði í nál. frá 1966. Ég þakka fyrir upplýsingarnar. Þá er mér það enn ljósara, sem varð niðurstaðan af máli hv. þm., að þeir sem undir það álit skrifuðu mæltu með því að viðkomandi frv. væri fellt. Hv. 2. þm. Norðurl. v. taldi að öll þau rök, sem þarna hefðu verið framreidd í nál., stæðu enn og vildi telja að sjónarmið sín og þau sem túlkuð væru í nál. 1. minni hl. iðnn. endurspegluðu nánast þessi sjónarmið. En hér hefur vissulega orðið á breyting og það er á þeirri ályktun sem hv. þm. Framsfl. draga af athugun sinni og skoðun máls því að viðkomandi þm. mæltu með því að viðkomandi mál yrði fellt á sínum tíma, álsamningarnir 1966, það var þeirra niðurstaða, en hv. 2. þm. Norðurl. v. kemst að þveröfugri niðurstöðu og segir hér, með leyfi forseta, í lok nál.:

„Þrátt fyrir þessar almennu aths. og fyrirvara um einstök atriði, sem tengjast þessu máli, teljum við þá hækkun orkuverðs, sem um er samið, mikilvæga úrbót miðað við þau óviðunandi kjör sem Íslendingar hafa búið við skv. núgildandi orkusamningi og mælum því með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir.“

Ja, einhvern tíma hefði þetta verið kallað að kyssa á vöndinn. Hér er einmitt dregið fram í hnotskurn, í þessu máli og orðum hv. þm. hér áðan, hvaða grundvallarbreyting hefur orðið á afstöðu Framsfl. til þessa máls á þeim bráðum 20 árum sem liðin eru síðan álsamningarnir voru gerðir. Og það er sú breyting, sem afdrifaríkust hefur orðið pólitískt og ég hef rætt hér áður í umr. um þetta frv., að Framsfl. hefur í grundvallaratriðum breytt afstöðu sinni. Þar gilda ekki orð heldur atkvæði og niðurstaða máls. Og það er ekki fyrst nú, með því að stjórnarflokkarnir klofna í iðnn. hv. Nd. um þetta mál, sem sú breyting verður. Það er meira eins konar andlitslyfting sem þar er verið að reyna að koma í kring af hálfu þingflokks Framsfl. og vil ég þó ekkert vera að gera viðkomandi hv. þm., sem undir nál. rita, upp skoðanir. Ég þekki þau sjónarmið, sem oft hefur bryddað á hjá þeim, að vilja horfa aðeins fram fyrir sig í sambandi við stóriðjumál, og ég hef metið þau sjónarmið. Það er hins vegar mjög villandi þegar fram kemur nál. af þessu tagi ef það ekki túlkar í reynd viðhorf a.m.k. meiri hl. þingflokks Framsfl. en er eitthvert einkaálit viðkomandi þm. Þó að þeir hafi auðvitað rétt til að setja sín sjónarmið fram með þessum hætti.

Hv. þm. Páll Pétursson fór að minnast á málsmeðferð í tíð síðustu ríkisstj., sagðist hafa stutt mig í málafylgju framan af, en síðan hefði ég klúðrað málinu, farið inn á óskynsamleg vinnubrögð, haft við óskynsamleg fúkyrði og fleira tíndi hann þar til. Ég verð að rifja upp fyrir hv. þm. að afstaða framsóknarmanna á þessum tíma kom tiltölulega fljótt fram í reynd í meðferð álmálsins, í sambandi við meðferð þess innan ríkisstj. og enn frekar innan álviðræðunefndar. Fulltrúi Framsfl. í álviðræðunefnd, Guðmundur G. Þórarinsson, þáv. alþm., túlkaði þar snemma sjónarmið sem fóru þvert á þær samþykktir sem ríkisstj. hafði gert og unnið var eftir í málinu og gagnvart þeim aðilum sem unnu með honum í álviðræðunefnd og störfuðu fyrir iðnrn. og þáv. ríkisstj. og mig sérstaklega sem iðnrh. Ég ætla ekki hér að fara náið ofan í saumana á því, en ég hlýt að rifja það hér upp öðru sinni við þessa umr. að strax í febrúarmánuði 1982, þegar dr. Müller og dr. Weibel komu hingað 1. febr. til að gera úrslitahríð að álviðræðunefndinni og þeirri samstöðu sem þar hafði tekist að skapa, þá bryddaði á vinnubrögðum hjá fulltrúa Framsfl. í álviðræðunefnd sem ég vildi ekki hafa séð og voru vísbending um það sem síðar gerðist, viku af desember 1982, þegar hann kaus að segja sig, einn fulltrúa, úr nefndinni við aðstæður sem ég rakti hér um daginn og vitnaði þá í umr. til ummæla formanns nefndarinnar sem hann viðhafði í Tímanum 10. des. 1982 um mat hans á því skrefi sem þá var tekið og þeim ástæðum sem viðkomandi fulltrúi Framsfl. bar fyrir sig. En það vill svo til að það voru aðrir og valdameiri menn í Framsfl. en Guðmundur G. Þórarinsson sem einnig létu á sér kræla í þessu máli og þeir sátu við ríkisstjórnarborðið á þessum tíma og sá maður sem þar fór fremstur, sem eðlilegt var, formaður Framsfl., var ekki alltaf til hjálpar í þessu máli. Ég gæti afhent formanni þingflokks Framsfl. hérna handrit frá 25. mars 1982 af bréfi sem dr. Müller kom með til Íslands. Erindi hans átti formlega að vera það að koma til að hitta mig á fundi skv. sérstakri beiðni minni um það. Eftir að Alusuisse hafði aflýst boðuðum og ákveðnum fundi í álviðræðunefnd 3. mars sendi ég dr. Müller áskorun um að koma til viðræðna við mig sem iðnrh. til að leitast við að brúa bilið milli aðila og koma viðræðum af stað milli nefndarmanna á þeirra vegum að nýju. Dr. Müller mun hafa komið til landsins nefndan dag eða degi fyrr og hann notaði þann dag m.a. til að tala við menn hér sem hann vildi hitta. Það gerðist að kvöldi 24. dags marsmánaðar að hann sendi uppkast að tillögum til íslensku ríkisstjórnarinnar, ekki til mín sem iðnrh. heldur til þáv. forsrh. og þáv. sjútvrh., síðla kvölds, degi fyrir þann fund sem við ætluðum að hittast, og hafði þá verið ákveðinn fundur í hópi okkar þriggja ráðh., sem höfðum samráð um þetta mál á vegum ríkisstj., morguninn eftir með dr. Müller. En ég átti ekki að fá að sjá það málsgagn sem þar var um að ræða. Hæstv. þáv. sjútvrh. kom til þess fundar í Stjórnarráðinu þar sem við vorum þrír ráðh. saman komnir og fjórði maðurinn dr. Müller, fulltrúi og forstjóri Alusuisse. Á þeim fundi lagði Müller fram þetta málsgagn sem ég hafði frétt af um morguninn fyrir tilviljun að hefði borist til annarra ráðh. kvöldið áður. Og hæstv. sjútvrh., formaður Framsfl., sá ástæðu til þess á þessum fundi, án hins minnsta samráðs við mig sem fór með þessi mál, að lýsa yfir velþóknun sinni á þessum pappír, sem dr. Müller hafði þarna sent, og honum litist vel á þetta sem grundvöll til viðræðna milli aðila og notaði tíma sinn til þess að pára einhverjar orðalagsbreytingar á þennan pappír. Ég á hann hérna enn þá og formanni þingflokks Framsfl. er velkomið að fá hann. Þar er ekki minnst á orkuverðshækkun til álversins í Straumsvík.

Formanni þingflokks Framsfl. er velkomið að gefa mér úr þessum ræðustól einkunnir, en ekki er rétt að kenna mér um hvaða aðstaða skapaðist í þessu máli í tíð fyrri ríkisstj. þegar mikið lá við og Alusuisse leitaðist við að rjúfa hér samstöðuna, eins og þeim tókst að lokum. Þar var það Framsfl. og fulltrúi hans sem bilaði, stærsti stjórnarflokkurinn á þessum tíma, og brotalamirnar komu býsna fljótt í ljós. Ef menn halda að þetta sé í fyrsta sinn sem ég nefni þetta atriði hér úr þessum ræðustól er svo ekki. Það hef ég gert áður að viðstöddum núv. hæstv. forsrh., ef ég man rétt. Í öllu falli hefur það komið hér til umr. af minni hálfu. Ég held að það sé skynsamlegra fyrir Framsfl. að vera ekki mikið að flíka fortíð sinni í sambandi við þetta mál og ég tel að hv. 2. þm. Norðurl. v. bæti sig ekki mikið á orðræðum af því tagi sem hann viðhafði hér áðan. Það er nefnilega ekki látæði manna sem skiptir máli þegar til úrslita dregur, hv. þm., heldur er það afstaðan og atkv. sem ræður úrslitum við lýðræðislega tekna niðurstöðu og það er um hana sem við spyrjum hér og nú í sambandi við þetta mál. Þar dugar litið að vitna í afstöðu fyrir 18 árum, sem leiddi til allt annarrar og þveröfugrar niðurstöðu, af þeim framsóknarmönnum sem þá áttu í hlut.

Ég vildi þá, af því að hæstv. iðnrh. er hér viðstaddur, víkja nokkrum orðum að hans máli þó að það sé ekki margt efnislega sem ástæða er til að fjölyrða þar um því satt að segja ræddi ráðh. ekki nema mjög fá efnisatriði þessa máls og reyndi lítið sem ekkert til að svara þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á þetta af minni hálfu og annarra sem hér hafa talað gegn málinu við þessa umr. Hv. 2. þm. Reykn. vék hins vegar að því, þegar hann mælti hér fyrir nál., að þessi ágæti samningur hefði að mati þeirra sjálfstæðismanna leitt til 20% lægra orkuverðs á árinu 1984 ef í gildi hefði verið. Þá hefði orkuverðið til almennings, eins og hv. 2. þm. Reykn. orðaði það og vitnaði til gagns frá Landsvirkjun sem ég kannast við, verið um 20% lægra en raun ber vitni. Ég spyr hæstv. ráðh.: Megum við reikna með því nú er þessi samningur verður samþykktur og tekur gildi að raforkuverð Landsvirkjunar til „almennings“, ég segi til almenningsveitna því þangað selur Landsvirkjun sína orku, verði lækkað fyrir lok þessa árs eða t.d. um komandi áramót um sem svarar 20%? Ég býst við að það séu margir sem vilji fá svar við slíkri spurningu.

Ég tel rétt að víkja að þeim þætti bæði hv. 2. þm. Reykn. og hæstv. ráðh. þar sem þeir vitnuðu til þess sem reynt er við þessa umr. að nota sem helsta haldreipi þeirra í sambandi við sakaruppgjöfina gagnvart Alusuisse, en það eru tilvitnanir í bréf frá forstjóra Coopers & Lybrand, Don Chilvers, og Charles Lipton lögfræðingi í New York. Ég hef staðhæft að hér sé ósmekklega að verki staðið og á það ekki síst við um það þegar verið er að draga forstjóra Coopers & Lybrand inn í þetta mál og vitna í bréf sem hann skrifar dr. Jóhannesi Nordal fyrir bráðum einu og hálfu ári. Það vantar ekki að þessum ágætismönnum eru nú gefnar góðar einkunnir og háir titlar þegar til þeirra er vitnað. Öðruvísi mér áður brá varðandi suma af þeim ráðgjöfum sem til voru fengnir í sambandi við málafylgju af hálfu iðnrn. hér á árunum áður. Þá ríkti tortryggni, m.a. innan herbúða stjórnarandstöðunnar á þeim tíma, gagnvart þeim sömu ráðunautum. En ég tel rétt að vitna aðeins til bréfs frá Don Chilvers, sem ég hef hér í ljósriti, frá 28. júlí 1983 til dr. Jóhannesar Nordals, sem þegar hefur verið til vitnað, og ég læt nægja hér upphafið, en það er þannig, með leyfi forseta:

„Ég talaði við yður í síma í vikunni og lofaði að skýra stuttlega frá skoðunum mínum á deilu ríkisstj. og Alusuisse sem verið er að leggja í gerð“.

Þetta er upphafið. Í þessu bréfi er vitnað til símtals við dr. Jóhannes Nordal í sömu viku og hann fær svar dagsett þennan dag. Nú er þetta málgagn dregið hér fram sem einhver allsherjardómur af hálfu þessa aðila varðandi málið eins og það hér liggur fyrir. Þannig er þetta túlkað. Hér er auðsæilega um að ræða bréf sem pantað er af þá nýlega tilkvöddum formanni viðræðunefndar um stóriðju og í upphafi bréfsins kemur skýringin, eins og kom fram í tilvitnun. Hann segir: „Ég talaði við yður í síma í vikunni og lofaði að skýra stuttlega frá skoðunum mínum á deilu ríkisstj. og Alusuisse.“

Með beiðni um þetta bréf er verið að spyrja endurskoðanda um atriði sem liggja utan verksviðs hans. Hann hefur áður nefnt ástæður til að yfirfara reikningsskil og staðreyna yfirverð á aðföngum sem hann hefur gert sem endurskoðandi og hann hafði lýst því yfir að fyrirtæki hans Coopers og Lybrand mundi verja allar sínar niðurstöður fyrir hvaða dómi sem væri og þá yfirlýsingu endurtekur hann í bréfinu til dr. Jóhannesar Nordals, en hann hefur aldrei fyrr verið spurður hvernig ríkisstj. Íslands mætti eða gæti notað þá vitneskju sem felst í niðurstöðum Coopers og Lybrand í samningaumleitunum eða málatilbúnaði gagnvart Alusuisse. Til þess hefur ríkisstj. aðra menn og sérmenntaða á sínu sviði.

Í bréfi sínu til fyrrv. iðnrh., þ.e. til mín, sem dags. var 24. júní 1981, segir þessi sami yfirmaður Coopers og Lybrand að „þegar við erum beðnir um að skoða verðlagninguna á súrálinu óháða öðrum hlutum er niðurstaða okkar sú að ásakanirnar um yfirverð á súráli séu réttlætanlegar.“

Hér er hann að gefa álit á því sem fyrirtæki hans var um beðið í þessu máli, endurskoðun á yfirverði. Það bréf, sem hér hefur oft verið til vitnað í þessari umr. af stjórnarliðum og síðast í dag, sem Jóhannes Nordal pantaði og fékk í júlí 1983, breytir í engu og dregur ekki á neinn hátt úr niðurstöðum þeim sem Don Chilvers hefur komist að sem endurskoðandi og m.a. kemur fram í því bréfi sem ég vitnaði til frá júní 1981.

Þegar hann segir í þessu bréfi í júlí 1983 að sér virðist sem niðurstöður Coopers og Lybrand hafi verið notaðar á þann hátt sem hann hefði ekki búist við, þá er ástæða til þess að minna á að sama fyrirtæki sendi til annarrar samninganefndar, sem vann að endurskoðun samninga við Alusuisse 1975 niðurstöður af ársreikningum ÍSALs fyrir árið 1974 þar sem þeir staðhæfðu að fyrirtækið hefði brotið samninga með yfirverði á aðföngum og öðrum þáttum. Hvað skyldi hafa orðið um þetta erindi? Var því ekki tekið fegins hendi af samninganefnd og þáverandi stjórnvöldum? Til formanns samninganefndarinnar var það sent ef ég man rétt. Þetta bréf, með niðurstöðu um yfirverð sem svaraði meir en hálfri milljón Bandaríkjadala á þeim tíma, kom aldrei fram. Þessu bréfi var stungið undir stól. Um tilvist þessa mats Coopers og Lybrand á ársreikningum ÍSALs 1974 vissu þm. ekkert þegar þeir fjölluðu hér um endurskoðun álsamninganna 1975 til 1976. Það er ástæða til að ræða um pólitískt mat og pólitíska misnotkun í sambandi við málafylgju í tengslum við slíkt athæfi sem þar um ræðir.

Varðandi Charles Lipton vil ég segja að að mínu mati er hann mikilhæfur lögmaður, sem hefur getið sér gott orð fyrir lögfræðistörf fyrir fjölmargar ríkisstjórnir sem hafa átt í útistöðum við fjölþjóðafyrirtæki, og að þessu leyti fara skoðanir okkar núv. hæstv. iðnrh. saman. Sérstaklega hafa sjónarmið hans um þróun réttarhugmynda sem varða rétt fullvalda ríkja til einhliða aðgerða gagnvart fjölþjóðafyrirtækjum vakið verðskuldaða athygli og hér á Íslandi hefur hann haldið fyrirlestur um þau efni fyrir lögfræðinga. Charles Lipton telur að ein höfuðskylda hverrar ríkisstj. sé að varðveita sem best þær náttúruauðlindir sem hver þjóð á og hagnýta sér þær með hagsmuni þjóðar sinnar fyrir augum. Hann hefur lengi sinnt lögfræðilegum ráðgjafarstörfum fyrir ríkisstj., eins og hér hefur komið fram, í sambandi við deilurnar við Alusuisse. Charles Lipton hefur verið þeirrar skoðunar að megináherslu bæri að leggja á að ná sem bestum árangri varðandi endurskoðun raforkuverðs. Þar sem hann hefur talið að Alusuisse stæði mjög höllum fæti fyrir dómnefndinni vegna vantalins hagnaðar vildi hann brýna Alusuisse í því efni í því skyni að fá meira fram í raforkuverðinu þar sem Alusuisse vildi ekki undir neinum kringumstæðum fá áfellisdóm vegna hækkunar í hafi. Þess vegna er eftirfarandi orðalag hans skiljanlegt í bréfi hans til hæstv. iðnrh. 4. okt. 1984 þar sem hann segir, og ég vitna enn í málsgagn, með leyfi forseta:

„Ef ætla má,“ segir Charles Lipton,“ að væntanleg lausn leiði einnig til orkuverðs skv. rafmagnssamningnum milli Landsvirkjunar og Íslenska álfélagsins sem ríkisstj. getur sætt sig við er það því skoðun mín að uppgjöf krafnanna um framleiðslugjöld fyrir árin 1976–1980 á þeim grundvelli að Alusuisse greiði ríkisstj. 3 millj. Bandaríkjadala mundi vera mjög viðunandi lok skattadeilunnar og réttlæting afstöðu ríkisstj. frá upphafi.“

Þessum síðustu orðum, „réttlæting afstöðu ríkisstj. frá upphafi“, sleppti hv. 2. þm. Reykn. áðan í ræðu sinni þegar hann vitnaði til þessa bréfs. En það sem hér skiptir máli er hin skilyrta framsetning í áliti lögmannsins, „ef ætla má að væntanleg lausn leiði einnig til orkuverðs sem ríkisstj. getur sætt sig við“, þá telur hann að slík niðurstaða, slíkt uppgjör krafnanna sé réttlætanleg. Þetta tel ég rétt að fram komi og að Charles Lipton leggur engan dóm á það í orðum sínum hvort raforkuverðið sem fæst, sem hér liggur fyrir og mælt er með af hæstv. ráðh. og hans stuðningsmönnum, sé viðunanlegt eða ekki. Það er því langsótt að ætla að draga álit sem þetta fram og lýsa því sem stuðningi við þá samningsgerð sem hæstv. iðnrh. er hér að bera fram og hælast yfir.

Það voru fleiri atriði í máli hæstv. ráðh. sem ég ætla aðeins að koma hér að. Ég ætla ekki að orðlengja um afstöðu hans eða hans samningamanna til þess að út var tekin túlkun, sem Ísland skipti gífurlega miklu máli, úr aðstoðarsamningi — rekstur. Ég tel að álit ráðh. hafi þegar komið skýrt fram, hversu veikjandi það er fyrir okkar stöðu, og ég get ekki annað en vottað honum samúð vegna þeirrar niðurstöðu sem varð um það efni á síðustu stundu fyrir frágang þessa máls af hans hálfu. Hins vegar fjallaði hæstv. ráðh. hér nokkuð um það hvernig málinu hefði verið haldið til haga í sambandi við fundargerðir og önnur málsgögn og þar kom fram í máli hans broddur sem ég ætla ekki að hlaupa yfir í mínu máli að ég skildi hann alveg.

Ég hafði gagnrýnt það í mínu máli að ekki lægju fyrir skv. upplýsingum ráðh. skilmerkilegar fundargerðir og minnisblöð af hálfu samninganefndar íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu máli og hæstv. ráðh. hafði lýst því að það tæki langan tíma að ganga frá þeim endanlega. Við höfðum rætt það í iðnn. í gær, þar sem hæstv. ráðh. kom til fundar þar sem hann spurði mig um hvernig hefði farið með málsskjölin í sambandi við fundi mína með dr. Müller á sínum tíma. Ég upplýsti hann um að þau hefðu jafnóðum komið inn í álviðræðunefnd, þar sem fulltrúar allra þingflokka fengu gögnin í hendur, og farið á mál í iðnrn. Og sú er ástæðan fyrir því að ég vék að því hér áðan í mínu máli að það væri nokkuð skrýtið ef slík undirstöðugögn kæmu ekki í hendur hæstv. ráðh. og færu á mál í viðkomandi rn. Þetta notar svo hæstv. ráðh. hér í umr. til þess að væna mig um að ég sé að liggja á hurðum í iðnrn. og hafi jafnvel þar útsendara til að ganga úr skugga um hvort einstök málskjöl séu þar flokkuð og sett í þá reglu sem tíðkanleg og æskileg er í Stjórnarráði Íslands. Ég átti satt að segja ekki von á skoti af þessu tagi af hálfu hæstv. iðnrh. til sinna starfsmanna. Og ég verð að undrast það mjög að hann skuli telja sér sæma úr ræðustól á Alþingi að væna sína starfsmenn um það og mig sem fyrrv. ráðh. að vera að hnýsast í gögn Stjórnarráðsins. En ég vil í þessu samhengi upplýsa ráðh. um það til viðbótar að orð mín eru til komin einnig fyrir þá sök að sá háttur var býsna lengi við hafður í sambandi við stóriðjumál og meðferð þeirra af hálfu íslenskra stjórnvalda að gögnin þar að lútandi komu ekki til viðkomandi rn., komu ekki inn í Stjórnarráðið, heldur var safnað upp annars staðar. Ja hvar heldur ráðh.? Í annarri stofnun þar sem er tiltölulega hátt til lofts og vítt til veggja og á þó eftir að víkka enn frekar innan tíðar ef að líkum lætur, þ.e. í Seðlabanka Íslands. Ég þurfti með sérstöku bréfi, þegar ég kom í iðnrn., að óska eftir því að þau málsgögn sem vörðuðu viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, sem eitt sinn starfaði, kæmu á sinn stað og yrði skilað inn í iðnrn. Ég veit að hæstv. ráðh. skilur þýðingu þess að það stjórnvald sem á að halda á málum hafi aðgang að málsgögnum í svo mikilvægum málum sem hér um ræðir og það óháð því hvaða ríkisstj. situr að völdum á hverjum tíma.

Ég ætla þá að víkja að nokkrum atriðum úr máli hv. 2. þm. Reykn. sem mælti hér fyrir nál. fyrr á þessum degi. Það eru vissulega mjög mörg atriði sem væri freistandi að taka þar fyrir, en þar sem liðið er mjög á þennan dag mun ég reyna að fækka þeim og velja þar úr mörgum sem ástæða væri til að taka á. Hv. þm. ræddi sem eðlilegt var raforkuverðið og flaggaði því mjög í máli sínu að góð væri sú niðurstaða sem hér lægi fyrir og óskandi að hún hefði komið fyrr. Árið 1979 var að mati þm. sá tími sem eðlilegt hefði verið að samningur varðandi endurskoðun raforkuverðs lægi fyrir. A.m.k. reiddi hann fram tölur á þeim tekjum sem íslenska ríkið hefði misst af vegna þess að það hefði farist fyrir og ég er ekki að endurflytja þær tölur. Þær voru eitthvað á þriðja milljarð ef ég man rétt í íslenskum krónum á núverandi gengi eða á fjórða milljarð. Í þessu samhengi vil ég aðeins minna á það, og ég bið hv. þm. um að koma hér í ræðustólinn í þessu samhengi ef hann vill reiða hér fram upplýsingar, hvenær sjálfstfl. og talsmenn Sjálfstfl. hafi fyrst tekið undir hugmyndir um að hækka þyrfti orkuverð til álversins í straumsvík á undanförnum árum á tilvitnuðu árabili 1979–1983. Ég bið hv. þm. um að gera það því hann hlýtur að hafa það í fórum sínum hvenær slíkt hafi gerst. Ég get upplýst hann um að ég hef spurt þessarar spurningar oft úr þessum stól. Ég hef spurt m.a. hv. 4. þm. Reykv., sem nú er fjarstaddur, þessarar spurningar fjórum eða fimm sinnum og ekkert svar fengið. Sannleikurinn er sá að á árunum 1979 og 1980 höfðust þm. Sjálfstfl. ekki annað meira að í sambandi við þetta mál hér á hv. Alþingi en að verja álsamningana alveg niður í nánast hvern stafkrók og alveg sérstaklega varðandi raforkuverðið og leiða að því rök frá sinni hálfu hversu réttlátt það væri, hversu ágætur rafmagnssamningurinn væri. Hv. þm. hafði hér yfir hluta af þeirri plötu sem gjarnan fylgdi með á þessum árum, þ.e. um það á hversu mörgum árum raforkusamningurinn við álverið greiddi niður Búrfellsvirkjun og línurnar sem henni tengjast og raforkuvirki af öðru tagi, á 19 árum nefndi þm. hér áðan í sínu máli, og ég þekki þá plötu. Ég vil upplýsa hann um það hér að ég held að það hafi verið komið fram í marsmánuð 1981 þegar ég í fyrsta sinn úr þess stóli heyrði, togaði það upp úr þáv. formanni Sjálfstfl. að það gæti nú verið ástæða til að fá einhverja breytingu á raforkuverðinu til álversins í Straumsvík. Það var það fyrsta. En það er ekki fyrr en sumarið 1982 sem Sjálfstfl. venti um skeið sínu kvæði í kross, eftir að fram kom mjög vandlega unnin athugun starfshóps á vegum iðnrn. sem leiddi í ljós með óyggjandi rökstuðningi hvernig rafmagnsverðið væri komið út fyrir öll viðmiðunarmörk, hvort sem miðað væri við upphaflegan samning eða þróun raforkuverðs til álvera í heiminum.

Síðan koma hér þessir menn, hæstv. iðnrh. og hv. samninganefndarmaður Gunnar G. Schram, og reikna út tölur sem tapast hafi vegna þess að ekki hafi verið samið um tvöföldun eða þreföldun orkuverðs 1979 eða 1980. Ég þarf ekki að eyða frekari orðum að málflutningi sem þessum, hann dæmir sig sjálfur. Og það væri hér hægt að rifja upp marga þætti í frammistöðu Sjálfstfl. á þessum árum til að sýna fram á að þar var nú ekki mikið hald að fá eða stuðning til þess að knýja fram réttláta og eðlilega niðurstöðu í þáverandi viðleitni stjórnvalda til að fá fram breytingu á álsamningunum.

Hv. þm. vék að viðmiðunarverðinu sem íslenska samninganefndin virtist hafa skrifað upp á varðandi álver annars staðar í heiminum og taldi að það væri allt með felldu að taka þar inn í bundna orku sem óbundna. Ég hef andmælt þessu viðhorfi og geri það enn og bendi á að þegar hv. þm. t.d. fer að taka Noreg inn í þetta dæmi er yfirgnæfandi hluti af raforkusölu í Noregi í reynd á milli skyldra aðila, rafveitna í eigu ríkisins og álvera í eigu ríkisins að meira eða minna leyti. Og svo talar þm. um Noreg sem „okkar helsta samkeppnisland“. Þetta eru tilvitnanir sem ég hefði ekki verið hissa á að heyra frá Alusuisse. Samkeppnisland að hvaða leyti? Í áliðnaði? Stöndum við Íslendingar í áliðnaði? Mér er ekki kunnugt um að við eigum neitt í álverinu í Straumsvík svo að ekki erum við að keppa um sölu á áli. Og ekki er Noregur í þeirri stöðu að bjóða raforku framleidda með vatnsafli til útlendinga og keppa með þeim hætti við orkusölu frá Íslandi. Hér er á ferðinni eins konar búktal, eins og ég hef vikið að að heyrist því miður æ ofan í æ frá talsmönnum núv. ríkisstj. í þessu máli, röksemdafærsla og málafylgja sem fullkomlega væri eðlilegt að heyra af vörum talsmanna Alusuisse en ekki íslenskra stjórnvalda.

Hið sama gildir þegar hv. þm. er að rökstyðja raforkuverðið með því að álverið frá 1966 sé gömul álbræðsla sem fái raforkuverð frá gömlu orkuveri. Ég tel að tengingin á raforkusölunni til álversins í Straumsvík við Búrfellsvirkjun sé svo fráleit að það er nánast óskiljanlegt að talsmenn íslenska ríkisins, íslenskra stjórnvalda, skuli hafa hana uppi í tíma og ótíma. Ef viðskiptaleg sjónarmið réðu málflutningi talsmanna Sjálfstfl., eins og ástæða væri til að ætla að kæmi á stundum úr þeirri átt, mundu þeir að sjálfsögðu ekki haga orðum sínum svona.

Þegar um er að ræða raforkusölu á hvaða tíma sem er eiga menn að sjálfsögðu að miða við endurnýjunarverð orkunnar. Þegar um er að ræða rekstur fyrirtækis reyna menn að taka slíkt mat inn í myndina og nákvæmlega sama gildir varðandi raforkuframleiðslu.

Hv. þm. fjallaði um verðtryggingarákvæði í þessum samningi og taldi að þau væru inni að mjög verulegu leyti. Einu virðist hann hafa gleymt, að hámarks- og lágmarksákvæði samningsins eru óverðtryggð með öllu, eins og hér hefur verið minnt á í umr., m.a. af hv. 3. landsk. þm., og þess vegna er það að verðþróunin og verðbólga veldur því að um stórfellda skerðingu verður að ræða fyrr en varir á raunvirði orkunnar.

Það er eðlilegt að hv. talsmenn ríkisstj. í þessu máli, hvort sem það er ráðh. eða hv. samninganefndarmaður, séu ekki mjög gleiðir í sínum málflutningi því að það eru þeir ekki. En þeir leita hér oft og tíðum að smáum atriðum til að draga hugann frá meginatriðum máls og fara oft og tíðum ranglega með. Ég get tekið hér eitt dæmi af þessu tagi þegar hv. þm. Gunnar G. Schram er að deila á mig fyrir að hafa ekki tryggt endurskoðun á ársreikningum ÍSALs fyrir árið 1977 eða á þeim tíma. (GGS: Aldrei nefnt það.) Eða 1978. (GGS: 1979.) Á árinu 1979. Þá var hafin grundvallarathugun á aðstæðum álversins við Straumsvík sem leiddi til þeirrar niðurstöðu sem fram var borin hér á Alþingi síðla á árinu 1980, sem var undirstaðan í þeirri málafylgju sem síðan hefur verið rekin.

Hæstv. ráðh. fór héðan úr ræðustól nánast andvarpandi yfir því að fylgi við þessa samninga væri ekki sem vonir hefðu staðið til. Ég skil það vel að hæstv. ráðh. þyki nokkuð á vanta þar sem talsmenn þriggja þingflokka hér á Alþingi hafa lýst andstöðu sinni við þessa samninga. Það hefur verið unnið að þessu máli með mjög sérstæðum hætti, eins og hér hefur oft verið rakið. Í því sambandi vil ég, áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, nefna samninga sem gerðir voru á þessu ári af landi sem er býsna langt í burtu og þar sem kreppir meira að en á Íslandi, þ.e. suður í Ghana. Þar tókst stjórnvöldum að knýja fram eftir mjög harða samningalotu endurskoðun á samningum við álver sem kallast Valco og er í eigu Kaiser-auðhringsins að meiri hluta til. Þar var um að ræða samninga þar sem gengið var frá öllum þáttum máls og samninga sem að mati aðila, sem fylgdust með þeim, voru sigursamningar fyrir Ghana. Ég vil í þessu sambandi vitna til Metal Bulletin sem skrifar um þetta mál 24. júlí 1984 og orðar það með þessum hætti:

„Með því að vinna þann pakka, sem fyrir liggur, hærra orkuverð, hærri afgjöld“ — eða „tolling fees“ eins og það kallast á ensku, — „hærri tekjuskatta og minni orkuverðsafhendingu og minni skattfrjálsan innflutning hefur samninganefnd Ghana að lokum útilokað allar getsakir um arðránstengsl“ — eða „explotative relationship“ — „milli Ghana og Kaiser. Með því að hækka orkuverðið í 17 mill frá 5 millum hefur Ghana fært Valco inn á miðju álvera í heiminum. Nýlegt mat á heimsorkuverði, unnið af Commodities Research Unit með aðsetri í London, sem hefur endurskoðað athugun sína á raforkukostnaði í áliðnaði, felur í sér meðalverðið 17.2 mill þegar öll framleiðsla, sem nú er í gangi, er tekin með í reikninginn.“

Ég hef hér undir höndum fréttatilkynningu, útgefna af ríkisstjórn Ghana, um niðurstöðu þessara samninga og þann pakka sem frá var gengið milli ríkisstjórnarinnar og Kaiser-samsteypunnar. Þar er ljóst að gífurlega mikill árangur hefur náðst við aðstæður sem nánast að öllu leyti voru langtum erfiðari heldur en við höfum búið við í samskiptum okkar og aðstöðu gagnvart Alusuisse. Og ég vil geta þess hér, vegna þess að talað hefur verið um samninga, meðferð á samningum og samningatækni í þessum umr., að ríkisstjórn Ghana hikaði ekki við að stöðva viðræður um sex mánaða skeið vorið 1983 til að fá á ný viðspyrnu í samningnum við auðhringinn og koma honum í skilning um þá alvöru sem að baki bjó. Ghana-stjórn hafði lengi leitast við að fá leiðréttingu og hún hafði haft samninganefnd í gangi fyrr á árum og m.a. bankastjóra þar framarlega. En ríkisstj. sem tók við 1981 tók þetta mál nýjum og föstum tökum og leiddi það fram til ávinnings sem ætti að vera Íslendingum lýsandi fordæmi um hvernig unnt er með samstöðu og einbeitni að ná árangri við erfiðar aðstæður. Því miður hefur sú ekki orðið reyndin hér. Því miður erum við ekki með heildstæða endurskoðun á samskiptum okkar við Alusuisse, heldur aðeins hluta af heild.

Ég tel margt hafa komið fram við þessa umr. sem máli skiptir og þ. á m. þau sjónarmið sem fram hafa komið í máli hv. 3. þm. Reykn. og hjá hv. 3. landsk. þm. og sitthvað af því sem fram kom í máli hv. 6. þm. Reykv. þótti mér skynsamlega mælt og af sanngirni og ég met það. Ég sagði í fyrri ræðu minni við þessa umr. í dag að það sem máli skipti fyrir smáþjóð eins og Íslendinga til þess að halda á sínum hagsmunum og ná árangri í vandmeðförnum og erfiðum málum í samskiptum við útlendinga væri samstaða. Og ég minni á þá samþykki þingflokks Alþb., sem gerð var í dag, þar sem við skorum á núv. hæstv. ríkisstj. að breyta vinnubrögðum í sambandi við framhaldsmeðferð þessa máls, taka þar inn í stjórnarandstöðuna, veita henni óskoraðan aðgang að meðferð þessa máls. Ég tel að ef sá háttur hefði verið viðhafður frá upphafi, reynt að stilla saman, þá hefðum við ekki staðið frammi fyrir þeirri niðurstöðu sem ríkisstj. ber hér fram við hv. Alþingi.