16.10.1984
Sameinað þing: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

44. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að skjóta hér nokkrum orðum inn í þessa umr. Það sem kemur mér nokkuð á óvart í máli hæstv. ráðh. er það að því aðeins sé von á frv. að þeir sem þarna eiga hagsmuna að gæta leggi til hvernig það frv. á að vera. Ég get upplýst það að við sátum báðar, hv. fyrirspyrjandi og ég, í þeirri nefnd sem fjallaði um þetta mál á síðasta þingi og það er alveg hárrétt, sem kemur fram hjá hæstv. ráðh., að við höfðum við það nokkuð að athuga, t.d það að það er nokkur nýlunda í íslensku menntakerfi ef fólk, sem lokið hefur prófi frá Háskóla Íslands, á síðan að fara í tveggja ára viðbótarnám í stofnun sem í raun og veru heyrir ekki undir Háskóla Íslands. Við þetta gerðum við vissulega athugasemd.

Ég held að það sé hárrétt, sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, að víst þarf að ganga frá frv. um menntun ljósmæðra. En ég held að það frv., sem lagt var fram á síðasta þingi, sé ekki endilega rétt lausn á því.

Hins vegar vil ég leggja á það áherslu að ég tel að það sé ekki endilega hlutverk starfsstétta að búa til frv. um sín eigin mál. Ég hefði haldið að það væri heilbrigðisyfirvalda og yfirvalda menntamála að móta þá stefnu sem þau vilja hafa í menntunarmálum heilbrigðisstétta. Ég vil þess vegna mælast til þess að hæstv. ráðh. kasti þeirri ábyrgð ekki gjörsamlega í þessu tilviki á ljósmæður landsins, heldur reyni að afla sér upplýsinga og aðstoðar við að vinna skynsamlega stefnu í þeim málum er varða menntunarmál ljósmæðra.

Ég minnist þess að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir talaði um það hér á síðasta þingi að í stað þessara sex ára, sem ljósmæðranám tæki, væri hugsanleg leið að skipta hjúkrunarfræðinganámi eftir t.d tveggja ára nám, að greina það sundur síðari tvö árin. Á þessu ætla ég mér ekki að hafa skoðun, ég er ekki nærri nógu kunnug því. En ég held að vel sé gerlegt að finna þarna leiðir til úrbóta. Eftir stendur að ég held að það hljóti að vera skylda hæstv. ráðh. að hafa frumkvæðið um að þessi mál verði leyst því að það er alveg áreiðanlegt að brýnt er að þessum málum verði skipað á einhvern skynsamlegan veg.