29.11.1984
Sameinað þing: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

137. mál, fjárframlög til níunda bekkjar grunnskóla

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Ég get varla annað en blandað mér lítillega í þetta mál þar sem ég hef nokkuð langa reynslu af að veita verksmiðju forstöðu. Auðvitað má deila um rekstrarform. síldarverksmiðjur ríkisins eru langstærsti framleiðandinn hér á landi á lýsi og mjöli. Þær reka slíkar verksmiðjur á Siglufirði, Raufarhöfn, seyðisfirði og Reyðarfirði. Svo eru minni verksmiðjur fyrir sérstaka vinnslu á Skagaströnd og Húsavík.

Ég skal segja það strax í sambandi við þessar verksmiðjur, sem við köllum ekki lengur síldarverksmiðjur, heldur loðnubræðslur, að mitt mat er að stjórn þessa fyrirtækis hafi lagt margt gott af mörkum og að mínu mati staðið sig vel og reynt að fylgjast með breytingum og lagfæringum eins og mögulegt er. Þetta segir ekki allt um að það sé endilega ríkið sem eigi að eiga þessar verksmiðjur. En það er annað alvarlegra sem hefur skeð í þessum rekstri okkar hér á Íslandi. Það er hvað við höfum vanrækt að endurnýja og endurbæta þessar verksmiðjur almennt, hvort heldur eru í ríkis- eða einkaeign. Eini verulegi votturinn um það er blandaði reksturinn í Krossanesi á vegum Akureyrarbæjar og einstaklinga. Ég held ég megi fullyrða að sú verksmiðja sé með besta vinnslukerfið. Ég held að við hlaupum yfirleitt fram hjá þessu. Þetta er ábending til stjórnmálamanna og stjórna lánastofnana. Þarna höfum við vanrækt og þarna erum við að tapa stórfé á hverju ári.

Við seljum mjöl t.d. miðað við eggjahvítueiningar. Sennilega töpum við stórfé á hverju ári vegna þess að þær eru alltaf í lágmarki. Réttar vinnsluaðferðir, nútíma vinnsluaðferðir, eins og nágrannar okkar nota, færðu okkur stórfé. Það eru yfirleitt frá 68 upp í 72% í próteini. Það er fjögurra prósentustiga munur á þessu og verulegur verðmunur. Við þyrftum að geta gert þetta á réttan hátt. Það er verið að reyna að gera. Á því hefur verið byrjað í Krossanesi og víðar í litlum mæli. Það eru ekki eingöngu vélarnar í verksmiðjunum heldur mjölblöndunartæki og annað sem þarf að gera vel úr garði. En í þessu eru fólgnir verulegir fjármunir. Þetta gera nágrannar okkar Norðmenn og Danir svo til árlega, taka allar nýjungar upp og breyta hjá sér með fyrirgreiðslu lánastofnana því að ekki er þetta tekið beint úr rekstri. Þessir aðilar hafa skilað ómældum arði. Svo segjum við hér heima á Íslandi: Hvernig stendur á því að við fáum ekki hærra verð fyrir loðnuna í íslensku verksmiðjurnar? Þeir borga miklu meira bæði í Danmörku og Noregi og alls staðar. — Þetta er verulegur hluti af skýringunni, fyrir utan orkumál og annað sem fylgir því að innlend orka er hér miklu dýrari en danska olíuorkan og gasið. En þetta var framhjáhlaup.

Þetta er risaatvinnuvegur á okkar mælikvarða. Þetta er stóriðja hjá okkur. Nú blasir við eftir nýjustu upplýsingum að loðnubræðslur eigi að vinna úr 600 þús. lestum af loðnu. Það er ekkert smáræði sem fer í gegnum þessar vélar. Og það þarf að gæta þarna fyllstu arðsemi. Ég legg áherslu á að varðandi umbætur í arðsemi erum við of kærulausir. Við tölum alltat um arðsemi, en gerum lítið í því að framkvæma það sem þarf að gera þar.

Þá kem ég að aðalmálinu sem er: Á að selja Síldarverksmiðjur ríkisins eða ekki? Mín skoðun er sú að Síldarverksmiðjur ríkisins séu frumkvöðlar í uppbyggingu síldarbræðslu eins og hún var á sínum tíma. Ríkið hljóp þá undir bagga til að hrinda af stað nýrri atvinnustarfsemi. Þetta var mjög virðingarvert og var nauðsynlegt að gera það á sínum tíma. En ef einstaklingar eða sveitarfélög eða byggðarlög, þar sem þessar verksmiðjur eru staðsettar, vildu fara inn í þennan rekstur og taka hann að sér er alveg óþarfi að vera með „stóru mömmu“, ríkið, með í þeim rekstri eins og nú er komið. Þessi ábyrgð á að flytjast heim í hérað og til þeirra einstaklinga sem þar vilja vera og ekki á neinu gjafverði, heldur sannvirði. Ég held að það hafi jafnvel verið baggi á ýmsum byggðarlögum, ég segi ekki meira en það, að hafa þessi fyrirtæki í sínum höndum. Það hafi verið orðið svo ríkt í þeim að geta sagt: Við höfum þarna ríkisfyrirtæki. Við þurfum ekki meira fyrir þessu að hafa. Þetta veldur ýmsum erfiðleikum, en við leitum bara til ríkisins. Ég er ekki að ámæla fólki á þessum stöðum. Það er alið upp við þetta. Við vitum um vandamál sem hafa skeð á Siglufirði og annars staðar vegna þessa.

Því ekki að leyfa fólkinu sjálfu, hvort það eru sveitarfélögin eða einkaaðilar sem vilja reka þessi fyrirtæki, að byggja þau upp á sem bestan máta? Þá má það njóta arðsins af því. Við eigum ekki að blanda ríkinu of mikið í slíkan rekstur. Ég er ekki tilbúinn, hv. þm. Stefán Benediktsson, að leggja þetta allt niður á einu bretti, þetta þurfum við að athuga, en ég er algerlega tilbúinn að styðja þig í því að leitað verði eftir því að þetta verði gert á þann veg, sem ég hef um rætt, að gefa einstaklingum og sveitarfélögum á þessum stöðum tækifæri til að eignast þessi atvinnufyrirtæki og reka þau upp á sína eigin ábyrgð.