29.11.1984
Sameinað þing: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

137. mál, fjárframlög til níunda bekkjar grunnskóla

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að leggja nokkur orð í belg, vegna þess að síldarverksmiðjan á skagaströnd hefur komið hér til tals. Ég ætla að upplýsa þingheim um að síldarverksmiðjan á Skagaströnd er ákaflega stór verksmiðja, en hún hefur varla starfað í 20 ár. Ef það á að selja þessa verksmiðju fyrir 17 millj. kr. mundi ég óska ríkissjóði til hamingju með að koma þeirri verksmiðju í verð. Þarna hafa verið möluð og brædd bein af og til úr frystihúsinu, en síld hefur ekki sést á Skagaströnd og ekki loðna heldur. Mér er mjög minnistætt þegar vélarnar voru teknar úr þessari verksmiðju og fluttar til Siglufjarðar, það hefur verið á árunum 1963-1965, ég man ekki nákvæmlega árið. Það er því alveg vonlaust að tala um þetta sem fyrirtæki sem sé atvinnuskapandi á þessum stað.

Ég er alveg sannfærð um að ef einstaklingar á Skagaströnd hefðu átt þessa verksmiðju og ættu hana hefðu þeir séð einhver not fyrir húsnæðið a.m.k. og veit að þar hefur verið áhugi á að nýta það.

Í upphafi var síldarverksmiðjunum komið á laggirnar til að styrkja atvinnulífið. En ágóðinn af þessum verksmiðjum, því einhver hlýtur hann að hafa verið á sínum tíma, rann ekki til byggðarlaganna, heldur fór hann eitthvað annað. Það var ekkert eftir nema stórir steinkumbaldar á Skagaströnd og víðar — á Vestfjörðum svo eitthvað sé nefnt — stórir kaldir steinkumbaldar sem standa steindauðir og eru öllum til ama ef ekki verður reynt að koma þeim í hendur einkaaðila sem sjá einhver not fyrir þá.