29.11.1984
Sameinað þing: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

137. mál, fjárframlög til níunda bekkjar grunnskóla

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég tók smávegis þátt í umr. hér um fyrsta frv. af þessum bandormi þeirra Bandalagsmanna um að leggja niður starfsemi ákveðinna stofnana. Mér hefur fundist umr. hjá hv. flm. á þann veg að fyrst og fremst eigi að fara eftir því, sem í tillgr. segir, að leggja niður starfsemi síldarverksmiðja ríkisins, þ.e. að leggja niður þá starfsemi sem þar fer fram. Það er ekki verið að tala um að koma henni í hendurnar á öðrum. Meira að segja fannst mér koma fram í einni ræðu hans að starfsemi ríkisverksmiðjanna frá Húnaflóa og austur um hefði gert það að verkum að atvinnuástand á þessu svæði væri, og þessi starfsemi hefði sett það mark á, einhæfara og verra en í öðrum landshlutum. Í því fannst mér felast að það væri æskilegt að leggja loðnubræðslu niður, þetta væri ekki verkefni sem stæði undir eðlilegri atvinnuþróun í landshlutunum.

Ég vil mótmæla því og hefði talið að til að fylla út í stefnumörkun BJ um að skapa fólki öryggi og jafnvel með breyttu hlutverki ríkisins hefði verið eðlilegra að fara inn á þá braut að leggja til að starfsemi Síldarverksmiðja ríkisins yrði að einhverju leyti breytt. Ég hefði talið mjög við hæfi að nú hefði verið lagt til að starfsmenn þessara fyrirtækja fengju að hafa áhrif á stjórn og rekstur fyrirtækjanna, jafnvel sjómennirnir sem koma með hráefni til verksmiðjanna og jafnvel sveitarstjórnir á viðkomandi stað, en það hefur hvorki falist í ræðu flm. né heldur í till. að neitt slíkt sé æskilegt, heldur það fyrst og fremst að leggja niður starfsemi síldarverksmiðjanna.

Vitaskuld er meiningin sú, þó að það hafi ekki komið beinlínis fram, að þarna verði um eignabreytingu að ræða, þ.e. að færa þessar ríkiseignir yfir til einstaklinga. Það hefur um leið verið gert lítið úr hlutverki þessa fyrirtækis næstum því frá upphafi og nú sé það orðið úrelt rekstrarform. Síldarverksmiðjur ríkisins voru stofnaðar um 1930 og höfðu forustu í því að vinna silfur hafsins, síldina, hér á tímabilinu frá 1930 og fram til 1944 meðan fyrir Norðurlandi var mikið af síld. Það komu ýmsir aðilar að þessum leik. Stórkapítalistar á þá vísu, sem voru umsvifamiklir í rekstri hér sunnanlands, brugðu sér norður á land og byggðu stórar síldarverksmiðjur, steinkumbalda eins og hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir var að nefna hér áðan. Það eru til ansi stórir steinkumbaldar norður á Hjalteyri. Það eru stórir steinkumbaldar norður á Djúpuvík og Ingólfsfirði. Það eru steinkumbaldar á Hesteyri og Sólbakka. Hverjir skyldu hafa átt þessa steinkumbalda? Ekki var það nú blessað ríkið. Nei, það voru þeir sem nú er talað um að sjálfsagt sé að eignist ríkisfyrirtækin sem voru byggð upp á sama tíma og þessir steinkumbaldar voru byggðir.

Og það voru fleiri aðilar sem fóru inn í leikinn á þessu tímabili. Það gerðu líka bæjarstjórnir. Rauði bærinn á Siglufirði fór af stað og þótti ekki sæma annað en að nefna þá verksmiðju fallegu nafni og hún var nefnd Rauðka. Hún er ekki lengur steinkumbaldi, heldur er búið að rífa hana til grunna. Hún er ekki lengur til sem atvinnufyrirtæki fyrir norðan og hún var ekki tilbúin að taka á móti nýrri síldargöngu við Norðurland né heldur loðnugöngu við Norðurland þegar að því kom að þessir gullfiskar komu hér upp að ströndinni. Þetta var nú bjargræði einkaframtaksins og líka, því miður, bæjarfyrirtækis í aðalsíldarbænum. Ef Síldarverksmiðjur ríkisins hefðu ekki verið til staðar og verið byggðar upp á því tímabili sem ég hef áður nefnt hefði svo getað farið að þegar síldin kom og fór að veiðast aftur á 6. áratugnum hefði engin verksmiðja verið ganghæf. Það var engin af einkaverksmiðjunum. Það var búið að loka á Ingólfsfirði, Djúpuvík, Hjalteyri og Dagverðareyri sem ég gleymdi að nefna áðan. Og það var enginn til þess að nýta þessa afurð okkar. Sama hefði sjálfsagt skeð þegar næsta aflaleysistímabilið gekk yfir. Reyndar hefði ekkert verið hægt að gera þá. Við hefðum látið þetta silfur hafsins ganga fram hjá.

Ég lít svo á að Síldarverksmiðjur ríkisins hafi að stórum hluta staðið undir þeirri lífskjarabyltingu sem átti sér stað á tímabilinu frá 1930 og fram yfir 1945, staðið undir stórum hluta af tekjuöflun og nýtingu sjávarafurða. Og þær hafa haldið þessu hlutverki sínu áfram á undanförnum árum og verið að mörgu leyti í fararbroddi þó að hægt sé að segja að sú forusta hafi slappast nokkuð á undanförnum árum. En því miður er alveg það sama að gerast á hinum vettvanginum, þ.e. í einkageiranum. Endurnýjun á verksmiðjum einkaframtaksins, sem eru nokkrar, þó ekki jafnstórar og ríkisverksmiðjurnar, hefur verið allt of hæg. Mér finnst engin ástæða til að kenna þar um forustumönnum hjá Síldarverksmiðjum ríkisins né heldur forustumönnum eins og hv. þm. Valdimar Indriðasyni, sem stjórnar einni verksmiðjunni, heldur hefur á undanförnum árum verið kreppt það að íslenskum sjávarútvegi að hann hefur ekki frekar á þessu sviði en öðrum getað byggt sig upp. Það á kannske að vera lausnin, þegar þannig er búið að leika ákveðinn þátt sjávarútvegsins, eins og síldarverksmiðjurnar, að afhenda ríkisverksmiðjurnar einkaframtakinu þegar stjórnendur landsins hafa leikið þannig rekstrargrundvöll fyrir þessi fyrirtæki að þau hafa ekki getað byggt sig upp. Ég mótmæli slíkri stefnu.

Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt, eins og hv. þm. Valdimar Indriðason nefndi hér áðan, að gert verði átak í því að endurbyggja verksmiðjurnar, jafnt ríkisverksmiðjurnar sem einkaverksmiðjur, en það væri sjálfsagt og eðlilegt að þar hefði ríkið forustu, ekki með því að reyna að skattleggja sjávarútveginn frekar en gert hefur verið, heldur með því að almenningur í landinu endurgreiddi nú þessum góðu fyrirtækjum, sem hafa á undanförnum árum að miklu leyti staðið undir þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað í landinu, til þess að þau gætu orðið samkeppnisfær og til þess að þau gætu framleitt þá vöru sem er verðmætust og hægt er að skila frá þessum verksmiðjum. En það sem hefur skeð, eins og ég sagði áðan, á undanförnum árum og hefur gert það að verkum að þessar verksmiðjur hafa ekki getað endurnýjað sig er að þeim hefur ekki verið búinn rekstrargrundvöllur. Þær hafa verið skattlagðar á ýmsan máta til almenningsnota, og þó fyrst og fremst til ýmissa þjónustustofnana sem eru fyrir hendi í þjóðfélaginu, og þær hafa ekki getað sinnt því hlutverki sem þær eiga að hafa og þeim ber að sinna.

Ég vil sem sagt ítreka að ég teldi það eðlilegri og sjálfsagðari vettvang okkar alþm. nú að ræða um það hvernig fara skuli að því að endurbyggja þessar verksmiðjur og ná fullkomnari vinnslu og betri afurðum frá þeim en að ræða um hvernig við skulum breyta eignarformi á þessum góðu fyrirtækjum samfélagsins sem hafa byggt upp okkar þjóðfélag og styrkt uppbyggingu okkar á undanförnum árum.