29.11.1984
Sameinað þing: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

137. mál, fjárframlög til níunda bekkjar grunnskóla

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég fagna þeirri yfirlýsingu að útsöluhugmyndin sem fæddist í herbúðum þeirra sjálfstæðismanna á ekki innangengt í herbúðum þeirra Bandalagsmanna. Það er vissulega gott að svo er ekki, þótt ýmislegt hafi bent til þess, en ég er kannske ekki alveg nægilega sannfærður þó eftir þessa yfirlýsingu.

Ég vil leiðrétta það að starfsemi Síldarverksmiðja ríkisins á Seyðisfirði og Reyðarfirði hafi haft afgerandi áhrif um einhæfni atvinnulífs þar. Þó þær hafi vissulega verið nokkur þáttur öðru hverju í atvinnulífi þessara staða, þá eru það auðvitað allt aðrir hlutir þar sem hafa verið afgerandi núna á hinum síðustu árum varðandi atvinnu, en góðir viðbótarþættir eru þetta engu að síður sem ég dreg ekkert úr. En það er annað þar eins og annars staðar sem hefur stuðlað að einhæfninni og ómögulegt að kenna það við starfsemi þessara aðila. Þessi einhæfni er nákvæmlega sú sama og ekki minni á hinum stöðunum þar sem einkaaðilarnir eru með þessar bræðslur, síður en svo að þar sé meiri einhæfni.

Út af því sem fram hefur komið hér varðandi ítök heimamanna vil ég taka undir þá ósk sem kom frá mínum sveitungum um að heimaaðilar hefðu meiri ítök í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. Þeir hefðu þar sinn fulltrúa og gætu þar einhverju ráðið. Það þykir mér eðlilegt og jafnvel að fyrir hverja verksmiðju væri ákveðin undirstjórn sem væri þar málum kunnug og tæki betur á.

Mér datt í hug í sambandi við allt tal um ríkisforsjá og þátttöku ríkisins í hinu og þessu að núna er mjög um það rætt að skapa verði ný atvinnutækifæri. Ríkisstj. er með það alveg sérstaklega á sinni könnu að skapa fleiri atvinnutækifæri á nýjum sviðum. Til þess er ákveðið framlag á fjárlagafrv. Mig minnir 50 millj. væru á fjárlagafrv. til að stuðla að þessari nýsköpun. Ég tek heils hugar undir það þegar fulltrúar BJ kvarta yfir því hvað ríkið geri lítið þarna og leggi of litla upphæð fram. Ég heyrði það í umr. um fjárlögin hjá fulltrúa BJ að þetta þótti lítil upphæð og það var greinilegt að BJ vildi eindregið stuðla að því að framlag ríkisins til nýrra atvinnutækifæra til nýsköpunar atvinnulífsins væri margfalt miðað við það sem er í fjárlagafrv. nú. Ég tek alveg undir þetta, en mér finnst að krafan um að ríkið leggi þarna meira til sé ekki í sem bestu samræmi við niðurlagningarstefnu hv. 8. þm. Reykv.