29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Kristófer Már Kristinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Rányrkja og auðlindaþurrð hefur löngum leyst okkur Íslendinga undan þeirri ábyrgð að marka stefnu í stóriðju til frambúðar. En árið 1966, þegar gengið var frá samningum við svissneska álfélagið, átti að móta stefnuna í stóriðjumálum til frambúðar. Það var ekki gert. Sá samningur, sem gerður var, er ekki stefnumarkandi á neinn hátt. Þar sem best dugði lýsti samningurinn viðhorfum þeirra manna sem hann gerðu fyrir okkar hönd.

Í þessum samningi hefði átt að birtast stóriðjupólitík komandi áratuga. Þess í stað ber samningurinn þess helst vitni að það þarf meira til en reynslu í gerð húsaleigusamninga til að hætta sér í klærnar á og ná skynsamlegum samningum við einhvern forhertasta auðhring í veröldinni. Það er að vísu alveg ljóst að samningagerð, ferðalög og hanastélsveislur í öðrum löndum getur verið umtalsverður atvinnuvegur hérlendis. Það hefur reynsla undanfarinna ára sýnt og út af fyrir sig er fátt í þeim samningi sem hér er verið að staðfesta sem bendir til að á þessu verði lát eða nokkur breyting.

Með réttu eða röngu börðu Íslendingar út landhelgina og náðu yfirráðum yfir veigamestu auðlind sinni. Það er freistandi að velta því fyrir sér hver hefði orðið árangur Íslendinga ef þeir hefðu borið gæfu til að standa saman í deilunni við álhringinn á sama hátt og í fiskveiðideilunni. Um það er að sjálfsögðu erfitt að segja, en ljóst er að ábyrgð manna sem tóku þá ákvörðun að sundra þjóðinni, kljúfa hana, er mikil. Af fullkominni óskammfeilni ákváðu þeir að notfæra sér samningsneyð íslensku þjóðarinnar í flokkspólitískum tilgangi. Ábyrgð stærsta stjórnmálaflokks landsins er mikil. Hann ber höfuðsökina á því að samningamálin við álhringinn hafa farið í meira klúður en samningurinn frá 1966 gaf tilefni til. Morgunblaðið þyrlaði upp pólitísku moldviðri og lét sér í léttu rúmi liggja hvoru megin hryggjar þjóðarhagsmunir lágu.

Það verður ekki heldur séð að þessi ákvörðun Morgunblaðsins hafi hryggt Alþb.-mennina mjög, enda alveg ljóst að afturhaldsstefnu þeirra í atvinnumálum yrði ekki best borgið í þjóðarsamstöðukór með íhaldinu. Þessir tveir stjórnmálaflokkar eru sekir um að hafa sett flokkspólitíska hagsmuni ofar þjóðarhagsmunum í þessu mikilvæga máli. Þess vegna er ekki rétt, sem fram kemur í aths. við frv., að hér liggi fyrir árangur af starfi sem unnið hefur verið á vegum ríkisstj. frá miðju sumri 1983. Nei, hér liggur fyrir árangur áraraða pólitísks loddaraleiks og sýndarmennsku í eiginhagsmunaskyni. Sjálfstfl. með Morgunblaðið að leiktjöldum hlýtur sakir stærðar sinnar og útbreiðslu málgagns síns að bera hér mesta og stærsta ábyrgð.

Það er mín skoðun að þessum aðilum hafi með málflutningi sínum og áróðri tekist að spilla samningsstöðu Íslendinga, a.m.k. við svissneska álhringinn, jafnvel til frambúðar. Það er ömurlegast og verst að ekki verður séð að tilgangurinn hafi verið annar en sá að klekkja á hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, þáv. iðnrh. Það er spurning hvort Morgunblaðið ætti ekki að fá a.m.k. helminginn af þeim reikningum sem ungir sjálfstæðismenn bera í hús þessa dagana og ætlaðir eru hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, enda er augljóst að sú aulafyndni er sennilegast upprunnin þar við Aðalstrætið.

Herra forseti. Hvaða erindi eiga Íslendingar framtíðarinnar við stóriðju? Birtist t.d. í þessum samningi einhver stóriðjupólitík? Er í samningnum boðuð einhver stefna í skattamálum eða orkusölu? Hvað ætla íslenskir stjórnmálamenn með stóriðju? Á þjóðin að græða á henni? Það verður varla séð að þeir menn, sem hugsa sér að byggja stóriðjuver um landið, nánast á sömu forsendum og heilsugæslustöðvar og skóla, hyggist græða þjóðinni stórfé. Það sem fyrir þeim vakir er að treysta byggð í landinu og þar er stóriðjunni ætlað að ganga til liðs við landbúnað og sjávarútveg. Þetta er göfugt markmið, en ekki endilega mjög hagkvæmt.

BJ fullyrðir að sú framtíð sem byggir á stóriðju sé framtíð gærdagsins. Sjálfstfl. og Alþb. hafa látið svo að hér sé tekist á um atvinnustefnu, stóriðju eða ekki stóriðju. Í raun er Alþb. ekki á móti stóriðju, m.a. vegna marxísks uppruna síns. Í þeirra augum er íslensk stóriðja góð, en erlend stóriðja vond. Það er að þeirra mati allt í lagi að greiða niður rafmagn til stóriðju á kostnað almennings ef það er svokölluð íslensk stóriðja — eða hvenær heyrist Alþb. hafa áhyggjur vegna taps Landsvirkjunar af orkusölu til járnblendiverksmiðjunnar?

Herra forseti. Sá samningur sem hér liggur fyrir er afrakstur margra ára þvargs og rugls á milli pólitískra vindmylluriddara annars vegar og erlends auðhrings hins vegar sem þekktur er að öðru en örlæti og náungakærleika, jafnframt því sem hinn erlendi auðhringur hafði sennilega engan áhuga á að semja um eitt eða neitt ótilneyddur. Þjóðin hefur allt of lengi ráfað um í því pólitíska moldviðri sem hentaði Sjálfstfl. og Alþb. að þyrla upp. Alþb. hélt því fram í síðustu kosningum að í rauninni væri verið að kjósa um eitthvað sem þeir kölluðu álmál og kölluðu að kosningarnar snérust um. Þeim gleymdist eins og öðrum hv. þm. að tilefni kosninganna var ekki áldeilan eða frammistaða hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar í iðnrn., heldur breyting á stjórnarskránni sem hv. þm. höfðu talið svo brýnt að samþykkja. Þessi stjórnarskrárbreyting fór af einhverjum ástæðum alveg fram hjá frambjóðendum Alþb. Þeir voru að kjósa um álið.

Um samninganefndina er rétt að taka fram eftirfarandi: Það er ljóst að enginn sem raunverulega teldi árangur skipta miklu notaði ítrekað sömu samninganefnd, þ.e. þá sem einu sinni hefur reynst illa hvað þá oftar. Það er ámælisvert að ekki skyldi vera skipt alveg um í samninganefndinni þegar hún hafði sannað að hún hafði takmarkaða getu til samningagerðarinnar. Það hefði verið skynsamlegt að reyna nýja menn og hafa þá gömlu til ráðuneytis, m.a. vegna reynslu þeirra í samskiptum við hinn samningsaðilann.

Herra forseti. Þm. er stillt upp við vegg. Annaðhvort er að samþykkja þennan samning, eins og hann liggur fyrir fimmgildur, eða ekki. Þ.e.: hann felur í sér skattabreytingar sem virðast að umtalsverðum hluta opið dæmi, einhver óljós fyrirheit um stækkun án þess að ljóst sé hvernig eða hvenær, syndakvittun að miðaldasið, fyrir sanngjarna upphæð að sjálfsögðu, endurskoðunarákvæði sem bæði er hált og loðið og að lokum raforkuverðshækkun. Þetta er eins og að eta súran möndlugraut. Menn leggja á sig átið einungis í þeirri von að fá möndluna.

Þessi samningur er á ýmsan hátt þannig að maður hissar sig ekkert á þeirri leynd sem yfir gerð hans hefur hvílt. Það er þó bjargföst skoðun mín að betur hefði ekki verið hægt að gera við þessar aðstæður og ég hafna þeirri kenningu Alþb. að það muni einhverju breyta að fella þennan samning. Það er alveg ljóst að það breytir engu. Samningsstaða okkar styrkist ekki við það. Í rauninni væri endurnýjuð vígstaða Alþb. í áróðursstríði þeirra við Sjálfstfl. og Morgunblaðið það eina sem áynnist. Ég lít ekki á það sem hlutverk mitt hér í þingsölum að ganga erinda Alþb. eða Sjálfstfl., hvorki í þessu máli né öðrum.

Deilur sýna að ágreining ættu þessir flokkar að geta sviðsett á kostnaðarminni hátt fyrir þjóðina en þeir hafa gert í þessu máli og ekki óvitlaust fyrir kjósendur þessara flokka að minnast þess í sérhvert sinn sem þeir greiða rafmagnsreikninginn sinn og þeirra.

Með því að samþykkja þennan samning viljum við leggja áherslu á nauðsyn þess að þjóðarsamstaða náist í viðskiptum okkar og um viðskipti okkar við aðrar þjóðir og erlend fyrirtæki. Við teljum að búið sé að spilla samningsstöðu Íslendinga svo í þessu máli að vonlaust sé að ná sanngjarnri niðurstöðu með samningum í náinni framtíð. Við teljum að Íslendingar eigi að nota þetta tækifæri, sem nú gefst, til að sameina krafta sína og búa sig undir framtíðarsamninga í samstöðu og eindrægni ofar auvirðilegum sérhagsmunum og flokkspólitík.

Leggja verður áherslu á að samningar um orkuverð séu aðskildir og á vegum Landsvirkjunar. Það er óeðlilegt að verið sé að nota raforkuverð sem skiptimynt í samningum um skattamál fyrirtækja vegna þess m.a. að með þeim hætti er verið að færa til fjármagn á heldur óviðfelldinn hátt.

Setja þarf samræmda löggjöf um skattamál fyrirtækja af þessu tagi.

Tryggt verður að vera að ekki verði ráðist í stækkun álversins án þess að það komi áður til meðferðar Alþingis.

Löngu tímabært er að losa starfsmenn iðnrn. og Landsvirkjunar úr því vafstri sem málarekstri þessum hefur fylgt þannig að þeir geti farið að snúa sér að öðrum og nytsamlegri verkefnum.

Þegar litið er yfir sögu þessa máls, málsatvik, viðbrögð hér heima og heiman, sækir að manni sorg eða tregi. Sorg eða tregi vegna þeirra glötuðu tækifæra sem íslensk framtíð hefur átt öll þessi ár og fórnað hefur verið á altari hégómlegra flokkshagsmuna.

Herra forseti. Hugsanlega eru sögulegar sættir í nánd. Þannig birtast þeir hv. þm. Steingrímur Sigfússon og hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson nær daglega á síðum dagblaðanna og bera lof á tiltekna skógerð vegna léttleika og mýktar. Ég vænti þess að þeir skósveinar sem og aðrir aftaníossar þeirra eigi í framtíðinni eftir að ganga léttar en nokkru sinni á yfirsjónum sínum í svokölluðum álmálum.

Herra forseti. ÍSAL er í Straumsvík og fer þaðan ekki um sinn. Samningur við Alusuisse liggur á borðinu. Hann hefði getað verið betri, en honum verður ekki breytt úr þessu nema hafna honum og taka á sig það tap sem af því hlytist þar til ný drög lægju fyrir. Eftir er að semja um skattamál, stækkun og að endurskoða raforkuverð að fimm árum liðnum. Það er hægt að gagnrýna án þess að sundra.

Herra forseti. Háttvirtir þingmenn. Góðir landsmenn. Samþykkt þessa samnings er í okkar augum viðurkenning á staðreyndum.