29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 1. minni hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Undanfarin ár hefur samskiptum Íslendinga og Alusuisse verið þann veg háttað að alls óviðunandi hefur verið fyrir Íslendinga. Þetta á rót sína að rekja til samningsins sem gerður var við Alusuisse 1966. Hann var meingallaður í mörgum greinum, eins og framsóknarmenn bentu þá á og gagnrýndu harðlega. Deilumál var ákveðið að lytu erlendri lögsögu, endurskoðunarákvæði rafmagnssamnings voru mjög ófullkomin, skattamálum illa fyrir komið og mengunarvörnum ábótavant. Reynslan hefur sannað að öll sú gagnrýni, sem framsóknarmenn settu fram 1966, átti fyllsta rétt á sér.

Árið 1975 var reynt að lagfæra samninginn frá 1966. Sú lagtæring var alls ófullnægjandi og mjög mislukkuð, eins og ég benti á þegar sá samningur var til meðferðar hér á Alþingi. Okkur hefur reynst torsótt að fá fram úrskurð í deilumálum okkar við Alusuisse, enda þótt við höfum getað stutt okkar málstað gildum rökum. Að vísu vorum við fullseinir að reisa þessa kröfu til að eiga von á fyllsta árangri og okkur hafa orðið á nokkur mistök í meðferð málsins. Sú lausn sem fæst með þessum samningi á þessum deilumálum er að mínu mati viðunandi og rétt að veita viðtöku því sáttafé sem við getum snúið út úr Alusuisse. Það er óskynsamlegt að standa í viðvarandi illdeilum bara til þess að svala sér, eins og þeir Alþb.-menn vilja. Álverksmiðjan er hér í landinu og við verðum að búa við hana áfram. sáttagreiðslan er ekki lægri en sú upphæð sem við gátum vænst með dómi og auðvitað felst í því sektarviðurkenning af hendi Alusuisse, að fyrirtækið skuli reiðubúið að reiða þessar 3 millj. dollara af hendi.

Við höfum lengst af samningstímanum búið við fráleitt raforkuverð frá ÍSAL og það hefur orðið til þess að innlendir notendur raforku hafa orðið að kaupa hana miklu dýrara verði en ella, þ.e. orðið að greiða niður orkuna til ÍSALs, borga með henni. Skv. gildandi samningi þarf ÍSAL einungis að greiða þriðjunginn af því verði sem það kostar að framleiða orkuna. Við svo búið má ekki standa. Þjóðin hefur engin efni á því að borga þvílíkar fjárhæðir með þeirri raforku sem ÍSAL kaupir af okkur. Nú stendur til boða að hækka þetta orkuverð verulega, þ.e. úr þeim 6.5 millidal sem gildandi samningur hljóðar upp á. Bráðabirgðasamkomulag um þriggja millidala hækkun, sem í gildi hefur verið um skeið, er engin varanleg skuldbinding fyrir ÍSAL. Þá hækkar verðið úr samningsbundnum 6.5 upp í a.m.k. 12.5 millidal. Ég þori ekki að treysta á það að hækkunarákvæði fram yfir 12.5 allt upp í 18 eða 18.5 færi okkur verulega fjármuni á næstunni og spár geta brugðist. En gólfið í samningunum, 12.5 mill að lágmarki, ætti að halda þannig að hlutur okkar batnar um helming frá gildandi samkomulagi. Þess vegna er einboðið að samþykkja þennan samning fremur en að krefja þjóðina um það að borga áfram þessar svimandi fjárhæðir með raforkunni. Auðvitað greiðir álverið, þrátt fyrir þessa helmingshækkun á raforkuverðinu ekki framleiðslukostnaðarverð, en þetta er veruleg úrbót.

Ég vil í þessu sambandi undirstrika það, sem sagði í nál. okkar Ingvars Gíslasonar og hann endaði á ræðu sína, að við höfum alla fyrirvara á um samþykkt á stækkun álversins. Það eru óreinar rangfærslur að með samþykkt þessa lagafrv. hér í kvöld sé verið að kveða á um frekari stækkun álversins. Í fskj. með þessu frv. er að finna bréf, undirritað af sverri Hermannssyni iðnrh., um það að ríkisstj. muni afhenda Alusuisse bréf þar sem tilgreind verði kjör og skilmálar varðandi hugsanlega stækkun álversins í straumsvík. Alusuisse mun svara bréfinu skjótlega, eins og þar segir, og segja til um hvort það telji kjör þessi og skilmála viðskiptalega raunhæfa. Eins og allir sjá hefur svona bréfagerð auðvitað ekkert lagagildi. Ég efa það stórlega að Alusuisse telji það orkuverð, sem við verðum að setja upp, og þá skilmála, sem við hljótum að setja, viðskiptalega raunhæfa eins og þetta er orðað í bréfinu. Það orkuverð sem við verðum að setja upp verður a.m.k. að vera framleiðslukostnaðarverð úr nýjum virkjunum og með viðunandi hækkunarákvæðum, þannig að tryggt sé að aldrei þurfi að borga með orkunni til hugsanlegrar stækkunar.

Ísland er auðugt af orkulindum. Þessar orkulindir eigum við að nýta þjóðinni til hagsældar, en nýta þær með aðgát, þannig að við orkuöflunina sé kappkostað að vinna sem minnst tjón á náttúrufari landsins. Við höfum vanist því að líta á vatnsorku og jarðvarma sem innlenda orku. Þó ber að hafa í huga að það er dýrt að beisla þessa orku og það verður ekki gert nema fyrir erlent lánsfé að mestu leyti. Greiðslubyrði af erlendum lánum orkumannvirkja er skuldugri þjóð þungur baggi. Þess vegna getum við ekki leyft okkur glannaskap, hvorki við orkuöflun né þá að ráðstafa orkunni með óhagkvæmum hætti.

Það er mikill siður, þegar verið er að skilgreina efnahagsvanda Íslendinga, að kenna hann offjárfestingu í hinum hefðbundnu atvinnugreinum, sérstaklega í sjávarútvegi. Og éta menn þetta hver eftir öðrum hugsunarlaust. Þetta er mikill misskilningur. Skv. upplýsingum Seðlabankans voru erlendar langtímaskuldir sjávarútvegsins um síðustu áramót einungis 16.1% af langtímaskuldum þjóðarinnar. Skuldir vegna orkumála voru hins vegar rúmlega þrefaldar sjávarútvegsskuldirnar eða meira en helmingur allra langtímaskulda Íslendinga, þ.e. 50.2%. Þetta var nú um síðustu áramót og síðan hefur enn sigið á ógæfuhlið. Efnahagsvandi þjóðarinnar og erlend skuldasöfnun stafa ekki fyrst og fremst af offjárfestingu í sjávarútvegi, landbúnaði eða hefðbundnum iðnaði. Efnahagsvandinn stafar miklu frekar af offjárfestingu í orkumálum. Við höfum virkjað fyrir of dýrt lánsfé og ekki getað ráðstafað orkunni með þeim hætti að hún stæði undir þeim kostnaði sem því fylgdi að beisla hana. Við höfum ekki gætt þess að virkjanahraðinn, orkuöflunarhraðinn, héldist í hendur við sölumöguleika orkunnar. Það þýðir ekki að virkja fallvötn nema tryggt sé að einhver vilji nota orkuna og gjalda fyrir það verð sem það kostar að framleiða hana. Vinstri höndin verður að vita hvað sú hægri gerir. Annars verða orkulindirnar, sem ef rétt er á haldið eiga að geta verið ein meginundirstaða velferðarríkis á Íslandi, þjóðinni að hefndargjöf og byrði. Ég vara alvarlega við því að við leyfum okkur lengur gáleysi í þessum efnum. Efnahagur þjóðarinnar þolir það ekki og þá þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til greina að stækka álverið nema kostnaðarverð sé greitt fyrir þá raforku sem til stækkunarinnar fer og öðrum skilyrðum sé einnig fullnægt.

Afstaða Alþb.-manna nú að leggjast gegn þessum samningi er einstaklega mislukkuð. Alþb. hafði tækifæri til þess að endurbæta Alusuissesamninginn. Hjörleifur Guttormsson hafði tækifæri í ráðherratíð sinni til að breyta samningi sem við erum sammála um að sé slæmur. Hann nýtti ekki það tækifæri sem honum bauðst. Hjörleifur var iðnrh. næstum óslitið frá 1978–1983. Hann tók málið upp, að vísu of seint, en því miður freistaðist hann til þess að fara offari í deilumálum og lagði Alusuisse vopn í hendur og klúðraði þannig súrálsdeilunni. Hann náði auðvitað engum samningum um hækkað orkuverð. Því miður er það ekki hans fag að ná samningum fremur heldur en að sigra í deilum.

Nú leggur Alþb. það til að við búum áfram við gamla afleita samninginn og vill að við höldum áfram að greiða niður rafmagnið handa Alusuisse. Ég held að það sé kominn tími til að draga úr þeim útgjöldum. Svo eru Alþb.-menn að reyna að skapa sér einhvern geislabaug vegna framgöngu sinnar í orkumálum. Hjörleifur Guttormsson vildi ólmur virkja og virkja í ráðherratíð sinni og sökkva landi að nauðsynjalausu og framleiða rafmagn sem ekkert var við að gera nema setja það á stóriðjuútsöluna.

Herra forseti. Hefði ég einn fengið að ráða hefði ég haft þennan samning öðruvísi en hann er. Hins vegar er á það að líta að þetta er niðurstaða af löngu og ströngu samningaþófi. Í samningum er veruleg raforkuverðshækkun og hana verðum við að fá. Þeirri hækkun náum við ekki fram nema samþykkja samninginn og þess vegna legg ég til að það sé gert.