29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 2. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hann var gleiður iðnrh. sem talaði hér áðan. Það er ekkert nýtt. Í fyrra taldi hann sig hafa unnið ótrúlegt afrek með gerð bráðabirgðasamnings við Alusuisse. Nú hefur hann að eigin mati náð ótrúlegum árangri. Allt er þetta ótrúlegt. Sagan á eftir að dæma um þá einkunn sem ráðh. velur að gefa sjálfum sér.

Sverrir Hermannsson telur sig líka hafa efni á því að senda mér bakreikninga, rétt eins og ungliðasamtökin í Sjálfstfl. 55 millj. Bandaríkjadala er upphæðin sem nefnd er, eða viðlíka upphæð og Alusuisse hefur svikið undan skatti á Íslandi á undanförnum árum. Almenningur í landinu veit betur en þessar tölur sem hér er verið að tala um. Hver minnist þess að hafa heyrt þm. Sjálfstfl. hér á Alþingi mæla með eða setja fram kröfu um endurskoðun álsamninganna? Ekki ein einasta rödd kom fram úr þeirra munni þar að lútandi fyrir árslok 1980. Það var loksins á útmánuðum 1981 að ég gat togað það upp úr fyrrv. formanni Sjálfstfl., Geir Hallgrímssyni, að kannske gæti verið þörf á að ná fram einhverri leiðréttingu á raforkuverði til álversins. Og það var ekki fyrr en iðnrn. lagði fram heildarúttekt á raforkuverði til álvera í heiminum sumarið 1982 og sýndi fram á að raforkuverðið sem ÍSAL greiddi Landsvirkjun ætti hvergi sinni líka í viðskiptum óháðra aðila að sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu á þeim tíma fengu málið og Morgunblaðið sneri við blaðinu. Þá loksins áttaði íhaldið sig á því að ekki væri stætt á að vera opinberlega í vörninni við hlið Alusuisse varðandi raforkuverðið til álversins. Upp frá því var viðkvæði Morgunblaðsins að ég stæði í vegi fyrir að samið væri við auðhringinn um þreföldun raforkuverðsins.

Að mati Morgunblaðsins í marsmánuði 1983 var brýnasta verkefnið í álmálinu þjóðarsamstaða — ekki gegn Alusuisse, heldur þeim sem hér talar, og Framsfl. tók þá undir.

Sverrir Hermannsson iðnrh. hefur greint svo frá við umr. um þetta mál fyrir skömmu að sér hafi verið lífsins ómögulegt að setja stjórnarandstöðuna inn í mál þetta vegna stærsta stjórnarandstöðuaðilans, Alþb. Það skyldi nú ekki vera að gagnaðilinn í samningaviðræðunum hafi sett ráðh. stólinn fyrir dyrnar og neytt hann inn á þessa óskynsamlegu braut pukurs og leyndar í stórmáli fyrir þjóðarheildina?

Svo langt hefur þetta gengið, eftir því sem iðnrh. upplýsti hér á Alþingi í gærkvöldi, að hann hefur ekki talið sér fært að geyma nein gögn varðandi samningaviðræðurnar við Alusuisse í Stjórnarráði Íslands né heldur í iðnrn., heldur rogast með þetta allt heim til sín, þar sem það hefur auðvitað lent á dreif innan um Íslendingasögur og enska reyfara sem eiga hug ráðh. Þegar ímyndunarveikin er komin á slíkt stig að menn sjá andskota sína í hverju horni í eigin landi er ekki von á mikilli uppskeru í fangbrögðum við erlenda hagsmuni.

Ákvæði rafmagnssamningsins milli ÍSALs og Landsvirkjunar eru hin afdrifaríkustu í þessu samkomulagi. Með þeim er raforkuverðið bundið innan algjörlega óverðtryggðs ramma í næstu 20 ár eða til ársins 2004. Þannig verður raforkuverðið á næstu fimm árum ekki þrefalt að upphæð miðað við það sem var, heldur aðeins 13.7 mill að mati iðnrh. og ráðgjafa hans, og fer síðan stiglækkandi á næstu árum niður í 6 eða 4 mill, eftir því hvort miðað er við hámarks- eða lágmarksákvæði vegna verðbólgu á samningstímanum. Endurskoðunarákvæðin eru haldlítil ef ekki haldlaus, þegar grannt er skoðað, og ekkert á þeim byggjandi.

Eftir þessa samningsgjörð er staðan varðandi raforkuverðið til ÍSALs þannig að óviðunandi er til lengri tíma litið, þó að auðvitað sé ástæða til að fagna öllum breytingum til bóta á þessum raforkusamningi. Á móti koma síðan skattaákvæði samningsins sem hér er verið að semja um, algjörlega óviðunandi ákvæði, sem taka til baka nú þegar hluta af raforkuverðshækkuninni, og það má mikið vera ef við höfum ekki glatað þriðjungi hennar nú þegar vegna þeirra breytinga sem gerðar eru hér á aðalsamningi.

Um stækkunina á álverinu í Straumsvík ætla ég ekki að vera langorður. Það er fyrirætlan sem ég vona að aldrei komi til, miðað við þær áætlanir sem hér eru upp byggðar, og ég tek ekki undir með Páli Péturssyni um það að sjálfsagt sé að semja um stækkun álversins í Straumsvík þó að framleiðslukostnaðarverð á raforku kæmi til. Það eru önnur brýnni verkefni í atvinnumálum Íslendinga en þau.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í tengslum við aðalfund ÍSALs í fyrrasumar komu forstjórar Alusuisse í heimsókn til Íslands. Þar var í hópi dr. Müller, sá hinn sami og dr. Meyer hnippti í í flugvélinni á háloftum yfir Íslandi fyrir aldarfjórðungi. Steingrímur Hermannsson forsrh. bauð af þessu tilefni til veislu. Þar voru auk forráðamanna Alusuisse mættir fjórir íslenskir ráðherrar af samtals tíu í ríkisstjórn Íslands ásamt að sjálfsögðu með seðlabankastjóra og stjórnarformanni Landsvirkjunar í einni persónu, allir innfæddir komnir til að lyfta glösum með landnámsmanninum nýja frá 1966. Hermt er að dr. Müller hafi verið nokkuð hugsi framan af veislunni, enda orðinn óvanur slíkri tilbreytingu af hálfu íslensku ríkisstj. næstliðin þrjú ár. En eftir að hafa hlýtt á hjartnæma skálaræðu íslenska forsrh. hóf hann sig úr sæti til að þakka fyrir sig og sína. Það var inntak ræðu hans að Alusuisse fagnaði mjög myndun nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi og teldi fyrirtæki hans tilkomu hennar vera sér til augljósra hagsbóta. Eitthvað sló þögn á veislusalinn eftir þessar yfirlýsingar hins gamla þjarks frá Zürich. Því miður sýnist mér nú á þessu kvöldi sem hann hafi þó haft lög að mæla í bili.

En það liggja líka leiðir burt frá Íslandi. Kannske á Alusuisse eftir að reyna þær áður en sá samningur rennur út sem hér á að lögfesta í kvöld. Því fáið þið ráðið, góðir hlustendur. Afl ykkar þarf til að koma. — Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.