29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hér er til umfjöllunar samningagerð Íslendinga við fjölþjóðafyrirtæki og staða okkar í þeim efnum. Við þá umr. er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir ákveðnum meginatriðum og hvar Íslendingar eru staddir í þessum efnum.

Þeir sem vilja vera virkir þátttakendur í jákvæðri framvindu frjálsra alþjóðaviðskipta með það að leiðarljósi að tryggja hag sinnar þjóðar sem best verða að gera það upp við sig að slíkt gerist ekki nema í jákvæðu samstarfi við erlenda aðila, samstarfi sem byggist á samningum um hin fjölbreytilegu svið mannlegra samskipta. Á það ekki hvað síst við um meiri háttar framkvæmdir í stóriðju. Að neita þessari staðreynd eða gera tilraun til að gera alla slíka samningagerð tortryggilega í augum manna jafngildir því að segja að Íslendingar skuli ekki ganga á vit framtíðarinnar með það að markmiði að bæta afkomu og lífskjör þjóðarinnar eftir nýjum leiðum og með tilliti til þeirrar þróunar sem á sér stað í heiminum og ríkjandi skipan þessara mála.

Sem betur fer hefur það verið ríkjandi sjónarmið forustumanna að Íslendingar ættu óhikað að tileinka sér nýja tækni og nýjungar á hvaða sviði sem er í samstarfi eða samvinnu við erlenda aðila þar sem það hefur átt við og þar sem það hefur hentað hagsmunum okkar.

Þetta hefur verið gert með djörfung en þó gætni. Það mál sem nú er til umr. er eitt af þessum stóru, nýju málum í framfarasókn þjóðarinnar á atvinnusviði. Stóriðja og stórvirkjanir eru eðli málsins samkvæmt óhjákvæmilegt skref í atvinnuuppbyggingu Íslendinga ef tryggja á frambúðarlífskjör þeirra á sambærilegan hátt og gert er í nágrannaríkjunum.

Andstaða þeirra stjórnmálamanna sem tala gegn þeim samningum sem hér liggja fyrir felur í sér mjög hættulega stefnu einangrunar í uppbyggingu íslenskra atvinnuvega. Sú einangrun felur í sér stöðnun og lakari lífskjör. Það er stefna glataðra tækifæra.

En er það í fyrsta skipti í sögunni sem Íslendingar semja eða eiga samstarf við erlenda aðila í framfaramálum? Eða er það í fyrsta skipti sem úrtölumenn reyna að gera slík mál tortryggileg? Ég minni á símamálið í byrjun aldarinnar þegar aðför var gerð að ráðh. vegna samstarfs við norræna aðila í sambandi við lagningu síma á Íslandi. Ég minni á upphaf íslenskrar togaraútgerðar sem var gerð í samstarfi við erlenda aðila sem bjuggu yfir þekkingu og réðu yfir fjármagni sem Íslendingar gátu nýtt sér. Um þessi mál var deilt. Þeir athafnamenn og stjórnmálamenn sem börðust fyrir þessum málum voru gerðir tortryggilegir. Gerðir þeirra og samningar voru sagðir tilræði við íslenska hagsmuni. Úrtölumenn þess tíma fundu hinni nýju tækni allt til foráttu. Úrtölumenn þess tíma töldu erlend fyrirtæki og erlent fjármagn af hinu vonda.

Og enn endurtekur sagan sig. Nú snýst umræðan um stóriðju og orkumál. Úrtölumenn nútímans vilja ekki viðurkenna að Íslendingar sem og aðrar þjóðir verði að semja um þátttöku sína í stóriðju framtíðarinnar í heiminum. Andstæðingar samninganna vilja ekki viðurkenna nauðsyn þess að atvinnugrundvöllur landsmanna sé breikkaður með þeim hætti sem hér um ræðir. Andstæðingar stóriðjumála ala á tortryggni í garð samninga við hinn erlenda gagnaðila. Með því eru þeir að reyna að dylja þann megintilgang sem felst á bak við andstöðu þeirra, sem er sá að þeir vilja hindra og gjöreyðileggja alla samningamöguleika við erlend fyrirtæki um sameiginlegt stórátak í atvinnumálum þar sem það hentar hagsmunum Íslendinga.

Það er alvarlegt mál að ætla þannig að reyna að einangra íslensku þjóðina frá þeim meginstraumum sem nú eru í samskiptum þjóða og fyrirtækja á sviði atvinnu- og viðskiptamála. Sú einangrun getur kostað Íslendinga efnalegt sjálfstæði.

Grundvöllur frjálsra samninga milli þjóða, fyrirtækja og einstaklinga byggist á því að fullt tillit sé tekið til gagnkvæmra hagsmuna samningsaðila. Að sjálfsögðu getur mat manna á niðurstöðum samninga verið mismunandi en gagnrýni verður að byggja á raunhæfu mati á samningsstöðu og framtíðarhagsmunum. Ég tel að svo hafi verið gert við gerð þessara samninga af hálfu íslensku samninganefndarinnar og hún hafi unnið gott starf. Þá hefur hæstv. iðnrh. staðið vel að þessum málum ef höfð er í huga hin erfiða og flókna staða sem upp var komin er hann tók við embætti á s.l. ári.

Góðir Íslendingar. Það sem máli skiptir er þetta:

1. Hagkvæmir samningar hafa tekist.

2. Hinir nýju samningar munu tryggja hagstæðara verð á rafmagni til almenningsnota í framtíðinni. 3. Við samningana skapast nýir og betri möguleikar í orku- og stóriðjumálum.

Og síðast en ekki síst: Íslendingar hafa endurheimt traust annarra á jákvæðum vilja til samninga á alþjóðasviði þar sem það hentar íslenskum hagsmunum. —

Ég þakka góða áheyrn.