29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við hjá BJ höfum tekið þá afstöðu að styðja þennan samning, ekki vegna þess að hann sé gallalaus, heldur vegna þess að,hann er það skásta sem við teljum að pólitískar aðstæður hérlendis geti náð fram.

Stjórnmálum á Íslandi er gjarnan skipt í tvö horn: það er ríkisstj. og stjórnarandstaða, það er hægri og vinstri eða svart og hvítt. Sá er hátturinn að allt er illt sem andstæðingarnir gera, nema um sé að ræða einhverjar sárasaklausar breytingar á, segjum sem dæmi, lögum um sóknargjöld eða sýsluvegi.

Í tíð fyrrv. ríkisstj. hóf þáv. iðnrh. undirbúning að löngu tímabærri og bráðnauðsynlegri endurskoðun álsamninga. Þegar rannsókn málsins var vel á veg komin varð ljóst að ISAL og Alusuisse höfðu leikið ljóta leiki til að komast hjá eðlilegum skattagreiðslum, en þá kom til hugsunarhátturinn sem ég vísaði til áðan um stjórn og stjórnarandstöðu, svart og hvítt. Sjálfstfl. gat auðvitað ekki unnt Hjörleifi Guttormssyni þess að hafa forgöngu í því þjóðþrifamáli að endurbæta samninga um ál, og ekki á ég beinlínis von á að Hjörleifur Guttormsson hafi beinlínis lagt sig fram um að ná samstöðu, leikreglur svarthvíta leiksins gera ekki ráð fyrir því. Í offorsinu við að klekkja hvor á öðrum gleymdu andstæðingarnir þjóðinni sem síðan ber auðvitað skellinn. Í offorsinu við að klekkja hvor á öðrum grófu þeir sig niður í skotgrafir, eins og gert var í fyrri heimsstyrjöldinni, enda varð lítið um orkuverðshækkun — tíðindalaust á vesturvígstöðvunum, sögðu menn um skotgrafahernaðinn forðum. Í offorsinu við að klekkja hvor á öðrum grófu flokkarnir, Alþb. og Sjálfstfl., sig í skotgrafir sem þeir nú komast ekki upp úr.

Hvernig halda menn t.d. að samningsaðstaða sjálfstæðismanna hafi verið nú síðustu misserin þegar þeir voru búnir að fara hamförum síðustu ár við að verja auðhringinn Alusuisse? Til að ná verulegum árangri hefðu þeir þurft að éta ofan í sig allar árásirnar á fyrri ríkisstj. Ef dómur hefði fengið að falla í New York hefði blettur fallið á æru fleiri en Alusuisse. Eitthvað hefði kannske fallið á Sjálfstfl. og Morgunblaðið. Vegna þessa skotgrafahernaðar er sömuleiðis óhugsandi að Alþb. hefði undir nokkrum kringumstæðum fallist á samninga sem þessi ríkisstj. hefði getað gert við Alusuisse, jafnvel þó þeir hefðu verið góðir. Þeir Alþb.menn hefðu aldrei getað unnt sverri Hermannssyni þess. Þannig er þetta fornfálega flokkakerfi, sem við búum við, ófært um að ná betri samningum. Það á rætur sínar í forneskjulegri fortíð og hagsmunavörslu og setur pólitískar leikbrellur framar hagsmunum fólksins í þessu landi.

Sjálfstfl. hefur nýlega sent Hjörleifi Guttormssyni víxil fyrir orkuverð sem nær aftur til stjórnarára hans. Þeir kenna um þvermóðsku hans, og auðvitað á Alþb. sinn skerf af þessum víxli. En það á Sjálfstfl. líka. Þegar hann tók þá afstöðu á sínum tíma að nota álmálið til að klekkja á Hjörleifi Guttormssyni skrifaði Sjálfstfl. upp á þennan víxil sjálfur. Þeir eiga hann sameiginlega. Ef Hjörleifur Guttormsson er greiðandi þessa víxils, þá er Sverrir Hermannsson fyrsti ábyrgðarmaðurinn. En auðvitað munu þeir aldrei greiða hann. Það verður náttúrlega þjóðin að gera. Eins og henni þarf að blæða fyrir Kröflu og eins og henni blæðir fyrir skuttogaraæðið, þá mun henni einnig blæða fyrir sundurþykkjuna í álmálinu.

Nú hefur þetta kerfi skilað okkur samningi og BJ ætlar að greiða atkvæði með honum. Hvers vegna? Vegna þess að ákvæðin um raforkuverðið færa milljóna hundruð inn í þetta land og það eru engar vísbendingar um að hægt sé að gera betur, hvor skotgrafahershöfðinginn sem færi með stjórnina. Þar eru einfaldlega of miklir peningar í veði til að sleppa þessum málum lausum einu sinni enn. Við höfum ekki efni á þeim lúxus að fella þennan samning.

En það er meira í þessum samningi en rafmagnsverðið eitt. Í grófum dráttum má flokka hann í fimm hluta sem skipta mestu máli, rafmagnsverð, endurskoðunarákvæði, sáttargerð um eldri mál eða syndaaflausn sem kölluð hefur verið, skattabreytingar og loforð um stækkun. Fyrirheitið um stækkun þarf að líta á sérstaklega og það ber að skoða það óháð hinum atriðunum. Það er óþolandi málsmeðferð að blanda stækkunaráformum inn í þessa samninga. Álverið í Straumsvík er staðreynd og án þess hefðu Búrfellsmannvirkin ekki orðið til. Það er spurning um viðskipti, að ná sem bestum samningum í rafmagns- og skattamálum, og í samningum verða menn ekki einráðir. En stækkun ÍSALs og stórvirkjanaframkvæmdir sem henni fylgja eru ekki viðskipti. Þar er á ferðinni stjórnmálalegt viðfangsefni um mótun atvinnustefnu á Íslandi næstu áratugina. Um það viljum við Íslendingar vera einráðir og um það á ríkisstj. að ræða við okkur, Alþingi og íslenska þjóð, en ekki svissneska áldoktora.

Með bréfi dags. 5. nóv. s.l. er ríkisstj. búin að stíga fyrstu skrefin til aukinna umsvifa Alusuisse án eðlilegrar þinglegrar umfjöllunar. Það þýðir ekki að segja að engu hafi verið lofað, einungis gefin óljós fyrirheit. Stefnan hefur verið mörkuð. Það sýnir m.a. áhersla Alusuisse á það að fá þetta bréf og sömuleiðis túlkun Ragnars Halldórssonar forstjóra ÍSALs sem sagði í Morgunblaðinu þann 16. nóv. s.l. að leyfi hafi fengist til stækkunar að nánari skilyrðum uppfylltum.

Eins og ég sagði áðan er álverið í Straumsvík orðinn hlutur og ég tel eins og ég sagði að samningurinn bæti eftirtekjuna af því. En ég hef efasemdir um nytsemi frekari fjárfestingar í virkjunum til stóriðju. Orkuskuldir okkar eru stærsti hluti erlenda skuldabaggans — baggans sem er notaður til að berja íslenskt launafólk til hlýðni þegar það vogar sér að óska mannsæmandi lífskjara. Og fólk á kröfu til þess að fram fari umræða um þjóðhagslegt mikilvægi þessara áforma. Það er óviðunandi að stjórn Landsvirkjunar valsi um með kreditkort upp á vasann og steypi okkur í þessar stórkostlegu skuldir. Það er staðreynd að stóriðja er á undanhaldi á Vesturlöndum. Áhrif hennar á umhverfið eru okkur ógeðfelld. Atvinnuumhverfi verkafólks í stóriðjuverum er eitrað. Reynslan sýnir að stóriðjan er á leiðinni til vanþróuðu landanna og vaxtarbroddur vestrænna atvinnuhátta er í annars konar iðngreinum sem byggjast á þekkingu og hugviti og eru í litlum fyrirtækjum. En ferðalöngum iðnaðarráðuneyta ríkisstjórna síðustu ára virðist hafa verið fyrirmunað að sjá hið smáa og fjölbreytta. Þótt ég samþykki samninginn hvað orkuverðið varðar harma ég að stjórnin skuli ætla sér að ana hugsunarlaust út í stóriðju.

Ég sagði hér áðan að við hefðum ekki efni á að fella samninginn, en það er fleira sem við höfum ekki efni á. Við höfum ekki heldur efni á að láta ÍSAL-málið yfirskyggja alla orku- og iðnaðarumræðu á landinu. Við höfum heldur ekki efni á því lengur að höfuðpaurar íslenskra iðnaðarmála séu á endalausu flandri um heiminn í leit að útlendum tækifærum og komi heim rétt til þess að kasta mæðinni og ná sér í meiri dagpeninga. Hvers vegna stendur hugur þessara manna aðeins til útlanda og útlendra risaverksmiðja? Er það vegna þess að þeir treysti ekki Íslendingum og íslenskum hugmyndum eða er kannske svona gaman að flengjast um í einkaþotum með ríkum forstjórum, borða morgunmat í Montreal og kvöldmat í Kongó? Eða er þetta kannske minnismerkjaáráttan? Forustumenn virðast vilja láta muna eftir sér við múrskeiðagauf undir lúðraþyt eða ýtandi á takka í stóriðjuverum. Þannig telja þeir líklega að nöfnin þeirra geymist, annaðhvort á gulnuðum blöðum í hornsteinunum eða á svörtum marmaraskjöldum uppi á vegg. En hver ætlar að leggja og hvenær verður lagður hornsteinn að íslenskri atvinnustefnu — stefnu sem byggir á framtaki okkar sjálfra og veitir þúsundum atvinnu? Og hver ætlar að ýta á takkann sem setur af stað orkuver íslenskra hugmynda og hvetjandi sköpunar? Og hver ætlar að klippa á borðann sem opnar okkar eigin athafnafólki veginn til sjálfsforræðis í stað bónbjarga, til driftar í stað deyfðar og hvatningar í stað fjötra? Þetta eru hin stóru verkefni í atvinnumálum okkar.

Með stóriðjuglýjuna í augunum höfum við gleymt því að fyrir er í landinu þekking og vilji og nýjar atvinnugreinar bíða við hvert horn. Með því að búa í haginn á heimavelli getum við best bætt lífskjörin. Því miður virðast atvinnuhættir okkar nú stefna í það að leiða okkur til fátæktar. Á sama hátt og ástandið í húsnæðismálum, skattamálum og lífeyrismálum leiðir okkur nú til vaxandi óréttlætis og ójafnaðar, þá mun ástandið í atvinnumálum leiða okkur til vaxandi fátæktar. Þess vegna skora ég á iðnrh. að kalla herdeildir sínar heim og beita ráðunautum sínum á íslenska grund. — Ég hef lokið máli mínu.