29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Engan, sem hlustar á hér í kvöld, þarf að undra að Alþb. er mótfallið þessum samningum sem nú er verið að gera. Ég held að ég fari rétt með að Alþb. hefur verið mótfallið öllum samningum alþjóðlegs eðlis við hvaða ríki sem er, við hvaða aðila sem er nema viðskiptasamningum við lönd austan járntjalds. Alþb. var t.d. mótfallið samningunum við Norðmenn um Jan Mayen sem ég hygg að flestir telji mjög góða samninga í dag. Og ég verð að taka undir það með Guðmundi H. Garðarssyni að þetta er vissulega áhyggjuefni. Við Íslendingar lokum okkur ekki í dag frá samskiptum við aðrar þjóðir. Við þurfum áreiðanlega marga samninga að gera þótt ég vilji leggja á það mikla áherslu að fyrir litla þjóð sem okkur Íslendinga er ákaflega mikilvægt að þeir séu gerðir af varfærni og það séu hagkvæmir samningar, og ég er alls ekki að segja að allir samningar sem við höfum gert hafi verið þannig gerðir. Ég get tekið undir æðimargt sem hér hefur verið sagt í kvöld. Ég vil m.a. taka undir það með Steingrími Sigfússyni að ákaflega fróðlegt væri að skrá sögu álmálsins. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hóf þá söguritun í upphafi sinnar ræðu hér í kvöld. En e.t.v. svaraði slík söguritun ýmsum af þeim spurningum sem ég hef ekki fengið svar við. Hvers vegna krafðist Hjörleifur Guttormsson ekki endurskoðunar á reikningum Álfélagsins fyrir árin 1978/79? Ég veit að Hjörleifur Guttormsson er ákaflega vandvirkur maður og athugull og ég trúi því ekki, eins og sumir hafa sagt, að þetta hafi verið mistök. Og þá fengi maður e.t.v. svar við þeirri spurningu hvers vegna Hjörleifur Guttormsson ákærði álfyrirtækið í fyrstu orðsendingu sinni um sviksamlegt athæfi þrátt fyrir það að hinir færustu lögfræðingar, sem sátu í ríkisstj. þá, legðu mjög eindregið til og reyndar verið samþykki í ríkisstj. að þessi orð yrðu felld út. Þetta var örlagaríkt því að í tvö ár eftir það má segja að deilt hafi verið um þessa ásökun Hjörleifs Guttormssonar í garð Álfélagsins. Ég tek undir það, sem sagt var hér áðan, að ekki er skynsamlegt að kæra mann fyrir svik og þjófnað og ætla síðan að setjast niður og semja við hann.

Þá fengist e.t.v. einnig svar við þeirri spurningu hvers vegna Hjörleifur Guttormsson féllst í síðustu orðsendingu sinni, ég hygg að það hafi verið haustið 1982, alls ekki á tilmæli ríkisstj. að draga þar úr ýmsu sem sett var fram og hlaut að leiða til meiri átaka.

Um leið og ég segi þetta vil ég taka það skýrt fram að ég er sannfærður um að Hjörleifur Guttormsson leitaði af einlægni eftir hækkun á orkuverðinu. Það er ég sannfærður um. Ég held hins vegar að höggið hafi verið reitt of hátt og því geigað. En um leið og ég lýsi þessari sannfæringu minni vil ég vísa á bug öllum fullyrðingum, sem fram hafa komið, m.a. hjá Hjörleifi Guttormssyni, um að allir í þeirri ríkisstj. hafi ekki staðið einlægir að baki Hjörleifs Guttormssonar í hans viðleitni að fá hækkun á raforkuverðinu. Ég tel mig hafa unnið að því ötullega þann tíma sem við sátum saman. Ég tel að orðið hafi hins vegar mjög alvarleg mistök og kostað okkur ákaflega mikið í raforkuverði eins og hefur mjög greinilega komið fram.

Nú er hér rætt um þann samning sem liggur fyrir við Alusuisse og menn taka afstöðu til hans. Ég ætla að fara yfir nokkur meginatriði.

Ég get út af fyrir sig tekið undir það að æskilegt væri að fá enn meiri hækkun á raforkuverði. Ég held að það sé hins vegar misskilningur, sem kom fram hjá Jóhönnu Sigurðardóttur hér áðan, að orkuverð Landsvirkjunar sé 19–20 mill. Ég held að þar sé verið að rugla saman orkuverði frá nýjum orkuverum og frá eldri orkuverum. Ég vil einnig vekja athygli á því að mjög algengt verð til álvera í löndunum í kringum okkur er jafnvel lægra en hér er um að ræða. Norðmenn bjóða t.d. í dag orkuverð sem er á bilinu 9.5–10–11 mill og Kanadamenn bjóða enn í dag orkuverð sem er töluvert lægra eða allt niður í 6.5 mill.

Staðreyndin er nefnilega sú að orkuverð til álvera hefur, ég verð að segja því miður, farið lækkandi núna upp á síðkastið. Staðreyndin er að bestu möguleikarnir til að semja glötuðust 1979. Þá var möguleiki til að semja um hærra orkuverð. Þá hafði olíuverð hækkað mjög mikið og þá var álverð enn þá hátt. E.t.v. voru það mestu mistökin, sem gerð hafa verið í meðferð þessa máls, að knýja ekki fram samninga þá þegar. Ég tel þess vegna að þetta orkuverð, sem nú er um samið, megi kallast viðunandi. Ég vil hins vegar leggja á það ríka áherslu að ef um stækkun álversins verður að ræða og það þá í tengslum við nýja virkjun, verður orkuverðið að sjálfsögðu að vera a.m.k. kostnaðarverð og ég tel að það sé ekki undir 18–20 millum.

Menn hafa sagt það hér að við framsóknarmenn gerum lítið úr endurskoðunarákvæðinu. Við hefðum gjarnan viljað hafa endurskoðunarákvæðið enn þá markvissara. Ég vil hins vegar leyfa mér að fullyrða að endurskoðunarákvæði eins og þetta hefði gert okkur kleift bæði árin 1973 og 1979, þegar mjög mikil hækkun varð á orkuverði í heiminum, að ná fram og það skjótt endurskoðun á samningi við Alusuisse. g vil þess vegna leggja á það ríka áherslu að ég tel að út af fyrir sig sé það mikil endurbót á samningnum að fá þetta endurskoðunarákvæði inn.

Menn hafa gagnrýnt það að fallist var á sátt í deilumáli við Alusuisse. Ég verð að segja að fyrst þegar hreyft var þeirri hugmynd að fallast á sátt taldi ég hana varasama. Ég hef hins vegar breytt um skoðun og vil ég nefna tvær ástæður til þess.

Í fyrsta lagi er að geta bréfsins sem hér hefur verið nefnt, sem barst frá Coopers og Lybrand í júlí 1983, þar sem þessi aðalendurskoðandi og ráðgjafi, ekki aðeins Hjörleifs Guttormssonar heldur allra iðnrh. sem með málið hafa farið síðan álverksmiðjan var byggð, segir beinlínis að fyrirtækið telji mjög vafasamt fyrir íslenska ríkið að standa í slíkum málaferlum við álhringinn. Þeir nefna nokkur atriði máli sínu til stuðnings.

Þeir telja í fyrsta lagi að ýmislegt bendi til þess að deilan um skattinn frá árunum 1975–1980 kunni að vera fyrnd, m.a. vegna þess að ekki var krafist endurskoðunar, eins og ég sagði áðan, fyrir árin 1978 og 1979. Þeir vekja einnig athygli á að svo kunni að vera að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til þess að ÍSAL hefur í gegnum árin fengið verulegar endurgreiðslur frá Alusuisse sem megi telja til lækkunar eða endurgreiðslu á súrálsverði.

Enn meiri athygli mína vakti bréf frá lögfræðingnum Lipton, sem var einn helsti ráðgjafi bæði Hjörleifs Guttormssonar og núv. iðnrh. Ég fékk tækifæri til að hitta þann mann og sá fundur var mjög athyglisverður. Þessi lögfræðingur leggur eindregið til að leitað verði sátta fremur en að láta deilur um þetta atriði koma í veg fyrir að veruleg hækkun fáist á orkuverði.

Tíma mínum er nú bráðum lokið. Ég vildi gjarnan nota það sem eftir er til að fara nokkrum orðum um orkumálin sem hér hafa borið töluvert á góma. Ég get út af fyrir sig tekið undir það, sem hér kom fram áðan, að fallegir fossar megi frjálsir falla og að fara þarf með varúð í að virkja. En ég trúi því varla að nokkur hér inni haldi því fram að við eigum ekki að nota þessa orkulind til að bæta lífskjörin og hagsæld í þessu landi. Við framsóknarmenn höfum gert um þetta og reyndar um atvinnumálin mjög ítarlega samþykkt, sem nýlega hefur verið birt. Við gerðum einnig mjög ítarlega samþykkt á flokksþingi okkar 1982 þar sem við teljum að æskilegt markmið sé að jafnvægi fáist í orkubúskap okkar Íslendinga um aldamótin eða m.ö.o. að framleidd orka og innflutt orka verði nokkurn veginn í jafnvægi.

Við teljum að orkufrekur iðnaður sé eðlileg fylgigrein stærri virkjana. Að öðrum kosti munu stórvirkjanir reynast okkur ákaflega dýrar. Við útilokum því alls ekki orkufrekan iðnað, langt frá því. En ég vil taka undir það að orkufrekur iðnaður sem slíkur verður aldrei meginstefna í atvinnuuppbyggingu hér á landi. Og ég get fullvissað þm. um það og áheyrendur alla að ríkisstj. leggur einmitt á það ríka áherslu að nýsköpun verði í atvinnulífinu á öllum sviðum, ekki síður og reyndar langtum fremur á sviðum þekkingariðnaðar, eins og stundum er kallað, og ýmiss konar annarra atvinnu- og iðngreina sem oft hafa verið nefndar. En við viljum alls ekki útiloka orkufrekan iðnað.

Ég vil að lokum, góðir Íslendingar, leggja áherslu á að menn sættist nú í þessu álmáli. Það hafa eflaust ýmis mistök verið gerð og við getum lengi rætt um þau og deilt. En tvímælalaust hefur þó loksins náðst fram mjög mikilvæg hækkun á raforkuverði og það held ég að við Íslendingar allir ættum að samþykkja og því ættum við að fagna.