03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. er flutt að beiðni og með fullu samkomulagi þeirra aðila sem mættu á fundi í heilbrrn. 27. apríl á þessu ári, en það voru fulltrúar frá Reykjavíkurborg, Kópavogskaupstað, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi, Garðabæ og auk þess mætti sem áheyrnarfulltrúi bæjarstjórinn á Akureyri og ráðuneytismenn ásamt landlækni og tryggingayfirlækni. Í framhaldi af þeim fundi var óskað tilnefningar í nefnd til að gera tillögur um breytingu á lögunum um heilbrigðisþjónustu. Þessi nefnd var síðan skipuð og að hennar beiðni er þetta frv. flutt.

Nefndin er ekki tilbúin með sínar tillögur og biður um tiltekinn frest, eins og fram kemur í grg. Hins vegar vil ég segja að ég tel útilokað að breyting sé gerð á þessum málum nema miðað sé við áramót. Akureyri tekur aftur á móti breytingunni núna og þar hefur verið markvisst unnið að þessum málum; en öðru máli gegnir hér í Reykjavík. Þetta er nokkuð langt frá því að vera tilbúið og það mundu verða mikil óþægindi ef þessu yrði ekki frestað til eins árs, enda hygg ég að vandinn sé ólíkt meiri hér í sambandi við þessar breytingar. Uppbygging heilsugæslustarfseminnar hefur tekist að mínum dómi nokkuð vel um allt land og ég er viss um að hún mun takast vel á Akureyri. En vegna þess að um miklu fjölbreyttari starfsemi er að ræða hér á Reykjavíkursvæðinu, þá eru vandamálin fleiri þar sem þarf að hyggja að. Ég held því að það sé mikils virði að fresta þessu um ár hér. En nefndin hefur lofað að skila tillögum sínum eins fljótt og henni er unnt því að það þarf þó nokkuð marga mánuði til undirbúnings eftir að tillögum er skilað og ef lögum þarf að breyta.

Því mælist ég eindregið til þess að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.