03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ekki dreg ég í efa að hæstv. ráðh. hefur verið hvattur til að flytja frv. það sem hér um ræðir og gerir ráð fyrir að framkvæmd málsins sé frestað um heilt ár. En eins og ég gat um hér rétt áðan eru ekki allir jafnhressir með þessa frestun, telja að orðinn sé býsna mikill dráttur á að þessu sé komið í framkvæmd og að það sé óeðlilegt með öllu að fresta þessu svo lengi enn á ný. Því er þessi till. flutt að hún endurspeglar megna óánægju ýmissa, einkum meðal þeirra sem skipa minni hl. borgarstjórnar Reykjavíkur, með það að þessi nýskipan skuli ekki koma nú til framkvæmda og að enn skuli eiga að draga það um heilt ár.

Menn draga það mjög í efa og eru ekki sama sinnis og ráðh. að endilega þurfi að miða þetta við áramót. Menn telja að ef gefinn væri núna fjögurra mánaða frestur, þ.e. til 1. maí 1985, ætti hann að duga. Það er þess vegna sem till. er flutt.