03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

189. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir að hér er ekki um sérstaki eftirlætismál hæstv. fjmrh. að ræða. Ég man að þegar hann mælti fyrir þessu frv. í fyrra kvartaði hann undan því að það væru þung spor hingað í þennan ræðustól í þessari hv. deild til að mæla fyrir þessu frv. Skatta, sem á eru lagðir, einkanlega skatt eins og þennan, verður að skoða í ljósi hvers tíma. Við Alþfl.menn gerðum á sínum tíma till. um að þessi skattur yrði látinn niður falla í tveimur áföngum. Kannske var hæstv. fjmrh. þeirrar skoðunar líka, en hann treysti sér hins vegar ekki til að fylgja þeirri skoðun fram. enda ábyrgur maður sem ber ábyrgð á fjármálum ríkissjóðs og segir nú í þessum ræðustól að ríkissjóður megi ekki við því að missa þessar tekjur. Ég skil það mjög vel.

En í ljósi þess að sköttum hefur verið létt af atvinnurekstri að undanförnu og í ljósi þess að verslun og þjónustuiðnaður hvers konar blómstrar nú meira hér á höfuðborgarsvæðinu en nokkru sinni fyrr — ekki bara í sögu lýðveldisins, heldur í sögu landsins, og það sjá menn og geta vitað hvert sem þeir horfa í kringum sig og í ljósi þess að fjárhagur ríkissjóðs er nú svo bágur sem raun ber vitni vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort það væri ekki athugandi hugmynd að tvöfalda þennan skatt til að afla ríkissjóði frekari tekna. Skattbyrði fyrirtækjanna hefur verið létt. Fjmrh. hefur sjálfur sagt það oftar en einu sinni að verslunin gangi vel en hafi ekki skilað sínum hagnaði í lækkuðu vöruverði til neytenda. Hann hefur beðið þess og bíður þess enn. En væri nú ekki ráð fyrir ríkissjóð, þar sem þessar atvinnugreinar standa svo blómlega, að íhuga frekari skattlagningu í þessum efnum til að afla ríkissjóði enn frekari tekna?

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa um þetta fleiri orð að sinni, enda á ég sæti í þeirri n. sem um þetta mál fjallar. Ég er ekki endilega að gera þetta að minni till. hér og nú. Ég vil bara spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann mundi ekki ljá máls á því að tvöfalda nú þennan skatt til að afla ríkissjóði aukinna tekna.