03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

189. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Mér þykir hlýða að leggja hér nokkur orð í belg þótt ekki sé tilefnið mikið, því hér er fyrst og fremst verið að framlengja skatt sem á hefur verið lagður mörg undanfarin ár. Ég átti þátt í því að ákvörðun var tekin um það á sínum tíma að þessi skattur skyldi á lagður. Ég hygg að við hv. þm. Tómas Árnason, 4. þm. Austurl., sem þá var fjmrh., höfum nokkuð um þetta fjallað á sínum tíma. Það voru þessir þrír flokkar, Framsfl., Alþb. og Alþfl., sem tóku ákvörðun um að þessi skattur var á lagður.

Sá er munurinn á afstöðu okkar Alþb.-manna og afstöðu framsóknarmanna og Alþfl.-manna til þessa máls að framsóknarmenn og Alþfl.-menn hafa verið að tala um það undanfarin ár að ástæða væri til að fella þennan skatt niður og haft það á orði oftar en einu sinni og verið með vilyrði um það. En við Alþb.-menn höfum alla tíð verið á því að þetta væri réttlátur skattur og ætti að standa áfram og höfum ekkert gefið undir fótinn með það að hann yrði niður lagður með okkar vilja.

Það er bersýnilega nauðsynlegt í okkar þjóðfélagi að skapa framleiðsluatvinnuvegunum, sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, örlítið forskot með þessum sérstaka hætti, að leggja skatt á húsnæði sem notað er í atvinnurekstri til annarra hluta, og þess vegna var þessi skattur á lagður. Ég tel að það séu full efnahagsleg rök fyrir því að þessi skattur sé við lýði og ekkert síður nú en áður, eins og þróunin hefur orðið seinustu árin.

Hv. þm. Eiður Guðnason kom hér áðan með þá uppástungu að skattur þessi yrði tvöfaldaður. Ég vil aðeins láta þess getið að við Alþb.-menn höfum þegar flutt hér á Alþingi formlega tillögu þessa efnis þannig að ekki stendur á okkur að samþykkja þá tillögu.